Júlídagar 2011
1.7. FÖSTUDAGUR
Hellirigning í mestallan dag og búast má við framhaldi af slíku. Gróðurinn hefur gott af því. Rósirnar eru rétt að byrja að springa út úti í garði.
Við Jónas, Pétur og Marcela fórum til fundar við hjúkrunarfræðing á Landspítalanum. Jónas fer í aðgerð 6. júlí og eins gott að kynna sér málið. Hjúkrunarfræðingurinn lýsti rækilega fyrir okkur öllu varðandi aðgerðina og erum við nú öllu vísari um það sem Jónasar bíður. Þetta er mikil aðgerð og má búast við erfiðum dögum. En Jónas er í góðum höndum Bjarna Torfasonar, sem annast aðgerðina. Hann þykir mjög fær og góður læknir.
2.7. LAUGARDAGUR
Sólarlaust og þungbúið, en ágætis veður. Mestur hiti 15°.
Það var gaman að heyra hljóðið í Svönu, sem hefur verið í Varmahlíð síðan um miðjan maí og mátt þola ótrúlega langvarandi norðangarra nánast allan tímann. Samkvæmt Veðurstofunni þarf að fara marga áratugi aftur í tímann til að finna ámóta kaldan júnímánuð norðaustan lands. Svana sagði mér fyrir nokkru að hún hefði fengið einn verulega góðan veðurdag og tvo sæmilega! En nú er þar komið yndislegt, bjart og hlýtt veður, sem við þekkjum svo vel á þessum slóðum. Vonandi hellir góða veðrið sér yfir norður- og austursvæðin, sem hafa beðið þess lengi.
Minn Varmahlíðartími er í júlí þetta árið og til stóð að drífa sig norður við fyrsta tækifæri. Það verður eitthvað að bíða, en væntanlega geta a.m.k. Kristján og Pálmi brugðið sér þangað með fjölskyldur sínar.
3.7. SUNNUDAGUR
Dálítil gola, sólskin öðru hverju og rigning með köflum. Mestur hiti 15°. Um kvöldið æstist rigningin.
Þegar árvakra liðið mætti í morgunsundið tók snotur gæs á móti okkur og var ekkert á því að hverfa af vettvangi. Hafði synt fram og aftur í sundlauginni og kunni vel við sig þangað til mannfólkið þóttist þurfa plássið. Þá fór gæsin upp á bakka og spígsporaði um, en tók ekki flugið. Ég lagði til að hún fengi eitthvað í gogginn og það reyndist gott ráð. Gæsin snotra át brauðmola af bestu lyst og flaug síðan á brott.
Hef legið yfir tölvunni og horft á allt sem ég finn um Landsmót hestamanna á Vindheimamelum í Skagafirði. Sjónvarpið hefur harla lítið sýnt og sagt frá þessu móti, á þeim bæ kemst fátt annað að en fótbolti. Í dag tók RÚV loksins á sig rögg og bauð upp á tveggja tíma sýningu frá Landsmótinu. Hún var vel þegin, en þó ekki sá hluti hennar sem fór í “Afsakið hlé”.
4.7. MÁNUDAGUR
Lítið sást til sólar í dag, en veðrið að öðru leyti gott og frekar stillt. Mestur hiti 14°. Um kvöldið kom svo steypiregn.
Ég fór út að glugga að sjá fossaflóðið og þá sátu svartbakar í tugatali á lóðinni. Kannski voru þeir að fá sér sturtubað. Svartbakur er sagður óvinsæll. Mér finnst hann flottur og sérlega fallegur á flugi með sitt vænghaf. Hann er talinn stærsti mávur í heimi. Svartbakurinn er mjög áberandi hér á Nesinu. Þessir stóru fuglar eru félagslyndir, þeir sitja hér í hópum á lóðinni, þeir sitja á þökum og á ljósastaurum, og þeir vekja mig eldsnemma á morgnana. Ég sé ekki ástæðu til að kvarta yfir því.
5.7. ÞRIÐJUDAGUR
Frábært veður í dag. Sólskin og góðviðri frá morgni til kvölds, eða öllu heldur fram á nótt. Mestur hiti 17°. Og þvílík dýrðin í kvöldblíðunni.
6.7. MIÐVIKUDAGUR
Indælis veður, sólríkt og hlýtt. Mestur hiti sagður 15°.
Fylgdi Jónasi á Landspítalann kl. 7 í morgun, en ekki var nú verið að drífa í hlutunum. Jónas hringdi skömmu eftir hádegi og sagðist vera á leiðinni á skurðarborðið með ósæðina sína. Vorum við bæði fegin að loks kæmi að þessu nauðsynjaverki. Dagurinn var hins vegar ansi lengi að líða og ég beið óþreyjufull eftir hringingu frá Bjarna lækni. Eftir dúk og disk komst ég að því að aðgerðin hafði hreint ekki hafist fyrr en einhvern tíma milli 3 og 4. Loks hringdi Bjarni læknir kl. 11:30. Hann var nokkuð ánægður með hvernig þetta hafði gengið. Hann lýsti þessu talsvert, en það var svo flókið og fræðilegt að ég treysti mér ekki til að hafa eftir honum. Margir höfðu beðið frétta fram eftir öllu, og nú eru margir fegnir að fara í háttinn.
7.7. FIMMTUDAGUR
Fallegt veður og hlýtt. Mestur hiti 16°.
Ekki varð nóttin síðasta jafn notaleg og til stóð. Skömmu eftir miðnætti hringdi Bjarni og sagði að hann yrði að fá Jónas aftur á skurðarborðið því hann væri með blæðingar sem þyrfti að stoppa. Hann bauðst til að hringja og láta mig vita hvernig gengi. Það þáði ég að sjálfsögðu, en heyrði ekki frá blessuðum manninum fyrr en kl. 5 um morguninn. Var þá loksins búinn að vinna sitt verk og taldi að nú væri þetta allt á góðri leið. Bjarni er ákaflega þægilegur og þolinmóður að skýra málin fyrir fáfróðri konukind.
Við Pétur fórum seint í dag og litum á Jónas. Honum er haldið sofandi og er tengdur við öndunarvél. Okkur var mjög vel tekið, allar slöngur og dót útskýrt og svarað því sem við spurðum um. Okkur Pétri létti mikið við þessa heimsókn. Okkur virðist þetta allt á batavegi.