JÚLÍDAGAR 2011
8.7. FÖSTUDAGUR
Ljómandi veður, sólskin frá morgni til kvölds. Mestur hiti 16°.
Það var gott að heyra í Bjarna lækni í dag. Hann tók góðan tíma til að ganga frá aðgerðinni á Jónasi. Allt gekk vel og nú ætti allt að vera á uppleið. Þessi aðgerð er mjög flókin og erfið. En til eru þeir sem vinna kraftaverkin.
9.7. LAUGARDAGUR
Ljómandi veður, sólskin frá morgni til kvölds. Mestur hiti 16°. Það er að segja allt nákvæmlega eins og í gær.
Jónasi batnar smám saman dag frá degi, en læknum þykir rétt að gefa honum ögn lengri tíma til að jafna sig eftir öll átökin. Honum er því enn haldið sofandi.
10.7. SUNNUDAGUR
Veðurfarið svipað og hefur verið. Sumarið er í essinu sínu.
Pétur sló lóðina í gær og í dag rakaði ég saman. Svartþröstur spígsporaði í kringum mig og tíndi upp í sig. Kannski það sé sá hinn sami sem gæddi sér á eplunum sem ég bar út í snjóinn í vetur. Hann syngur fallega.
Enn er Jónasi haldið sofandi. Öðru hverju er prófað að minnka svefnlyfin og athuga viðbrögðin. Þetta fer allt að koma.
11.7. MÁNUDAGUR
Ágætis veður. Mestur hiti 15°, en sólin lét lítið á sér bera fyrr en undir kvöld.
Eitthvað gott virðist leynast á lóðinni okkar, hún hefur verið þakin fuglum í allan dag eins og reyndar oft áður. Taldi um 40 stara, sem gogguðu stanslaust og hentust til og frá. Fyndið að fylgjast með ungunum sem fylgdu mömmunni fast eftir og heimtuðu frá henni mat í sinn gogg. Svartþrösturinn er ekki boðinn velkominn í hópinn.
Jónas var vakinn upp úr hádeginu í stuttan tíma og síðan aftur seinnipartinn. Við Kristján vorum hjá honum dálítinn tíma. Hann er ekki alveg í sambandi ennþá, en nú ætti þetta að lagast.
Sigrún bauð mér í kvöldmat, bauð upp á gómsætt salat, frábæran lax og heimagerðan ís. Algjör veisla.
12.7. ÞRIÐJUDAGUR
Þungbúið, mestur hiti 12°. Rigndi svolítið seinnipartinn.
Við Pétur, Kristján og Katrín fórum á spítalann um hádegið. Jónasi virtist líða betur. Áttum góðan fund með lækni, sem fór yfir málin og hvernig þetta hefur gengið. Hún taldi okkur óhætt að vera bjartsýn, þetta þokaðist áfram. Enn þarf Jónas að vera tengdur við öndunarvélina, en ætlunin er að losa hann við hana eins fljótt og mögulegt er.
Fór til Kristjáns og Katrínu í mat og fékk svakalega góðan mat eins og við mátti búast.
13.7. MIÐVIKUDAGUR
Ástæðulaust að kvarta yfir veðrinu þótt lítið sæist til sólar í dag og öðru hverju rigndi.
Í morgun losnaði Jónas við öndunarvélina og þarf vonandi ekki meira á henni að halda. Væntanlega verður bráðlega farið að koma honum á fætur og styrkja hann með öllum ráðum. Þetta varð allt heldur erfiðara en til stóð, en hann var vel undir búinn og er vís til að verða orðinn sprækur eftir nokkrar vikur.
14.7. FIMMTUDAGUR
Ágætis veður í dag, sólskin með köflum og stöku sinnum svolítið regn, sem var bara til bóta. Mestur hiti 15°. Sumarkvöldin engu lík, birtan töfrum hlaðin. Fullur máni var glaðhlakkalegur.
Nú var gaman að koma á Gjörgæsluna í morgun. Hjúkrunarliðið var með gleðibragði og sagði mér hvað væri búið að gerast. Þær tóku sig til og hjálpuðu honum fram úr rúminu, hann sat um stund í stól og stóð í fæturna. Þótti þetta allt stórmerkilegt og mikil framför. Ekki þótti mér síður merkilegt að nú hefur hann lifnað heilmikið við og hægt að tala við hann. Ég var heillengi hjá honum og verð að segja að nú kannast ég við þennan mann. Hann er óneitanlega dálítið fúll yfir öllu þessu veseni, pirraður yfir öllum snúrunum sem vefjast um hann, og bakið er að gera hann vitlausan. En nú er þetta allt á uppleið.