JÚNÍDAGAR 2011
26.6. SUNNUDAGUR
Sólin lét lítið á sér bera, enda alskýjað mestallan daginn. Svolítill vindur, en ágætt veður samt.
Afmælisdagur mömmu er í dag. Hún fæddist 26. júní 1905 og lést 10.apríl.1994. Hefði orðið 100 ára 26. júní árið 2005. Í tilefni af því komum við afkomendur hennar saman í Varmahlíð og nutum notalegra og skemmtilegra daga. Við gengum upp í brekkur, lékum við krakkana á túninu í Varmahlíð, skoðuðum Kvennaskólann, þar sem mamma starfaði árin 1930 til 1966, þar af 20 ár sem skólastjóri, eða forstöðukona eins og það var kallað þá.
Um lífshlaup mömmu má lesa í samantekt Svönu, sem hún vann í tilefni af samkomu okkar 2005, og kallaði Brot úr ævi. Svana á miklar þakkir skildar fyrir þessa samantekt, sem er bæði fróðleg og skemmtileg.
27.6. MÁNUDAGUR
Yndislegt gluggaveður. Fjölbreytilegt skýjafar. Sólskin með köflum. Mestur hiti 14°. Bálhvasst. Hvítfextar bárur á ólgandi sjónum.
28.6. ÞRIÐJUDAGUR
Enn blæs vindurinn í miklum móð. Ég vorkenni blómunum, sem reyna að standa sig í rokinu og tekst ekki öllum. Sólin skein mestallan daginn og hitinn fór í 12°.
Smugan er oft hið ágætasta rit. Ekki sé ég í dagblöðum eða vefritum jafn góðar greinar um land okkar og umhverfis- og náttúruvernd eins og á Smugunni. Það er engin tilviljun að slíkar greinar byrtist á Smugunni. Umhverfisvinir vita hvar þeim verður tekið vel. Í dag má lesa fjórar góðar greinar á þessu sviði.
Guðmundur Páll Ólafsson skrifar opið bréf til iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, og talar enga tæpitungu þar sem hann gagnrýnir stefnu ráðuneytis hennar og vinnubrögð. Þar koma við sögu orkumálastjóri, forstjóri Landsvirkjunar og fleiri. Og Guðmundur Páll sér ástæðu til að minna iðnaðarráðherra á þær auðlindir sem náttúran geymir og okkur ber að vernda.
Svanhvít Hermannsdóttir skrifar um álver og vegaframkvæmdir í Mýrdal. Slíkar hugmyndir voru talsvert til umræðu fyrir nær 40 árum, en hafa ekki verið áberandi síðustu áratugi. Nú er rætt um að færa veglínuna nær sjónum og gera jarðgöng í gegnum Reynisfjall. Og ekki eru gleymdar hugmyndir um álver og höfn við Dyrhólaey.
Friðrik Dagur Arnarson hefur unnið ötullega við Rammaáætlun, sem ætluð er að uppfylla skilyrði sjálfbærrar þróunar. Skilyrðin grundvallast á þremur meginstoðum, umhverfislegra, félagslegra og efnahagslegra þátta. Það leynir sér ekki í greinaskrifum Friðriks Dags, að ekki slær hann slöku við sitt hlutverk við Rammaáætlunina.
Loks segir Þorvaldur Örn Árnason frá ýmsum verkefnum sem verið er að undirbúa í Þingvallaþjóðgarði. Þar koma að verki Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd, sem stofnuð voru 1986 og hafa mikið látið að sér kveða. Þetta er merkileg og afar mikilvæg starfsemi sem sjálfboðaliðarnir hafa unnið að umliðin 25 ár. Störf þeirra eru mikils virði.
29.6. MIÐVIKUDAGUR
Veðrið svipað og í gær. Sólin skein allan daginn og vindurinn var ögn hóflegri. Mestur hiti 20°.
Fór loks í sund, sárin eftir Gauk eru ekki lengur opin. Enn er hins vegar óþægileg bólga á vinstri fótlegg. Læknar segja að hún þurfi langan tíma til að lagast til fulls.
30.6. FIMMTUDAGUR
Frábært veður, sólskin, lítill vindur, hlýtt og notalegt.
Jónas vann baki brotnu við bókina sína um þúsund og eina reiðleið. Marcela og Pétur baukuðu í eldhúsinu, Pétur bjó til pítsu og Marcela gerði karamelluköku. Ég puðaði í garðinum, las fréttablöð og bók og kom vart inn fyrir dyr allan daginn. Svona er fólkið á Fornuströnd sitt af hverju tagi.
Svanirnir á Bakkatjörn státa sig af 4 myndarlegum ungum. Hef ekki séð unga hjá öðrum fuglum þar. Furðulegt og sorglegt.