NÓVEMBERDAGAR 2011
22.11. ÞRIÐJUDAGUR
Frekar kalt úti, en kaldara verður þegar líður á vikuna. Lítils háttar rigning öðru hverju. Hitinn mjakaðist upp í 4° stutta stund, en mestan partinn 3°.
23.11. MIÐVIKUDAGUR
Vetur gamli lét af sér vita í dag. Nokkuð var hvasst, öðru hverju rigndi og stöku sinnum kom slydduél. Mestur hiti var 3°. Verra var veðrið á Hellisheiðinni. Þar snjóaði í hvassviðri, afleitt skyggni og hálka. Nokkrir bílar lentu út af, en engin slys urðu.
Við höfum verið að baksa við stíflu í eldhúsvasknum og lítið gengið. Er farin að þvo upp í þvottahúsinu eins og á fyrstu búskapardögunum hér fyrir nær 40 árum. Fékk til liðs Jón pípara, sem alltaf bregst vel við. Ekki gekk honum þó nógu vel í þetta skipti og endaði með því að fá yfir sig fulla fötu af vatni. Mundi systir mín kalla það fjör á Læk. Ekki tókst að ljúka verki, vantaði einhver nauðsynleg tól. Annar pípari kemur vonandi á morgun.
24.11. FIMMTUDAGUR
Nú eru öll fjöll snævi þakin. Allgott veður og fallegt. Mestur hiti 2°.
Mættu nú tveir Ásgeirar hingað í dag með réttu verkfærin og kunnáttu og hreinsuðu til undir eldhúsvaskinum. Eitthvað var bogið við rör og fleira sem þeir löguðu. Nokkru seinna komu aðrir tveir til að leggja sínar lokahendur á meistarastykkið. Ekki átti ég von á fimm mönnum til viðgerðar á einum vaski, en ekki virtist veita af.
25.11. FÖSTUDAGUR
Að morgni var við frostmark og fór ekki yfir 1° til kvölds. Dimmt yfir mestan hluta dagsins, en hóflega snjóaði.
Dóra fór á jeppa föður síns með Sindra og Breka upp á Kaldbak seint í dag. Ég var náttúrulega taugaveikluð eins og hver önnur kerling, dauðhrædd um að þau ættu erfitt með að greina veginn, sem engir bílar fara um á þessum tíma. Loksins náði ég símasambandi. Þeim hafði gengið betur en ýmsum góðum ökumönnum sem höfðu farið út af við reyndar öllu verri aðstæður.
26.11. LAUGARDAGUR
Veröldin var sannarlega falleg í dag, heiðríkur himinn og jörðin snjóhvít. Stillt og gott veður. Hitinn fór ekki yfir 1°.
27.11. SUNNUDAGUR
Fagur vetrardagur. Ágætt veður, hóflegur vindur. -1° frost um miðjan dag. Margir notuðu sér þennan góða dag, spásseruðu hér fram og aftur á bökkum sjávarins, og fjöldi barna lék sér á sleðum í Plútóbrekkunni.
Í gær fóru Dóra og strákarnir í leiðangur og þóttu held ég merkilegast þegar þeir sáu rebba í snjónum. Á Kaldbak hefur hríðað talsvert, og hafa Breki og Sindri notað sér sleðafærið.
28.11. MÁNUDAGUR
Sæmilegt veður í dag. Snjór ekki til vandræða. Mestur hiti mældist reyndar 2°.
Er nú orðið fátt um blómin í beðinu. Fuglarnir eru hins vegar hinir kátustu. Fljúga hér fram og aftur og allt um kring, eru feitir og pattaralegir og virðast geta tínt ýmislegt gott upp í sig. Flestir þrestir og starar. Merkilegast finnst mér þó alltaf að fá músarrindil í heimsókn. Er að vísu ansi snöggur, en eitt viðlit er vel þegið.
29.11. ÞRIÐJUDAGUR
Nú er hann kaldur og hvass. Mesta frostið -5° í dag. Sólin rembdist við að skína um miðjan daginn. Tunglið tók við þegar dimmdi.
Dóra, Breki og Sindri voru enn á Kaldbak og ætlaðu að koma heim á skikkanlegum tíma, en sitthvað tafði fyrir þeim. Við vorum orðin ansi óróleg, þegar orðið var dimmt og ekki vantaði hvassviðrið. Dóra er reyndar góður bílstjóri og fór varlega, en mikið var ég fegin þegar þau voru komin heim heil á húfi. Öll afar ánægð, hefðu viljað vera lengur!
30.11. MIÐVIKUDAGUR
Afar fallegur síðasti nóvemberdagur. Himininn heiður og nánast logn í frostinu, sem mældist -6°. Hált var og sólin blindaði. Og nú eru blessuð blómin dauð. Hafa þó sjaldan, ef nokkurn tíma, lifað jafn lengi á vetrartíma.