MAÍDAGAR 2011
17.5. ÞRIÐJUDAGUR
Lítið sást til sólar að deginum og vindurinn blés mikinn. Það var kalt úti þótt hitinn færi upp í 11°. Að kvöldi var glaðasólskin, en áfram blés vindurinn og öldur hafsins stökkva að landi.
Ég klæddi mig vel áður en lagt var í reiðtúrinn og veitti ekki af. Fórum Rauðhólahringinn næstum því í einum spretti, enda fengu stuðpinnarnir Logi og Gaukur að ráða för. Ég minnist þess stundum hvernið Gaukur lét fyrstu árin hjá okkur. Hann átti til rokur og frekjugang og ekki alltaf sá þægasti í hópnum. Gaukur er nú 18 vetra og ég nýt þess í botn að ríða þessum hesti. Hann er frábær, viljugur og mjúkur.
Svana fór norður í Varmahlíð í dag ásamt Þorsteini. Hún gat ekki stillt sig þrátt fyrir kuldatíðina, sem er miklu verri þessa dagana en sunnanlands. Hringdi norður og þar er nú ekki kvartað því vindurinn er bara í rólegheitum og það skiptir miklu.
18.5. MIÐVIKUDAGUR
Gott veður, góður dagur. Veðurstofan spáði rigningu með köflum, en sú spá rættist ekki hér um slóðir. Sólin skein í mestallan dag og mestur hiti mældist 10°.
Reiðtúrinn var nokkuð hasarkenndur. Þegar við komum að undirgöngum við Rauðavatnið hittum við þar fyrir háværan krakkahóp í umsjá fullorðinnar konu. Sú virtist ekki sjá neitt athugavert við óp og skræki barnanna, sem trylltu hestana. Jónas var með þrjá hesta, teymdi tvo, Djarf og Prins. Þeir rifu sig lausa og æddu á harðaspani til baka og við á eftir. Hræddust var ég um að þeir lentu fyrir bíl þar sem þarf að fara yfir götu, en sem betur fór varð ekki slys af.
19.5. FIMMTUDAGUR
Hráslagalegt var veðrið í dag þrátt fyrir 10° hita, en mestu ræður hvassviðrið. Við þurfum þó ekki að berja lóminn hér um slóðir þegar litið er til Norðurlandsins. Þar er nú snjókoma eða slydda og alhvít jörð á norðanverðu landinu og vetrarfærð á þjóðvegum. Í sveitum stendur sauðburður nú sem hæst og hefur orðið að taka féð á hús.
20.5. FÖSTUDAGUR
Enn blæs vindurinn meira en góðu hófi gegnir. Gat þó ekki stillt mig um að bregða mér Rauhólahringinn með Gauknum. Fannst stundum sem ætlunin væri að blása mig af baki og út í buskann. En þetta var frábær sprettur.
Seinnipart dagsins hófst flokksráðsfundur VG og stóð allt til kl. 23. Það er langt síðan ég gat sótt slíkan fund og hafði gaman af því að vera loksins með. Umræður voru góðar og fróðlegar, en skemmtilegast var að hitta þarna fullt af fólki sem ég hef lítið séð að undanförnu. Er það sjálfri mér að kenna þar sem ég hef sinnt öðru frekar.
21.5. LAUGARDAGUR
Ágætis veður í dag kom hreinlega á óvart. Sólin skein og hitinn fór upp í 9°. Mestu munaði að vindinn lægði verulega. Enn er kalt fyrir norðan, hiti 1-3° og víða snjóar eða rignir. Um allt land er beðið eftir betra veðri, almennilegu maíveðri. Nýútsprungnir túlípanar bera sig vel í beðinu við gluggann.
Við riðum út í þessu ágæta veðri og buðum síðan hestum okkar að bíta grængresi. Þeir kunnu vel að meta.
Að kvöldi birtist sú frétt að eldgos væri hafið í Grímsvötnum.
22.5. SUNNUDAGUR
Fallegt veður allt til kvöldverðar. Sólskin og 9° hiti, en nokkuð hvasst. Eldgosið í Grímsvötnum er mjög öflugt og meira en gos þar áður. Mikið öskufall berst víða bæði norður, suður og vestur. Hingað er komið öskufall. Jónas og Ævar eru á leið austur, þeir ætla að setja hestana á Kaldbak inn í bragga og tryggja þeim þar hreint vatn og hey.
23.5. MÁNUDAGUR
Á ýmsu gengur í landi voru. Um norðanvert landið er snjór og kuldi. Á suðurlandi er kalt og hvasst. Ætlað var í gærkvöldi að eldgosið í Grímsvötnum væri ef til vill í rénun og öskufallið einnig, en því fór fjarri. Eldgosið er engu minna í dag, og öskufallið er enn meira en áður. Í mestallan dag hefur öskufallið byrgt sýn, fólk sér harla litið í myrkrinu.
Jónas og Ævar fundu ekki hestana í gærkvöldi, enda sást illa til í mistrinu. Þeir gistu á Kaldbak og fundu síðan hestana í morgun. Þeir voru við Stóru-Laxá og virtust í ágætu formi þótt lítið sé enn af nýgresi. Niðurstaðan var að láta þá sig eiga sig þar, en fljótlega þarf að huga aftur að þeim.