DESEMBERDAGAR 2012
15.12. LAUGARDAGUR
Talsvert var hvasst og napurt í dag, en engin úrkoma. Hitinn mældist 1°.
Hér var fjör á Fornuströnd, þar sem stórfjölskyldan vann að laufabrauðsgerð. Laufabrauðið er alveg ómissandi um jól og þykir öllum gott. Aðeins Katrín gat ekki verið með okkur, hún var á vaktinni á Dýraspítalanum. En allt gekk hratt og vel, enda dugnaðarforkar að verki. Okkur finnst öllum gaman að þessu stússi.
16.12. SUNNUDAGUR
Veðrið var nokkuð stillt og þægilegt. Sólin skein, en hitinn komst ekki yfir frostmark.
Jólatónleikar voru hjá Margréti Þóru í Melaskólanum í dag. Alltaf gaman að hlusta á krakkana þar. Kristín spilaði Hey Jude ljómandi vel, og einnig um Jólasveinana, sem ganga um gólf, og allt gekk vel hjá henni. Henni fer stöðugt fram og þykir þetta mjög gaman. Margrét hefur gott lag á krökkunum og það skiptir miklu. Ekki var verra að Sigrún og Pálmi buðu okkur í þetta líka fína jólakaffi eftir tónleikana, foreldrum Sigrúnar, sem koma oftast á þessa tónleika, og nú voru líka foreldrar Axels, sem er góður á píanóinu. Skemmtilegt fólk sem gaman er að hitta.
17.12. MÁNUDAGUR
Í morgunsundinu var -3° frost, en það var lítil hreyfing á veðrinu. Hlýtt og sallafínt í lauginni. Veðrið var reyndar bara ágætt allan daginn. Það munar svo miklu að veðrið sé stillt.
18.12. ÞRIÐJUDAGUR
Ágætt veður hefur verið í dag þótt frostið væri -5 stig og ég þurfti mikið að skafa bílrúður. Sólin skein og veröldin var skínandi falleg.
19.12. MIÐVIKUDAGUR
Í gær var -5 stiga frost, en í dag var hins vegar 5 stiga hiti mestallann daginn. Vindurinn var hvass, og svolítið var rigningin að láta að sér kveða. Og nú hefur hitinn enn hækkað og er kominn upp í 9 stig!
20.12. FIMMTUDAGUR
Enn er þetta ágæta veður. Engin læti í veðrinu og mesti hitinn mældist 8°.
Ég hef lítið æst mig við undirbúning fyrir jólin. Fór í svolítinn leiðangur í dag og fannst bara gaman að sjá fólkið sem er á sprettinum um Kringluna.
21.12. FÖSTUDAGUR
Vetrarsólstöður eru í dag, sem segir okkur að daginn er farið að lengja. Það er merkilegur dagur og gleður að nú mun birta smátt og smátt.
Verðið var ágætt í dag. Mestur hiti mældist 7°.
Við Dóra fórum í Kringluna að sækja síðustu jólagjafirnar og skemmtum okkur vel! Margt skemmtilegt þar að sjá. Og nú er bara að bretta upp ermar og gera klárt fyrir jólin.
22.12. LAUGARDAGUR
Ágætt veður í dag, en með kvöldinu er tekið að hvessa. Hitinn varð mestur hér kl. 6°.
Um fimmleitið kom heldur en ekki bobb í bátinn, rafmagnið sveik og allt varð svart. Sáum ekki baun og þreifuðum okkur eftir kertum og eldspýtum, en ekki bjargaði það neinu, rafmagnið ansaði okkur ekki. Tveir góðir menn komu hver á eftir öðrum til bjargar og veitti ekki af. Stofnöryggið reyndist ónýtt, Hólmsteinn hafði upp á öryggum og Sigurður setti allt í gang. Snillingar báðir.
23.12. SUNNUDAGUR
Nú er það Þorláksmessan sem kætir, líklega þó aðallega að nú er mesta annríkinu lokið. Veðrið var ágætt í dag, og mestur hiti mældist 5°.