JÚNÍDAGAR 2011
1.6. MIÐVIKUDAGUR
Þægilegt veður í dag. Lítill vindur, lítið sólskin, mestur hiti 9°.
Afmæli Svönu í dag. Hringdi til hennar í Varmahlíð í morgun. Þau Þorsteinn bera sig vel, þótt enn sé varla komið almennilegt vor fyrir norðan.
Fékk skemmtilega heimsókn í garðinn okkar hér. Þar sat auðnutittlingur á grein og söng glaðlega í dágóðan tíma. Þessi skemmtilegi litli fugl með rauða kambinn á kollinum er einn af minnstu fuglum landsins. Og hann er líka meðal bestu söngfugla landsins.
Bjarni Eiríkur bauð okkur Jónasi í kvöldmat. Bauð upp á lambakjöt og fjölbreytt meðlæti. Hann er nýfluttur í nýja íbúð á Aflagranda og líður vel þar.
2.6. FIMMTUDAGUR
Misjafnlega notalegt veður í dag. Stundum ágætlega hlýtt þegar sólin skein, en aðeins brá fyrir rigningu.
Ég býð eftir öruggum þurrki til að geta vökvað brekkuvíðinn með grænsápu. Gott ráð til að hrekja ormana á brott án eiturs.
Bjarni Eiríkur snæddi með okkur í hádeginu. Kom færandi hendi með ostaveisluna, sem hann hafði ætlað að bera fram í gærkvöldi. Sagðist hafa gleymt eftirréttinum af því að svo margt var um að spjalla. Hreint ekki verra að borða ostana í hádeginu daginn eftir.
3.6. FÖSTUDAGUR
Þetta veðurfar er orðið hálfgerður brandari. Mætti í morgunsundi kl. 7:30 og stakk mér til sunds í sólskini. Skömmu síðar dundi haglél yfir sundfólkið.
Puðaði heil ósköp í garðinum í dag og fékk yfir mig rigningu milli þess sem sólin skein. Gaf runnum og blómum blákorn og rigningin ákvað að hjálpa til við að tryggja gagnsemi blákornsins.
Fyndið að horfa á skógarþröst rífast við 3 stara. Þeir voru að gæða sér á ormum, einn starinn mataði annan, en þrösturinn mátti ekki vera að því að tína upp í sig, hann hafði svo mikið að gera við að reyna að koma þessum frekjum í burtu.
4.6. LAUGARDAGUR
Í dag var svokallaður Kaldbaksdagur. Fórum austur snemma morguns í rigningu. Fengum ágætt veður uppfrá. Við Jónas, Pétur, Kristján, Katrín og Kári mættum til liðs við Ævar og Ingibjörgu og heilan hóp úr þeirra liði, þar af 6 ungviði. Aðalverkið var að endurbæta girðingar. Mikil vinna, en margar hendur gátu unnið mikið og gott verk.
5.6. SUNNUDAGUR
Nú gefur á bátinn. Í dag er sjómannadagurinn og hraustir sjómenn láta sér fæst fyrir brjósti brenna. Talsvert hvassviðri var víðast hvar um landið. Sums staðar varð fólk að flytja ræðuhöld og skemmtiatriði inn í hús. Svona geta veðurguðirnir leikið landann.
6.6. MÁNUDAGUR
Enn mega landsmenn bíða eftir almennilegu sumarveðri. Útsýnið er nógu fallegt, en varla að maður haldist við utan dyra vegna kalsa í norðanvindinum. Ég lagði ekki í að vökva brekkuvíðinn með grænsápunni, því ég hefði sennilega fengið sápuna mest á sjálfa mig í hvassviðrinu.
Þær skemmtilegu fréttir bárust í dag, að á næstu dögum yrðu afburðanemendum í efnafræði, lífefnafræði og eðlisfræði í H.Í. veitt verðlaun. Þar á meðal fær Katla myndarleg verðlaun. Ekki þau fyrstu um ævina. Verðlaunin nema 750 þús. kr. fyrir frábæran árangur á BS prófi í lífefnafræði í H.Í. Verðlaunaféð kemur sér vel í ströngu námi í Cornell. Við erum stolt af Kötlu og glöð fyrir hennar hönd.
7.6 ÞRIÐJUDAGUR
Ágætt veður í dag, sól mestallan daginn og vindurinn með kurteislegra móti.
Keypti fallegar fjólur og gróðursetti á leiði mömmu. Hún var alltaf hrifin af fjólum. Það var notalegt að staldra við í Grafarvogsgarðinum í hlýindunum.
Dóra mín var vonsvikin og þreytt í gærkvöldi. Var að ganga frá samningi um íbúðina, sem hún leigði í Gent, en svo hætti leigjandinn allt í einu við allt saman. Það var fúlt. En aldrei að gefast upp! Nú auglýsa Dóra og Hera á fésbók þessa fallegu, vel settu íbúð í Gent, og hvetja Íslendinga til að nota tækifærið næstu vikurnar. Stórsniðugt. Vonandi bíta einhverjir á agnið. Gætu átt þar góða daga og yrði þeim mun ódýrara en að gista á hóteli.