APRÍLDAGAR 2011
24.4. SUNNUDAGUR – Páskadagur
Rok, rigning, sól í heiði, haglél, allt þetta skiptist á um að fylla upp í páskadaginn. Mestur hiti 5°.
Bókin um Vigdísi, Kona verður forseti, er merkisbók um merkilega konu. Páll Valsson skráði þessa bók, sem kom út 2009, en ég var nú fyrst að lesa hana. Ég nenni sjaldan að lesa ævisögur fólks, sem ræður sjálft mestu um það sem þar er sett á blað. Bókin um Vigdísi hefur ekki þann svip. Þar virðist sannarlega ekki verið að draga dul á ýmislegt á hennar ferli sem ekki hefur áður komið fram. Mér fannst sérstaklega gaman að lesa um bernsku Vigdísar, fjölskyldu hennar, heimilishald og venjur, nám hennar heima og erlendis. Margt sem þar kemur fram skýrir framkomu Vigdísar og gjörðir. Þessi kona er komin yfir áttrætt, eða tvisvar sinnum 20 eins og hún segir gjarna, og hún er ótrúlega ungleg og starfsöm og hefur ennþá mikið að gefa.
25.4. MÁNUDAGUR
Svipað veður og í gær, nema að vindur var minni. Mestur hiti 6°.
Páskamaturinn var etinn í kvöld. Öll mætt, nema Dóra, Hera, Katla og Marcela í útlöndum. Fengum einstaklega gott hangikjöt, sérlega bragðgott og mjúkt. Hnetusteikin tókst bærilega að þessu sinni og reyndar allt annað, sem í boði var. Og auðvitað var bragðað á páskaeggjum. Krakkarnir eru ekki vaxin upp úr feluleik og skemmtu sér við það og fleira. Góður dagur og notalegur.
26.4. ÞRIÐJUDAGUR
Enn slá veðurguðirnir um sig með talsverðum vindi og geta ekki stillt sig um að senda okkur dembu. Mestur hiti var 9°.
Ég komst ekki í hesthúsið, en Auður fór með afa sínum. Þau fóru í kringum Rauðavatn, Auður á Stormi, sem er uppáhaldshestur krakkanna, Jónas á Gauki og teymdi Létti.
Nú brást Bergsveinn Birgisson mér algjörlega. Handbók um hugarfar kúa nefnist bók hans sem út kom 2009. Af eintómri þrjósku þjösnaðist ég í gegnum þessi ósköp. Viðurkenni raunar að hafa farið á hundavaði yfir sumt. Þvílík rugl og leiðindi.
27.4. MIÐVIKUDAGUR
Ljómandi gott veður í dag, stillt og bjart. Hitinn mældist þó ekki meira en 8°.
Þorgrímur járnaði nýkomnu hestana. Jónas hreyfði alla hestana sex og allt gekk eins og í sögu. Ég þurfti að sinna öðru og öfundaði hann mikið.
Mikið er ég ánægð með þá umfjöllun og gagnrýni sem hefur verið áberandi í fjölmiðlum upp á síðkastið um aðbúð og umönnun dýra í landinu. Unnið er að breyttum og bættum reglum og umsjón með velferð dýra. Við kvennalistakonur ræddum þau mál á sínum tíma og ætluðum að vinna að umbótum á því sviði, en náðum ekki að efna þá fyrirætlun.
28.4. FIMMTUDAGUR
Rok og rigning. Allt að því kolvitlaust veður allan daginn. Björgunarsveitir þurftu að koma til aðstoðar, en ekki mun hafa orðið mikið tjón. Nokkur trampólín flugu út úr görðum og þótti fyndið. Sem betur fór skemmdist víst ekkert á því flugi. Að kvöldi lægði. Mestur hiti mældist 8°.
Las ársskýslu Náttúrufræðistofnunar 2010 í bak og fyrir og fann þar margt fróðlegt og skemmtilegt. Starfsmenn þar gera sannarlega fleira en að spjalla á kaffistofunni. Kristján á þar bæði texta og myndir, meðal annars flottar myndir bæði á forsíðu og baksíðu.
Greip svo til sögu eftir Fred Vargas með þeim aðlaðandi titli Varúlfurinn. Hef ekki fyrr lesið eftir Vargas, en hef nú komist að því að þar fer höfundur sem skrifar sérstakar og spennandi sögur.
29.4. FÖSTUDAGUR
Ágætis veður í dag, skikkanlegur vindur og hitinn um 8°. Svolítið um dembur, sem ekki gerðu óskunda.
Marcela kom heim í dag eftir 6 vikna dvöl í Perú. Er nú kátt í koti, einkum hjá Pétri sem var orðinn leiður á að bíða eftir eiginkonunni.
30.4. LAUGARDAGUR
Furðulegt veður í dag, reyndar fallegt. Logn og lóðrétt snjókoma nánast allan daginn. Mestur hiti 5°.
Fuglar voru frekar hljóðir í þessu undarlega veðri. Svartþröstur sýnir sig hér öðru hverju. Ég leyfi mér að vona að þetta sé sá sem var svo drjúgur að innbyrða eplabitana í garðinum þegar snjórinn huldi allt. Stelkur gerði mér þann greiða að spóka sig heillengi á þaki næsta húss. Hann var svo flottur og spekingslegur, ég horfði lengi á hann.