MAIDAGAR 2011
1.5. SUNNUDAGUR
Hvítur snjór þakti höfuðborgina í morgun og víða á næstu grösum. Veðrið var í rauninni ágætt, þótt hitastigið næði ekki nema 7° mest, en lognið tryggði góða veðrið. Færið var ekki sérlega gott fyrir hestana, blautur snjórinn hlóðst í hófana svo að berja þurfti úr þeim.
Krían er komin til okkar fyrir allnokkru. Hún sást fyrst í Hornafirði og er farin að sjást víða. Þessi merkilegi fugl er sagður fljúga á 44-60 km. hraða á klukkustund. Enginn fugl í heiminum ferðast jafn langa leið milli varp- og vetrarstöðva og krían.
2.5. MÁNUDAGUR
Mikið var gaman í dag. Lengi hafur verið beðið eftir almennilegum hlýindum og nú gerðist það. Við vorum í reiðtúrum um miðjan daginn, og allt í einu var okkur orðið ótrúlega heitt. Í ljós kom að hitinn var kominn yfir 15°.
Þegar við komum heim setti ég stól út á pallinn og las bók í sólskininu. Yndislegt. Það þótti fleirum, bæði fuglum og flugum. Stærstu hunangsflugurnar fóru á kreik og notfærðu sér að garðdyrnar stóru galopnar. Pétur veiddi fjórar stórar flugur og sendi þær út í góða veðrið. Þær flugu glaðar á brott.
3.5. ÞRIÐJUDAGUR
Frábært veður, lengst af heiður himinn og þar með vermdi blessuð sólin. Hins vegar held ég að eitthvað hafi hitastigin ruglast hjá Veðurstofunni. Um hádegið voru stigin 13, en kl. 18 var hitinn sagður 25. Jæja, ekki þrasa ég við veðurfræðingana.
Tók góða rispu með hestunum mínum í dag, en vantaði óneitanlega félagsskap. Þeir eru fjörugri og viljugri þegar þeir eru fleiri saman. Stormur var m.a.s. með ólund alla leiðina kringum Rauðavatnið og þóttist hræddur við hitt og þetta. Annars ljótt að segja svona um þennan fallega og trausta hest.
4.5. MIÐVIKUDAGUR
Lítið sást til sólar í dag, en veðrið var notalegt og tæpast hreyfði vind.
Hef verið að lesa ýmsar óvenjulegar bækur upp á síðkastið. Einnar mínútu þögn heitir ein þeirra, höfundur Siegfried Lenz. Dálítið sérstök saga. Þýskir gagnrýnendur lofa hana, einn þeirra segir hana sígildan dýrgrip. Og eitthvað er við þessa sögu. Hún hreyf mig altént meira en bók Eiríks Guðmundssonar, sem ber nafnið Sýrópsmáninn. Það er skrýtin bók. Stundum algjört rugl, en nálgast stundum einhvern raunveruleika. Ansi þokukennd. Af einhverri ástæðu hafði ég þó stundum gaman af lestrinum.
5.5. FIMMTUDAGUR
Ágætt veður, frekar stillt og hlýtt, mestur hiti 8°.
Fór í góða reiðtúra með Prins og Gauk. Prinsinn er svolítið erfiður, tregðast við að fara frá hinum hestunum, en getur tekið góða spretti á heimleiðinni. Hins vegar er alltaf jafn gaman að fara með Gauki. Hann er að vísu latari á leið frá húsi ef við erum ein á ferð, en ekki skortir viljann á heimleiðinni. Við Gaukur fórum Rauðhólahring. Einkar gaman að fara þá leið og sjá kanínurnar skjótast milli trjánna og heyra í ótal fuglum. Þeir syngja af hjartans list í runnum og trjám, og ekki vantar heldur fjörið á þúfum og í tjörnum. Í dag voru hrossagaukar mest áberandi, greinilega í fjörugu tilhugalífi. Vorið er alltaf best.
6.5. FÖSTUDAGUR
Ágætis veður, best seinnipartinn þegar sólin skein óhindruð. Mestur hiti 10°.
Í dag var stjórnarfundur Þjóðhátíðarsjóðs. Fundurinn var haldinn í Þjóðarbókhlöðinni og að honum loknum tóku starfsmenn þar okkur einkar vel og sýndu okkur ýmsa dýrgripi, sem gaman var að sjá, eldgömul handrit, bækur og listaverk. Skoðuðum einnig nýuppsetta sýningu á ýmsu úr fórum Jóns Sigurðssonar.
Þá lá leið okkar að Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og hittum fjölmarga þeirra sem þar starfa. Þau kynntu okkur ýmsa merka viðburði, sem unnið hefur verið að, m.a. nýútkomna Handbók um íslensku, leiðarvísi um íslenskt mál.
Að lokum heimsóttum við Ljósmyndasafn Íslands, sem er hluti af Þjóðminjasafninu og er til húsa í Vesturvör í Kópavogi. Gaman að sjá það sem þar fer fram. Þessar þrjár stofnanir fengu styrki úr Þjóðhátíðarsjóði, en alls var úthlutað 59 styrkjum að þessu sinni. Ánægjulegt var að heyra að allar þessar stofnanir höfðu nýtt styrki sína til hins ýtrasta, og hið sama virðist vera á flestum stöðum.
7.5. LAUGARDAGUR
Gott veður, lítill vindur, sólskin og mestur hiti 11°.
Mikið um að vera í Víðidalnum þessa dagana, margir keppendur spreyta sig með fjölda hesta á tveimur völlum. Við sneiðum framhjá. Katrín kom með okkur Jónasi í góðan reiðtúr í góða veðrinu. Fórum Rauðhólahringinn sem mér finnst alltaf skemmtileg reiðleið. Blessaðir klárarnir voru rennsveittir að spretti loknum.
8.5. SUNNUDAGUR.
Frábært veður. Heiðríkt allan daginn. Mestur hiti 17°.
Fjölskyldurnar komu í svokallaðan dagverð eða hábít sem sumir kalla svo. Var hér kátt að venju. Kristján kom færandi hendi stórfallegan blómvönd í tilefni af Mæðradeginum, sem ég mundi náttúrlega ekkert eftir. Og Dóra sendi ljúfar kveðjur af sama tilefni.
Fórum ekki mjög geyst í reiðtúrum dagsins því hitinn var kominn upp í 17° og engin ástæða til að þenja hestana. Þeir kunnu að meta þá tillitssemi.