Sýslumaður og leikkona bökkuðu á mig!

MAÍDAGAR 2011

24.5. ÞRIÐJUDAGUR

Sæmilegt veður, en ekki komst hitastigið yfir 7°. Enn er vindur hvass, en ekki bar á öskufalli hér í dag. Mikið öskufall hefur verið í námunda við eldgosið í Grímsvötnum, en talsvert rofaði til þegar leið á daginn. Og verulega hefur dregið úr gosinu.

Fyrir fáeinum dögum bakkaði virðulegur fyrrverandi sýslumaður á bílinn minn og setti á hann svolitla beyglu. Í gær tóku Tjónaviðgerðir á Draghálsi við bílnum mínum og var mér afhent bifreið til notkunar meðan minn var í viðgerð. Sama dag þurfti ég að fara í Dómus Medica og þar sem ég ætlaði að leggja þessum fína bil á bílastæði við hlið Dómus tókst virðulegri fyrrum leikkonu að bakka á mig og búa til talsverðar rispur á fína hvíta bílinn. Tvær heldri manneskjur hafa sem sagt gert mér grikk með stuttu millibili! Mér finnst þetta nú heldur ótugtarlegt í minn garð.

25.5. MIÐVIKUDAGUR

Flott veður í dag, 9° hiti, nánast heiðríkt og vindurinn hóflegri en verið hefur. Nú hefði ég viljað taka sprettinn með hestunum, en því var ekki að heilsa. Þurfti að sinna öðru þennan daginn.

Verulega hefur dregið úr eldgosinu, þó ekki sé hægt að segja því lokið. Öllum er léttara að öskufall er miklu minna og hreinsunarstarf komið í fullan gang.

Var að lesa Furðustrandir, nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar. Furðustrandir er mögnuð og vel skrifuð saga. Arnaldur bregst ekki. Mér finnst alltaf gaman að lesa bækur hans.

26.5. FIMMTUDAGUR

Stillt og gott veður fram eftir degi. Um miðjan dag helltist yfir rigning og hélt því áfram fram eftir kvöldi. Svo mun hafa verið vítt um land. Á mesta öskusvæðinu er rigningunni vel fagnað. Þar er nú mun léttara yfir fólki, en mikið að gera við hreinsun. Fjöldi kinda hefur blindast af öskunni. Er nú unnið að því að hreinsa óþverrann úr augum þeirra í þeirri von að þær fái sjónina aftur.

27.5. FÖSTUDAGUR

Ágætt veður í dag. Rigning öðru hverju, sem er vel tekið eftir margra daga þurrk og ryk. Hógvær vindur og frekar hlýtt. Sólin lét bíða eftir sér allt til kvölds.

Við færum hestunum okkar nýslegið gras á hverjum degi meðan það endist. Þeir fá það í litlum föngum úti í gerðinu og er gaman að sjá hvað þeim finnst þetta mikið gómsæti. Vonandi grænka tún og brekkur á Kaldbak í vorregninu þessa dagana. Hestarnir þar uppfrá líta ekki við gömlu heyböggunum þótt enn sé lítið af nýsprottnu.

28.5. LAUGARDAGUR

Fínt veður, hlýtt og gott til kl. 3, en þá fór að rigna myndarlega. Mestur hiti í dag var 9-10°.

Fimleikum vetrarins var að ljúka í dag. Fór að sjá yngstu hópana sýna lystir sínar, þar sem Áslaug stóð sig aldeilis vel og fékk medalíu eins og öll hin börnin. Þau eru svo stolt og finnst þetta svo merkilegt og gaman. Frábær skemmtun.

Fórum tvisvar Rauðhólahring og hreyfðum þar með rækilega alla hestana í góða veðrinu. Við vorum aldeilis á réttum tíma, því við vorum akkúrat rétt búin að setja hestana inn og koma okkur inn í bíl, þá helltist rigningin yfir. Hestarnir eru í góðu formi, enda höfum við þjálfað þá vel í vetur. Þeim leiðast ekki reiðtúrarnir, en ég finn alveg að þá er farið að langa í sveitina.

29.5. SUNNUDAGUR

Ágætis veður í dag. Mestur hiti 11°. Sólskin og talsverður vindur.

Vortónleikar voru í sal Melaskóla í dag. Þar léku Kristín og Auður á píanó. Auður er orðin býsna flink, spilaði bæði ein og með öðrum og klikkaði ekki hið minnsta. Ekki var síður gaman að hlusta á Kristínu, sem var bara að byrja að læra á píanó í vetur. Hún er strax orðin nokkuð örugg með sig og stóð sig mjög vel. Spilaði með annarri stúlku Óðinn til gleðinnar eftir Beethoven og þær gerðu það ljómandi vel.

Dugnaðarstúlkan hún Katla mín á afmæli í dag. Hún á vonandi ánægjulegan dag í U.S.A. Við hér á Fróni getum ekki verið með í fjörinu, en sendum afmælisóskir.

30.5. MÁNUDAGUR

Gott veður og fallegt. Mestur hiti 9-10°. Dálítill vindur.

Snemma í morgun fórum við í hesthúsið, kembdum hestunum og gáfum þeim hey. Kristján Kristjánsson mætti fyrir kl. 8 með allar sínar græjur til hestaflutninga og hestarnir okkar gengu óhikað upp á pallinn. Þeir voru kátir að hitta félaga sína á Kaldbak.

Fór með Sindra til læknis í Orkuhúsinu. Hann finnur oft til þreytu og jafnvel sársauka í fótunum. Læknirinn skoðaði hann vandlega, en telur enga hættu á ferðum. Leggur áherslu á að Sindri noti vandaða skó með góðum innleggjum. Þá væri gott fyrir fæturna að gera æfingar á tánum.

31.5. ÞRIÐJUDAGUR

Hitastigið svipað og síðustu daga, þ.e. mestur hiti 9°. Sólin sást lítið og síðan kom röðin að rigningunni.

Sindri og Breki komu í heimsókn til okkar og verða fram á næsta dag. Þetta er svona kveðjuveisla, því þeir fljúga til Brüssel um helgina og verða hjá mömmu sinni í sumar ásamt Hilmu systur sinni. Þeir fengu að sjálfsögðu hinn sívinsæla grjónagraut, og svo horfðum við á bíómynd með kappanum Gulliver.