Gleði og sorg á Kaldbak

JÚNÍDAGAR 2011

8. – 20 júní

Fórum upp á Kaldbak 8. júní og vorum þar til 20. Dalurinn var fallegur, baðaður sól, þegar við renndum í hlað. En það var kalt í garranum. Marga dagana blés mikið og að kvöldi 9. júní fór að snjóa. Morguninn eftir var Kaldbaksfjall hvítt af snjó niður í miðjar hlíðar. Til þessa hefur veðrið verið mildara á Kaldbak í júnímánuði en þetta vorið. Gróður er með seinna móti og enn er léleg spretta á túnum. Þetta er óvenjuegt en engu að síður fengum við marga góða daga.

Pálmi, Kristín og Áslaug voru með okkur í rúma viku og Sigrún náði einum degi, alltaf mikið að gera hjá henni. Stelpurnar höfðu mjög gaman af að sinna hestunum og fengu að fara hring eftir hring á hestbaki og ætluðu aldrei að fá nóg. Áslaug sat Djarf og Kristín Storm og voru ekkert minna en himinlifandi. Áslaug var eiginlega komin á þá skoðun að hún ætti að eiga Djarf, og hann var reyndar afar þægur og góður við hana. Ekki þótti þeim síðra að heimsækja mæðurnar í Bæjarásnum og skoða tvö nýfæddu folöldin þeirra. Algjört ævintýr.

Kristín lætur sig dreyma um eigin hest. Var mjög dugleg í öllu stússinu, sótti hestana niður á tún og rak þá aftur niður brekkur þegar hallaði að kvöldi. Svo aðstoðaði hún Birki járningamann, sem kom til okkar einn daginn. Ekki ónýtt að hafa svona duglega og áhugasama stúlku, sem er alltaf tilbúin að aðstoða. Kom sér vel því ég var ekki alveg heil. Var svo óheppin að steypast á hausinn í læk og drullu þar sem ég var að teyma Gauk, og þar eð hann var að flýta sér blessaður þá lét hann það vera að sneiða fram hjá mér í drullunni. Hann hljóp hreinlega yfir mig og skildi eftir nokkur hófför á skrokknum! Er enn all skrautleg, bólgin og marin.

En ekki var allt jafn ánægjulegt þessa dagana. Álmur veiktist illa þann tólfta, æddi um friðlaus, henti sér niður og stundi, fékk niðurgang og leið greinilega mjög illa. Dýralæknir kom fljótlega og reyndi hvað hann gat að bæta ástandið, sprautaði Álm og skildi eftir lyf handa honum. Kári gamli var hjá félaga sínum í 2 sólarhringa og virtist einhver bati á ferðinni, en því miður tókst ekki að lækna þessi slæmu veikindi. Niðurstaðan varð að fella Álm. Eiríkur á Grafarbakka brást vel við eins og venjulega og gróf Álmi gröf í Torfholti við hlið fyrri félaga hans.

Álmur varð 25 vetra. Hann var mjög sérstakur hestur, fallegur, rauður, glófextur. Hann var besti hestur Jónasar, aðrir sátu hann ekki. Álmur tölti hratt og mjúkt, knapinn hreyfðist ekki í hnakknum. Hann brá ekki fyrir sig öðrum gangi en töltinu nema þegar hann neyddist til að feta. Eftirminnilegur hestur.

Faðir Álms var Glói Langagerði, föðurafi Reginn frá Kirkjubæ og föðurmóðir Jörp Bakkakoti. Litinn fékk Álmur frá Reginn. Móðir Álms var Komma í Brekkum, móðurfaðir Fönix frá Vík og móðuramma Sunna frá Stórulág. Ganginn hafði Álmur frá Fönix.