Breki eða Jónsi bóndi?

DESEMBERDAGAR 2012

8.12. LAUGARDAGUR

Rigning og hvasst í morgun, en skárra þegar dagur leið. Mestur hiti mældist 1°.

Kristján var svo vænn að taka rispu með okkur að lagfæra eitt og annað með iPad-inn, sem er talsvert frábrugðinn gömlu tölvunni minni. Nú get ég loks sent frá mér skilaboð ef þörf er á, og ýmislegt fleira er nú vonandi orðið betra. Breki er líka snjall í tölvunotkun og hjálpar mér líka að læra betur á þetta.

9.12. SUNNUDAGUR

Ekki komst hitinn hærra en í 1°. En veðrið var annars ágætt, og morgunlýsingin var svo falleg að ég gat ekki hætt að horfa á dýrðina.

Við hér á Fornaströndinni stormuðum á Norðurpólinn, þar sem margt skemmtilegt gerist. Og nú fengum við að sjá nokkra krakka í Snælandsskóla sýna leikrit sem þau höfðu sjálf búið til. Þar með var Breki, sem skemmti okkur vel. Sagðist vera Jónsi bóndi, en var reyndar njósnarinn mikli!

10.12. MÁNUDAGUR

Sæmilegt veður í dag. Mestur hiti mældist 2° eftir hádegi, en um kvöldið hækkaði hitinn upp í 3° og talsverð rigning steyptist yfir.

11.12. ÞRIÐJUDAGUR

Merkilega hlýtt í dag, hitinn náði 5° hér og það telst gott á þessum tíma.

Nóg er að gera þessa dagana, en ég leyfi mér nú samt að lesa bækur. “Jesúsa – óskammfeilin, þverúðug og skuldlaus” kallast bókin. Elena Poniatowska er sögð ein af merkustu rithöfundum í Ameríku, fyrst og fremst í Mexíkó. Sagan um hana Jesúsu er sannarlega merkileg og sérstök. Hollt að kynna sér sitt af hverju í fjarlægum ranni. Jesúsa gleymist ekki svo glatt.

12.12. MIÐVIKUDAGUR

Ágætt veður í dag. Svolítið sólskin, og mestur hiti mældist 3°. Og nú blika ljósin í Bláfjöllum, þar sem skíðafólkið skemmtir sér.

13.12. FIMMTUDAGUR

Fallegt er út að líta, en býsna kalt þennan daginn. Talsverður vindur og hitinn um frostmark.

14.12. FÖSTUDAGUR

Enn er þetta ágæta veður hér, fallegt en kalt. Heiðríkt, sólskin, dálítill vindur. Mestur hiti mældist 1° um miðjan daginn, annars hóflegt frost.