Loksins hitnaði í kotinu

DESEMBERDAGAR 2012

1.12. LAUGARDAGUR

Hvasst og kalt í dag og verður verra í nótt. Hiti mældist allt að 4°, en ekki dugði það til að ylja fólki.

Siggi snillingur, réttu nafni Sigurður Guðjónsson rafvirki, hefur verið að lagfæra sitt af hverju í eldhúsinu okkar og víðar. Í dag fékk hann Pálma til aðstoðar og þeir hættu ekki fyrr en allt var komið í fínt lag. Þvílíkur munur!

2.12. SUNNUDAGUR

Vaknaði við rok og rigningu, eins og veðurspáin hafði sagt okkur. Ég kúrði mig um stund. Spratt svo upp til að vekja Sindra og Breka, sem ég ætlaði að senda í skólann í tæka tíð. Sem betur fór var Jónas á vappi og gat komið því í minn haus að nú væri sunnudagur og óþarfi að trufla nætursvefn blessaðra piltanna. Eitthvað hafði mig dreymt skringilega. Þótti þetta góður brandari.

3.12. MÁNUDAGUR

Ótrúlega fallegur og ljúfur dagur. Stillt veður og glampandi sól, svo lengi sem hún fékk að gleðja okkur. Mestur hiti mældist 2°.

Við erum ákaflega ánægð með eldhúsið sem búið er að laga. En næsta mál er ekki síður nauðsynlegt að lagfæra, og fór dagurinn í að finna annan snilling til að lækna forhitara, sem eru að bregðast okkur. Sigurður benti á góðan mann, sem ætlar að koma og skoða vandamálið.

4.12. ÞRIÐJUDAGUR

Fallegur og notalegur morgunn, og veðrið reyndar ágætt allan daginn. Mestur hiti mældist 2°.

Ég beið spennt eftir Júlíusi Einarssyni, sem sagðist reyna að koma við hjá okkur og athuga með forhitara, krana, ofna og fleira. Júlíus kom um kvöldið og reyndist jafn klár og Sigurður hafði sagt okkur, og nú er kuldavandinn leystur í bili. Það hitnaði loks í kotinu. Frekari lagfæringar verða að bíða ögn.

5.12. MIÐVIKUDAGUR

Rigning og hvassviðri. Lítils háttar slydda síðdegis. Skánaði heldur um kvöldið. Mestur hiti mældist 2°.

6.12. FIMMTUDAGUR

Frábært veður, logn, heiðríkt og sólskin svo lengi sem hægt var að njóta þess. Hiti var þó aldrei meiri en 1°. Ljósin blika í Bláfjöllum, væntanlega margir loks á skíðum.

Átti langt og skemmtilegt spjall við hana Möllu mína (Málmfríði), og var fegin að heyra hvað hún virðist spræk og hress. Hún er ekki mikið að kvarta þótt skrokkurinn sé farinn að geri henni erfitt fyrir. Kollurinn er í góðu formi og margt sem hún hefur áhuga á. Merkileg kona Málmfríður Sigurðardóttir.

7.12. FÖSTUDAGUR

Mikið hefur rignt í dag, en hitinn var mældur mestur 5° og engin ástæða til að kvarta yfir veðrinu.