Afi minn og maríuerlan

MAÍDAGAR 2011

9.5. MÁNUDAGUR

Ágætt veður svona yfirleitt. Að vísu stundum dálítið hvasst og reyndar rigndi hressilega um skeið, en það er engin nýjung. Mestur hiti mældist 15°.

Brölti af og til í garðinum, reyni að stilla mig um að vera lengi í hvert sinn svo að bak fullorðinnar konu fari ekki að veina. Kristján sér um klippingar fyrir mig, og nú er málið að safna saman afklippunum og hreinsa beðin. Hver pokinn af öðrum fyllist, beðin líta sífellt betur út og blómin æ fallegri.

Við Gaukur hittum maríuerlu í reiðtúr dagsins. Hún var svo óttalaus að hún bara horfði á okkur fara fram hjá. Maríuerlan er í miklu dálæti hjá mér, ekki síst vegna þess að Sigurjón Friðjónsson afi minn gaf mér vísu um þann ljúfa fugl þegar ég var 5 ára. Finnst mér síðan ég eiga svolítið í maríuerlunni.

Mér sýnist gamlárið sólarlaust,

segðu mér nokkuð Stína.

Hvert flaug hún erlan úr frostinu í haust

með fallegu ungana sína.

Hvort skyldi hún koma kát í vor

þegar kuldinn er burtu runninn.

Ég held helst hún komi og kyssi þín spor

og kyssi þig líka á munninn.

Frá afa á jólum 1944.

10.5. ÞRIÐJUDAGUR

Gott veður þótt sólin hefði mátt fá betra svigrúm fyrir skýjunum. Mestur hiti 15°, og lítið varð úr skúrunum sem búist var við.

11.5. MIÐVIKUDAGUR

Svei mér ef Veðurstofan var ekki að plata mig í dag. Hún hélt því fram að hitastigið hefði ekki farið yfir 13°. Mér fannst veðrið heitt þrátt fyrir dálítinn vind og reiknaði með 15 – 17° hita. En sérfræðingarnir verða að fá að ráða þessu.

Það er ljúft að fá þessa góðu daga. Grængresið þýtur upp og blómin teygja sig upp úr moldinni. Vorið hefur einnig örfandi áhrif á hestana, sem eru að mestu búnir að fella vetrarhárin og allir í góðu formi. Prinsinn er enn heldur tregur í taumi og verður sjálfsagt sjálfum sér líkur alla sína tíð. Við munum sennilega flytja hestana aftur upp á Kaldbak áður en langt um líður.

12.5. FIMMTUDAGUR

Glaðasólskin allan daginn, mestur hiti 9°. Talsverður vindur, jafnvel dálítið napur.

Jónas kom færandi hendi í morgun, dálitla bók um fugla: Common Birds and their Songs. Með fylgja diskar með fuglasöng og nú hljómar allur þessi skemmtilegi fuglasöngur í kolli mínum.

13.5. FÖSTUDAGUR

Prýðilegt veður í dag þótt hitinn mældist aðeins 7°. Sólskinið var heldur minna en í gær, en vindurinn var þokkalega stilltur og það munar miklu.

Áttum skemmtilegt kvöld með Sólrúnu og Þórði á Höfninni. Þar er alltaf vel tekið á móti okkur, Brynjar fagnar okkur eins og gömlum vinum. Maturinn á Höfninni er yfirleitt ljómandi góður, umhverfið sérstakt og andrúmsloftið gott.

14.5. LAUGARDAGUR

Góður dagur, gott veður og mikið fjör í reiðtúrum. Prinsinn er að herða sig, orðið léttara að koma honum í góðan gang. Jónas er á Loga og þeir Prinsinn skiptast á um að leiða túrinn. Þannig gengur þetta allt betur. Gaukur og Stormur, Léttir og Djarfur voru í rosa stuði í dag. Eru það reyndar yfirleitt. Þvílíkur sprettur í dag! Það var svo gaman að ég held ég hafi verið skælbrosandi alla leiðina.

15.5. SUNNUDAGUR

Spáð var smáskúrum hér um slóðir í dag, en afskaplega eru þær nú smáar þennan daginn. Öðru hverju skein sólin og mestur hiti mældist 8°.

Afmæli Pálma er í dag. Hann var á vaktinni í útvarpinu alla helgina, en það skorti ekki veisluföngin þegar hann kom heim að kvöldi. Sigrún var önnum kafin í eldamennsku þegar við kíktum inn, og stelpurnar höfðu einnig nóg að gera við skreytingar í tilefni afmælisins.

16.5. MÁNUDAGUR

Sólin var iðin við að skína í dag, en vindurinn var napur og spillti fyrir sólinni. Held að hitinn hafi ekki komist yfir 5-6°.

Brugðum okkur í Kryddlegin hjörtu, þar er alltaf gaman að gæða sér á bragðmiklum súpum og salati. Skemmtilegur staður og ódýr.

Á horni einu á húsþaki skáhalt hér á móti situr lífsglaður stari (starri) löngum stundum og syngur óð sinn til lífsins. Mjög gaman að fylgjast með honum. Margir leggja fæð á starana vegna fuglaflóar, sem ásækir marga fugla, en verður einmitt oft vart á störum sem byggja iðulega hreiður utan í húsum og holum. Þessi pirringur í fólki er óþarfi. Galdurinn er aðeins sá að loka fyrir göt og smugur, þar sem starinn gæti potast í gegn inn á þök og háaloft, og hafa gaman af þessum fuglum. Starar eru býsna félagslyndir og fara gjarna um í hópum. Og það skemmtilega við þessa fugla er að þeir kvaka og flauta og herma mikið eftir öðrum fuglum.