Kraftaverkin gerast

JÚLÍDAGAR 2011

8.7. FÖSTUDAGUR

Ljómandi veður, sólskin frá morgni til kvölds. Mestur hiti 16°.

Það var gott að heyra í Bjarna lækni í dag. Hann tók góðan tíma til að ganga frá aðgerðinni á Jónasi. Allt gekk vel og nú ætti allt að vera á uppleið. Þessi aðgerð er mjög flókin og erfið. En til eru þeir sem vinna kraftaverkin.

9.7. LAUGARDAGUR

Ljómandi veður, sólskin frá morgni til kvölds. Mestur hiti 16°. Það er að segja allt nákvæmlega eins og í gær.

Jónasi batnar smám saman dag frá degi, en læknum þykir rétt að gefa honum ögn lengri tíma til að jafna sig eftir öll átökin. Honum er því enn haldið sofandi.

10.7. SUNNUDAGUR

Veðurfarið svipað og hefur verið. Sumarið er í essinu sínu.

Pétur sló lóðina í gær og í dag rakaði ég saman. Svartþröstur spígsporaði í kringum mig og tíndi upp í sig. Kannski það sé sá hinn sami sem gæddi sér á eplunum sem ég bar út í snjóinn í vetur. Hann syngur fallega.

Enn er Jónasi haldið sofandi. Öðru hverju er prófað að minnka svefnlyfin og athuga viðbrögðin. Þetta fer allt að koma.

11.7. MÁNUDAGUR

Ágætis veður. Mestur hiti 15°, en sólin lét lítið á sér bera fyrr en undir kvöld.

Eitthvað gott virðist leynast á lóðinni okkar, hún hefur verið þakin fuglum í allan dag eins og reyndar oft áður. Taldi um 40 stara, sem gogguðu stanslaust og hentust til og frá. Fyndið að fylgjast með ungunum sem fylgdu mömmunni fast eftir og heimtuðu frá henni mat í sinn gogg. Svartþrösturinn er ekki boðinn velkominn í hópinn.

Jónas var vakinn upp úr hádeginu í stuttan tíma og síðan aftur seinnipartinn. Við Kristján vorum hjá honum dálítinn tíma. Hann er ekki alveg í sambandi ennþá, en nú ætti þetta að lagast.

Sigrún bauð mér í kvöldmat, bauð upp á gómsætt salat, frábæran lax og heimagerðan ís. Algjör veisla.

12.7. ÞRIÐJUDAGUR

Þungbúið, mestur hiti 12°. Rigndi svolítið seinnipartinn.

Við Pétur, Kristján og Katrín fórum á spítalann um hádegið. Jónasi virtist líða betur. Áttum góðan fund með lækni, sem fór yfir málin og hvernig þetta hefur gengið. Hún taldi okkur óhætt að vera bjartsýn, þetta þokaðist áfram. Enn þarf Jónas að vera tengdur við öndunarvélina, en ætlunin er að losa hann við hana eins fljótt og mögulegt er.

Fór til Kristjáns og Katrínu í mat og fékk svakalega góðan mat eins og við mátti búast.

13.7. MIÐVIKUDAGUR

Ástæðulaust að kvarta yfir veðrinu þótt lítið sæist til sólar í dag og öðru hverju rigndi.

Í morgun losnaði Jónas við öndunarvélina og þarf vonandi ekki meira á henni að halda. Væntanlega verður bráðlega farið að koma honum á fætur og styrkja hann með öllum ráðum. Þetta varð allt heldur erfiðara en til stóð, en hann var vel undir búinn og er vís til að verða orðinn sprækur eftir nokkrar vikur.

14.7. FIMMTUDAGUR

Ágætis veður í dag, sólskin með köflum og stöku sinnum svolítið regn, sem var bara til bóta. Mestur hiti 15°. Sumarkvöldin engu lík, birtan töfrum hlaðin. Fullur máni var glaðhlakkalegur.

Nú var gaman að koma á Gjörgæsluna í morgun. Hjúkrunarliðið var með gleðibragði og sagði mér hvað væri búið að gerast. Þær tóku sig til og hjálpuðu honum fram úr rúminu, hann sat um stund í stól og stóð í fæturna. Þótti þetta allt stórmerkilegt og mikil framför. Ekki þótti mér síður merkilegt að nú hefur hann lifnað heilmikið við og hægt að tala við hann. Ég var heillengi hjá honum og verð að segja að nú kannast ég við þennan mann. Hann er óneitanlega dálítið fúll yfir öllu þessu veseni, pirraður yfir öllum snúrunum sem vefjast um hann, og bakið er að gera hann vitlausan. En nú er þetta allt á uppleið.

Gæs í sundlauginni

Júlídagar 2011

1.7. FÖSTUDAGUR

Hellirigning í mestallan dag og búast má við framhaldi af slíku. Gróðurinn hefur gott af því. Rósirnar eru rétt að byrja að springa út úti í garði.

Við Jónas, Pétur og Marcela fórum til fundar við hjúkrunarfræðing á Landspítalanum. Jónas fer í aðgerð 6. júlí og eins gott að kynna sér málið. Hjúkrunarfræðingurinn lýsti rækilega fyrir okkur öllu varðandi aðgerðina og erum við nú öllu vísari um það sem Jónasar bíður. Þetta er mikil aðgerð og má búast við erfiðum dögum. En Jónas er í góðum höndum Bjarna Torfasonar, sem annast aðgerðina. Hann þykir mjög fær og góður læknir.

2.7. LAUGARDAGUR

Sólarlaust og þungbúið, en ágætis veður. Mestur hiti 15°.

Það var gaman að heyra hljóðið í Svönu, sem hefur verið í Varmahlíð síðan um miðjan maí og mátt þola ótrúlega langvarandi norðangarra nánast allan tímann. Samkvæmt Veðurstofunni þarf að fara marga áratugi aftur í tímann til að finna ámóta kaldan júnímánuð norðaustan lands. Svana sagði mér fyrir nokkru að hún hefði fengið einn verulega góðan veðurdag og tvo sæmilega! En nú er þar komið yndislegt, bjart og hlýtt veður, sem við þekkjum svo vel á þessum slóðum. Vonandi hellir góða veðrið sér yfir norður- og austursvæðin, sem hafa beðið þess lengi.

Minn Varmahlíðartími er í júlí þetta árið og til stóð að drífa sig norður við fyrsta tækifæri. Það verður eitthvað að bíða, en væntanlega geta a.m.k. Kristján og Pálmi brugðið sér þangað með fjölskyldur sínar.

3.7. SUNNUDAGUR

Dálítil gola, sólskin öðru hverju og rigning með köflum. Mestur hiti 15°. Um kvöldið æstist rigningin.

Þegar árvakra liðið mætti í morgunsundið tók snotur gæs á móti okkur og var ekkert á því að hverfa af vettvangi. Hafði synt fram og aftur í sundlauginni og kunni vel við sig þangað til mannfólkið þóttist þurfa plássið. Þá fór gæsin upp á bakka og spígsporaði um, en tók ekki flugið. Ég lagði til að hún fengi eitthvað í gogginn og það reyndist gott ráð. Gæsin snotra át brauðmola af bestu lyst og flaug síðan á brott.

Hef legið yfir tölvunni og horft á allt sem ég finn um Landsmót hestamanna á Vindheimamelum í Skagafirði. Sjónvarpið hefur harla lítið sýnt og sagt frá þessu móti, á þeim bæ kemst fátt annað að en fótbolti. Í dag tók RÚV loksins á sig rögg og bauð upp á tveggja tíma sýningu frá Landsmótinu. Hún var vel þegin, en þó ekki sá hluti hennar sem fór í “Afsakið hlé”.

4.7. MÁNUDAGUR

Lítið sást til sólar í dag, en veðrið að öðru leyti gott og frekar stillt. Mestur hiti 14°. Um kvöldið kom svo steypiregn.

Ég fór út að glugga að sjá fossaflóðið og þá sátu svartbakar í tugatali á lóðinni. Kannski voru þeir að fá sér sturtubað. Svartbakur er sagður óvinsæll. Mér finnst hann flottur og sérlega fallegur á flugi með sitt vænghaf. Hann er talinn stærsti mávur í heimi. Svartbakurinn er mjög áberandi hér á Nesinu. Þessir stóru fuglar eru félagslyndir, þeir sitja hér í hópum á lóðinni, þeir sitja á þökum og á ljósastaurum, og þeir vekja mig eldsnemma á morgnana. Ég sé ekki ástæðu til að kvarta yfir því.

5.7. ÞRIÐJUDAGUR

Frábært veður í dag. Sólskin og góðviðri frá morgni til kvölds, eða öllu heldur fram á nótt. Mestur hiti 17°. Og þvílík dýrðin í kvöldblíðunni.

6.7. MIÐVIKUDAGUR

Indælis veður, sólríkt og hlýtt. Mestur hiti sagður 15°.

Fylgdi Jónasi á Landspítalann kl. 7 í morgun, en ekki var nú verið að drífa í hlutunum. Jónas hringdi skömmu eftir hádegi og sagðist vera á leiðinni á skurðarborðið með ósæðina sína. Vorum við bæði fegin að loks kæmi að þessu nauðsynjaverki. Dagurinn var hins vegar ansi lengi að líða og ég beið óþreyjufull eftir hringingu frá Bjarna lækni. Eftir dúk og disk komst ég að því að aðgerðin hafði hreint ekki hafist fyrr en einhvern tíma milli 3 og 4. Loks hringdi Bjarni læknir kl. 11:30. Hann var nokkuð ánægður með hvernig þetta hafði gengið. Hann lýsti þessu talsvert, en það var svo flókið og fræðilegt að ég treysti mér ekki til að hafa eftir honum. Margir höfðu beðið frétta fram eftir öllu, og nú eru margir fegnir að fara í háttinn.

7.7. FIMMTUDAGUR

Fallegt veður og hlýtt. Mestur hiti 16°.

Ekki varð nóttin síðasta jafn notaleg og til stóð. Skömmu eftir miðnætti hringdi Bjarni og sagði að hann yrði að fá Jónas aftur á skurðarborðið því hann væri með blæðingar sem þyrfti að stoppa. Hann bauðst til að hringja og láta mig vita hvernig gengi. Það þáði ég að sjálfsögðu, en heyrði ekki frá blessuðum manninum fyrr en kl. 5 um morguninn. Var þá loksins búinn að vinna sitt verk og taldi að nú væri þetta allt á góðri leið. Bjarni er ákaflega þægilegur og þolinmóður að skýra málin fyrir fáfróðri konukind.

Við Pétur fórum seint í dag og litum á Jónas. Honum er haldið sofandi og er tengdur við öndunarvél. Okkur var mjög vel tekið, allar slöngur og dót útskýrt og svarað því sem við spurðum um. Okkur Pétri létti mikið við þessa heimsókn. Okkur virðist þetta allt á batavegi.

Afmælisdagur mömmu

JÚNÍDAGAR 2011

26.6. SUNNUDAGUR

Sólin lét lítið á sér bera, enda alskýjað mestallan daginn. Svolítill vindur, en ágætt veður samt.

Afmælisdagur mömmu er í dag. Hún fæddist 26. júní 1905 og lést 10.apríl.1994. Hefði orðið 100 ára 26. júní árið 2005. Í tilefni af því komum við afkomendur hennar saman í Varmahlíð og nutum notalegra og skemmtilegra daga. Við gengum upp í brekkur, lékum við krakkana á túninu í Varmahlíð, skoðuðum Kvennaskólann, þar sem mamma starfaði árin 1930 til 1966, þar af 20 ár sem skólastjóri, eða forstöðukona eins og það var kallað þá.

Um lífshlaup mömmu má lesa í samantekt Svönu, sem hún vann í tilefni af samkomu okkar 2005, og kallaði Brot úr ævi. Svana á miklar þakkir skildar fyrir þessa samantekt, sem er bæði fróðleg og skemmtileg.

27.6. MÁNUDAGUR

Yndislegt gluggaveður. Fjölbreytilegt skýjafar. Sólskin með köflum. Mestur hiti 14°. Bálhvasst. Hvítfextar bárur á ólgandi sjónum.

28.6. ÞRIÐJUDAGUR

Enn blæs vindurinn í miklum móð. Ég vorkenni blómunum, sem reyna að standa sig í rokinu og tekst ekki öllum. Sólin skein mestallan daginn og hitinn fór í 12°.

Smugan er oft hið ágætasta rit. Ekki sé ég í dagblöðum eða vefritum jafn góðar greinar um land okkar og umhverfis- og náttúruvernd eins og á Smugunni. Það er engin tilviljun að slíkar greinar byrtist á Smugunni. Umhverfisvinir vita hvar þeim verður tekið vel. Í dag má lesa fjórar góðar greinar á þessu sviði.

Guðmundur Páll Ólafsson skrifar opið bréf til iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, og talar enga tæpitungu þar sem hann gagnrýnir stefnu ráðuneytis hennar og vinnubrögð. Þar koma við sögu orkumálastjóri, forstjóri Landsvirkjunar og fleiri. Og Guðmundur Páll sér ástæðu til að minna iðnaðarráðherra á þær auðlindir sem náttúran geymir og okkur ber að vernda.

Svanhvít Hermannsdóttir skrifar um álver og vegaframkvæmdir í Mýrdal. Slíkar hugmyndir voru talsvert til umræðu fyrir nær 40 árum, en hafa ekki verið áberandi síðustu áratugi. Nú er rætt um að færa veglínuna nær sjónum og gera jarðgöng í gegnum Reynisfjall. Og ekki eru gleymdar hugmyndir um álver og höfn við Dyrhólaey.

Friðrik Dagur Arnarson hefur unnið ötullega við Rammaáætlun, sem ætluð er að uppfylla skilyrði sjálfbærrar þróunar. Skilyrðin grundvallast á þremur meginstoðum, umhverfislegra, félagslegra og efnahagslegra þátta. Það leynir sér ekki í greinaskrifum Friðriks Dags, að ekki slær hann slöku við sitt hlutverk við Rammaáætlunina.

Loks segir Þorvaldur Örn Árnason frá ýmsum verkefnum sem verið er að undirbúa í Þingvallaþjóðgarði. Þar koma að verki Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd, sem stofnuð voru 1986 og hafa mikið látið að sér kveða. Þetta er merkileg og afar mikilvæg starfsemi sem sjálfboðaliðarnir hafa unnið að umliðin 25 ár. Störf þeirra eru mikils virði.

29.6. MIÐVIKUDAGUR

Veðrið svipað og í gær. Sólin skein allan daginn og vindurinn var ögn hóflegri. Mestur hiti 20°.

Fór loks í sund, sárin eftir Gauk eru ekki lengur opin. Enn er hins vegar óþægileg bólga á vinstri fótlegg. Læknar segja að hún þurfi langan tíma til að lagast til fulls.

30.6. FIMMTUDAGUR

Frábært veður, sólskin, lítill vindur, hlýtt og notalegt.

Jónas vann baki brotnu við bókina sína um þúsund og eina reiðleið. Marcela og Pétur baukuðu í eldhúsinu, Pétur bjó til pítsu og Marcela gerði karamelluköku. Ég puðaði í garðinum, las fréttablöð og bók og kom vart inn fyrir dyr allan daginn. Svona er fólkið á Fornuströnd sitt af hverju tagi.

Svanirnir á Bakkatjörn státa sig af 4 myndarlegum ungum. Hef ekki séð unga hjá öðrum fuglum þar. Furðulegt og sorglegt.

Með löpp á lofti

JÚNÍDAGAR 2011

21.6. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætis veður, sól og hóflegur vindur fram eftir degi.

Hannes læknir leit á minn skrautlega vinstri fót í morgun og sendi mig hið snarasta í röntgenmyndatöku, kannski frekar til vonar og vara því enn er fóturinn blár og marinn.

Laufin á brekkuvíðinum eru orðin dálítið götótt og étin. Tók mig því til og vökvaði víðinn rækilega með grænsápujukki, sem ormagreyin eru lítt hrifin af. Ólíkt betri aðgerð en fjandans eitrunin sem alltof margir vilja fá í garða sína. Undir kvöld kom því miður svolítil rigning, en vonandi hefur henni ekki tekist að þvo grænsápuna af runnunum.

22.6. MIÐVIKUDAGUR

Ljómandi veður. Sólin skein allan daginn, en um kvöldið breiddu skýin sig yfir himininn.

Þurfti að erinda vítt um bæinn og endaði í kirkjugarðinum að líta eftir blómunum á leiði mömmu. Fjólurnar hafa náð sér vel á strik og prýða leiðið með sóma. Notalegt að staldra við í góða veðrinu og hlusta á fuglana sem sungu af hjartans gleði. Svona söngvarar þurfa ekki á Hörpu að halda.

Hannes hringdi og staðfesti að ekkert væri brotið í mínum laglega fæti. Yrði ég bara að halda löppinni sem mest á lofti og sýna þolinmæði. Það var nú ekki ætlun mín að eyða dýrmætu sumrinu með löppina á lofti.

23.6. FIMMTUDAGUR

Veðurstofan kom mér á óvart þegar ég gáði að veðurfarinu síðla dagsins. Þar var því hiklaust haldið fram að hér um slóðir hefði rignt meira og minna allan daginn. Við hérna á Seltjarnarnesinu sáum ekki regndropa falla allan liðlangan daginn og var ég þó mikið úti að sýsla í garðinum (stalst til að nota fótinn). Hér var sem sagt sólríkt og gott veður. Kannski ég hætti að taka mark á veðurstofunni.

24.6. FÖSTUDAGUR

Sólskin og gott veður í dag. Gat ekki stillt mig um að puða aðeins í garðinum. Reyni annars að sýna þolinmæði, leyfi löppinni að vera á fyrstu hæð og stytti mér stundir við sudoku og lestur.

Las mikið á Kaldbak og er nú að ljúka við bunkann.

Besta bókin þótti mér Brotin egg eftir Jim Powell, sem kom nýlega út hjá Bjarti. Fannst hún mjög athyglisverð, spennandi og bæði skemmtileg og sorgleg. Finnst endilega að sem flestir ættu að lesa þessa bók.

Við svo búið hellti ég mér í krimmana. Byrjaði á einum eldgömlum eftir Sjöwall & Wahlöö, sem kom fyrst út hér árið 1978. Maðurinn sem hvarf er ágæt lesning og talsvert frábrugðin nýjustu krimmunum. Mál og menning endurútgefur þessar sögur, sem virðast vinsælar.

Dávaldurinn eftir Lars Kepler er löng og mikil glæpasaga. Vissulega margbrotin og spennandi, en nokkuð yfirgengileg. Hefði mátt vera styttri.

Kunni betur að meta nýjustu bók Viktors Arnar Ingólfssonar. Finnst hann góður höfundur og Sólstjakar er vel skrifuð og spennandi bók.

Og nú er ég að ljúka við bók sem ég átti ekki von á að lesa. Harry Potter og viskusteinninn eftir Rowling heitir bókin. Ekki er ég viss um að ég lesi fleiri Potter-bækur, en nú skil ég bara ágætlega hvers vegna þessar bækur hafa orðið vinsælar um lönd og álfur.

Eins gott að hafa nóg að lesa með löppina á lofti.

25.6. LAUGARDAGUR

Ágætt veður í dag, en sólin var í Laddastuði. Við systur köllum það svo þegar sólin er sífellt að bregða sér bak við ský. Þennan brandara skilja ekki aðrir en við og ekki orð um það meir.

Gleði og sorg á Kaldbak

JÚNÍDAGAR 2011

8. – 20 júní

Fórum upp á Kaldbak 8. júní og vorum þar til 20. Dalurinn var fallegur, baðaður sól, þegar við renndum í hlað. En það var kalt í garranum. Marga dagana blés mikið og að kvöldi 9. júní fór að snjóa. Morguninn eftir var Kaldbaksfjall hvítt af snjó niður í miðjar hlíðar. Til þessa hefur veðrið verið mildara á Kaldbak í júnímánuði en þetta vorið. Gróður er með seinna móti og enn er léleg spretta á túnum. Þetta er óvenjuegt en engu að síður fengum við marga góða daga.

Pálmi, Kristín og Áslaug voru með okkur í rúma viku og Sigrún náði einum degi, alltaf mikið að gera hjá henni. Stelpurnar höfðu mjög gaman af að sinna hestunum og fengu að fara hring eftir hring á hestbaki og ætluðu aldrei að fá nóg. Áslaug sat Djarf og Kristín Storm og voru ekkert minna en himinlifandi. Áslaug var eiginlega komin á þá skoðun að hún ætti að eiga Djarf, og hann var reyndar afar þægur og góður við hana. Ekki þótti þeim síðra að heimsækja mæðurnar í Bæjarásnum og skoða tvö nýfæddu folöldin þeirra. Algjört ævintýr.

Kristín lætur sig dreyma um eigin hest. Var mjög dugleg í öllu stússinu, sótti hestana niður á tún og rak þá aftur niður brekkur þegar hallaði að kvöldi. Svo aðstoðaði hún Birki járningamann, sem kom til okkar einn daginn. Ekki ónýtt að hafa svona duglega og áhugasama stúlku, sem er alltaf tilbúin að aðstoða. Kom sér vel því ég var ekki alveg heil. Var svo óheppin að steypast á hausinn í læk og drullu þar sem ég var að teyma Gauk, og þar eð hann var að flýta sér blessaður þá lét hann það vera að sneiða fram hjá mér í drullunni. Hann hljóp hreinlega yfir mig og skildi eftir nokkur hófför á skrokknum! Er enn all skrautleg, bólgin og marin.

En ekki var allt jafn ánægjulegt þessa dagana. Álmur veiktist illa þann tólfta, æddi um friðlaus, henti sér niður og stundi, fékk niðurgang og leið greinilega mjög illa. Dýralæknir kom fljótlega og reyndi hvað hann gat að bæta ástandið, sprautaði Álm og skildi eftir lyf handa honum. Kári gamli var hjá félaga sínum í 2 sólarhringa og virtist einhver bati á ferðinni, en því miður tókst ekki að lækna þessi slæmu veikindi. Niðurstaðan varð að fella Álm. Eiríkur á Grafarbakka brást vel við eins og venjulega og gróf Álmi gröf í Torfholti við hlið fyrri félaga hans.

Álmur varð 25 vetra. Hann var mjög sérstakur hestur, fallegur, rauður, glófextur. Hann var besti hestur Jónasar, aðrir sátu hann ekki. Álmur tölti hratt og mjúkt, knapinn hreyfðist ekki í hnakknum. Hann brá ekki fyrir sig öðrum gangi en töltinu nema þegar hann neyddist til að feta. Eftirminnilegur hestur.

Faðir Álms var Glói Langagerði, föðurafi Reginn frá Kirkjubæ og föðurmóðir Jörp Bakkakoti. Litinn fékk Álmur frá Reginn. Móðir Álms var Komma í Brekkum, móðurfaðir Fönix frá Vík og móðuramma Sunna frá Stórulág. Ganginn hafði Álmur frá Fönix.

Katla verðlaunuð

JÚNÍDAGAR 2011

1.6. MIÐVIKUDAGUR

Þægilegt veður í dag. Lítill vindur, lítið sólskin, mestur hiti 9°.

Afmæli Svönu í dag. Hringdi til hennar í Varmahlíð í morgun. Þau Þorsteinn bera sig vel, þótt enn sé varla komið almennilegt vor fyrir norðan.

Fékk skemmtilega heimsókn í garðinn okkar hér. Þar sat auðnutittlingur á grein og söng glaðlega í dágóðan tíma. Þessi skemmtilegi litli fugl með rauða kambinn á kollinum er einn af minnstu fuglum landsins. Og hann er líka meðal bestu söngfugla landsins.

Bjarni Eiríkur bauð okkur Jónasi í kvöldmat. Bauð upp á lambakjöt og fjölbreytt meðlæti. Hann er nýfluttur í nýja íbúð á Aflagranda og líður vel þar.

2.6. FIMMTUDAGUR

Misjafnlega notalegt veður í dag. Stundum ágætlega hlýtt þegar sólin skein, en aðeins brá fyrir rigningu.

Ég býð eftir öruggum þurrki til að geta vökvað brekkuvíðinn með grænsápu. Gott ráð til að hrekja ormana á brott án eiturs.

Bjarni Eiríkur snæddi með okkur í hádeginu. Kom færandi hendi með ostaveisluna, sem hann hafði ætlað að bera fram í gærkvöldi. Sagðist hafa gleymt eftirréttinum af því að svo margt var um að spjalla. Hreint ekki verra að borða ostana í hádeginu daginn eftir.

3.6. FÖSTUDAGUR

Þetta veðurfar er orðið hálfgerður brandari. Mætti í morgunsundi kl. 7:30 og stakk mér til sunds í sólskini. Skömmu síðar dundi haglél yfir sundfólkið.

Puðaði heil ósköp í garðinum í dag og fékk yfir mig rigningu milli þess sem sólin skein. Gaf runnum og blómum blákorn og rigningin ákvað að hjálpa til við að tryggja gagnsemi blákornsins.

Fyndið að horfa á skógarþröst rífast við 3 stara. Þeir voru að gæða sér á ormum, einn starinn mataði annan, en þrösturinn mátti ekki vera að því að tína upp í sig, hann hafði svo mikið að gera við að reyna að koma þessum frekjum í burtu.

4.6. LAUGARDAGUR

Í dag var svokallaður Kaldbaksdagur. Fórum austur snemma morguns í rigningu. Fengum ágætt veður uppfrá. Við Jónas, Pétur, Kristján, Katrín og Kári mættum til liðs við Ævar og Ingibjörgu og heilan hóp úr þeirra liði, þar af 6 ungviði. Aðalverkið var að endurbæta girðingar. Mikil vinna, en margar hendur gátu unnið mikið og gott verk.

5.6. SUNNUDAGUR

Nú gefur á bátinn. Í dag er sjómannadagurinn og hraustir sjómenn láta sér fæst fyrir brjósti brenna. Talsvert hvassviðri var víðast hvar um landið. Sums staðar varð fólk að flytja ræðuhöld og skemmtiatriði inn í hús. Svona geta veðurguðirnir leikið landann.

6.6. MÁNUDAGUR

Enn mega landsmenn bíða eftir almennilegu sumarveðri. Útsýnið er nógu fallegt, en varla að maður haldist við utan dyra vegna kalsa í norðanvindinum. Ég lagði ekki í að vökva brekkuvíðinn með grænsápunni, því ég hefði sennilega fengið sápuna mest á sjálfa mig í hvassviðrinu.

Þær skemmtilegu fréttir bárust í dag, að á næstu dögum yrðu afburðanemendum í efnafræði, lífefnafræði og eðlisfræði í H.Í. veitt verðlaun. Þar á meðal fær Katla myndarleg verðlaun. Ekki þau fyrstu um ævina. Verðlaunin nema 750 þús. kr. fyrir frábæran árangur á BS prófi í lífefnafræði í H.Í. Verðlaunaféð kemur sér vel í ströngu námi í Cornell. Við erum stolt af Kötlu og glöð fyrir hennar hönd.

7.6 ÞRIÐJUDAGUR

Ágætt veður í dag, sól mestallan daginn og vindurinn með kurteislegra móti.

Keypti fallegar fjólur og gróðursetti á leiði mömmu. Hún var alltaf hrifin af fjólum. Það var notalegt að staldra við í Grafarvogsgarðinum í hlýindunum.

Dóra mín var vonsvikin og þreytt í gærkvöldi. Var að ganga frá samningi um íbúðina, sem hún leigði í Gent, en svo hætti leigjandinn allt í einu við allt saman. Það var fúlt. En aldrei að gefast upp! Nú auglýsa Dóra og Hera á fésbók þessa fallegu, vel settu íbúð í Gent, og hvetja Íslendinga til að nota tækifærið næstu vikurnar. Stórsniðugt. Vonandi bíta einhverjir á agnið. Gætu átt þar góða daga og yrði þeim mun ódýrara en að gista á hóteli.

Sýslumaður og leikkona bökkuðu á mig!

MAÍDAGAR 2011

24.5. ÞRIÐJUDAGUR

Sæmilegt veður, en ekki komst hitastigið yfir 7°. Enn er vindur hvass, en ekki bar á öskufalli hér í dag. Mikið öskufall hefur verið í námunda við eldgosið í Grímsvötnum, en talsvert rofaði til þegar leið á daginn. Og verulega hefur dregið úr gosinu.

Fyrir fáeinum dögum bakkaði virðulegur fyrrverandi sýslumaður á bílinn minn og setti á hann svolitla beyglu. Í gær tóku Tjónaviðgerðir á Draghálsi við bílnum mínum og var mér afhent bifreið til notkunar meðan minn var í viðgerð. Sama dag þurfti ég að fara í Dómus Medica og þar sem ég ætlaði að leggja þessum fína bil á bílastæði við hlið Dómus tókst virðulegri fyrrum leikkonu að bakka á mig og búa til talsverðar rispur á fína hvíta bílinn. Tvær heldri manneskjur hafa sem sagt gert mér grikk með stuttu millibili! Mér finnst þetta nú heldur ótugtarlegt í minn garð.

25.5. MIÐVIKUDAGUR

Flott veður í dag, 9° hiti, nánast heiðríkt og vindurinn hóflegri en verið hefur. Nú hefði ég viljað taka sprettinn með hestunum, en því var ekki að heilsa. Þurfti að sinna öðru þennan daginn.

Verulega hefur dregið úr eldgosinu, þó ekki sé hægt að segja því lokið. Öllum er léttara að öskufall er miklu minna og hreinsunarstarf komið í fullan gang.

Var að lesa Furðustrandir, nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar. Furðustrandir er mögnuð og vel skrifuð saga. Arnaldur bregst ekki. Mér finnst alltaf gaman að lesa bækur hans.

26.5. FIMMTUDAGUR

Stillt og gott veður fram eftir degi. Um miðjan dag helltist yfir rigning og hélt því áfram fram eftir kvöldi. Svo mun hafa verið vítt um land. Á mesta öskusvæðinu er rigningunni vel fagnað. Þar er nú mun léttara yfir fólki, en mikið að gera við hreinsun. Fjöldi kinda hefur blindast af öskunni. Er nú unnið að því að hreinsa óþverrann úr augum þeirra í þeirri von að þær fái sjónina aftur.

27.5. FÖSTUDAGUR

Ágætt veður í dag. Rigning öðru hverju, sem er vel tekið eftir margra daga þurrk og ryk. Hógvær vindur og frekar hlýtt. Sólin lét bíða eftir sér allt til kvölds.

Við færum hestunum okkar nýslegið gras á hverjum degi meðan það endist. Þeir fá það í litlum föngum úti í gerðinu og er gaman að sjá hvað þeim finnst þetta mikið gómsæti. Vonandi grænka tún og brekkur á Kaldbak í vorregninu þessa dagana. Hestarnir þar uppfrá líta ekki við gömlu heyböggunum þótt enn sé lítið af nýsprottnu.

28.5. LAUGARDAGUR

Fínt veður, hlýtt og gott til kl. 3, en þá fór að rigna myndarlega. Mestur hiti í dag var 9-10°.

Fimleikum vetrarins var að ljúka í dag. Fór að sjá yngstu hópana sýna lystir sínar, þar sem Áslaug stóð sig aldeilis vel og fékk medalíu eins og öll hin börnin. Þau eru svo stolt og finnst þetta svo merkilegt og gaman. Frábær skemmtun.

Fórum tvisvar Rauðhólahring og hreyfðum þar með rækilega alla hestana í góða veðrinu. Við vorum aldeilis á réttum tíma, því við vorum akkúrat rétt búin að setja hestana inn og koma okkur inn í bíl, þá helltist rigningin yfir. Hestarnir eru í góðu formi, enda höfum við þjálfað þá vel í vetur. Þeim leiðast ekki reiðtúrarnir, en ég finn alveg að þá er farið að langa í sveitina.

29.5. SUNNUDAGUR

Ágætis veður í dag. Mestur hiti 11°. Sólskin og talsverður vindur.

Vortónleikar voru í sal Melaskóla í dag. Þar léku Kristín og Auður á píanó. Auður er orðin býsna flink, spilaði bæði ein og með öðrum og klikkaði ekki hið minnsta. Ekki var síður gaman að hlusta á Kristínu, sem var bara að byrja að læra á píanó í vetur. Hún er strax orðin nokkuð örugg með sig og stóð sig mjög vel. Spilaði með annarri stúlku Óðinn til gleðinnar eftir Beethoven og þær gerðu það ljómandi vel.

Dugnaðarstúlkan hún Katla mín á afmæli í dag. Hún á vonandi ánægjulegan dag í U.S.A. Við hér á Fróni getum ekki verið með í fjörinu, en sendum afmælisóskir.

30.5. MÁNUDAGUR

Gott veður og fallegt. Mestur hiti 9-10°. Dálítill vindur.

Snemma í morgun fórum við í hesthúsið, kembdum hestunum og gáfum þeim hey. Kristján Kristjánsson mætti fyrir kl. 8 með allar sínar græjur til hestaflutninga og hestarnir okkar gengu óhikað upp á pallinn. Þeir voru kátir að hitta félaga sína á Kaldbak.

Fór með Sindra til læknis í Orkuhúsinu. Hann finnur oft til þreytu og jafnvel sársauka í fótunum. Læknirinn skoðaði hann vandlega, en telur enga hættu á ferðum. Leggur áherslu á að Sindri noti vandaða skó með góðum innleggjum. Þá væri gott fyrir fæturna að gera æfingar á tánum.

31.5. ÞRIÐJUDAGUR

Hitastigið svipað og síðustu daga, þ.e. mestur hiti 9°. Sólin sást lítið og síðan kom röðin að rigningunni.

Sindri og Breki komu í heimsókn til okkar og verða fram á næsta dag. Þetta er svona kveðjuveisla, því þeir fljúga til Brüssel um helgina og verða hjá mömmu sinni í sumar ásamt Hilmu systur sinni. Þeir fengu að sjálfsögðu hinn sívinsæla grjónagraut, og svo horfðum við á bíómynd með kappanum Gulliver.

Enn er farið að gjósa

MAÍDAGAR 2011

17.5. ÞRIÐJUDAGUR

Lítið sást til sólar að deginum og vindurinn blés mikinn. Það var kalt úti þótt hitinn færi upp í 11°. Að kvöldi var glaðasólskin, en áfram blés vindurinn og öldur hafsins stökkva að landi.

Ég klæddi mig vel áður en lagt var í reiðtúrinn og veitti ekki af. Fórum Rauðhólahringinn næstum því í einum spretti, enda fengu stuðpinnarnir Logi og Gaukur að ráða för. Ég minnist þess stundum hvernið Gaukur lét fyrstu árin hjá okkur. Hann átti til rokur og frekjugang og ekki alltaf sá þægasti í hópnum. Gaukur er nú 18 vetra og ég nýt þess í botn að ríða þessum hesti. Hann er frábær, viljugur og mjúkur.

Svana fór norður í Varmahlíð í dag ásamt Þorsteini. Hún gat ekki stillt sig þrátt fyrir kuldatíðina, sem er miklu verri þessa dagana en sunnanlands. Hringdi norður og þar er nú ekki kvartað því vindurinn er bara í rólegheitum og það skiptir miklu.

18.5. MIÐVIKUDAGUR

Gott veður, góður dagur. Veðurstofan spáði rigningu með köflum, en sú spá rættist ekki hér um slóðir. Sólin skein í mestallan dag og mestur hiti mældist 10°.

Reiðtúrinn var nokkuð hasarkenndur. Þegar við komum að undirgöngum við Rauðavatnið hittum við þar fyrir háværan krakkahóp í umsjá fullorðinnar konu. Sú virtist ekki sjá neitt athugavert við óp og skræki barnanna, sem trylltu hestana. Jónas var með þrjá hesta, teymdi tvo, Djarf og Prins. Þeir rifu sig lausa og æddu á harðaspani til baka og við á eftir. Hræddust var ég um að þeir lentu fyrir bíl þar sem þarf að fara yfir götu, en sem betur fór varð ekki slys af.

19.5. FIMMTUDAGUR

Hráslagalegt var veðrið í dag þrátt fyrir 10° hita, en mestu ræður hvassviðrið. Við þurfum þó ekki að berja lóminn hér um slóðir þegar litið er til Norðurlandsins. Þar er nú snjókoma eða slydda og alhvít jörð á norðanverðu landinu og vetrarfærð á þjóðvegum. Í sveitum stendur sauðburður nú sem hæst og hefur orðið að taka féð á hús.

20.5. FÖSTUDAGUR

Enn blæs vindurinn meira en góðu hófi gegnir. Gat þó ekki stillt mig um að bregða mér Rauhólahringinn með Gauknum. Fannst stundum sem ætlunin væri að blása mig af baki og út í buskann. En þetta var frábær sprettur.

Seinnipart dagsins hófst flokksráðsfundur VG og stóð allt til kl. 23. Það er langt síðan ég gat sótt slíkan fund og hafði gaman af því að vera loksins með. Umræður voru góðar og fróðlegar, en skemmtilegast var að hitta þarna fullt af fólki sem ég hef lítið séð að undanförnu. Er það sjálfri mér að kenna þar sem ég hef sinnt öðru frekar.

21.5. LAUGARDAGUR

Ágætis veður í dag kom hreinlega á óvart. Sólin skein og hitinn fór upp í 9°. Mestu munaði að vindinn lægði verulega. Enn er kalt fyrir norðan, hiti 1-3° og víða snjóar eða rignir. Um allt land er beðið eftir betra veðri, almennilegu maíveðri. Nýútsprungnir túlípanar bera sig vel í beðinu við gluggann.

Við riðum út í þessu ágæta veðri og buðum síðan hestum okkar að bíta grængresi. Þeir kunnu vel að meta.

Að kvöldi birtist sú frétt að eldgos væri hafið í Grímsvötnum.

22.5. SUNNUDAGUR

Fallegt veður allt til kvöldverðar. Sólskin og 9° hiti, en nokkuð hvasst. Eldgosið í Grímsvötnum er mjög öflugt og meira en gos þar áður. Mikið öskufall berst víða bæði norður, suður og vestur. Hingað er komið öskufall. Jónas og Ævar eru á leið austur, þeir ætla að setja hestana á Kaldbak inn í bragga og tryggja þeim þar hreint vatn og hey.

23.5. MÁNUDAGUR

Á ýmsu gengur í landi voru. Um norðanvert landið er snjór og kuldi. Á suðurlandi er kalt og hvasst. Ætlað var í gærkvöldi að eldgosið í Grímsvötnum væri ef til vill í rénun og öskufallið einnig, en því fór fjarri. Eldgosið er engu minna í dag, og öskufallið er enn meira en áður. Í mestallan dag hefur öskufallið byrgt sýn, fólk sér harla litið í myrkrinu.

Jónas og Ævar fundu ekki hestana í gærkvöldi, enda sást illa til í mistrinu. Þeir gistu á Kaldbak og fundu síðan hestana í morgun. Þeir voru við Stóru-Laxá og virtust í ágætu formi þótt lítið sé enn af nýgresi. Niðurstaðan var að láta þá sig eiga sig þar, en fljótlega þarf að huga aftur að þeim.

Afi minn og maríuerlan

MAÍDAGAR 2011

9.5. MÁNUDAGUR

Ágætt veður svona yfirleitt. Að vísu stundum dálítið hvasst og reyndar rigndi hressilega um skeið, en það er engin nýjung. Mestur hiti mældist 15°.

Brölti af og til í garðinum, reyni að stilla mig um að vera lengi í hvert sinn svo að bak fullorðinnar konu fari ekki að veina. Kristján sér um klippingar fyrir mig, og nú er málið að safna saman afklippunum og hreinsa beðin. Hver pokinn af öðrum fyllist, beðin líta sífellt betur út og blómin æ fallegri.

Við Gaukur hittum maríuerlu í reiðtúr dagsins. Hún var svo óttalaus að hún bara horfði á okkur fara fram hjá. Maríuerlan er í miklu dálæti hjá mér, ekki síst vegna þess að Sigurjón Friðjónsson afi minn gaf mér vísu um þann ljúfa fugl þegar ég var 5 ára. Finnst mér síðan ég eiga svolítið í maríuerlunni.

Mér sýnist gamlárið sólarlaust,

segðu mér nokkuð Stína.

Hvert flaug hún erlan úr frostinu í haust

með fallegu ungana sína.

Hvort skyldi hún koma kát í vor

þegar kuldinn er burtu runninn.

Ég held helst hún komi og kyssi þín spor

og kyssi þig líka á munninn.

Frá afa á jólum 1944.

10.5. ÞRIÐJUDAGUR

Gott veður þótt sólin hefði mátt fá betra svigrúm fyrir skýjunum. Mestur hiti 15°, og lítið varð úr skúrunum sem búist var við.

11.5. MIÐVIKUDAGUR

Svei mér ef Veðurstofan var ekki að plata mig í dag. Hún hélt því fram að hitastigið hefði ekki farið yfir 13°. Mér fannst veðrið heitt þrátt fyrir dálítinn vind og reiknaði með 15 – 17° hita. En sérfræðingarnir verða að fá að ráða þessu.

Það er ljúft að fá þessa góðu daga. Grængresið þýtur upp og blómin teygja sig upp úr moldinni. Vorið hefur einnig örfandi áhrif á hestana, sem eru að mestu búnir að fella vetrarhárin og allir í góðu formi. Prinsinn er enn heldur tregur í taumi og verður sjálfsagt sjálfum sér líkur alla sína tíð. Við munum sennilega flytja hestana aftur upp á Kaldbak áður en langt um líður.

12.5. FIMMTUDAGUR

Glaðasólskin allan daginn, mestur hiti 9°. Talsverður vindur, jafnvel dálítið napur.

Jónas kom færandi hendi í morgun, dálitla bók um fugla: Common Birds and their Songs. Með fylgja diskar með fuglasöng og nú hljómar allur þessi skemmtilegi fuglasöngur í kolli mínum.

13.5. FÖSTUDAGUR

Prýðilegt veður í dag þótt hitinn mældist aðeins 7°. Sólskinið var heldur minna en í gær, en vindurinn var þokkalega stilltur og það munar miklu.

Áttum skemmtilegt kvöld með Sólrúnu og Þórði á Höfninni. Þar er alltaf vel tekið á móti okkur, Brynjar fagnar okkur eins og gömlum vinum. Maturinn á Höfninni er yfirleitt ljómandi góður, umhverfið sérstakt og andrúmsloftið gott.

14.5. LAUGARDAGUR

Góður dagur, gott veður og mikið fjör í reiðtúrum. Prinsinn er að herða sig, orðið léttara að koma honum í góðan gang. Jónas er á Loga og þeir Prinsinn skiptast á um að leiða túrinn. Þannig gengur þetta allt betur. Gaukur og Stormur, Léttir og Djarfur voru í rosa stuði í dag. Eru það reyndar yfirleitt. Þvílíkur sprettur í dag! Það var svo gaman að ég held ég hafi verið skælbrosandi alla leiðina.

15.5. SUNNUDAGUR

Spáð var smáskúrum hér um slóðir í dag, en afskaplega eru þær nú smáar þennan daginn. Öðru hverju skein sólin og mestur hiti mældist 8°.

Afmæli Pálma er í dag. Hann var á vaktinni í útvarpinu alla helgina, en það skorti ekki veisluföngin þegar hann kom heim að kvöldi. Sigrún var önnum kafin í eldamennsku þegar við kíktum inn, og stelpurnar höfðu einnig nóg að gera við skreytingar í tilefni afmælisins.

16.5. MÁNUDAGUR

Sólin var iðin við að skína í dag, en vindurinn var napur og spillti fyrir sólinni. Held að hitinn hafi ekki komist yfir 5-6°.

Brugðum okkur í Kryddlegin hjörtu, þar er alltaf gaman að gæða sér á bragðmiklum súpum og salati. Skemmtilegur staður og ódýr.

Á horni einu á húsþaki skáhalt hér á móti situr lífsglaður stari (starri) löngum stundum og syngur óð sinn til lífsins. Mjög gaman að fylgjast með honum. Margir leggja fæð á starana vegna fuglaflóar, sem ásækir marga fugla, en verður einmitt oft vart á störum sem byggja iðulega hreiður utan í húsum og holum. Þessi pirringur í fólki er óþarfi. Galdurinn er aðeins sá að loka fyrir göt og smugur, þar sem starinn gæti potast í gegn inn á þök og háaloft, og hafa gaman af þessum fuglum. Starar eru býsna félagslyndir og fara gjarna um í hópum. Og það skemmtilega við þessa fugla er að þeir kvaka og flauta og herma mikið eftir öðrum fuglum.

Frá 1. maí til mæðradags

MAIDAGAR 2011

1.5. SUNNUDAGUR

Hvítur snjór þakti höfuðborgina í morgun og víða á næstu grösum. Veðrið var í rauninni ágætt, þótt hitastigið næði ekki nema 7° mest, en lognið tryggði góða veðrið. Færið var ekki sérlega gott fyrir hestana, blautur snjórinn hlóðst í hófana svo að berja þurfti úr þeim.

Krían er komin til okkar fyrir allnokkru. Hún sást fyrst í Hornafirði og er farin að sjást víða. Þessi merkilegi fugl er sagður fljúga á 44-60 km. hraða á klukkustund. Enginn fugl í heiminum ferðast jafn langa leið milli varp- og vetrarstöðva og krían.

2.5. MÁNUDAGUR

Mikið var gaman í dag. Lengi hafur verið beðið eftir almennilegum hlýindum og nú gerðist það. Við vorum í reiðtúrum um miðjan daginn, og allt í einu var okkur orðið ótrúlega heitt. Í ljós kom að hitinn var kominn yfir 15°.

Þegar við komum heim setti ég stól út á pallinn og las bók í sólskininu. Yndislegt. Það þótti fleirum, bæði fuglum og flugum. Stærstu hunangsflugurnar fóru á kreik og notfærðu sér að garðdyrnar stóru galopnar. Pétur veiddi fjórar stórar flugur og sendi þær út í góða veðrið. Þær flugu glaðar á brott.

3.5. ÞRIÐJUDAGUR

Frábært veður, lengst af heiður himinn og þar með vermdi blessuð sólin. Hins vegar held ég að eitthvað hafi hitastigin ruglast hjá Veðurstofunni. Um hádegið voru stigin 13, en kl. 18 var hitinn sagður 25. Jæja, ekki þrasa ég við veðurfræðingana.

Tók góða rispu með hestunum mínum í dag, en vantaði óneitanlega félagsskap. Þeir eru fjörugri og viljugri þegar þeir eru fleiri saman. Stormur var m.a.s. með ólund alla leiðina kringum Rauðavatnið og þóttist hræddur við hitt og þetta. Annars ljótt að segja svona um þennan fallega og trausta hest.

4.5. MIÐVIKUDAGUR

Lítið sást til sólar í dag, en veðrið var notalegt og tæpast hreyfði vind.

Hef verið að lesa ýmsar óvenjulegar bækur upp á síðkastið. Einnar mínútu þögn heitir ein þeirra, höfundur Siegfried Lenz. Dálítið sérstök saga. Þýskir gagnrýnendur lofa hana, einn þeirra segir hana sígildan dýrgrip. Og eitthvað er við þessa sögu. Hún hreyf mig altént meira en bók Eiríks Guðmundssonar, sem ber nafnið Sýrópsmáninn. Það er skrýtin bók. Stundum algjört rugl, en nálgast stundum einhvern raunveruleika. Ansi þokukennd. Af einhverri ástæðu hafði ég þó stundum gaman af lestrinum.

5.5. FIMMTUDAGUR

Ágætt veður, frekar stillt og hlýtt, mestur hiti 8°.

Fór í góða reiðtúra með Prins og Gauk. Prinsinn er svolítið erfiður, tregðast við að fara frá hinum hestunum, en getur tekið góða spretti á heimleiðinni. Hins vegar er alltaf jafn gaman að fara með Gauki. Hann er að vísu latari á leið frá húsi ef við erum ein á ferð, en ekki skortir viljann á heimleiðinni. Við Gaukur fórum Rauðhólahring. Einkar gaman að fara þá leið og sjá kanínurnar skjótast milli trjánna og heyra í ótal fuglum. Þeir syngja af hjartans list í runnum og trjám, og ekki vantar heldur fjörið á þúfum og í tjörnum. Í dag voru hrossagaukar mest áberandi, greinilega í fjörugu tilhugalífi. Vorið er alltaf best.

6.5. FÖSTUDAGUR

Ágætis veður, best seinnipartinn þegar sólin skein óhindruð. Mestur hiti 10°.

Í dag var stjórnarfundur Þjóðhátíðarsjóðs. Fundurinn var haldinn í Þjóðarbókhlöðinni og að honum loknum tóku starfsmenn þar okkur einkar vel og sýndu okkur ýmsa dýrgripi, sem gaman var að sjá, eldgömul handrit, bækur og listaverk. Skoðuðum einnig nýuppsetta sýningu á ýmsu úr fórum Jóns Sigurðssonar.

Þá lá leið okkar að Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og hittum fjölmarga þeirra sem þar starfa. Þau kynntu okkur ýmsa merka viðburði, sem unnið hefur verið að, m.a. nýútkomna Handbók um íslensku, leiðarvísi um íslenskt mál.

Að lokum heimsóttum við Ljósmyndasafn Íslands, sem er hluti af Þjóðminjasafninu og er til húsa í Vesturvör í Kópavogi. Gaman að sjá það sem þar fer fram. Þessar þrjár stofnanir fengu styrki úr Þjóðhátíðarsjóði, en alls var úthlutað 59 styrkjum að þessu sinni. Ánægjulegt var að heyra að allar þessar stofnanir höfðu nýtt styrki sína til hins ýtrasta, og hið sama virðist vera á flestum stöðum.

7.5. LAUGARDAGUR

Gott veður, lítill vindur, sólskin og mestur hiti 11°.

Mikið um að vera í Víðidalnum þessa dagana, margir keppendur spreyta sig með fjölda hesta á tveimur völlum. Við sneiðum framhjá. Katrín kom með okkur Jónasi í góðan reiðtúr í góða veðrinu. Fórum Rauðhólahringinn sem mér finnst alltaf skemmtileg reiðleið. Blessaðir klárarnir voru rennsveittir að spretti loknum.

8.5. SUNNUDAGUR.

Frábært veður. Heiðríkt allan daginn. Mestur hiti 17°.

Fjölskyldurnar komu í svokallaðan dagverð eða hábít sem sumir kalla svo. Var hér kátt að venju. Kristján kom færandi hendi stórfallegan blómvönd í tilefni af Mæðradeginum, sem ég mundi náttúrlega ekkert eftir. Og Dóra sendi ljúfar kveðjur af sama tilefni.

Fórum ekki mjög geyst í reiðtúrum dagsins því hitinn var kominn upp í 17° og engin ástæða til að þenja hestana. Þeir kunnu að meta þá tillitssemi.