Með löpp á lofti

JÚNÍDAGAR 2011

21.6. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætis veður, sól og hóflegur vindur fram eftir degi.

Hannes læknir leit á minn skrautlega vinstri fót í morgun og sendi mig hið snarasta í röntgenmyndatöku, kannski frekar til vonar og vara því enn er fóturinn blár og marinn.

Laufin á brekkuvíðinum eru orðin dálítið götótt og étin. Tók mig því til og vökvaði víðinn rækilega með grænsápujukki, sem ormagreyin eru lítt hrifin af. Ólíkt betri aðgerð en fjandans eitrunin sem alltof margir vilja fá í garða sína. Undir kvöld kom því miður svolítil rigning, en vonandi hefur henni ekki tekist að þvo grænsápuna af runnunum.

22.6. MIÐVIKUDAGUR

Ljómandi veður. Sólin skein allan daginn, en um kvöldið breiddu skýin sig yfir himininn.

Þurfti að erinda vítt um bæinn og endaði í kirkjugarðinum að líta eftir blómunum á leiði mömmu. Fjólurnar hafa náð sér vel á strik og prýða leiðið með sóma. Notalegt að staldra við í góða veðrinu og hlusta á fuglana sem sungu af hjartans gleði. Svona söngvarar þurfa ekki á Hörpu að halda.

Hannes hringdi og staðfesti að ekkert væri brotið í mínum laglega fæti. Yrði ég bara að halda löppinni sem mest á lofti og sýna þolinmæði. Það var nú ekki ætlun mín að eyða dýrmætu sumrinu með löppina á lofti.

23.6. FIMMTUDAGUR

Veðurstofan kom mér á óvart þegar ég gáði að veðurfarinu síðla dagsins. Þar var því hiklaust haldið fram að hér um slóðir hefði rignt meira og minna allan daginn. Við hérna á Seltjarnarnesinu sáum ekki regndropa falla allan liðlangan daginn og var ég þó mikið úti að sýsla í garðinum (stalst til að nota fótinn). Hér var sem sagt sólríkt og gott veður. Kannski ég hætti að taka mark á veðurstofunni.

24.6. FÖSTUDAGUR

Sólskin og gott veður í dag. Gat ekki stillt mig um að puða aðeins í garðinum. Reyni annars að sýna þolinmæði, leyfi löppinni að vera á fyrstu hæð og stytti mér stundir við sudoku og lestur.

Las mikið á Kaldbak og er nú að ljúka við bunkann.

Besta bókin þótti mér Brotin egg eftir Jim Powell, sem kom nýlega út hjá Bjarti. Fannst hún mjög athyglisverð, spennandi og bæði skemmtileg og sorgleg. Finnst endilega að sem flestir ættu að lesa þessa bók.

Við svo búið hellti ég mér í krimmana. Byrjaði á einum eldgömlum eftir Sjöwall & Wahlöö, sem kom fyrst út hér árið 1978. Maðurinn sem hvarf er ágæt lesning og talsvert frábrugðin nýjustu krimmunum. Mál og menning endurútgefur þessar sögur, sem virðast vinsælar.

Dávaldurinn eftir Lars Kepler er löng og mikil glæpasaga. Vissulega margbrotin og spennandi, en nokkuð yfirgengileg. Hefði mátt vera styttri.

Kunni betur að meta nýjustu bók Viktors Arnar Ingólfssonar. Finnst hann góður höfundur og Sólstjakar er vel skrifuð og spennandi bók.

Og nú er ég að ljúka við bók sem ég átti ekki von á að lesa. Harry Potter og viskusteinninn eftir Rowling heitir bókin. Ekki er ég viss um að ég lesi fleiri Potter-bækur, en nú skil ég bara ágætlega hvers vegna þessar bækur hafa orðið vinsælar um lönd og álfur.

Eins gott að hafa nóg að lesa með löppina á lofti.

25.6. LAUGARDAGUR

Ágætt veður í dag, en sólin var í Laddastuði. Við systur köllum það svo þegar sólin er sífellt að bregða sér bak við ský. Þennan brandara skilja ekki aðrir en við og ekki orð um það meir.