Lífshlaupið

Ég er fædd og uppalin í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu og sæki enn þangað hvíld, orku og ánægju nokkra daga á hverju ári.

Móðir mín, Halldóra Sigurjónsdóttir, var matreiðslukennari og skólastýra Húsmæðraskólans á Laugum. Faðir minn hét Halldór Víglundsson og var smiður, en starfaði í mörg ár sem vitavörður m.a. á Horni og Dalatanga. Elsti bróðir minn er Halldór yfirlæknir á Kristnesi og systir mín Svanhildur er mörgum kunn síðan hún stjórnaði kosningabaráttu Vigdísar Finnbogadóttur árið 1980. Svo eignaðist ég fjóra hálfbræður. Salvar var sjómaður, en dó ungur, hinir eru Hákon Örn vélstjóri, Ragnar Jóhann tæknimaður og Björn, sem um árabil var yfirmaður fíkniefnalögreglunnar. Við erum öll vel við vöxt og því sjón að sjá, þegar við komum saman!

Eftir nám í Menntaskólanum á Akureyri fór ég í Kennaraskólann og útskrifaðist þaðan sem barnakennari. Kenndi þó aldrei nema í tvö ár og komst að raun um hvað kennarastarfið er erfitt, ábyrgðarmikið og vanmetið til launa.

Á unglings- og námsárunum vann ég sem kaupakona og vinnukona í sveitinni minni, í skógræktinni í Vaglaskógi, í frystihúsi og á síldarplani á Siglufirði, og eitt sumar gerðist ég “ópera” í Skotlandi, í eldgömlu hálfhrundu húsi rétt hjá kastalanum fræga í Edinborg.

ritstjori (1)   Fyrir algjöra tilviljun datt ég svo inn í blaðamennsku, sem varð mitt aðalstarf inn á milli barneigna, þar til ég hrökk inn á þing býsna óvænt árið 1983. M.a. starfaði ég á Vikunni, meðan hún enn kom út vikulega eins og nafnið bendir til, og ritstýrði henni í fimm ár, 1974 – 79.Þá varð til Völva Vikunnar og margt annað skemmtilegt brallað, m.a. talað við kónginn í Svíþjóð, fylgst með barnsfæðingu á franskan máta, þjóðkunnir menn teknir í megrunarkúr og garnir raktar úr þingkonum, sem þá voru bara þrjár. Sú tala breyttist ekki fyrr en Kvennalistinn kom til sögunnar.

ungtpar (1)   Eiginmanninum, Jónasi Kristjánssyni, kynntist ég þegar við unnum saman á Tímanum sáluga undir handleiðslu Indriða G. Þorsteinssonar og fleiri stórmenna. Sem betur fer hætti hann, þ.e.a.s. Jónas, ekki í blaðamennskunni, því betri leiðarahöfundur er ekki hér á landi og þótt víðar væri leitað. Vissara þó að taka fram að við erum oft á öndverðum meiði, enda hefur hann ekki hlíft mér né skoðanasystkinum mínum fremur en öðrum þegar hann mundar pennann.

fjolskyldan (1)   Við Jónas eigum fjóra frábæra krakka, sem eru að vísu komnir af krakkaaldri og hafa þegar – með dyggri aðstoð frábærra tengdabarna – lagt sitt af mörkum til þess að við eigum nú átta frábær barnabörn. Af stakri tillitssemi við þessa yndislegu afkomendur verður sá gagnagrunnur ekki opnaður frekar í bili. En hann skipar tvímælalaust sæti nr. 1 í mínu lífi.

hestur (1) Áhugamálin eru alltof mörg, því ég kemst hreinlega ekki yfir þau. Það tímafrekasta er hestamennskan, en hún veitir jafnframt mestu ánægjuna. Hesthúsið er minn staður um helgar á vetrum, ef fundir og aðrar annir hindra ekki, og á sumrin er farið um fjöll og firnindi á hestbaki. Svo eru það skíðin og sundið, blakið og briddsinn, ferðalögin, bækurnar og leikhúsið. Hins vegar er ég óþægilega lítið gefin fyrir stórveislur og hátíðleg tækifæri.

kosningar86 (1)   Ætli við segjum þetta ekki nóg um hina hliðina á konunni, sem kom nokkuð óvænt inn á vettvang stjórnmálanna árið 1983 og hefur ekki getað slitið sig þaðan síðan. Ég hreifst umsvifalaust af stefnu og markmiðum Kvennalistans og ekki síður af krafti og eldmóði þeirra kvenna sem mörkuðu upphaf þeirrar baráttu í byrjun 9. áratugarins. Og áður en ég vissi af var ég komin á þing fyrir þessa hreyfingu ásamt þeim Guðrúnu Agnarsdóttur og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, en við þrjár sátum þetta fyrsta kjörtímabil Kvennalistans á Alþingi 1983 – 1987. Eftir sex ár á þingi vék ég þaðan vegna útskiptareglu Kvennalistans og starfaði næstu sex ár hjá Kvennalistanum þar til ég var aftur kjörin á þing árið 1995.

Kaflanum um Kvennalistann sem sérstakt stjórnmálaafl á Alþingi lauk í febrúar 1999, þegar þingmenn Samfylkingar mynduðu nýjan þingflokk. Sjálf hafði ég þá þegar tekið þátt í myndun nýs stjórnmálaafls, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Ætlunin var þó að sitja í þingflokki Kvennalistans til þingloka, en hann leystist einfaldlega upp við myndun hins nýja þingflokks Samfylkingarinnar.

thingkonur   Þingflokkur Kvennalistans varð stærstur skipaður sex þingkonum 1987 – 1991, en þótt hann yrði ekki stærri og Kvennalistinn tæki aldrei þátt í ríkisstjórn markaði hann tvímælalaust djúp spor í sögu íslenskra stjórnmála sem skipta sköpum í kvennabaráttunni og sjá mun stað langt inn í framtíðina. Sjálf hef ég snúið mér æ meira að umhverfismálum og náttúruvernd sem skipa veglegan og verðugan sess hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Þetta eru þau mál sem nú varða mestu um framtíð okkar á þessari jörð.

breska (1)  Þingmennskan er merkilegt starf og ákaflega sérstakt, stundum reyndar óhóflega annríkt. Sýnilegust almenningi eru ræðuhöldin í þingsal, en þau eru í rauninni aðeins hluti starfsins, sem fer að miklu leyti fram í fastanefndum þingsins og í ótalmörgu öðru utan þings sem innan. Á starfstíma mínum á Alþingi sat ég lengri eða skemmri tíma í allsherjarnefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, fjárlaganefnd, iðnaðarnefnd, samgöngunefnd og umhverfisnefnd. Þrívegis gegndi ég formennsku í þingflokki Kvennalistans, var eitt ár varaforseti Alþingis, fulltrúi í Alþjóða þingmannasambandinu og Evrópuráðinu, sótti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, sat í nefnd um stjórnun fiskveiða, byggðamál, endurskoðun þingskapalaga, stofnun umhverfisráðuneytis, endurskoðun kosningalaga, um skilgreiningu hugtaksins “ósnortið víðerni” og um endurskoðun laga um náttúruvernd, svo að eitthvað sé tínt til. Árin 1989 – 1993 gegndi ég formennsku í Ferðamálaráði Íslands, en á þeim tíma sat ég ekki á þingi.

UN (1)   Í alþingiskosningunum vorið 1999 leiddi ég lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjaneskjördæmi en náði ekki kjöri þótt litlu munaði. Þjóðmálastarf er þó síður en svo eingöngu bundið við beina þátttöku í störfum á Alþingi og ekki hefur skort verkefnin. Um árabil sat ég t.d. í útvarpsráði sem fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og sömuleiðis í nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum. Þá sat ég í stjórn Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í 4 ár, var fulltrúi í Náttúruverndarráði sem var illu heilli lagt niður í árslok 2001, var í aðgerðahópi um Náttúrugripasafn Íslands og sat í aðalstjórn Hjartaverndar um margra ára skeið. Þá sat ég í stjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og gegndi um skeið hlutastarfi á skrifstofu hreyfingarinnar við Lækjartorg í Reykjavík. Árin 2001 – 2005 var ég framkvæmdastjóri flokks og þingflokks Vinstri grænna og hef raunar komið að ýmsum verkefnum fyrir flokkinn fyrr og síðar. Meðal annars sat ég í nefnd fulltrúa allra þingflokka sem forsætisráðherra skipaði í júlí 2005 til að fjalla um lagalega umgjörð stjórnmálastarfsemi á Íslandi. Nefndin skilaði störfum nóvember 2006 og hafði þá náð samkomulagi um fjármálastarfsemi stjórnmálaflokkanna sem þótti marka nokkur tímamót, enda búið að gera margar atrennur að slíku samkomulagi.

nordictravel (1)  Margt fleira hefur reyndar tekið tíma minn og orku síðan þingmennskunni lauk 1999 og ber þar hæst þátttöku í starfi Umhverfisvina sem eru óformleg samtök fólks um allt land. Þau voru mynduð í nóvember 1999 í þeim tilgangi fyrst og fremst að safna undirskriftum til stuðnings kröfunni um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar sem þá var fyrirhuguð til þess að afla orku til reksturs álverksmiðju á Reyðarfirði. Þrotlaust starf og sameiginlegt átak náttúruverndarsinna um allt land varð til þess að 14. febrúar 2000 afhentum við ríkisstjórn Íslands undirskriftir ríflega 45 þúsund Íslendinga til stuðnings fyrrgreindri kröfu. Enginn vafi er á því að þessi aðgerð átti drjúgan þátt í því að Eyjabökkum verður vonandi þyrmt um alla framtíð.

Því miður leið ekki á löngu þar til virkjanaöflin sneru sér af enn meiri krafti að því að afla orku með risavirkjun við Kárahnjúka norðan Vatnajökuls til að knýja risaálver á Reyðarfirði. Það kallaði á harða og langvinna baráttu, fjölmargar mótmælaaðgerðir og baráttufundi, og enda þótt Kárahnjúkavirkjun yrði að veruleika átti öll sú barátta drjúgan þátt í því að efla áhuga og skilning landsmanna á náttúruvernd. Sú staðreynd gefur náttúruverndarsinnum byr undir báða vængi og veitir ekki af því að nóg eru verkefnin.

kynning (1)