Fljúgandi trampólín

APRÍLDAGAR 2011

24.4. SUNNUDAGUR – Páskadagur

Rok, rigning, sól í heiði, haglél, allt þetta skiptist á um að fylla upp í páskadaginn. Mestur hiti 5°.

Bókin um Vigdísi, Kona verður forseti, er merkisbók um merkilega konu. Páll Valsson skráði þessa bók, sem kom út 2009, en ég var nú fyrst að lesa hana. Ég nenni sjaldan að lesa ævisögur fólks, sem ræður sjálft mestu um það sem þar er sett á blað. Bókin um Vigdísi hefur ekki þann svip. Þar virðist sannarlega ekki verið að draga dul á ýmislegt á hennar ferli sem ekki hefur áður komið fram. Mér fannst sérstaklega gaman að lesa um bernsku Vigdísar, fjölskyldu hennar, heimilishald og venjur, nám hennar heima og erlendis. Margt sem þar kemur fram skýrir framkomu Vigdísar og gjörðir. Þessi kona er komin yfir áttrætt, eða tvisvar sinnum 20 eins og hún segir gjarna, og hún er ótrúlega ungleg og starfsöm og hefur ennþá mikið að gefa.

25.4. MÁNUDAGUR

Svipað veður og í gær, nema að vindur var minni. Mestur hiti 6°.

Páskamaturinn var etinn í kvöld. Öll mætt, nema Dóra, Hera, Katla og Marcela í útlöndum. Fengum einstaklega gott hangikjöt, sérlega bragðgott og mjúkt. Hnetusteikin tókst bærilega að þessu sinni og reyndar allt annað, sem í boði var. Og auðvitað var bragðað á páskaeggjum. Krakkarnir eru ekki vaxin upp úr feluleik og skemmtu sér við það og fleira. Góður dagur og notalegur.

26.4. ÞRIÐJUDAGUR

Enn slá veðurguðirnir um sig með talsverðum vindi og geta ekki stillt sig um að senda okkur dembu. Mestur hiti var 9°.

Ég komst ekki í hesthúsið, en Auður fór með afa sínum. Þau fóru í kringum Rauðavatn, Auður á Stormi, sem er uppáhaldshestur krakkanna, Jónas á Gauki og teymdi Létti.

Nú brást Bergsveinn Birgisson mér algjörlega. Handbók um hugarfar kúa nefnist bók hans sem út kom 2009. Af eintómri þrjósku þjösnaðist ég í gegnum þessi ósköp. Viðurkenni raunar að hafa farið á hundavaði yfir sumt. Þvílík rugl og leiðindi.

27.4. MIÐVIKUDAGUR

Ljómandi gott veður í dag, stillt og bjart. Hitinn mældist þó ekki meira en 8°.

Þorgrímur járnaði nýkomnu hestana. Jónas hreyfði alla hestana sex og allt gekk eins og í sögu. Ég þurfti að sinna öðru og öfundaði hann mikið.

Mikið er ég ánægð með þá umfjöllun og gagnrýni sem hefur verið áberandi í fjölmiðlum upp á síðkastið um aðbúð og umönnun dýra í landinu. Unnið er að breyttum og bættum reglum og umsjón með velferð dýra. Við kvennalistakonur ræddum þau mál á sínum tíma og ætluðum að vinna að umbótum á því sviði, en náðum ekki að efna þá fyrirætlun.

28.4. FIMMTUDAGUR

Rok og rigning. Allt að því kolvitlaust veður allan daginn. Björgunarsveitir þurftu að koma til aðstoðar, en ekki mun hafa orðið mikið tjón. Nokkur trampólín flugu út úr görðum og þótti fyndið. Sem betur fór skemmdist víst ekkert á því flugi. Að kvöldi lægði. Mestur hiti mældist 8°.

Las ársskýslu Náttúrufræðistofnunar 2010 í bak og fyrir og fann þar margt fróðlegt og skemmtilegt. Starfsmenn þar gera sannarlega fleira en að spjalla á kaffistofunni. Kristján á þar bæði texta og myndir, meðal annars flottar myndir bæði á forsíðu og baksíðu.

Greip svo til sögu eftir Fred Vargas með þeim aðlaðandi titli Varúlfurinn. Hef ekki fyrr lesið eftir Vargas, en hef nú komist að því að þar fer höfundur sem skrifar sérstakar og spennandi sögur.

29.4. FÖSTUDAGUR

Ágætis veður í dag, skikkanlegur vindur og hitinn um 8°. Svolítið um dembur, sem ekki gerðu óskunda.

Marcela kom heim í dag eftir 6 vikna dvöl í Perú. Er nú kátt í koti, einkum hjá Pétri sem var orðinn leiður á að bíða eftir eiginkonunni.

30.4. LAUGARDAGUR

Furðulegt veður í dag, reyndar fallegt. Logn og lóðrétt snjókoma nánast allan daginn. Mestur hiti 5°.

Fuglar voru frekar hljóðir í þessu undarlega veðri. Svartþröstur sýnir sig hér öðru hverju. Ég leyfi mér að vona að þetta sé sá sem var svo drjúgur að innbyrða eplabitana í garðinum þegar snjórinn huldi allt. Stelkur gerði mér þann greiða að spóka sig heillengi á þaki næsta húss. Hann var svo flottur og spekingslegur, ég horfði lengi á hann.

Páskaliljurnar sprungnar út

APRÍLDAGAR 2011

17.4. SUNNUDAGUR

Haglél, slydda, rigning, mestur hiti 3°.

Mikið um að vera í hesthúsinu í dag. Þurftum að setja alla hestana út í gerði svo að hægt væri að moka út úr stíunum. Vorum 4 saman að stússa og aðstoða mokstursmanninn, sem gekk vasklega fram á bobbkattinum. Er nú fínt hjá hrossunum, minni skítur og betra andrúmsloft. Um kvöldið var svo vanaleg tiltekt þeirra sem eru að enda vikuverkin, heygjafir o.s.frv., og svo er skyldan að þrífa vel í hlöðu og kaffistofu og sópa stéttir. Við létum ekki okkar eftir liggja.

Sindri og Breki komu heim í dag eftir góða daga hjá mömmu sinni. Ómar og Hilma undirbjuggu þessa líka fínu veislu á Lundi í tilefni af afmæli Sindra. Strákurinn orðinn táningur! Þeir bræður voru þreyttir, en sannarlega glaðir og ánægðir.

Pálmi, Sigrún, Auður, Kristín og Áslaug óku alla leið í Varmahlíð í dag. Ætla að eiga þar góða daga eftir hentugleikum og var gott í þeim hljóðið. Kristján, Katrín, Kári og Kristinn vinur hans láta hins vegar fara vel um sig á Kaldbak.

18.4. MÁNUDAGUR

Talsverð snjókoma í allan dag með uppstyttu öðru hverju. Mestur hiti var um 5° og aldrei verulega kalt.

Höfuðpaurinn í Hafbergi bauð okkur í hádegisverð. Fengum bragðsterka og góða súpu, steinbít og keilu. Jónas sækir fisk í matinn 4 – 5 sinnum í viku og spjallar við fisksalan í leiðinni. Sá er væntanlega ánægður með þennan ötula kúnna.

Páskaliljurnar að springa út þrátt fyrir umhleypingana, og fleiri jurtir á leiðinni.

19.4. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætis veður með köflum. Hófsamleg hríð öðru hverju. Mestur hiti 5°. Að kvöldi kom svo dynjandi rigning. Veðurfræðingarnir eru orðnir hálf feimnir við að spá. Fólk kvartar yfir þessu veðurfari. Ég nenni því ekki, enda þokkalega sátt þar sem okkur hefur tekist að stunda útreiðar á hverjum degi.

Dreif mig loksins í sund eftir 12 daga hlé. Eftir þessi ósköp er algjör óþarfi að fá kvefpest fyrr en eftir langan, langan tíma. Og hana nú.

20.4. MIÐVIKUDAGUR

Alskýjað og svolítil rigning fram eftir morgni. Fór þá sólin að gægjast undan skýjunum og stakk þau nánast af.

Fórum Rauðhólahringinn í dag, það er einna skemmtilegasta leiðin með hestana.

Síðasti vetrardagur segir almanakið og sífellt fjölgar farfuglunum.

21.4. FIMMTUDAGUR – Sumardagurinn fyrsti

Stundum hefur nú sumardagurinn fyrsti verið notalegri en daginn þennan. Vesalings skátarnir þrömmuðu til kirkju án yfirhafna og reyndu að bera sig vel. Það rigndi mikið á suðvesturlandinu og hvassviðrið bætti ekki úr skák. Skátastelpurnar áttu í miklum vandræðum með stuttu pilsin sín. Um miðjan daginn var hávaðarok og læti.

Besta veðrið var fyrir austan og norðaustan. Skildingarnir hafa valið rétta staðinn. Þeim líður vel í Varmahlíð og hafa áreiðanlega heyrt betur í fuglum þar en hér. Þar mun mestur hiti hafa verið 10 – 12°.

22.4. FÖSTUDAGURINN langi

Allgott veður í dag. Hitinn fór upp í 8° og vindurinn ekki með nein læti. Okkur tókst nú samt að lenda í talsverðri rigningu í reiðtúr kringum Rauðavatnið. Hefðum betur verið seinna á ferð því þá létti til.

23.4. LAUGARDAGUR

Veðrið byrjaði bærilega. Logi, Djarfur og Prins voru sóttir á Kaldbak og eins gott að því var lokið áður en veðrið brjálaðist. Að kvöldi var orðið mjög hvasst og rigndi mikið og stöðugt. Spáð er enn verra veðri á morgun.

Auður spilaði Pink Panter fyrir troðfullu Háskólabíói

APRÍLDAGAR 2011

10.4. SUNNUDAGUR

Grenjandi rigning og vindstrekkingur í allan dag. Rigningin bylur á rúðum og vindurinn skekur fánastengur, ljósastaura og tré. Flugvélar hafa ekki komist að Flughöfninni og farþegar hafa orðið að bíða í vélunum á vellinum tímunum saman. Mikið hefur gengið á vítt um vegi og hlutir fjúka, sérstaklega á Suðurnesjum. Manni dettur nú bara í hug: Hverju reiddust goðin? Ætli þau viti annars nokkuð um Icesave!

Auður fermdist borgaralega í dag ásamt 89 öðrum táningum og jafn mörg fermdust stuttu síðar. Athöfnin fór fram í Háskólabíói og var bráðskemmtileg að vanda. Fermingarbörnin léku á hljóðfæri, lásu ljóð, dönsuðu, fluttu sögur, ávörp, uppistand og Páll Óskar Hjálmtýsson flutti ávarp við mikinn fögnuð. Auður lék á píanó The Pink Panther Theme og stóð sig afar vel, virtist hvergi bangin að sitja ein á sviði og spila fyrir troðfullu Háskólabíó. Svo var að sjálfsögðu glæsileg veisla í Skildinganesi 37. Margt fólk, frábærar veitingar. Gaman að hitta allt fólkið þótt ekki gæti það allt stillt sig um að rausa svolítið um Icesave kosningarnar.

11.4. MÁNUDAGUR

Ögn skikkanlegra veður í dag en í gær, en á ýmsu gekk. Verst þykir mér að horfa á aumingja vetrargosana, sem fóru illa út úr óveðrinu í gær. Margir hafa þó yfir alvarlegra tjóni að kvarta, en sem betur fór slösuðust engir.

Það var gaman að eiga þátt í sköpun VG fyrir 12 árum. Það sem hreif mig mest voru áherslur á náttúruvernd og umhverfismál, útrýmingu kynjamisréttis og aukinn jöfnuð í samfélaginu. Árum saman var frábær andi í þessum ágæta flokki, félagar unnu vel saman, þótt ekki væri nein feimni við að gagnrýna og berjast fyrir eigin sjónarmiðum. Nú virðist öldin önnur. Það er erfitt að standa nú álengdar og reyna að skilja þann skolla sem ruglar þetta eitt sinn skemmtilega samfélag, enda aðstæður ótrúlega erfiðar. Margt hefur þar vissulega verið vel gert, yfir sumu hefur maður grett sig og fyrirgefið dræmt, en í þetta sinn er ég reið. Guðfríður Lilja var að koma aftur til starfa eftir hálfs árs fæðingarorlof og bjóst við að taka að nýju við sem formaður þingflokks, en meirihlutinn vildi að Árni Þór, sem hafði leyst hana af, héldi embættinu. Árni Þór er vinnusamur og klár, en það er Guðfríður Lilja einnig og hún vildi halda sínu starfi áfram. Framganga félaga hennar í þingflokki VG er fullkomlega ómakleg og niðurlægjandi. Sem sagt ég er reið.

12.4. ÞRIÐJUDAGUR

Eins og fyrri daginn er stundum rigning, stundum snjóél, stundum sólarglenna. Mestur hiti í dag 7°.

Ennþá er ég kvefuð, hóstandi og snýtandi, en nú þoldi ég ekki lengur við og heimtaði að fara með í hesthúsið. Það var ljúft gaman. Ætlaði eiginlega bara að kemba hestunum, sérstaklega Gauki sem er eins og bjarndýr nýkomið úr vetrarhíði. En svo stóðst ég ekki mátið og við fórum í reiðtúr. Mikið skelfing leið mér vel. Vonandi versnar ekki kvefið.

13.4. MIÐVIKUDAGUR

Svipað veður og í gær nema rigningin var heldur ágengari og varla hægt að nefna sólina sem gerði heiðarlega tilraun til að láta sjá sig. Létum ekki rigninguna hindra okkur í léttum reiðtúr og gekk vel.

Árni Þór sá að sér og afþakkaði formennsku í þingflokki VG. Guðfríður Lilja afþakkaði skiljanlega boð um að taka við embættinu og það hafnaði að lokum hjá Þuríði. Ég er orðin alveg gáttuð á þessum þingflokki. Þetta er orðinn hálfgerður hænsnakofi. Ásmundur Daðason kom félögum sínum algjörlega á óvart í umræðum um vantraust á ríkisstjórnina, sem sjálfstæðismenn lögðu fram. Ásmundur kastaði bara hnakka og sagðist ekki geta stutt ríkisstjórnina. Kannski man hann bara ekki alltaf hvaða flokki hann tilheyrir – eða tilheyrði.

14.4. FIMMTUDAGUR

Rigning, hríð eða nánast slydda, talsvertur vindur, frekar kalt, enda 1-2° hiti mestur þennan daginn. Og nú er ekki um annað að gera en að brynja sig þolinmæði, því samkvæmt veðurfræðingum eru umhleypingar líklegar áfram.

Við höldum okkar striki og skellum okkur í stutta reiðtúra á milli rigningademba og haglélja. Blessaðir klárarnir þurfa viðrun og hreyfingu, þeir láta sér stuttar ferðir nægja, þangað til veðrið batnar.

15.4. FÖSTUDAGUR

Vindurinn var hóflegri í dag. Hitinn var vel yfir frostmarki. Svo var þetta venjulega: stundum rigning, stundum hríð, en oft var líka úrkomulaust.

Ég var farin að halda að ég væri veik, orðin þreytt á hnerrum og hóstum og snýtum og blóðnösum og nefið orðið aumt og rautt. Fór til Árna heimilislæknis míns í dag, eins og ég geri gjarna þegar ég er farin að halda að eitthvað sé að mér, og hann læknaði mig eins og venjulega. Hann segir að mér sé greinilega að batna. Og ég trúi því. Mjög einfalt.

16.4. LAUGARDAGUR

Veður var bara nokkuð gott í dag, skikkanlegur vindur, lítil úrkoma og sólskin með köflum. Mestur hiti 5°.

Lóan hljómar angurvært. Minnir kannski eins og mig að oft sé svo gott veður í apríl. Ég fletti upp í dagbók minni fyrir ári og sé þá að ekki hafa hlýindin verið meiri þá en nú.

Og nú var farið á bak

APRÍLDAGAR 2011

1.4. FÖSTUDAGUR

Margbreytilegt veður í dag. Oftast ágætt, stundum sólskin, stundum rigning, mestur hiti 5°.

Birkir á Hæli ætlaði að koma í dag til að járna hestana okkar og allt til reiðu. En þá fengum við þær leiðu fréttir að hann hefði meiðst á hendi þar sem hann var einmitt að járna, og þar með er ljóst að hann járnar ekki alveg á næstunni. En sem betur fór frétti ég af góðum járningamanni, Þorgrími að nafni, og hafði upp á honum. Við mæltum okkur mót í hesthúsinu að morgni sunnudagsins.

Gaman var að fylgjast með lokahrinu Útsvarsins í sjónvarpinu í kvöld, þar sem úrslit réðust ekki fyrr en í síðustu spurningu. Akureyringar höfðu heilmikið forskot þegar kom að síðasta keppnisatriðinu, og áttu sjálfsagt flestir von á sigri Akureyringa. En keppni er ekki búin fyrr en hún er búin, eins og spekingar segja. Raunin varð að lið

Norðurþings vann lið Akureyrar með 75 stigum gegn 73.

2.4. LAUGARDAGUR

Veður líkt og í gær. Var þó betra að því leiti að sólin fékk meira svigrúm til að verma okkur. Svo brá fyrir ósköp fallegri hríð í nokkrar mínútur síðla kvölds. Líklega bara til að minna okkur á að það er bara 2. apríl og við öllu að búast.

Þótt engu sé svo sem að treysta í veðurfarinu þá er sjálfsagt að lifa á bjartsýninni. Vetrargosinn breiðir æ meira úr sér og páskaliljurnar eiga ekki langt í land. Og fuglarnir eru sammála.

3.4. SUNNUDAGUR

Fallegt veður í dag, heiðríkt og lítill vindur. Þrátt fyrir sólskin frá morgni til kvölds fór hitinn ekki upp fyrir 4°.

Loks er búið að járna hestana. Þorgrímur Hallgrímsson mætti í hesthúsinu kl. 10 og gerði það sem gera þurfti. Mig blóðlangaði að skella mér strax á bak, en fannst vissara að hafa Jónas mér við hlið svona í fyrsta skipti eftir mjaðmaraðgerðina. Hann er í önnum, en getur vonandi komið með mér á morgun. Ef vel gengur get ég svo bjargað mér sjálf.

4.4. MÁNUDAGUR

Dálítið napurt í morgun, vindurinn sá um það. Hlýnaði heldur þegar á leið, en skýin földu sólina að mestu. Hiti mældist allt að 5°.

Og nú var farið á bak! Heldur var ég kaufaleg að koma mér í hnakkinn, en svo gekk þetta allt eins og í sögu. Hestarnir voru sem hugur manns rétt eins og við hefðum verið í reiðtúr í gær, en ekki fyrir 6 mánuðum. Voru léttir á fæti og auðfundið að þeir væru til í drjúgan sprett. Svona á lífið að vera.

5.4. ÞRIÐJUDAGUR

Hitinn fór upp í 6° í dag, en það gekk á ýmsu. Veðrið var stundum milt og gott, og sólin skein öðru hverju, en stundum var líka ausandi rigning. Við fórum í góðan reiðtúr í góðu veðri, en nokkrum föðmum frá rigndi rækilega.

Í hádeginu fór ég á skemmtilegan fyrirlestur, sem kallaðist: Frá mæðrahyggju til frjálshyggju. Hugmyndir um opinbera þátttöku kvenna 1900-2010.

Þorgerður Einarsdóttir prófessor í kynjafræði flutti fyrirlesturinn, sem fjallaði m.a.um þátttöku kvenna í opinberum nefndum, ráðum og stjórnum og hvernig þær leituðust við að ná fram jafnrétti á því sviði. Það var þungur róður hjá konunum í byrjun 20. aldar, og þeirri baráttu er ekki lokið. Þorgerður bar saman ýmislegt í kvennabaráttunni fyrir ríflega 100 árum og í okkar samtíma. Furðulegt hvað margt er enn með sama sniði. Salurinn var þéttsetinn og við hristum höfuð og hlógum að þessari fáránlegu togstreitu sem engan endi ætlar að taka.

6.4. MIÐVIKUDAGUR

Svipað veður og í gær. Sluppum vel í reiðtúr og fórum svo með hestana á Dýraspítalann til Katrínar. Hún sprautaði þá, raspaði tennur og hreinsaði skaufa. Allir vel á sig komnir.

Fór á síðasta fund vetrarins með EVG (eldri vinstri græn) um kvöldið. Hef því miður lítið sótt þessa fundi, sem eru yfirleitt góðir. Í þetta sinn var dagskrárefnið um útgáfustarfsemi kvenna og skáldkonurnar Halldóru B. Björnsson og Málfríði Einarsdóttur. Auður Styrkársdóttir, Unnur María Figved, Þóra Elfa Björnsson, Berglind Gunnarsdóttir og Guðný Ýr Jónsdóttir sögðu frá og voru hver annarri skemmtilegri. Karlarnir mættu ekki síður en konurnar, sýndu þar meiri áhuga á efninu en karlarnir á fundinum í gær.

7.4. FIMMTUDAGUR

Enn er baráttan milli sólar og regns. Talsverður vindur, jafnvel rok með köflum, sem fór illa með vetrargosana. Mestur hiti 6° og vonandi meiri hlýindi framundan.

Sindri og Breki flugu til Amsterdam í morgun. Verða hjá mömmu sinni og Heru í 10 daga. Það var mikil tilhlökkun hjá þeim þegar ég hitti þá í gærkvöldi, og ekki var síður tilhlökkun hjá þeim sem biðu þeirra á flugvellinum í Amsterdam.

Varð að sitja heima í dag, því ég er allt í einu orðin ferlega kvefuð, þarf að snýta mér látlaust, hósta og skyrpa. Ekki viðraði til útreiðar, en Jónas fór í hesthúsið, ætlaði að setja hestana í gerðið og hafði með sér verkefni að fást við meðan þeir skemmtu sér utan húss. Stormur og Léttir sneru aldeilis á hann, komust út úr gerðinu og hlupu út um víðan völl. Jónas eltist við þá lengi vel í haugarigningunni og fékk loks aðstoð frá góðu fólki. Annað eins gerist nokkuð oft í Víðidalnum, og þá hjálpast fólk að.

8.4. FÖSTUDAGUR

Ágætis veður, alskýjað. Mestur hiti 7°. Nánast engin úrkoma fyrr en að kvöldi, þá var hálfgert Nóaflóð.

Svaf drjúgan hluta dagsins, enda er fátt betra en góður svefn þegar heilsan er ekki alveg 100%. Er orðin hálfleið á hnerrum, hóstum og snýtum.

Einnig mjög leið orðin á icesave. Nokkuð góður þáttur í RÚV í gærkvöldi og annar í kvöld þar sem Steingrímur og Sigmundur Davíð skiptust á skoðunum. Mundi þá allt í einu eftir ansi góðu orðatiltæki: Ég geri aldrei skyssu (smá þögn) ég viðurkenni það að minnsta kosti aldrei!

9.4. LAUGARDAGUR

Miklar rigningar og hvassviðri. Þrátt fyrir það fór hitinn upp í 10° hér um slóðir, en allt að 20° t.d. á Vopnafirði. Undarlegt.

Sindri Snær er 13 ára í dag. Afmælisóskum rignir yfir hann á fésbók og þau Breki, Dóra og Hera halda upp á daginn í Brüssel.

Tjaldurinn og vetrargosinn koma með vorið

MARSDAGAR 2011

23.3. MIÐVIKUDAGUR

Gott veður í dag, milt og notalegt. Hiti mældist yfir frostmarki, en sólin fékk ekki að skína.

Fuglarnir fögnuðu veðrinu og sungu frá morgni til kvölds. Fyrsti svangi fuglinn var mættur í garðinum áður en ég lagði af stað í morgunsundið. Setti út epli sem var uppétið þegar ég kom heim. Seinni hluta dagsins þyrptust að fuglar og hreinsuðu upp bæði eplin og brauðið sem á borðstólum var. Þeir tístu mikið og hoppuðu fram og aftur.

24.3. FIMMTUDAGUR

Alskýjað og rigning með köflum. Hlýnaði smám saman uns mælirinn sýndi 7° að kvöldi.

Fylgdist með mínum skemmtilegu gestum, sem eru alltaf jafn fegnir að finna eitthvað ætilegt í garðinum. Leist þó ekki á þegar ég sá einn þröstinn hoppa afkáralega og sá loks að blessaður fuglinn var slasaður á fæti sem stóð út í loftið. Hann flaug þó eins og ekkert væri.

Jón Hallur Stefánsson skrifaði glæpasöguna Krosstré fyrir allnokkru og mér fannst hún ágæt. Næsta bók hans heitir Vargurinn, ég nældi mér í hana á bókamarkaðinum í Perlunni og var að lesa hana. Varð því miður ekki hrifin. Fannst hún einhvern veginn úti á túni. Náði ekki til mín.

25.3. FÖSTUDAGUR

Milt og gott veður í dag, vantaði bara sólskinið. Mestur hiti 5°. Nú er bara að vona að færðin lagist fyrir ofan Þverspyrnu svo að við komumst með hestakerruna upp á Kaldbak og aftur til baka með hesta í kerrunni!

Snjórinn er smám saman að bráðna og þá kemur margt skemmtilegt í ljós, sérstaklega í beðinu sunnan undir. Þar er vetrargosinn að breiða úr sér með fallegu hvítu blómin sín.

Tjaldur var að spranga um á sjávarbakkanum í dag og tína upp í sig. Mér finnst alltaf tjaldurinn vera vorboði ekki síður en lóan. Hún velur sér aðra staði frekar en Seltjarnarnesið lítið og lágt. Tjaldurinn og vetrargosinn færa okkur vorið.

26.3. LAUGARDAGUR

Ágætis veður í dag, en þokuloft mestallan daginn. Lítill vindur, mestur hiti 4°. Sólin í felum eins og fyrri daginn.

Enn er verið að agnúast út í göngin sem gera á í Vaðlaheiði og ætlunin að hefjast handa að hausti. Þeir sem nöldra hafa að öllum líkindum lítið þurft að nota Víkurskarðið og að minnsta kosti alls ekki að vetri til. Sjálfri líður mér ekki vel á leiðinni yfir skarðið jafnvel að sumri. Á m.a.s. erfitt með að njóta hins fagra útsýnis af skarðinu því mér finnst þessi leið liggja beint í sjóinn. Vegurinn um Víkurskarðið þótti mikil bót, enda Vaðlaheiðarvegurinn gamli ótrúlegt fyrirbæri. Ég var vön að telja beygjurnar til að hafa eitthvað fyrir stafni meðan rútan sniglaðist upp á topp og aftur niður. Man því miður ekki tölurnar, en þær skiptu tugum. Því er ekki að undra að notendur Víkurskarðsins urðu fegnir, að minnsta kosti þar til þeir þurftu að fara um það að vetrinum. Víkurskarðið er vissulega til bóta við skikkanlegar aðstæður, en þetta er erfiður og hættulegur vegur í snjóþyngslum og skelfilegur í hálku. Víkurskarðið verður örugglega notað til jafns við nýju göngin næstu árin, en fegin mun ég fara Vaðlaheiðargöng þegar þannig stendur á.

27.3. SUNNUDAGUR

Veðrið breytist lítið þessa dagana. Fremur milt veður, alskýjað, úrkomulítið, mestur hiti 5°.

Kristján er 47 ára í dag. Heimsóttum fjölskylduna í Birkigrund og fengum þessa líka frábæru köku með kaffinu þar í tilefni dagsins. Þau eru flink á þessum bæ að töfra fram frábærar kökur og fleira góðgæti. Ekki hafa þau lært það frá mér.

Fyrsta bókin eftir breska (bandaríska?)höfundinn Meg Rosoff nefnist Þannig er lífið núna. Er eiginlega orðlaus að lestri loknum. Bókin gagntók mig. Slík bók hverfur ekki strax úr huganum.

28.3. MÁNUDAGUR

Svipað veður og verið hefur. Stillt veður, skýjað, mestur hiti 4°, rigning að kvöldi. Ekki veit ég hvers vegna Veðurstofan birtir mynd af glaðhlakkalegri sól og heldur því blákalt fram að hininninn sé heiðskír allan seinnipart dagsins og fram eftir kvöldi. Einhver hefur ruglast á vaktinni.

Aumingja Dóra braut litlu tána. Lexía: Aldrei brölta til þarfinda sinna berfætt í myrkri. Stóll eða sófi bíður þess að bregða fyrir fæti.

29.3. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætis veður í dag. Milt sem fyrr, hitastig um 5°, lítil úrkoma.

Og loks gafst okkur tækifæri til að bruna austur í Hreppa í trausti þess að vegarspottinn milli Þverspyrnu og Kaldbaks væri orðinn fær til hestaflutninga. Hestarnir voru í miklu stuði, hlupu sem óðir um túnin. Mátti ætla að þeir væru að æfa sig fyrir þátttöku í æsispennandi kapphlaupi. Við sóttum reiðtygi og fleira í skemmuna og komumst að raun um að mýs höfðu búið sér ból í kistu, sem hafði m.a. að geyma hjálma og fleiri nauðsynjar. Æ, æ, flest stórskemmt, tætt og ónýtt. Eins og litlu mýsnar eru sætar!

Hestarnir fengu molana, sem þeir eru svo sólgnir í. Tókst vel að bregða múl á Gauk, Storm og Létti og koma þeim í hestakerruna. Vegurinn niður að Þverspyrnu var hræðilegur að vanda. Kerran dunkaðist áfram yfir holur og grjót, og fegin vorum við að komast á malbikið. Eftir það gekk allt með ágætum. Eru nú allar stíur vel setnar.

30.3. MIÐVIKUDAGUR

Talsverður vindur og rigning með köflum. Hiti 6°.

Gaukur minn er dálítið spaugilegur, ótrúlega loðinn með sítt skegg rétt eins og geithafur. Ég var heilan klukkutíma að skafa hann og bursta og nú er hann líkari sjálfum sér. Nema skeggið. Stormur og Léttir eru mjög lítið farnir að fella hár og því einfaldara að snyrta þá. Aðalmálið er að greiða úr flækjum í faxi og tagli.

31.3. FIMMTUDAGUR

Líflegt veðurfar, öðru hverju hellirigning, en gott á milli. Sólin stekkur inn á sviðið við tækifæri og stundum í miðri dembu. Mestur hiti í dag 7°.

Er komin með harðsperrur í handleggina eftir hestakembingar, en reyndar ekki síður eftir átökin við að skrúbba músétnu hjálmana. Sennilega enda ég með því að henda þeim flestum.

Pétur lenti síðdegis kátur og hress eftir skemmtilega daga í Perú. Marcela kemur hins vegar ekki fyrr en eftir 4 vikur.

Undraglæstur ofurmáni

MARSDAGAR 2011

16.3. MIÐVIKUDAGUR

Ágætis veður fram eftir degi. Hægur vindur og hógvær snjókoma. Vindinn herti síðari hluta dagsins og frostið var komið niður í -11° síðla kvölds. Veðurspámenn lofa engu góðu næstu daga.

Stundum verð ég alveg gáttuð á því sem ríkisstjórnin er að brölta. Nýlega upplýsti Steingrímur fjármálaráðherra að á síðustu tveimur árum hefði verið fækkað um 540 stöðugildi hjá ríkinu. Reisupassann í þeim stóra hópi fengu 70 karlar og 470 konur. Ekki fylgdi nein skýring á þessum hróplega kynjamun.

Örstuttu síðar boðaði Jóhanna forsætisráðherra aðgerðir stjórnvalda, sem ætlað væri að skapa að minnsta kosti 2200 ársverk. Þar með ætti atvinnuleysið að minnka og hagvöxtur að eflast, sagði Jóhanna. Og um hvaða atvinnu skyldi nú vera að ræða? Jú, Jóhanna tíndi til kunnuglega atvinnuþætti, svo sem aukna afkastagetu álversins í Straumsvík, framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun, byggingu kísilmálmverksmiðju í Helguvík, hreinkísilverksmiðju í Grindavík, natríumklóratverksmiðju á Grundartanga og svo að sjálfsögðu vegamál. Allt saman verkefni sem fyrst og fremst kalla á karlmenn. Eða er búist við að konurnar, sem misst hafa atvinnu hjá ríkinu, á sjúkrahúsunum, í skólunum, í leikskólunum o.s.frv. o.s.frv., muni þyrpast í atvinnubótavinnuna á vegunum og í verksmiðjunum sem boðið er upp á?

17.3. FIMMTUDAGUR

Hvasst og fremur kalt í dag og snjóbyljir alltaf öðru hverju. Frostið mældist þó ekki mikið yfir -3°. Seinni part dags lygndi og birti upp.

Var að fletta bókinni Konur og kosningar, sem Gísli Jónsson, sá góði kennari, tók saman fyrir ríflega 30 árum. Þar segir hann frá baráttu fyrir auknum réttindum kvenna á fyrri hluta tuttugustu aldar og ekki síst umfjöllun alþingismanna um kosningarétt og kjörgengi kvenna, sem margir áttu erfitt með að sætta sig við. Sú barátta tók allmörg ár. Konur fengu loks rétt til kosninga og kjörgengis árið 1915 og fögnuðu því mjög þrátt fyrir að þurfa að sæta aldursmörkum, en með nýrri stjórnarskrá árið 1920 var lögfest fullt og skilyrðislaust jafnræði kynjanna um kosningarétt og kjörgengi.

Baráttukonur þessa tíma máttu þola margt ranglátt og furðulegt sem þingmennirnir létu frá sér fara í umræðum um þessi mál á Alþingi. Okkur finnst það vissulega furðulegt, en ekki síst hlægilegt. Hér eru nokkur orð Jóns Ólafssonar þingmanns sem dæmi:

“Ég er því hlynntur, að konur fái jafnrétti við karlmenn, því að þótt gáfnafari og lundarfari sé ólíkt farið og konur skorti oftast dómgreind á við karlmenn, þá bæta konur það upp með öðrum kostum. Siðgæðistilfinning kvenna er meiri en karla, og þær láta síður leiðast af eigingjörnum hvötum”.

Og Jón í Múla átti mörg undarleg orð í þessum umræðum:

“Eðlismunur karla og kvenna verður ekki afnuminn með alþingislögum. Sá munur er mikill og merkilegur, og sérhvað það, sem eins og þessi nýmæli, miðar til að gera þann mun minni, eða sljóvga náttúrlegt eðli, er skaðlegt og hefnir sín með aukinni ófarsæld þeirra, sem hlut eiga að máli”. Og sami þingmaður segir: “Ég er svo sannfærður sem maður getur verið, að öll þessi svonefnda kvenréttindahreyfing, sem nú er að ná yfirtökunum, er óheillaspor er hlýtur að leiða til vaxandi lífskvalar, sem þó mun varla vera á bætandi”.

Svona töluðu þeir sumir karlanna árið 1911 – fyrir einni öld. Og ekki er alveg víst að karlar nútímans hafi enn náð fullum skilningi á stöðu kvenna í þessum heimi.

18.3. FÖSTUDAGUR

Enn minnir veturinn á sig óþyrmilega. Frostið svo sem ekki mikið, mest -2° í dag, en vindurinn sér um kuldann, og hríðin kemur í gusum.

Mér þótti sérlega gaman að lesa Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson, sem út kom fyrir síðustu jól. Og nú fékk ég í hendurnar fyrstu bók Bergsveins, Landslag er aldrei asnalegt, sem kom út 2003. Það tók mig smátíma að átta mig á hvert höfundur stefndi og hugsaði gjarna með mér að þetta gæti nú ekki jafnast á við bréfið til hennar Helgu. En allt komst þetta til skila, og nú er ég ekki síður ánægð með bókina hans Bergsveins um lífið í Geirmundarfirði.

19.3. LAUGARDAGUR

Vaknaði snemma morguns, það snjóaði inn um gluggann. Éljagangur fram eftir degi og talsverður vindur. Létti til um miðjan dag og sólin fór að skína. Drifhvítur snjór yfir öllu. Mest frost -4° að deginum.

Um kvöldið mældist frostið -6°. Var þá komið logn, og alheill máni speglaði sig í sjónum. Þetta er enginn venjulegur máni, heldur er kallaður ofurmáni! Tunglið er nær jörðu þetta kvöld en það hefur verið síðastliðin nítján ár. Það er nærri þriðjungi bjartara en venjulega og 14% breiðara samkvæmt Vísindavefnum.

Pétur og Marcela flugu til Amsterdam í morgun og þaðan liggur svo leiðin til Perú. Ekki seinna vænna hjá Marcelu að kynna eiginmanninn fyrir sinni fjölskyldu. Pétur hringdi frá Amsterdam yfirmáta sakbitinn, taldi sig hafa gleymt giftingarhringnum sínum í bakkanum hjá öryggisleitinni, þar sem fólki er gert að afhenda hina ótrúlegustu hluti til athugunar. Mér tókst að hafa upp á hringnum góða eftir samtöl við að minnsta kosti fjóra starfsmenn í flughöfninni í Keflavík. Vonandi fær Pétur ekki neinn efasemdarsvip frá tengdaforeldrunum þegar þau sjá engan hring á baugfingrinum! En hringurinn bíður hans þegar hann kemur til baka.

20.3. SUNNUDAGUR – JAFNDÆGUR Á VORI

Ágætt veður lengst af. Allsterkur vindur, -6° í morgun en rétt um frostmark þegar á leið. Jafndægur á vori veitir vissa ánægju, en fegin vildi ég kveðja snjóinn og kuldann sem hafa ráðið ríkjum lengi.

Boðið upp á dögurð sunnudagsins. Pétur og Marcela fjarri, Dóra og Hera í Brüssel, Pálmi í útvarpinu og Katrín þurfti að bjarga börnum úr móðurkviði lítillar tíkur. Við hin áttum engu að síður góðar stundir. Bókfinkan, sem brestur í söng þegar klukkan er 13, gladdi mannskapinn, ekki síst yngsta fólkið. Þá gerði svartþröstur, reyndar kvenkyns, okkur þann greiða að kroppa úr eplinu sínu úti í garðinum af mikilli áfergju án þess að hafa áhyggjur af áhorfendum.

21.3. MÁNUDAGUR

Ágætt veður fram eftir degi. Hiti mældist mest 2° og sólin skein dágóða stund um miðjan daginn. Nær kvöldi snjóaði.

Mikið fjör í garðinum. Þangað streymdu bæði venjulegir þrestir, svartþrestir og starar og kepptust við að gogga í eplin. Mjög gaman að fylgjast með þeim.

Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason kölluðu til sín fréttamenn um hádegisbilið og upplýstu að þau hefðu fyrir stundu sagt sig úr þingflokki Vinstri grænna. Þau hafa ekki verið sátt við starfið í þingflokknum og ríkisstjórninni og hafa ekki legið á óánægju sinni. Hins vegar er ekki augljóst hvers vegna þau velja þennan tíma til brottgöngu, þau skýrðu það ekki sérstaklega á fundinum.

Ýmislegt var látið fjúka á blogginu í tilefni af þessum atburði. Jóhanni Haukssyni varð hugsað til Soffíu frænku þegar hann velti fyrir sér dugnaði Lilju og kætti marga þegar hann minnti á sönginn hennar Soffíu:

Já, fussum svei, já fussum svei, ég fyllist gremju og sorg,

það kveður lítt að körlum hér í Kardimommuborg,

en væru allir eins og ég þá yrði betra hér,

það virðist ekki lýðnum ljúft að læra neitt af mér.

Iss.

22.3. ÞRIÐJUDAGUR

Fjör í veðrinu. Vaknaði við hríð og læti í morgun. Sólin kom upp kl. 8 eins og ekkert væri og skein hin glaðasta yfir sundfólkið. Ekki leið á löngu áður en stórhríð barði að dyrum og huldi næstu hús. Og í miðju áhlaupinu braust sólin gegnum ský. Þessir veðurguðir geta aldrei ákveðið sig. Og ég moka og moka snjó í þeirri von að enginn fari á hausinn í tröppunum.

Þórður og Sólrún komu til okkar í bridds, en þá hittist svo á að Sindri og Breki komu til okkar líka. Urðum reyndar svolítið sein fyrir þegar ég sótti strákana, því það tók langan tíma að finna Breka, sem var að leika sér út um borg og bí með Andra vini sínum. En allt gekk vel, við spiluðum og strákarnir sinntu sinni heimavinnu. Komu svo og voru með okkur í matnum. Þeir höfðu ýmislegt að segja gestum okkar og var gaman að hafa þá með okkur. Þeir voru svo ekki alveg búnir að fá útrás, þeir klæddu sig í ömmugallana og veltu sér upp úr snjónum af mikilli kátínu.

Svartþrösturinn sér um sig

MARSDAGAR 2011

8.3. ÞRIÐJUDAGUR

Í nótt hlóðst niður snjór og bættist við hann fram eftir degi. Mikill snjór var í útiklefanum og ekki þægilegt að ganga um laugarbakkana. Frostið fer vaxandi.

Við höfðum vonast til að komast upp á Kaldbak að sækja hesta nú í vikunni. Veðurspáin lofaði góðu, en spáin hefur breyst. Snjókoman er ekki minni upp frá og þar er nú ekki verið að ryðja og þétta vegi fyrir höfuðborgarskrílinn. Það er því ekki annað til ráða en að bíða betri tíma.

9.3. MIÐVIKUDAGUR

Veröldin var falleg í dag, björt og hrein, en ansi köld. Frostið mældist mest -10° um miðjan daginn.

Fór í göngutúr á Kotagranda, klædd hlýjum galla og loðhúfu. Ekki veitti af þar sem vindurinn var meiri en ég átti von á. Var eldrauð og köld í framan þegar heim kom.

Breki og Sindri brugðu sér í Plútóbrekku með sleða sína. Þeir skemmtu sér vel, en tolldu ekki lengi vegna kuldans. Þó voru þeir klæddir góðum flíkum af ömmu sinni. Þeim finnst það alltaf jafn snjallt.

10.3. FIMMTUDAGUR

Talsverður vindur og -9° í morgun. Napurt var að koma út og ekki batnaði þegar leið á daginn. Himinninn var heiður og fagur fram eftir morgni, en nær kvöldi blés vindurinn svo hraustlega að snjórinn þyrlaðist upp í strókum.

Sturturnar í útiklefanum voru frosnar og ég varð að fara í inniklefa, sem er náttúrlega bara áfall. Hafði ekki komið í slíkt og þvílíkt síðan árið 2004! Rataði varla þar um.

Varð harla kát þegar ég sá svartþröst kominn að gæða sér á epli úti í beði. Var orðin áhyggjufull yfir kostgangaranum mínum, sá hann ekkert í gær. En svartþrösturinn var greinilega feginn að finna epli og vonandi kemur fastagesturinn fljótlega líka.

11.3. FÖSTUDAGUR

Talsvert dró úr frostinu í dag. Í morgun voru -8°, en -5° að kvöldi. Sólin lét lítið sjá sig og vindur blés nokkuð.

Allison Panther frá Bandaríkjunum er komin til Íslands til að afla upplýsinga um Kvennalistann, sem átti fulltrúa á þingi frá 1983 – 1999. Guðrún Agnars bauð henni og nokkrum kvennalistakonum í kvöldmat í Lækjarási 16. Ég sótti Allison, sem vill raunar vera kölluð Allie, og flutti fram og til baka. Guðrún bauð upp á dýrindis súpu og súkkulaðiköku með ávöxtum. Einkar ljúft og gott eins og hennar er vandi. Þarna voru 10 hressar kvennalistakonur og þeim var sumum svo mikið niðri fyrir að þær töluðu oftar en ekki margar í einu. Það hefði verið í góðu lagi ef aumingja Allie hefði skilið eitt orð í íslenskunni sem gjarna tók völdin. Hún virtist þó hafa gaman af fjörinu

12.3. LAUGARDAGUR

Frábært veður. Nánast logn, og frostið minnkaði þegar leið á daginn. Glampandi sólskin frá morgni til kvölds.

Fékk mér góðan göngutúr og heilsaði upp á selinn á skerinu. Hann leit nú ekki við mér blessaður, en það er gaman að horfa á hann.

13.3. SUNNUDAGUR

Ágætis veður og hartnær logn fram eftir degi. Sá þó lítið til sólar þennan daginn. Síðla dags herti vind. Um kvöldið var orðið verulega hvasst og talsverð úrkoma.

Í dag var haldið upp á 9 ára afmæli Kristínar, sem var raunar 7.3. Að hennar beiðni var boðið upp á dýrindis bollukaffi í Skildinganesinu. Vatnsdeigsbollurnar slógu gjörsamlega í gegn. Algjört gómsæti. Við gáfum Kristínu m.a. Laxdæla sögu, hún er svo dugleg að lesa og verður gaman að vita hvernig henni líkar þessi forna Íslendingasaga.

Svartþrösturinn var einn um eplið í beðinu. Hef ekki séð aðra fugla þar síðustu daga. Kannski þeir séu hræddir við svartþröstinn, eða kannski líst þeim ekki á allan snjóinn í garðinum. Kári gamli mætti alveg rýma til fyrir vorinu svona hvað úr hverju.

14.3. MÁNUDAGUR

Endemis leiðindaveður, rok og rigning mestallan daginn. Eins gott að ekki var frost. Hitinn mældist mest 6° í höfuðborginni.

Í nótt gekk á ýmsu. Fólk hafði t.d. lagt á Holtavörðuheiði þrátt fyrir veður og varnaðarorð, og björgunarsveitir höfðu nóg að gera. Bílar urðu eftir á heiðinni, fólk var ferjað niður í sveitir, og um morguninn var hafist handa við að bjarga bílunum. Víðar urðu erfiðleikar vegna veðurofsa og ófærðar, og nokkur óhöpp urðu hér og þar, en engin stórslys.

Hera er 22 ára í dag og hamingjuóskum rignir inn á fésbókina. Greinilegt að hún á mikinn fjölda vina. Í afmælisveislu Kristínar í gær notuðum við tækifærið og sungum afmælissönginn líka fyrir Heru. Hennar er mikið saknað.

Góði elskhuginn eftir Steinunni Sigurðardóttur var meðal bókanna sem ég keypti mér á bókamarkaðinum um daginn. Mér leist ekki of vel á þessa bók í byrjun, lét hana m.a.s. fara svolítið í taugarnar á mér. Það gjörbreyttist þegar á leið. Ég skildi við þessa ágætu bók í góðri sátt í gærkvöldi.

15.3. ÞRIÐJUDAGUR

Er nú aftur frost á Fróni og harla ónotalegt utan húss. Hvasst og öðru hverju snjófjúk. Sólin gerði nokkrar tilraunir til að senda okkur birtu og yl, en varð óðar að hörfa. Upp úr hádeginu brast á stórhríð sem dundi yfir með köflum.

Þurfti að þurka snjó af bekknum í útiklefanum í morgun og allt orðið aftur snævi drifið þegar ég kom úr sundinu. Mætti vera notalegra. En morgunsundið er alltaf jafn nauðsynlegt hvernig sem viðrar.

Við Guðrún Agnars og Allie brugðum okkur á Háskólatorgið og spjölluðum þar saman um liðna tíð. Mér fannst gaman að koma á torgið sem ég hef ekki fyrr séð. Allie er þegar búin að leita upplýsinga um Kvennalistann hjá allmörgum konum og á enn eftir að hitta nokkrar. Hún lofaði að senda okkur ritsmíðina að henni lokinni.

Fundnir þjófar í Reykjadal

MARSDAGAR 2011

1.3. ÞRIÐJUDAGUR

Í dag hefur hríðað nánast sleitulaust. Frekar stillileg og falleg hríð. Hitinn var rétt yfir frostmarki, en hækkaði undir kvöldið. Veðurstofan lofar ekki langvinnu logni, spáir vindi og éljum í fyrramálið.

Svana færði mér þær fréttir í dag, að Lögreglan á Húsavík væri búin að hafa upp á innbrotsþjófunum, sem fóru um Reykjadalinn í nóvember síðastliðinn og brutust inn á nokkrum stöðum. Verst fóru þeir að ráði sínu á Narfastöðum, í búðinni og Dalakofanum, skemmdu og stálu ýmsu á þeim stöðum. Lítinn skurk gerðu piltarnir í Varmahlíð, en engum finnst notalegt að frétta af óboðnum gestum í sínu góða húsi. Málið telst nú upplýst, og verður það meðhöndlað sem sakamál.

2.3. MIÐVIKUDAGUR

Sæmilegt veður, skikkanlegur vindur, hófleg úrkoma, mestur hiti 3°. Þrösturinn minn (ég leyfi mér að halda að þetta sé alltaf sami þrösturinn) er algjörlega í mötuneyti hjá mér hér úti í garði. Alltaf jafn gaman að fylgjast með honum, en eins gott að fara varlega svo að hann fljúgi ekki upp.

3.3. FIMMTUDAGUR

Ágætis veður. Rigning stöku sinnum. Mestur hiti 5°.

Pálmi hringdi í mig kl. hálfellefu og bauð mér að koma með sér á forsýningu í Þjóðleikhúsinu kl. 11. Við stukkum af stað og ekki sé ég eftir því. Þar sáum við leikritið Allir synir mínir eftir Arthur Miller, eitt mesta leikskáld 20. aldarinnar. Mjög gott verk og vel leikið. Frábær sýning.

Nemendur í Hagaskóla efndu til góðgerðadags í dag. Þau buðu upp á alls konar veitingar, happdrætti, völundarhús, spádómshús og draugahús svo að fátt eitt sé nefnt. Draugahúsið þótti ákaflega spennandi. Auður og vinkona hennar gengu um og buðu upp á knús fyrir 20 krónur! Ég fékk ljómandi knús hjá Auði og borgaði vel. Fjöldi fólks kom í Hagaskóla og studdi þetta skemmtilega og góða starf nemendanna. Allur ágóði söfnunarinnar rennur til tveggja málefna, sem nemendur hafa valið að styrkja. Annað er Barna- og unglingageðdeild Landspítalans en hitt er öllu lengra í burtu eða í Suður-Afríku. Þar eru íslensk/suðurafrísk samtök, sem styðja stúlkur og ungar konur sem búa við fátækt og bágar aðstæður þar um slóðir. Frábært og þroskandi framtak nemendanna í Hagaskóla.

Um kvöldið spiluðum við brids við Sólrúnu og Þórð. Nóg að gera allan daginn.

4.2. FÖSTUDAGUR

Bjart og fallegt veður. Mestur hiti 4°.

Guðrún Agnarsdóttir kom í heimsókn færandi hendi með bráðfallega klukku, þar sem fuglar marka tímann og syngja glaðlega þegar nýr klukkutími tekur við. Alltaf jafn væn og góð vinkona hún Guðrún mín. Við sátum saman lengi vel og höfðum margt að spjalla.

5.3. LAUGARDAGUR

Stormur og ausandi rigning daginn langan. Mestur hiti 7° síðla dagsins. Sá ekkert til fuglanna í þessari endalausu rigningu.

Utangarðsbörnin heitir glæpasaga sem ég var að ljúka við. Fyrsta skáldsaga sænskrar konu að nafni Kristina Ohlsson. Spennandi og vel skrifuð bók, en satt að segja býsna óhugnanleg.

6.3. SUNNUDAGUR

Stormur og éljagangur. Hitinn enn yfir frostmarki, mestur hiti 3° í dag, en búist við kólnandi veðri næstu daga.

Það var fátt í morgunsundinu, enda ekki aðlaðandi veður. Í lauginni gekk vatnið í bylgjum og vindurinn sá m.a.s. til þess að haglið næði inn í útiklefann. Þetta var samt ágætt og heilsusamlegt.

Skugga-Baldur eftir Sjón las ég fyrir alllöngu, en fann ekki bókina þegar ég ætlaði að rifja hana upp. Svo fann ég hana á bókamarkaðinum um daginn. Ömurleg og andstyggileg, en hrífandi og vel gerð, hvernig sem það þykir eiga saman.

7.3. MÁNUDAGUR

Þennan daginn berjast vindurinn og snjókoman við birtuna og góðviðrið. Þau fyrrnefndu hafa það betur, satt að segja miklu betur. Það ýmist dimmir eða birtir út um gluggann minn. Dimmir reyndar oftast og iðulega hefur ekki sést út úr augum. Vindurinn þeytti hríðarhraglandanum inn í útiklefana í morgun. Lá við að það borgaði sig ekki að þurrka sér eftir sundið því fötin voru þakin snjó. Hitastigið er komið niður fyrir frostmarkið og fram undan er mikið frost.

Nafna mín Pálmadóttir er 9 ára í dag, sú ljúfa stúlka. Afmælisveislan verður að bíða því systur hennar, Auður og Áslaug, eru báðar lasnar. Þegar ég hringdi í Kristínu sat hún hin ánægðasta og horfði á Schreck og hlakkaði til kvöldsins að borða eitthvað gott.

Hellt úr skálum skýja

FEBRÚARDAGAR 2011

22.2. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætt veður. Nokkuð skýjað, en sólin lætur ekki að sér hæða og skín öðru hverju. Mestur hiti 5°.

Á enn dálítið af tólgarbitum sem stararnir kunna vel að meta. Þeir koma í þéttum hópi og er gaman að fylgjast með þeim. Krummi hafði svolítinn áhuga á þessum kræsingum, en stararnir gáfu honum enga möguleika.

23.2. MIÐVIKUDAGUR

Grenjandi rigning í morgunsárið. Síðan aðeins lítils háttar rigning með köflum þar til kvöldaði. Sólin skein öðru hverju í dag og hitinn mældist 7°.

Náði loksins sambandi við Dóru, sem hafði verið önnum kafin. Þær Hera voru báðar lurkum lamdar eftir flutningana í nýja bústaðinn í Brüssel, sem ég hélt reyndar að væru löngu afstaðnir. En þetta er alltaf vesen hversu smátt sem flytja þarf. Annars var gott í þeim hljóðið, hafa nóg að gera í vinnunni og finnst gott að búa saman.

24.2. FIMMTUDAGUR

Áfram nokkuð gott veður. Mestur hiti í dag 6°. Alskýjað þennan daginn og öðru hverju frekar hógvær rigning þar til hellt var úr skálum skýja að kvöldi.

Hittum Ingibjörgu og Ævar á Höfninni. Það er notalegur veitingastaður við sjávarströndina, sem hefur mjög góðan mat á boðstólum. Ég valdi skelfisksúpu með humri, kræklingi og hörpuskel og síðan gufusoðinn krækling frá Stykkishólmi. Þyki sjálfsagt nokkuð einhæf í mataræði, en mér þykir einfaldlega fátt betra en sjávarfang af þessu tagi. Algjört gómsæti.

25.2. FÖSTUDAGUR

Heldur kólnar í veðri. Hitastigið var 4° í morgun, en síðan kólnaði jafnt og þétt. Skyndilega kom hríð og skafrenningur seinnipart dagsins. Það stóð að vísu stutt og sólin hélt að nú væri komið að henni. Hún stóð sig vel, en fljótlega kaffærðu skýin hana.

Svönu varð fótaskortur í göngutúr sínum í dag, var of upptekin af fuglum og trjám. Óhappið kostaði margra klukkutíma hangs á slysavarðstofunni, en er sem betur fer ekki brotin. Sé fram á að ekki komi hún með mér í níræðisafmæli Inga Tryggvasonar á sunnudaginn.

26.2. LAUGARDAGUR

Bættist við snjóinn í nótt, ekkert þó til trafala. Hitinn var um 1° og svolítill vindur. Öðru hverju sendu skýin okkur snjóhraglanda.

Lauk nýlega lestri bókar eftir Sofi Oksanen. Hreinsun nefnist sú merkilega bók, sem fjallar um reynslu fólks í Eistlandi undir hæl Sovétríkjanna. Mögnuð bók og margverðlaunuð. Það tekur á að lesa þessa bók. Hún hlífir engum.

27.2. SUNNUDAGUR

Sæmilegt veður. Misjafnlega hressileg rigning með köflum. Sólin fékk aðeins stuttan tíma til að sýna sig. Mestur hiti 6°.

Ingi frændi Tryggvason varð níræður 14. febrúar og bauð til afmælisveislu í gamla hótelinu í Hveragerði í dag. Þar var troðfullt hús og heil ósköp af hnallþórum. Rúmbi þandi nikkuna og Hera Björk söng fyrir Inga, aðallega lög Fikka á Halldórsstöðum. Guðni Ágússon stjórnaði þessum viðburði og notaði að sjálfsögðu tækifærið til að viðra sína eigin persónu og segja misjafnlega góða brandara. Þegar nokkrir gestanna voru búnir að nota hljóðnemann til að mæra afmælisbarnið (-barnið!) stungum við Jónas af. Hefði þó gjarna viljað kveðja Inga og Unni, en ekki auðvelt að komast að þeim í þessum mannfjölda.

28.2. MÁNUDAGUR

Ólíkindalæti í veðrinu. Furðu hlýtt að morgninum, hiti um 6°. Í morgunsundinu dundi yfir haglél svo að beit í andlitið. Nokkrum mínútum síðar sópuðust skýin í burtu og fuglarnir upp hófu glaðlegan söng! Svo kólnaði og rigndi öðru hverju. Seinni hluta dagsins var háflóð og ægir henti gusum upp á bakkana. Þetta var eins og að horfa á hveri gjósa.

Fórum á bókamarkaðinn í Perlunni og komum hlaðin heim. Ég keypti m.a. Fjallaþyt, úrval úr ljóðum Hákonar Aðalsteinssonar, sem lést fyrir tveimur árum. Skemmtilegur karl, þekktur hagyrðingur. Svohljóðandi sjálfslýsing hans er dæmigerð:

Ég er mjúkur, hægur, hlýr,

hefi kosti þráða.

Undirgefni í mér býr

ef ég fæ að ráða.

Eplastríð í garðinum

FEBRÚARDAGAR 2011

15.2. ÞRIÐJUDAGUR

Fallegt veður í dag, sólríkt og bjart, en nokkuð hvasst og kalt.

Fékk tiltektarkast og var töluvert ánægð með að hafa loksins mannað mig upp í örlítinn myndarskap. Ekki þó hollt að gera mikið af slíku í einu!

Sá allt í einu að páskalaukarnir eru komnir vel upp úr moldinni hér sunnan undir. Þeim hefur greinilega vegnað vel undir snjónum.

16.2. MIÐVIKUDAGUR

Fínt veður, lítill vindur, sólskin með köflum, mestur hiti 2°.

Hengdi eplabita á runna og horfði á þröstinn vin minn gæða sér á bitunum mér til mikillar ánægju. Hann er þar oftast einn á ferð.

17. 2. FIMMTUdAGUR

Skínandi fallegt veður. Frekar stillt, mestur hiti 5° um miðjan daginn.

Brunuðum upp á Kaldbak í þessu listafína veðri. Gott færi alveg þangað til komið var fram hjá Hruna. Eftir það varð æ meiri hálka og verst þegar við vorum komin að Kaldbak. Þar dansaði jeppinn á gleri. Komumst að bragganum, en lögðum ekki í brekkuna upp að húsi. Ég ætlaði að þramma við kantinn upp eftir, en það var m.a.s. flughált á snjónum meðfram veginum. Reyndum að heimsækja hestana á túnunum upp af aðaltúnunum, en komumst ekki yfir skurðina, nenntum ekki að kafffærast undir snjófarginu. Horfðumst í augu við vini okkar handan skurða. Þeir voru afar vonsviknir að fá ekki molana sína.Virtust þó vel haldnir.

Marcela á afmæli í dag. Hún heitir reyndar hvorki meira né minna en Miriam Pacheco Velasques, en Marsela er hún kölluð.

Máninn hátt á himni skín, segir Jón Ólafsson í kvæðinu góða. Það á vel við einmitt núna.

18.2. FÖSTUDAGUR

Fallegt veður, en talsverður vindur. Hiti mældist mest 3°.

Gekk um Suðurnesið og var fegin hvað ég klæddi mig vel. Gaf fuglunum á Bakkatjörn. Þar var mikið fjör. Taldi 20 svani, en gæsirnar voru óteljandi.

Fóðra þröstinn vin minn með hálfu epli á dag. Þori ekki að hafa það meira meðan hann situr einn að krásinni, gæti annars fengið magapínu. En það er mjög gaman að fylgjast með honum.

19.2. LAUGARDAGUR

Hiti mældist mest 7° í dag. Sólin hefði mátt skína lengur, en því var ekki að heilsa. Með kvöldinu var orðið alskýjað og talsvert hvasst.

Fyndið að fylgjast með eplastríðinu í garðinum. Þrösturinn, sem setið hefur einn að krásunum síðustu viku, var allt í einu umkringdur 5-6 boðflennum sem vildu taka þátt í máltíðinni. Var nú mikið fjör, tíst og þeysingur fram og aftur milli runna. Þrösturinn eini telur sig greinilega ráða ríkjum og rak alla í burtu um leið og þeir nálguðust eplabitana um of. Hann varði þetta eplaborð af þvílíkum dugnaði, að hann hafði ekki nokkurt næði sjálfur til matar. Boðflennurnar hörfuðu að lokum. Eftir sat þrösturinn eini og nartaði í epli. Alllöngu síðar var minnsti og horaðasti þrösturinn kominn og naut þess að sitja einn að því sem eftir var af eplaveislunni. Honum veitti ekki af.

20.2. SUNNUDAGUR

Frábært veður, stillt og fallegt. Glaðasólskin. Smáfuglarnir sungu af hjartans lyst í góða veðrinu.

Stórfjölskyldan kom í hádegisverð. Vantaði þó þrjú, þ.e. Sindra, sem var slæmur í maga, Auði, sem var hjá vinkonu sinni uppi í Borgarfirði, og Pálma, sem var í vinnunni á RÚV. Buðum m.a. upp á verðlaunaköku ársins til heiðurs Marcelu, sem átti afmæli á fimmtudaginn.

Fór í góðan göngutúr, sem varð þó aðeins skemmri en ég ætlaði. Var búin að fara um Suðurnesið, en þegar ég ætlaði að fara út í Gróttu þá voru slík ósköp af bílum og fólki að ég lét vera að sinni.

Heldur dró úr ánægju dagsins þegar Ólafur Grímsson fékk orðið í sjónvarpinu og upplýsti að hann ætlaði að vísa IceSave samningnum til þjóðarinnar. Ég er hlynnt þjóðaratkvæði þegar við á. Hef sjálf unnið að söfnun undirskrifta m.a. í þágu náttúruverndar þar sem ríflega 45 þúsund manns undirritaði áskorun um aðgerðir gegn spjöllum á náttúrinni í tengslum við virkjunaráform. Ekki dugði það til að vekja ráðamenn í það skiptið. En það er eitthvað bogið við það sem nú hefur gerst, bæði við undirskriftirnar og einnig viðbrögð forsetans. Maður hefur svona á tilfinningunni að sviðsljósið skipti forsetann mestu. Kunningjakona mín ein kallar það “áberusýki”. En hvað um það, nú fær þjóðin að kjósa og vonandi verður heiðarleiki og skynsemi í fyrirrúmi.

21.2. MÁNUDAGUR

Hlýtt, lítill vindur, alskýjað. Mestur hiti 5°. Veðurstofan hélt því fram allan liðlangan daginn að hér um slóðir yrði stöðug rigning, jafnvel mikil rigning. Þessi merka rigning sást ekki hér á Seltjarnarnesinu fyrr en um kvöldið.

“Mörg eru ljónsins eyru” heitir bók Þórunnar Erlu-Valdimarsdóttur. Efniviðinn er hún sögð hafa sótt sér til Laxdælu. Ekki hreyfst ég af þeirri aðferð hennar og heldur ekki bókinni sjálfri. Var nýbúin að lesa bók Þórunnar “Stúlka með fingur” og fannst hún ólíkt skemmtilegri og betri.