Vil frið fyrir klaufabárðum

SEPTEMBERDAGAR 2011

12.9. MÁNUDAGUR

Ágætis veður, sólríkt og stillt. Mestur hiti 13°. Mikið mistur.

Fór með minn marghrjáða Ford til viðgerða. Fæ á meðan nýjasta módelið, fagurhvítt og flott. Ágætis farartæki, en ég nýti það eins lítið og mögulegt er, því ekki vil ég fleiri árekstra þetta árið og fer því einkar varlega.

Jónas var að byrja fjögurra vikna endurhæfingu á Reykjalundi og líst harla vel á það sem í boði er. Mikil dagskrá er á hverjum degi og vonandi skilur þetta allt saman góðum bata.

Um kvöldið voru ótrúlega fögur norðurljós. Þvílík dýrð. Og ekki skemmdi fullur og fagur máninn.

13.9. ÞRIÐJUDAGUR

Frábært veður, þótt kalt væri að koma út í morgun. Heiðríkt og stillt, og í þetta sinn var ekkert mistur. Mestur hiti 13°.

Varla er að búast við mörgum sólríkum og hlýjum dögum fram eftir hausti og um að gera að njóta þess arna. Sat úti á palli og las. Geitungarnir eru enn í góðu stuði og létu mig ekki í friði. Lét það þó ekki trufla mig.

14.9. MIÐVIKUDAGUR

Enn er ágætis veður, mestur hiti 11°. Esjan og öll hin fjöllin voru hulin mistri stóran hluta dagsins. Eins og skýin voru falleg í morgun! Ég synti látlaust baksund í morgunsundinu til að geta horft á þessi glettilega fallegu ský. Reyndi mikið að muna hvað svona ský eru kölluð. Er reyndar á því að þau kallist maríutjásur. Hugsanlega jafnvel klósigar.

15.9. FIMMTUDAGUR

Ekki er boðið upp á sól og fínirí þennan daginn. Nú rignir og er reyndar gott vegna öskunnar eða/og sandfoks og moldroks. Og ekki er kalt, mestur hiti mælist 13°.

Fékk Fordinn minn góða í dag, heilan og fínan. Vonast til að hafa hann nú í friði fyrir klaufabárðum á vegum.

Var að ljúka bók eftir sænska höfundinn Marie Hermanson. Kallinn undir stiganum, heitir sagan og er dálítið sérstök. Tekur tímann að átta sig á því sem er að gerast og hvernig það þróast.

Sara Blædal er meðal vinsælustu höfundum spennusagna í Danmörku um þessar mundir. Aldrei framar frjáls, heitir saga sem kom út hér ekki alls fyrir löngu. Synd að segja að það sé ljúf saga. Fjallar um vændisstarfsemi og ömurleg örlög kvenna frá ýmsum löndum. Skortir ekki spennuna.

Nýlega las ég bók eftir perúska höfundinn Mario Vargas Llosa, sem hlotnaðist bókmenntaverðlaun Nóbels á síðasta ári. Átti von á góðu, en lenti satt að segja í miklu basli við að meðtaka ósköpin. Sættist þó við furðulegheitin að lokum. Óneitanlega fyndin og háðsleg saga.

Er nú komin með bók sem nefnist Eyru Busters. Sú lofar góðu.

16.9. FÖSTUDAGUR

Bærileg rigning í dag og í raun ágætis veður. Mestur hiti 13°.

17.9. LAUGARDAGUR

Gott veður og hlýtt. Mestur hiti 13° eins og síðustu daga. Í þetta sinn fengum við sólskin.

Var komin með dágóðan slatta af afgangsbrauði og fór með það til fuglanna á Bakkatjörn. Ótrúlega gaman að sinna þeim. Sorglegt þó að sjá stóru vængbrotnu gæsina, sem ég gái að öðru hverju. Hún ber sig raunar furðu vel og sprangar um og tínir mola upp í sig. En hætt við að hún lifi ekki lengi.

Nú eru margæsirnar komnar frá varpstöðvum sínum á kanadísku Íshafseyjunum. Hingað koma þær til að hvíla sig og safna orku áður en þær fljúga til vetrarsetu á Írlandi. Stór hópur margæsa sat á tjörninni, tók síðan flugið og brá sér á sjóinn. Gaman að horfa á þær.

Reiðtúrar og berjatínsla

SEPTEMBERDAGAR 2011

6.9. ÞRIÐJUDAGUR

Komum á Kaldbak í ágætu veðri. Beið ekki boðanna og sótti hestana niður á tún. Allar skeifur á sínum stað. Frábært að komast loksins í reiðtúr með Gauki, þvínæst Stormi og síðast Létti. Ótrúlega gaman.

Að útreiðum loknum brá ég mér í berjamó. Var farin að halda að ég kæmist bara yfirleitt ekkert í berjamó þetta árið. Var varla komin með hálfan bauk þegar skyndilega heyrðust háværar langdregnar drunur og hestarnir tóku heldur betur sprettinn í brekkunum. Hef ekki ennþá fengið skýringu á þessum drunum, en sem betur fór varð ekki meira úr slíku brölti, hvort sem um var að ræða skruggu eða flugvélafret.

7.9. MIÐVIKUDAGUR

Talsverður vindur var heldur til trafala í dag, og býsna var kalt. Sólin bætti hins vegar úr. Lét ekki kuldann hindra mína reiðtúra og berjatínslu að svo búnu. En gott var að ylja sér í heita pottinum.

8.9. FIMMTUDAGUR

Ekki skorti sólskinið né fegurð landsins. En slíkt var hvassviðrið að ég sá mitt óvænna og sleppti reiðtúrum og berjamó þennan daginn.

Jónas átti erindi í bæinn og var ekki væntanlegur fyrr en daginn eftir, svo að ég var óvænt ein á báti í nær tvo daga. Mér til skemmtunar var lítil maríuerla. Hún trítlaði um pallinn og virtist hafa mikið að gera.

9.9. FÖSTUDAGUR

Enn skein sólin og vindurinn var aðeins hógværari en í gær. Stormur minn er ekki hrifinn að stormi og stakk við fótum. Ég þurfti að glíma talsvert við hann, en við sættumst að lokum. Gaukur lét hins vegar vindinn ekkert á sig fá.

Jónas, Breki og Sindri komu loks seinnipartinn og þá var nú kátt í koti. Ekki var beðið með að hoppa og stökkva á trompólíninu.

10.9. LAUGARDAGUR

Veðrið var gott í dag. Þótt vindur blési nokkuð skarpt var þokkalega hlýtt. Hitinn fór yfir 12°.

Ævar og Ingibjörg mættu snemma að morgni með dágóðar veislubirgðir til handa leitarmönnum Hrunamanna, sem hófu leit upp úr hádeginu. Við höfum alltaf gaman af þessu kaffisamsæti, og ekki virðist leitarmönnum leiðast hjá okkur.

Ég reið mínum fákum hringveginn um túnin. Sindri og Breki fengu að sitja Storm nokkra hringi á rananum og höfðu mikið gaman af.

11.9. SUNNUDAGUR

Enn skín sólin og vindur herðist. Talsvert mistur sækir að vegna ösku eða sandfoks þegar vindurinn hreyfir sem mest.

Hleyptum hestunum inn í Bæjarásinn, þar sem þeir hafa það hvað best. Annars fór dagurinn í tiltekt og þrif. Svo var brunað heim.

Tía í kveðjuskyni

SEPTEMBERDAGAR 2011

1.9. FIMMTUDAGUR

Misjafnt veður, rigning öðru hverju, annars ágætt að deginum. Mestur hiti 14°. Heldur jókst vindur og regn með kvöldinu. Eru það sagðar eftirhreytur ofsaveðurs í Bandaríkjunum nýlega, sem eiga víst eftir að láta okkur finna aðeins fyrir því á næstunni.

2.9. FÖSTUDAGUR

Fallegt veður í dag. Sólin skein mikinn hluta dagsins. Talsverður vindur, en hann var hlýr. Mestur hiti 14°. Minna varð því úr eftirhreytunum sem verið var að vara okkur við.

3.9. LAUGARDAGUR

Svipað veður og í gær. Sem sagt hlýtt og fallegt.

Við Svana og Tóta frænka okkar ræðum um landsins gögn og nauðsynjar í sundlauginni á laugardagsmorgnum. Höfum til dæmis mikinn áhuga á berjatínslu, en erum alltaf frekar vantrúar á að berin séu jafn góð og auðfengin hér í suðvestrinu sem í Þingeyjarsýslum. Nú eru þær – nema ég – farnar að leita fanga hér í nágrenni og bera sig vel. Ég ein hef ekki tínt eitt einasta ber. Aumingja ég.

Gamlir og góðir vinir okkar frá Finnlandi, Olafi og Marsa Rantalainen, eru hér í stuttri heimsókn. Borðuðum saman á Höfninni og áttum skemmtilegt kvöld. Við höfum í rauninni lítið samband annað en jólakveðjur, en það er alltaf jafn gaman að hitta þetta ágæta fólk.

4.9. SUNNUDAGUR

Einkar fallegt, stillt og gott veður. Sólin skein frá morgni til kvölds. Mestur hiti 14°. Gekk rétt enn einu sinni hringinn um Suðurnesið og sat síðan lengi og fylgdist með fuglunum við Bakkatjörnina. Loksins var svanahópurinn mættur, en enn vantaði einn af ungunum. Tekst líklega aldrei að ráða þá gátu

Sátum lengi í garðinum í góða veðrinu og flugurnar skemmtu sér vel. Ekki eru allir sáttir við fjörið í geitungunum, en enginn hefur enn verið stunginn. Geitungarnir eiga greinilega bú hér einhvers staðar, og ég hef litlar áhyggjur af þeim búskap.

Dóra fer til Brussel á morgun og strákarnir hafa mikið fengið að njóta lífsins með mömmu sinni. Spiluðum hina vinsælu tíu í kveðjuskyni og skemmtum okkur mikið.

5.9. MÁNUDAGUR

Gott veður, hlýtt og sólskin með köflum.

Ók Dóru á flugvöllinn eftir hádegið. Sindri og Breki fengu frí úr skólanum til að fylgja mömmu sinni. Henni tókst að ljúka lestri Narníu-bókar nánast á punktinum, þegar við komum á staðinn. Erfitt var drengjunum að kveðja mömmu, en þau eru nú búin að vera mikið saman í allt sumar, og nú þarf Dóra mín að fara að sinna sinni vinnu og liðka liðið í flottu ræktinni í Brussel. Við hin ætlum á Kaldbak.

Stöðugar veislur

ÁGÚSTDAGAR 2011

27.8. LAUGARDAGUR

Ágætt veður, en þó dálítill vindur og því ekki sérlega notalegt utan dyra. Mestur hiti 11°.

Dóra eldaði matinn þennan daginn og hafði mikið fyrir. Lambalæri með allskonar meðlæti, sem féll heldur betur í kramið. Vorum hér sjö í veislunni, Dóra og synir, Pétur og Marcela, Jónas og ég. Mjög góður matur og skemmtilegt andrúmsloft í húsinu.

28.8. SUNNUDAGUR

Dumbungur og rigning öðru hverju. Mestur hiti 11°.

Hér var fjölmennt í hádegisáti. Vantaði bara Heru og Kötlu í útlandinu, og Kára, sem var í heimsókn hjá vini sínum. Það var glatt á hjalla að venju.

Úlfar á Þremur frökkum bauð okkur Jónasi til kvöldverðar. Á boðstólum var ferskur túnfiskur, gómsæti sem ekki finnst á hverjum degi. Frábær veisla.

29.8. MÁNUDAGUR

Veður gott í dag. Skein upp seinnipartinn. Mestur hiti 12°.

Enn ein veislan leit dagsins ljós og nú var hún í boði Marcelu og Péturs. Grillað í garðinum, kjöt og grænmeti, bananar og súkkulaði. Ótrúleg staðreynd að ég fitna ekki baun í öllu þessu áti.

30.8. ÞRIÐJUDAGUR

Svolítil rigning í dag, annars ágætt veður. Mestur hiti 13°.

31.8. MIÐVIKUDAGUR

Allgott veður. Örlítil rigning. Mestur hiti 15°.

Loksins fannst skýrslan um ákeyrsluna á Grandanum sl. fimmtudag. Eins og vænta mátti var niðurstaðan algjörlega mér í hag. Bíllinn minn fer í viðgerð eftir rúma viku.

Þegar ég var lítið flón var ég hrædd við köngulær og hrossaflugur, að ekki sé minnst á margfætlurnar og flatflugurnar. Tvennt síðastnefnda er enn í ónáðinni, en nú orðið hef ég gaman af að fylgjast með köngulóm og skoða vefnað þeirra. Og hrossaflugur hafa ekki hrætt mig síðan ég var barn. Þessa dagana eru það trippaflugur, frænkur hrossaflugnanna, sem skreyta gluggana okkar í miklum mæli. Köngulærnar eru hins vegar nánast horfnar. Kannski búnar að éta yfir sig.

Tröllahvönn, bjarnarkló, hestahvönn

ÁGÚSTDAGAR 2011

22.8. MÁNUDAGUR

Alskýjað, dumbungur, talsverður vindur, rigning öðru hverju. Mestur hiti 11°.

Í svona veðri leyfir maður sér að húka inni og lesa. Var að ljúka bókinni Fyrir frostið eftir Henning Mankell. Aðalpersónurnar eru þar Kurt Wallander og Linda dóttir hans. Ágæt bók og spennandi, en óþarflega langdregin á köflum. Nú orðið virðist krafan vera að bækur fylli a.m.k. 400 til 500 blaðsíður, og þar af leiðandi verða þær stundum langdregnar. Jo Nesbö virðist fara létt með að fylla tilskilinn blaðsíðufjölda og tekst flestum betur að halda spennunni á hverri síðu þótt margar séu. Hann er meðal bestu krimmahöfundum.

Kristján var að hvetja mig til að kynna mér betur hinar ýmsu tegundir hvanna, sem ljóst er að geta gert manni illan grikk. Tröllahvönn, bjarnarkló og hestahvönn teljast til risahvanna og eru afar varasamar. Var nýlega að rífa upp slatta af hvönn í garðinum og koma fyrir kattarnef. Leist ekkert á hvannirnar mínar sem hafa dafnað vel hingað til, en nú er sem skollinn hafi ráðist á þær. Ég fékk smávegis eitrun í handlegg af þessu brölti mínu. Líklega verð ég að fá einhverja með mér að losa okkur algjörlega við hvönnina, hvort sem hún heitir bjarnarkló, tröllahvönn eða hestahvönn.

23.8. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætt veður, sólskin öðru hverju, mestur hiti 13°.

Álftarunginn, sem týndist um daginn, synti tignarlega um Bakkatjörnina í dag. En ekki er sagan öll, því foreldrarnir og systkinin þrjú voru hvergi sjáanleg.

24.8. MIÐVIKUDAGUR

Gott veður, stillt og hlýtt. Sólskin öðru hverju. Mestur hiti 14°.

Álftarunginn var á sínum stað í morgun, en þegar ég fór í göngutúr seinnipartinn var hvorki hann né hin í fjölskyldunni sjáanleg.

25.8. FIMMTUDAGUR

Heiðríkt, stanslaust sólskin, en talsverður vindur. Mestur hiti 14°.

Þegar ég var á útleið frá Krónunni í dag ók á mig eldri kona og beyglaði minn góða bíl heldur skrautlega. Allt er þá þrennt er, varð mér strax hugsað, minnug þess að tvisvar var bakkað á mig í maí s.l. Ekki mikið sem þá þurfti að lagfæra, en alltaf er þetta vesen. Í þetta sinn er þetta öllu verra, töluverðar skemmdir. Lögreglumaður kom og yfirheyrði okkur. Konan reyndi að halda því fram að ég hefði átt jafnmikla sök og hún, en sem betur fer sáu ýmsir ákeyrsluna. Og ég var svo heppin að kona sem á þetta horfði bauðst til að vera vitni.

26.8. FÖSTUDAGUR

Veður harla gott, mestur hiti 13°.

Flokksráðsfundur Vinstri grænna var haldinn á Hótel Loftleiðum. Hófst seinnipartinn og stóð fram eftir kvöldi. Þetta var ágætur fundur, margt gott til umræðu og ekkert þras að ráði. Allmargar ályktanir lágu fyrir fundinum. Áhugi minn snýr fyrst og fremst að náttúruvernd og um þessar mundir hvernig tekið verður á Rammaáætlun. Sé ekki annað en að hugur sé í fólki að gera sitt ítrasta til að ná fram nauðsynlegum úrbótum á Rammaáætluninni. Okkar fólki ætti að mega treysta í því efni.

Hvað varð um álftarungann?

ÁGÚSTDAGAR 2011

15.8. MÁNUDAGUR

Mestur hiti þennan daginn mældist 11°. Sólin lét lítt á sér bera og vindurinn blés nokkuð hraustlega, en ekki jafn fólskulega og daginn áður.

Um helgina var Kristján leiðsögumaður í þriggja daga ferð um öræfin með 30 manns, og var þar aðalmálið að ganga Vonarskarðið. Fyrri hluti ferðar þótti vel heppnaður, ágætt veður og frábært útsýni, en sunnudagurinn reyndist ferðalöngunum erfiður vegna hvassviðris. Mörgum þótti nóg um vindinn hér á suðvesturhorninu, en það var nú bara gola miðað við vindbeljandann á öræfunum. Sem betur fer komust allir aftur heim.

Í dag halda Katrín og Kristján upp á 25 ára brúðkaupsafmæli!

16.8. ÞRIÐJUDAGUR

Enn er mikill garri í vindinum og ekkert sérlega gaman í göngutúrum. Nógu fallegt er út að líta og sólin skín. Mestur hiti reyndist 10°.

Um hádegið var barið að dyrum og voru þar mættar Auður og Kristín með pabba sínum. Tómhentar voru þær ekki. Færðu afa og ömmu fallegan blómvönd og gómsæta súkkulaðiköku, sem þær höfðu bakað sjálfar. Við slógum að sjálfsögðu upp veislu, átum þessa ljúfu tertu og spjölluðum margt. Ekki dónaleg heimsókn.

17.8. MIÐVIKUDAGUR

Ágætt veður. Mestur hiti 14°. Kvöldið var ægifagurt sem oftar. Stórkostleg litbrigði í skýjunum og sólsetrið magnað. Flugeldar eru harla ómerkilegir í samanburðinum.

Nú eru 6 vikur liðnar síðan ósæðin hans Jónasar var tekin í gegn. Batinn vex smám saman, og í dag brá hann sér á Höfnina með nokkrum félögum. Hressandi upplifting. Hann mun áður en langt um líður taka við stýrinu á bílnum sínum. Það verður ekki síður upplifting.

18.8. FIMMTUDAGUR

Veður blítt frá morgni til kvölds. Veðurstofan heldur því fram að hitinn hafi aðeins náð 12°.

Fór í góðan göngutúr um Suðurnesið. Á golfvellinum var margt um manninn, og fuglar spókuðu sig þar óhræddir. Gæsir eru þar í hópum og virðast telja sig jafn réttháa og gylfingarnir. Í fjörunni var tjaldurinn í tugatali, að ekki sé minnst á fjörið á Bakkatjörn. Það er mikill kostur að geta notið náttúrunnar á þessu svæði við sjóinn.

19.8. FÖSTUDAGUR

Fínt veður. Spáð var skúrum seinnipartinn, en ekki fundum við fyrir því á Nesinu. Mestur hiti var 14°.

Spásseraði fram og aftur í Gróttu. Fór síðan í heimsókn til fuglanna á Bakkatjörn. Þeir eru spakir og eru forvitnir um gesti. Vilja reyndar gjarna fá eitthvað í gogginn. Svanafjölskyldan var áhugasömust. Þau komu öll sex, hægfara og virðuleg í fasi, og ég beið spennt. En svo varð þeim ljóst að ekkert brauð var í boði. Þau sneru við, blökuðu vængjum og fóru jafn virðuleg aftur til baka.

Jónas settist undir stýri í morgun, ók í bæinn og fór á kaffihús. Það verður að teljast stórt spor í batanum.

Skömmu fyrir miðnætti lenti flugvél á Keflavíkurflugvelli með Dóru, Sindra og Breka innanborðs. Ómar sótti liðið á völlinn, og ég sótti Dóru á Lund. Strákarnir byrja í skólanum í næstu viku og Dóra verður hjá okkur fram í september.

20.8. LAUGARDAGUR

Frábært veður, heiðríkt og fagurt, mestur hiti 13°.

Mikið um að vera í höfuðborginni og fjörið barst um götur Seltjarnarness. Mikill fjöldi fólks tók þátt í maraþoni og ýmsum öðrum skemmri hlaupum. Flestir hlaupagarparnir fóru hér um Nesveg, Suðurströnd, Lindarbraut og Norðurströnd og voru að alveg frá kl. 9 og fram yfir hádegi. Var gaman að fylgjast með.

21.8. SUNNUDAGUR

Ágætt veður. Sólskin með köflum, mestur hiti 11°. Lítilsháttar rigning stöku sinnum.

Fór í gönguferð og staldraði við á Bakkatjörninni. Sérlega er gaman að heilsa upp á svanafjölskylduna, sem tekur mér vel þótt engir séu brauðmolarnir. Ungarnir eru orðnir álíka stórir og foreldrarnir, en gráleitir ennþá. Og nú eru þeir allt í einu aðeins þrír. Ég beið lengi og svipaðist um, en kom ekki auga á þann fjórða. Hvað varð af fjórða álftarunganum?

Máninn minnir á haustið

ÁGÚSTDAGAR 2011

8.8. MÁNUDAGUR

Ósvikið sumarveður. Heiðskýrt og frekar milt. Mestur hiti 16°.

Kvöldin eru oft svo falleg að það er erfitt að hafa augun af dýrðinni. Fólk þyrpist á Seltjarnarnesið að njóta kvöldblíðunnar. Litlu krakkarnir leika sér í fjörusandinum og eldra fólkið fylgist með fuglunum á Seltjörninni. Og margir fara í fótabað í Kisulóni.

9.8. ÞRIÐJUDAGUR

Enn er veðrið eins og best verður á kosið. Mestur hiti 16°. Kvöldið er yndislegt. Gaman að heilsa upp á fuglana á Bakkatjörninni. Komin er værð yfir þá síðla kvölds, þeir kúra sig og hafa það náðugt.

Í dag var útför Óskars Ágústssonar í Hallgrímskirkju. Þar var margt um manninn, mikið blessað og mikið sungið. Meðal annars söngur Laugamanna “Þegar himininn blakknar mín hrapstarna skín”. Það var mjög sérstakt og margir sungu með. Í minningarorðunum var margt skemmtilegt, enda frá mörgu að segja í lífi Óskars, sem var mikill karakter. Sama kom fram í minningargreinum í dag. Höskuldur goði vitnaði t.d. í Óskar, sem sagði eitt sinn að grafskrift hans skyldi verða: Hér hvílir Óskar Ágústsson sárnauðugur. Honum líkt. Í erfidrykkjunni hittum við systur marga kunningja úr Reykjadal og víðar í sýslunni. Það er nú einmitt kosturinn við slíkar athafnir að þar hittist fólk, sem hefur oft ekki sést árum og áratugum saman. Er oft talsverð glaðværð í erfidrykkjum.

10.8. MIÐVIKUDAGUR

Sól og blíða. Mestur hiti 13°.

Á Smugunni í dag er fjallað um rannsókn sem varðar stéttamun og hvernig slíkt skiptir almenning máli. Sama kemur fram í bók eftir John Grisham sem ég var einmitt að lesa. Í umfjöllun Smugunnar segir m.a.: “Hástéttin hefur minni samkennd með náunganum, en þeir sem tilheyra lægri lögum samfélagsins, samkvæmt nýlegri rannsókn. Þeir sem tilheyra efri millistétt og hástétt eru líklegri til að stjórnast af græðgi og sanka að sér fé og eignum umfram það sem talist getur hóflegt. Þá er sami hópur ekki nándar nærri eins gjafmildur og þeir sem minna eiga. Svo virðist sem sýn okkar á heiminn og samfélag sé gjörólík eftir því hvaða stétt við tilheyrum ef marka má viðurstöður rannsóknarinnar.” Minnir á bók Grisham, Áfrýjunin. Þar er einmitt tekið rækilega á sömu málum. Burgeisarnir í Bandaríkjunum eru lítið hrifnir af þeirri bók.

11.8. FIMMTUDAGUR

Enn er góða veðrið. Mestur hiti 13°.

Í dag var útför Birgis Þorgilssonar í Háteigskirkju. Hef ekki fyrr upplifað að sækja tvær útfarir með dags millibili. Kynntist Birgi sem ferðamálastjóra þegar ég var formaður Ferðamálaráðs og líkaði vel að starfa með honum. Birgir var mikill hestamaður og við hittumst oft á hestbaki í Víðidalnum. Það fór vel á því að syngja í útför Birgis ljóð Davíðs Stefánssonar: Þú komst í hlaðið á hvítum hesti.

12.8. FÖSTUDAGUR

Gott veður hér á Nesinu, en ennþá betra á Kaldbak.

Við Jónas höfum ekki getað farið út fyrir höfuðborgina allar götur síðan í júní. Við brugðum okkur á Kaldbak í góða veðrinu, þar sem Pétur hefst við þessa dagana. Hann er þar eins og kóngur í ríki sínu og líður einkar vel. Hann er þó ekki einn í kotinu, því maríuerlurnar halda mikið til á palli hússins. Það eru skemmtilegir heimalningar. Í dag kom ein erlan alla leið inn í hús og lét ekki henda sér út í grænum hvelli.

Gott að geta loksins litið til hestanna. Mig langaði mikið að fara á bak, en það verður að bíða betri tíma. Ég kíkti í berjamó mér til ánægju og sá talsvert af berjum. Þau eiga eftir að þroskast betur, en horfur eru góðar.

13.8. LAUGARDAGUR

Heiðríkt, mestur hiti 14°. Þó nokkuð hvasst.

Vindurinn blés í rétta átt fyrir letipurkuna mig. Lét fara vel um mig í sólinni og sökkti mér niður í Djöflastjörnuna hans Jo Nesbö.

Síðla kvölds var nánast heiðríkt og fullt tungl. Máninn minnir okkur á að haustið er skammt undan.

14.8. SUNNUDAGUR

Fallegt veður, en ekki beint notalegt úti sökum hvassviðris. Sólin skein og mestur hiti var 12°. Kvöldið var fallegt, en þetta sinn faldi tunglið sig á bak við sólroðin skýin.

Nýjasta parið á landinu

ÁGÚSTDAGAR 2011

1.8. MÁNUDAGUR

Öðru hverju rigning í dag, stundum mikil. Annars stillt og notalegt veður. Mestur hiti 14°.

Með okkar augum nefnist þáttur á RÚV. Þar ræður ríkjum fólk með þroskahömlun. Það fjallar um margvísleg málefni og leitar svara við því sem á því brennur. Það kynnir margt skemmtilegt sem það er að fást við, eldamennsku með Jóa Fel, teikningu og málningu og dægurlagasöng, svo að eitthvað sé nefnt. Í kvöld var sýndur 4. þáttur af 6 og sá ég þetta athyglisverða sjónvarpsefni nú í fyrsta sinn. Missti af fyrri þáttum af þeirri einföldu ástæðu að þessir þættir eru á afleitum útsendingartíma. Hvers vegna eur slíkir þættir sendir út kl.18:30? Á þeim tíma er víða verið að matreiða, borða kvöldmatinn, sinna börnum o.s.frv. Þetta er merkilegur þáttur, en vondur útsendingartími og að mínu mati óvirðing við þau sem að honum vinna.

2.8. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætt veður í dag, reyndar svipað og í gær. Mestur hiti 15°.

Nýlega fréttist af silkitoppupari, sem hefur hreiðrað um sig í Mývatnssveit og þjónustar nú 4 unga af mikilli elju. Sagt er að foreldrarnir gefi ungum sínum aðallega misþroskuð krækiber og stöku sinnum flugur. Þetta er stórviðburður því silkitoppur hafa ekki fyrr verpt hér á landi svo vitað sé. Sem sagt: Nýjasta parið á landi voru!

3.8. MIÐVIKUDAGUR

Enn er boðið upp á fjölbreytt veðurfar. Stundum sólskin og hlýtt, stundum alskýjað, stundum rigning, stundum svolítið hvasst. Mestur hiti í dag 15°.

Pétur fór á Kaldbak í morgun. Mér verður óneitanlega hugsað til hestanna, sem hafa aldrei fengið jafn langdregið sumarfrí! Kannski dreg ég Dóru með mér upp á Kaldbak þegar hún kemur og fæ hana með mér á hestbak.

4.8. FIMMTUDAGUR

Veður gott. Skýjað mestallan daginn, ekkert regn að ráði. Mestur hiti 17°.

Fór með Jónasi á Landspítalann í dag. Þangað fer hann í endurhæfingu tvo daga vikunnar héðan í frá. Hann er ánægður með móttökur og aðstoð starfsfólks. Æfir reyndar einnig hér heima samkvæmt leiðbeiningum.

5.8. FÖSTUDAGUR

Veðurstofan heldur því fram að mestur hiti í dag hafi verið 16°. Ég sem var sannfærð um að hitinn hefði náð a.m.k. 20°. Þurfti að bíða alllengi fyrir utan Landspítalann meðan Jónas beið eftir samtali við lækni. Las heilt fréttablað meðan ég beið og sofnaði síðan í hitanum. Seinna um daginn sat ég hér heima og horfði á vindinn skekja tré og runna. Engin ládeiða í þessu landi.

Anna Kristine tók við af Sigríði í Kattholti þegar hún lést fyrr á árinu. Er nú formaður Kattavinafélagsins og lætur til sín heyra. Gæti gert góða hluti, en ekki líst mér þó á allt sem frá henni kemur, einkum yfirlýsingar hennar um að hún vilji endilega byggja upp lúxuskattahótel. Er líklegt að kattavinir styðji hana í þess háttar vitleysu? Kattholt er sífellt í kröggum og þarf góðan stuðning kattavina, en ekki lúxushótel fyrir ketti. Lélegur brandari.

6.8. LAUGARDAGUR

Stórfínt veður í dag. Sólskin mestallan daginn og hitinn fór upp í 19°.

Puðaði svolítið í garðinum, enda ekki í kot vísað í góðviðrinu. Aðalvinnan felst í því að láta ekki stærri og áleitnari blómin kaffæra þau minni og hógværari. Stærri blómin eru vissulega dugleg og falleg, eins og garðasólin, vatnsberinn og dagstjarnan, en ég vil fá að njóta fjólanna fögru og gullfallegu stjúpanna sem ég gróðursetti í vor.

7.8. SUNNUDAGUR

Frábært veður, stillt og gott. Sólskin frá morgni til kvölds. Mestur hiti 18°.

Ekki er alltaf jafn unaðslegt í garðvinnunni. Var að stússa í kringum hvannirnar, sem mér fannst eitthvað torkennilegar, og uppgötvaði allt í einu að hvannirnar voru hreinlega þaktar gráhvítum pöddum. Þær voru sem sagt blygðunarlaust að innbyrða þessar myndarlegu jurtir frá toppi til rótar. Plastpokinn stóri fékk sig fullsaddann af útlitsljótri hvönn og gráðugum pöddum, sem fengu svo far í Sorpu. Er enn að klóra mér þrátt fyrir allan líkamsþvottinn!

Loksins ærleg rigning

JÚLÍDAGAR 2011

22.7. FÖSTUDAGUR

Ágætt veður, mestur hiti 14°.

Jónas er enn á Landspítalanum. Hann er fljótur að þreytast og þolir ekki miklar heimsóknir. Reyndar lifnaði heldur betur yfir honum þegar Marínó, Tómas og Þráinn birtust allt í einu og fengu að heyra ýmislegt sem orðið hafði til í kolli sjúklingsins síðustu daga. Piltarnir höfðu góð áhrif, stöldruðu þó ekki lengi við, enda þolir Jónas slík samkvæmi ekki nema skamma stund.

23.7. LAUGARDAGUR

Skemmtilegt veður. Mikill vindur, en þokkalega hlýr. Sólskin, en talsvert mistur. Mestur hiti 16°.

Jónas er kominn í takt við allt sem er að gerast á legudeildinni og er nokkuð sáttur við það sem að honum snýr. Bjarni Torfason læknir er væntanlegur eftir helgina og þá geta þeir rætt saman. Framhald málsins ræðst sjálfsagt að mestu samkvæmt ákvörðunum Bjarna.

Fékk dýrindis kvöldverð hjá Katrínu. Birkigrundarfólk ekur á morgun til minnar hjartkæru Varmahlíðar, sem ég veit ekki hvort ég næ að heimsækja á þessu ári. Meðan þau eru fyrir norðan sé ég um að vökva blóm og fóðra kettina þrjá á Birkigrund.

24.7. SUNNUDAGUR

Síðustu nótt kom loksins ærleg rigning, sem jörðin hefur beðið eftir. Því fylgdi hressilegt hvassviðri, sem fór heldur illa með rósirnar. Önnur blóm stóðu sig vel. Mestur hiti í dag var 14°.

Jónas fékk bæði eyrnatappa og svefnlyf og þar með loksins góðan svefn síðustu nótt. Hann var ánægður með svefnin góða, en ekki jafn ánægður með þrekleysið sem angrar hann.

25.7. MÁNUDAGUR

Ágætt veður í dag, hóflegur vindur og mestur hiti 13°.

Bjarni læknir hitti Jónas í morgun og er sáttur við framvindu mála. Telur allt í góðu gengi og trúlega í lagi að Jónas fari fljótlega heim. Sjálfur er Jónas orðinn nokkuð sáttur við þetta allt saman. Hefur þó áhyggjur af þrekleysinu og að það kunni að gera sér illmögulegt að fara að stunda einhverjar æfingar, en slíkt stendur víst til boða á Landspítalanum. En þetta kemur allt í ljós á næstunni.

Á kvöldin nýt ég iðulega dýrðar kvöldsins út um gluggana sem gefa gott útsýni. Árum saman hef ég dáðst að fegurðinni sem kvöldsólin eða geisladýrð mánans skapar. Það skrítna er að eftir allt mitt gláp út um gluggana er það fyrst nú nýlega sem rennur upp fyrir mér hvað húsin á Eiðsgrandanum og Ánanausti eru ljót. Ég horfi á glampandi sjóinn og ljómann frá sólinni eða tunglinu og tek ekki eftir húsunum ljótu! Þau hafa ekki roð við sólinni og tunglinu.

26.7. ÞRIÐJUDAGUR

Rok og rigning með köflum

Áfram gengur nokkuð vel hjá Jónasi, og nú er farið að undirbúa heimkomu á næstunni. Hann er farinn að spreyta sig í æfingasalnum á spítalanum og getur farið þangað til æfinga þegar hann vill og treystir sér. Allt á uppleið.

27.7. MIÐVIKUDAGUR

Ágætis veður, stillt en sólarlaust. Mestur hiti 13°.

Í dag eru heilar þrjár vikur síðan aðgerðin á Jónasi hófst og allan þennan tíma hefur hann stritað við að ná sér. Ég var farin að velta fyrir mér hvort ég ætti ekki bara að gerast alvöru hjúkka á staðnum! En nú þokast þetta allt áfram. Læknarnir eru alveg sáttir við framgang mála og telja hann tilbúinn til að fara heim. Fengum heilmikla fyrirlestra í dag um allt það sem aðgæta þarf næstu vikurnar. Ekki fátt sem læra þarf til að sinna þessum málum.

28.7. FIMMTUDAGUR

Dumbungur og svolítil rigning með köflum. Mestur hiti 14°.

Jónas kom heim í dag og allir fegnir. Sjálfur er hann feginn að geta slakað rækilega hér heima næstu daga. Síðan verður nóg að gera við að hressa upp á heilsufarið. Hann er hlaðinn allskonar lyfjum og einnig hlaðinn leiðbeiningum um það hvernig hann þarf að mýkja og efla skrokkinn.

29.7. FÖSTUDAGUR

Ágætis inniveður svona svipað og í gær. Engin læti í veðrinu, en talsverð rigning öðru hverju. Mestur hiti 13°.

Ég þurfti að erinda hitt og þetta í dag og meðal annars að kaupa glænýjan öndvegis þorsk. Jónas hafði ekki bragðað góðan fisk síðan í byrjun júlí, og nú var veisla. Sjálfur húsbóndinn sá um matreiðsluna og vill hafa það áfram á sinni könnu nema eitthvað verði í veginum.

30.7. LAUGARDAGUR

Í rauninni ágætis veður, en dálítið flöktandi. Sólin kíkti stöku sinnum milli skýjanna og sendi frá sér notalega heita geisla. Til lítils gagns var þó að setjast út í garðinn, því fyrr en varði fengum við dembuna úr skýjunum.

31.7. SUNNUDAGUR

Álíka veður í dag og í gær. Ljómandi gott öðru hverju og stöku sinnum rigning. Mestur hiti 4°.

Jónas fór tvisvar í göngutúr samkvæmt fyrirmælum sjúkraþjálfa, en hefði betur farið hægar í sakir. Rifjaðist þá upp fyrir sjálfri mér þegar ég fékk varadekk á mjöðm og ætlaði að verða göngugarpur á einum degi. Það þarf svolítið lengri tíma.

Þolinmæðin þrautir vinnur allar

JÚLÍDAGAR 2011

15.7. FÖSTUDAGUR

Öndvegis veður í dag. Sól og hlýtt, mestur hiti 18°.

Jónas er orðin óþolinmóður að skilja við Gjörgæsluna, enda alltaf dálítið ónæði þar. Hins vegar er þar meira öryggi og stöðug vakt alla daga og nætur. Hann hreyfði sig svolítið í dag, og það er heilmikið átak í hvert sinn. Honum finnst þetta ganga alltof hægt og seint, en læknarnir telja þetta allt í ágætu lagi.

Við Sigrún fórum í Café Flora í hádeginu og innbyrtum frábærlega gott salat. Mælum með því. Og Grasagarðurinn ilmar og skartar sínu fegursta.

16.7. LAUGARDAGUR

Gott veður, þrátt fyrir býsna hvassan vind. Mestur hiti17°.

Jónas var fluttur af Gjörgæslunni í morgun og á öllu friðsælli stað. Aðstaðan er góð og mér virðist honum líða betur þarna, enda búið að fækka slöngum og snúrum. Sjúkraþjálfari mætti þegar ég var þarna, ansi hress og ákveðinn náungi. Nú er stefnan að byggja Jónas upp, og mér leist vel á það sem verið er að gera.

Kristján, Katrín og Kári voru að koma eftir góða daga á Kaldbak. Sara systir Katrínar var þar líka og þau brugðu sér á hestbak öðru hverju. Nú síðast sat Kári á Létti, Katrín á Djarfi, Kristján á Gauki og Sara sat Storm. Öll mjög ánægð, enda eru þetta góðir hestar. Kári var að prófa Létti í fyrsta skipti og var mjög ánægður með hann. Ég læt mig dreyma um að geta farið á bak einhvern tíma í ágúst.

17.7. SUNNUDAGUR

Ljómandi veður, sólskin allan liðlangan daginn, mestur hiti 17°. Upplagt að stússa í garðinum, sem ég hef vanrækt undanfarið.

Jónas er ögn hressari finnst mér. Hann á ennþá erfitt með andardráttinn og stundum erfitt með að tala, en hvort tveggja er talið eðlilegt eftir allt sem á undan er gengið. Hann vill samt endilega spjalla, og ekki vantar skoðanir um allt mögulegt frekar en fyrri daginn. Hann er farinn að borða, en hingað til hefur hann fengið næringu í æð. Mætti segja mér að hann verði ekki hrifinn af spítalamatnum.

18.7. MÁNUDAGUR

Mjög gott veður, sólskin og hlýindi, lítill vindur.

Komst ekki í morgunsundið fyrr en undir hádegi. Hef aldrei áður séð annan eins fólksfjölda í sundlauginni. Allsstaðar þétt skipað fólki nema í heitasta pottinum!

Jónas var heldur úfinn í morgun, óþolinmóður og eirðarlaus. Finnst ósköp lítið gerast á þessum spítala. Hann vill láta sinna sér og þjálfa sig svo að hann komist sem fyrst heim og svo á Reykjalund. Þolinmæði er ekki hans aðalsmerki. Þegar ég kom til hans síðdegis var hann hins vegar jákvæðari og leið betur. Mér finnst honum hafa farið fram, en vissulega gengur það hægt. Þetta er heilmikil vinna og kostar heilmikla þolinmæði.

19.7. ÞRIÐJUDAGUR

Notalegt veður í dag, stillt og hlýtt. 15° hiti, en að mestu sólarlaust.

Batinn sniglast áfram hjá Jónasi. Hann var glaðlegri í dag, hafði farið í labbitúr fram og aftur um ganginn og var hinn ánægðasti að hafa komist loksins, loksins í sturtu. Hann er orðinn almennt jákvæðari og leggur sig allan fram við æfingar. Nú hafa borist út fréttir um sjúklinginn og mikið hringt og mikið spurt á förnum vegi. Ég held að honum þyki mjög vænt um allar kveðjurnar sem honum berast.

20.7. MIÐVIKUDAGUR

Skýjað fyrripart dagsins, sólskin seinnipartinn. Stillt veður og gott. Mestur hiti 14°.

Jónas var algjörlega uppgefinn þegar ég kom til hans í dag. Hafði verið að ganga um gólf og æfa djúpa öndun og sitthvað fleira. Fékk svo heimsóknir og varð svona óskaplega þreyttur af að tala við fólk. Ég skildi við hann steinsofandi skömmu síðar. Hann var svo rétt vaknaður þegar ég kom aftur tveimur tímum síðar. Jónas er að átta sig og er nú farinn að forvitnast um allt sem gerst hefur undanfarnar vikur. Kemur nú margt á óvart, enda hefur þetta allt ruglast og lent saman í einn hrærigraut.

21.7. FIMMTUDAGUR

Nákvæmlega eins veður og í gær. Og enn þarf ég að vökva blómin. Hér hafa naumast fallið dropar dögum saman í þessum mánuði.

Jónas er kannski óþarflega kappsamur. Hann er duglegur að ganga um gólf og vinna að því að efla öndunina. Hann á enn erfitt með öndunina, en niðurstöður af röntgenmyndum eru samt ágætar. Hann er fljótur að þreytast, þyrfti að vera aðeins rólegri. Batinn kemur ekki í neinum hvelli. En þolinmæðin þrautir vinnur allar.