Fimm manns í vaskinum

NÓVEMBERDAGAR 2011

22.11. ÞRIÐJUDAGUR

Frekar kalt úti, en kaldara verður þegar líður á vikuna. Lítils háttar rigning öðru hverju. Hitinn mjakaðist upp í 4° stutta stund, en mestan partinn 3°.

23.11. MIÐVIKUDAGUR

Vetur gamli lét af sér vita í dag. Nokkuð var hvasst, öðru hverju rigndi og stöku sinnum kom slydduél. Mestur hiti var 3°. Verra var veðrið á Hellisheiðinni. Þar snjóaði í hvassviðri, afleitt skyggni og hálka. Nokkrir bílar lentu út af, en engin slys urðu.

Við höfum verið að baksa við stíflu í eldhúsvasknum og lítið gengið. Er farin að þvo upp í þvottahúsinu eins og á fyrstu búskapardögunum hér fyrir nær 40 árum. Fékk til liðs Jón pípara, sem alltaf bregst vel við. Ekki gekk honum þó nógu vel í þetta skipti og endaði með því að fá yfir sig fulla fötu af vatni. Mundi systir mín kalla það fjör á Læk. Ekki tókst að ljúka verki, vantaði einhver nauðsynleg tól. Annar pípari kemur vonandi á morgun.

24.11. FIMMTUDAGUR

Nú eru öll fjöll snævi þakin. Allgott veður og fallegt. Mestur hiti 2°.

Mættu nú tveir Ásgeirar hingað í dag með réttu verkfærin og kunnáttu og hreinsuðu til undir eldhúsvaskinum. Eitthvað var bogið við rör og fleira sem þeir löguðu. Nokkru seinna komu aðrir tveir til að leggja sínar lokahendur á meistarastykkið. Ekki átti ég von á fimm mönnum til viðgerðar á einum vaski, en ekki virtist veita af.

25.11. FÖSTUDAGUR

Að morgni var við frostmark og fór ekki yfir 1° til kvölds. Dimmt yfir mestan hluta dagsins, en hóflega snjóaði.

Dóra fór á jeppa föður síns með Sindra og Breka upp á Kaldbak seint í dag. Ég var náttúrulega taugaveikluð eins og hver önnur kerling, dauðhrædd um að þau ættu erfitt með að greina veginn, sem engir bílar fara um á þessum tíma. Loksins náði ég símasambandi. Þeim hafði gengið betur en ýmsum góðum ökumönnum sem höfðu farið út af við reyndar öllu verri aðstæður.

26.11. LAUGARDAGUR

Veröldin var sannarlega falleg í dag, heiðríkur himinn og jörðin snjóhvít. Stillt og gott veður. Hitinn fór ekki yfir 1°.

27.11. SUNNUDAGUR

Fagur vetrardagur. Ágætt veður, hóflegur vindur. -1° frost um miðjan dag. Margir notuðu sér þennan góða dag, spásseruðu hér fram og aftur á bökkum sjávarins, og fjöldi barna lék sér á sleðum í Plútóbrekkunni.

Í gær fóru Dóra og strákarnir í leiðangur og þóttu held ég merkilegast þegar þeir sáu rebba í snjónum. Á Kaldbak hefur hríðað talsvert, og hafa Breki og Sindri notað sér sleðafærið.

28.11. MÁNUDAGUR

Sæmilegt veður í dag. Snjór ekki til vandræða. Mestur hiti mældist reyndar 2°.

Er nú orðið fátt um blómin í beðinu. Fuglarnir eru hins vegar hinir kátustu. Fljúga hér fram og aftur og allt um kring, eru feitir og pattaralegir og virðast geta tínt ýmislegt gott upp í sig. Flestir þrestir og starar. Merkilegast finnst mér þó alltaf að fá músarrindil í heimsókn. Er að vísu ansi snöggur, en eitt viðlit er vel þegið.

29.11. ÞRIÐJUDAGUR

Nú er hann kaldur og hvass. Mesta frostið -5° í dag. Sólin rembdist við að skína um miðjan daginn. Tunglið tók við þegar dimmdi.

Dóra, Breki og Sindri voru enn á Kaldbak og ætlaðu að koma heim á skikkanlegum tíma, en sitthvað tafði fyrir þeim. Við vorum orðin ansi óróleg, þegar orðið var dimmt og ekki vantaði hvassviðrið. Dóra er reyndar góður bílstjóri og fór varlega, en mikið var ég fegin þegar þau voru komin heim heil á húfi. Öll afar ánægð, hefðu viljað vera lengur!

30.11. MIÐVIKUDAGUR

Afar fallegur síðasti nóvemberdagur. Himininn heiður og nánast logn í frostinu, sem mældist -6°. Hált var og sólin blindaði. Og nú eru blessuð blómin dauð. Hafa þó sjaldan, ef nokkurn tíma, lifað jafn lengi á vetrartíma.

Enn prýða blóm undir vegg

NÓVEMBER 2011

15.11. ÞRIÐJUDAGUR

Tunglið sá um dýrð morgunins. Stillt og gott veður. Mestur hiti 10°.

Lengi hefur staðið til að heimsækja Kristján á Náttúrufræðistofnuna á nýja staðnum, þ.e. á Urriðaholti í Garðabæ. Þangað flutti starfsemin fyrir rúmu ári og hafa nú heldur betur batnað aðstæður. Skömmu eftir að flutningum var lokið var fólki boðið að koma í heimsókn og kynna sér húsakynnin og það sem þarna fer fram. Ótrúlegur fjöldi fólks þáði boðið og fyllti húsið. Við Jónas fórum þangað loks í dag. Kristján sýndi okkur þetta allt saman, sem var mjög gaman og margt að sjá.

Í kvöld var svo afmælisveisla Auðar, sem átti reyndar 14 ára afmælið á laugardaginn var. Þar var glatt á hjalla að vanda og ekki vantaði ljúffengar kökur og aðrar kræsingar.

16.11. MIÐVIKUDAGUR

Rigning öðru hverju, en hóflegur vindur. Mestur hiti 9°.

Erum í stöðugum veislum. Þetta kvöldið neyttum við glæsilegs matar hjá Ingibjörgu og Ævari. Skemmtilegt og notalegt að eiga stundir með þeim.

17.11. FIMMTUDAGUR

Ágætis veður, svipað og í gær. Mestur hiti 7°. Enn prýða blóm undir veggjum, einkum fjólur. Sums staðar sjást brum á trjám og runnum, sem virðast halda að vorið sé að koma. Eins gott að hestarnir felli ekki vetrarhárið í góða veðrinu!

Fór ásamt Guðrúnu Agnars í jarðarför Matthiasar Á. Mathiesen í Hafnarfjarðarkirkju. Mannfjöldi fyllti kirkjuna og fengu ekki nærri allir sæti. Að útför lokinni hittum við marga kunnuga, en stóðum reyndar ekki lengi við. Settum okkur niður heima hjá Guðrúnu og áttum þar góðar stundir. Hittumst of sjaldan.

18.11. FÖSTUDAGUR

Rigning lét á sér kræla, en annars þokkalegt veður. Mestur hiti 6°.

Puðuðum í hesthúsinu í dag. Máluðum þar jöturnar og tilheyrandi af mikilli snilld eða þannig! Fegin var ég reyndar þegar starfi þessu var lokið. En hvað gerir maður ekki fyrir hestana sína.

19.11. LAUGARDAGUR

Dýrðlegur morgun og gott veður fram eftir degi. Mestur hiti 7°. Að kvöldi helltist yfir rigning og hertist vindur. Samkvæmt Veðurstofunni má búast við öllu meiri úrkomu í veðrinu næstu vikurnar.

20.11. SUNNUDAGUR

Ekki vantaði úrkomuna í dag. Miklar rigningar og jafnvel haglél um tíma. Mestur hiti 6°.

21.11. MÁNUDAGUR

Heldur fer kólnandi, hitinn fór varla upp fyrir 4° í dag. Rigning með köflum.

Stórglæsileg bók Jónasar

NÓVEMBERDAGAR 2011

8.11. ÞRIÐJUDAGUR

Rigndi mikið í nótt og fram eftir morgni. Ágætt veður orðið um hádegið. Mestur hiti mældist 8°.

9.11. MIÐVIKUDAGUR

Enn rignir, en veðrið hefur hlýnað. Mestur hiti í dag mældist 10°.

Fórum á Kaldbak til að vitja hestanna og athuga ástandið eftir allt rokið og rigningarnar. Það hellirigndi alla leið upp í Hrunamannahreppinn, en þar reyndist ágætis veður og hvað best á Kaldbak. Ekki sást til hestanna og vorum við eiginlega að gefast upp á leitinni, en ég þrjóskaðist við og kom loks auga á hestahópinn niðri við Kluftána. Í ljós kom að einhver hefur opnað hlið þar niður frá, og hestunum hefur auðvitað fundist spennandi að bregða sér út fyrir. Við smöluðum þeim saman og tókst að koma þeim inn um hliðið og á sinn rétta stað. Þeir voru hressir og vel haldnir.

10.11. FIMMTUDAGUR

Rigndi talsvert í dag og vindur blés. Hitinn mældist 8°. Um kvöldið var orðið stillt og fallegt úti og máninn fullur varpaði geislum sínum á sjóinn.

11.11. FÖSTUDAGUR

Rigning öðru hverju, annars ágætis veður. Um kvöldið var hitinn kominn í 9°.

Ég greip Hraunfólkið, bókina hans Björns Th. Björnssonar, úr bókahillu og las hana öðru sinni. Gaman að rifja hana upp. Sagan gerist á 18. öld og Björn fer afar vel með tungu þess tíma. Það gengur á ýmsu, margt er átakanlegt, en einnig margt fyndið og skemmtilegt. Og persónur sögunnar eru eftirminnilegar.

12.11. LAUGARDAGUR

Gott veður í allan dag. Lítilsháttar rigning á köflum. Fagur himinn og sólskin drjúgan hluta dagsins. Mestur hiti 8°.

Mikið um að vera í bænum þessa helgi undir yfirskriftinni Bókamessa í bókmenntaborg. Í Tjarnarsal Ráðhússins kynna bókaútgefendur fjölda nýrra bóka. Fjölbreytnin er mikil og margar girnilegar bækur og gaman að átta sig á hversu margir stunda þessa skemmtilegu iðju og sjá okkur fyrir bókum.

Í Iðnó er boðið upp á skemmtilega dagskrá af ýmsu tagi. Bók Jónasar, Þúsund og ein þjóðleið, er nýkomin út og vekur mikla athygli, enda stórglæsileg bók. Jónas kom í Iðnó á hestbaki ásamt fleirum um hágegisbilið og afhenti tveimur öðlingsmönnum fyrstu eintök bókarinnar. Síðan var klukkutíma prógram í Iðnó, þar sem Jónas kynnti bók sína og Sigrún Helgadóttir sína bók um Þingvellir. Ari Trausti stjórnaði og sagði reyndar lítillega frá sínum bókum, m.a. um Eldgos. Mjög gaman að sjá og heyra.

13.11. SUNNUDAGUR

Veðurfarið er aldeilis ótrúlegt. Við erum öllu vanari kaldara veðri í nóvember, en nú lítur helst út fyrir að veðrið slái met fyrr en varir. Í dag var fallegt veður, hlýtt og gott. Mestur hiti var 9°.

Breki verður 11 ára á morgun og sparar ekki fögnuðinn alla helgina. Skemmti sér með félögum sínum í skólanum á laugardaginn og í dag fylltist heimilið á Lundi af vinum og vandamönnum. Þar var boðið upp á miklar kræsingar að vanda og gaman að hitta allt þetta ágæta fólk.

14.11. MÁNUDAGUR

Veðurguðunum hefur líklega þótt nóg um góðviðrið um helgina og settu svolítið fútt í veðrið þennan daginn. Allhvasst og svolítil rigning með köflum. Skýin eru með ýmsum brag, sitt á hvað fallega hvít og ógnandi dökk og þar á milli með mildum rauðleitum blæ. Sérkennilegt. Mestur hiti 10°.

Kjaftstopp á sunnudegi

NÓVEMBERDAGAR 2011

1.11. ÞRIÐJUDAGUR

Ekki var þetta notalegur dagur, en fallegur var hann út um glugga. Sólin skein eins lengi og hún mátti, en vindurinn blés í miklum móð. Mestur hiti mældist 3°, en um kvöldið var komið frost.

Ég hef lengi ætlað mér að hreinsa til í tölvunni og ákvað að vera afspyrnu dugleg þennan kalda dag úr því ég hafði svona fallegt útsýni þegar ég þurfti að hugsa mig um. Það fór reyndar eins og oft áður. Lendi alltaf í því að rifja upp og lesa megnið af þessum skemmtilegu greinum og alls konar gögnum. Gengur því hægt að fækka í tölvunni.

2.11. MIÐVIKUDAGUR

Enn blæs vindurinn og það rækilega. Hitamælirinn náði 3°.Um kvöldið buldi rigning á þakinu og vindurinn gnauðaði.

Fórum austur á Kaldbak að líta eftir hestunum. Ekki vantaði rokið þar. Hestarnir voru í skjóli við braggana. Þeir fögnuðu molunum góðu, sem ég veiddi upp úr vösunum. Þreifaði á hestunum og fann ekki betur en allt væri í góðu lagi. Helst að Kári gamli væri svolítið hengilmænulegur. Eins gott að fylgjast vel með honum.

Fórum nýja veginn frá Þorlákshöfn til Grindavíkur. Merkilega fáir bílar áttu erindi um veginn, sem búist hafði verið við að yrði í mikilli notkun strax og vegurinn væri nothæfur.

3.11. FIMMTUDAGUR

Nú er það rigningin sem ræður ríkjum. Talsvert hvasst allan daginn, en lægði um kvöldið. Hitinn mældist 9° og var svo kominn upp í 10° um kvöldið!

Var að lesa skelfilegar fréttir um vanrækslu og hroðalega meðferð á íslenskum hestum í Svíþjóð. Hrossin voru í eigu formanns hestamannafélagsins á svæði sem kallast Ashammar. Aðbúnaður var afar slæmur, hrossin látin standa vanfóðruð í þröngum básum, hófarnir ofvaxnir og ekki klipptir né lagaðir mánuðum saman. Get varla horft á myndir, sem sýndu hvernig meðferðin var. Tuttugu hross eru nú í umsýslu lögreglunnar í Svíþjóð og nokkrum varð að lóga. Eigandinn er hinn versti og hótar kæru. Það ótrúlega er að nokkrir félagar halda því fram að vanræksla formannsins hafi verið ýmsum kunnug en ekkert verið gert. Ég er bæði reið og hrygg.

4.11. FÖSTUDAGUR

Vindurinn var óvenju hlýr í dag, mestur hiti reyndist 10°, sem er harla gott á þessum tíma. Rigningin lét ögn af sér vita, en spillti engu.

Ólafur H. Óskarsson var jarðsunginn í Dómkirkunni í dag. Ég ætlaði að heiðra hann með veru minni ásamt Jónasi, en við fundum hvergi pláss fyrir jeppann og niðurstaðan varð að Jónas fór í kirkjuna, en ég ók heim. Keypti bara Moggann og las minningargreinar dagsins. Þannig fór það.

5.11. LAUGARDAGUR

Hráslagalegt var í morgunsundinu, það gerði vindurinn. Það rigndi heilmikið öðru hverju. Mestur hiti 5°.

6.11. SUNNUDAGUR

Þennan daginn skiptust á skin og skúrir sem oftar. Mestur hiti 5°.

Hlustaði á viðtal Egils við Lilju Mósesdóttur. Hún sagði loks skilið við VG á Landsfundinum nýlega og lýsti því jafnframt yfir að hún mundi stofna nýjan flokk og urðu nú ýmsir forvitnir. “Það sem ég vil gera er að endurvekja grunngildi”, sagði Lilja í Silfrinu og nefndi nokkur dæmi, sem ég skildi misjafnlega vel. Hún virðist t.d. telja að Alþýðuflokkurinn hafi skilið gildin um jöfnuð og réttlæti eftir í reiðileysi og ekki aðrir til gagns, þegar hópurinn sá flykktist í Samfylkinguna. Ekki víst að margir séu sammála því.

“Ég vil líka taka hugtak Vinstri grænna um sjálfbærni og leggja áherslu á að endurmóta efnahagslífið á grundvelli sjálfbærni”, sagði Lilja. Ekki allt tóm vitleysa sem betur fer. Gott er að hún og fleiri eru farin að skilja mikilvægi sjálfbærni, sem VG hefur lagt mikla áherslu á og unnið ötullega að umfram flesta aðra.

En nú versnaði í því þegar Lilja sagði: “Ég vil taka upp gildi Sjálfstæðisflokksins um réttlæti þannig að ef einhver verður fyrir áfalli þá aðstoðum við”. Ha? Er Lilja ánægð með réttlæti Sjálfstæðisflokksins?

Og áfram hélt Lilja að lýsa því sem henni finst hvað mikilvægast. Beint úr Silfrinu:

“Og grunngildi Framsóknarflokksins um valddreyfingu, líka hvað varðar eignarhald í atvinnulífinu”. Er konan að grínast? Ég er kjaftstopp.

7.11. MÁNUDAGUR

Rigning og meiri rigning. Hitinn nær 8°, en það dugir ekkert gegn þessum regnbeljanda.

Spiluðum bridds við Þórð og Sólu í kvöld, og nú gekk mér betur en síðast. Aðalmálið er að ég hef mjög gaman af að spila bridds þótt snilldin sé ekki til að gorta af.

Drengurinn í járnkassanum

OKTÓBERDAGAR 2011

23.10. SUNNUDAGUR

Fram eftir degi var frábært veður, heiðríkt og stillt. Hitinn nálgaðist 6°. Eftir hádegið hvessti. Eins gott að klæða sig fyrir göngutúrinn.

Gaf fuglunum á Bakkatjörn og ætlaði alveg sérstaklega að gefa vængbrotnu gæsinni, en hún flúði í burtu. Hún er reyndar ekki lengur ein, þær eru tvær vængbrotnar og halda saman.

Adam og Evelyn heitir athyglisverð bók sem ég var að klára. Býsna skrítin saga. Snýst um ást og gengur á ýmsu. Aðalpersónirnar þrasa þvílíkt að ástin sú getur varla lifað það af. Höfundur Ingo Schulze.

24.10. MÁNUDAGUR

Fallegt veður, sérstaklega heiðríkt og stillt fyrripart dagsins. Hitinn komst upp í 3°.

Gott að geta fylgst með því sem gerist í Reykjadal og nágrenni. Fréttirnar má lesa á http://www.641.is/ Í dag var sagt frá því að samþykkt hafi verið að sameina Litlulaugaskóla og Hafralækjarskóla í eina stofnun með tvær starfstöðvar. Hins vegar er í þoku hvers konar ávinningur er í sigtinu og mikið ógert við skipulag og útfærslur áður en sameiningin verður að veruleika 1. ágúst 2012. Fróðlegt að vita hvað kemur út úr þessum breytingum.

25.10. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætt veður í dag þrátt fyrir miklar rigningar allan daginn. Vindur var lítill og ekki kalt að ráði. Hitinn fór upp í 7° þegar leið að kvöldi.

26.10. MIÐVIKUDAGUR

Rigndi talsvert í dag, en öðru hverju rofaði til og sólin gægðist fram. Stærðar regnbogi sýndi sig í heilu lagi. Einkar fallegur.

Sindri og Breki voru í heimsókn eftir kennaraviðtöl í morgun. Höfðu fengið góðan vitnisburð eins og við var að búast. Við spiluðum Tíuna vinsælu og skemmtum okkur vel.

Á www.641.is er sagt frá merkum tímamótum í sögu heilbrigðisþjónustu í Þingeyjarsýslu um þessar mundir: Heilbrigðisstofnun Þingeyinga er 75 ára, Heilsugæslan (Læknamiðstöðin) er 45 ára, Hvammur, dvalarheimili aldraðra 30 ára, Tannlæknastofa í húsakynnum heilsugæslunnar 20 ára og Styrktarfélag Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga 15 ára. Það er eins og gætt hafi verið vandlega upp á árabilin, svo að hægt væri að halda upp á öll afmælin í einni syrpu. Hyggileg hagræðing. Ætli konur hafi ráði þessu?

27.10. FIMMTUDAGUR

Fallegt veður, stillt og hlýtt. Mestur hiti 7°.

Loks gafst tækifæri til að spila bridds við okkar ágætu vini Sólrúnu og Þórð. Ég fór reyndar illa út úr spilamennskunni í þetta skipti, sú eina sem tapaði stórt. Það gleymdist snarlega meðan við snæddum góðan mat og ræddum landsins gagn og nauðsynjar.

28.10. FÖSTUDAGUR

Ágætt veður í dag. Mestur hiti 6°.

Öðru hverju fæ ég póst frá SOS, fréttir af Barnaþorpunum og beiðni um framlag til þorpanna og barnanna, sem þar fá skjól og tækifæri til mannsæmandi lífs. SOS Barnaþorpin eru stærstu einkareknu barnahjálparsamtökin í heiminum, sem sérhæfa sig í að útvega munaðarlausum og yfirgefnum börnum heimili og umönnun. Stórkostlegt hjálparstarf í yfir 100 löndum í Mið- og S-Ameríku, Afríku, Asíu og A-Evrópu. Í fréttablaði SOS er margt sem vekur umhugsun. Sumt er svo sorglegt að tárin spretta fram, en margar eru líka sögurnar sem gleðja.

Í SOS-blaðinu núna er merkileg saga, sem kemur við hjartað. Helga Huld Halldórsdóttir læknanemi segir þá sögu. Hún fór með vinkonu sinni til Tansaníu í ársbyrjun, þar sem þær stöllur unnu sjálfboðastarf á frumstæðum spítala. Einn daginn fundu þær lítinn munaðarleysingja, sem hírðist í litlum járnkassa og sást lítið annað en stór brún augu. Enginn vissi hvar móðir barnsins var, og litið var hægt að gera í málinu annað en vonast eftir að einhver vildi ættleiða barnið. En í Tansaníu gerist slíkt ekki á hverjum degi.

Þær vinkonurnar tóku drenginn upp á sína arma og fengu að annast hann meðan þær störfuðu á spítalanum. Þær gáfu honum nafnið Oliver eftir söguhetjunni Oliver Twist og höfðu mikla ánægju af að annast hann. Þær gátu hins vegar ekki haft hann með sér heim og höfðu miklar áhyggjur af framtíð litla drengsins, sem var þeim orðinn svo kær. En vandinn leystist þegar þær fengu aðstoð starfsfólks á Íslandi við að tryggja Oliver vist í SOS barnaþorpi í Tansaníu. Nú á Oliver mömmu, frænku og heilan flokk systkina í SOS Barnaþorpinu og dafnar vel. Frásögn Helgu er hjartnæm, og eðlileg gleði og ánægja vinkvennanna að vita af Oliver litla á góðum stað. Því miður er ótrúlegur fjöldi barna, sem ekki eru jafn lánsöm og Oliver. En farsæl aðstoð við hvert eitt barn skiptir miklu.

29.10. LAUGARDAGUR

Leiðindaveður, sífelld rigning og hvasst. Mestur hiti var þó 6°.

Þegar svona er úti, er upplagt að nota spilin, og þá er Tían vinsælust. Það var fjörugt við spilaborðið.

30.10. SUNNUDAGUR

Rigning mikinn hluta dagsins. Mestur hiti 7°.

Þær eru klárar dönsku konurnar tvær, Kaaberböl og Friis, sem semja harla góðar spennusögur. Fyrir nokkru las ég bókina, Barnið í ferðatöskunni, og þótti hún mögnuð. Og nú var ég að lesa bók þeirra, Hægur dauði, sem ekki er síðri. Frumlega gerð og feykilega spennandi.

31.10. MÁNUDAGUR

Enn blæs vindurinn og rigningin hellist yfir okkur. Það var hráslagalegt í dag þótt hitinn færi upp í 7°.

Músarrindlar í heimsókn

OKTÓBERDAGAR 2011

16.10. SUNNUDAGUR

Bjart yfir og gott fram eftir degi. Vindinn herti þegar leið á daginn. Mestur hiti 6°.

Í dag var haldið upp á 15 ára afmæli Kára. Hann er nú orðinn nálægt 1.80 á hæð og líklegur til að bæta við sig nokkrum sentimetrum. Frændur hans og frænkur nálgast líka óðum háloftastílinn. Mér finnst ég ekki lengur neitt undarlega stór í þessum selskap!

17.10. MÁNUDAGUR

Hrollkalt í vindgarranum. Engin úrkoma þennan daginn. Mestur hiti 5°.

Dreif mig á Heilsugæslina og bað um sprautu gegn inflúensu. Tvær tóku á móti mér. Önnur var að æfa sig að sprauta liðlega í mannskapinn. Gekk allvel, en ögn var hún skömmustuleg þegar blóðið rann niður handlegg minn. Mér fannst rétt að hressa upp á hana og fullyrti að hún væri efnileg sprautukona.

Jonas Jonasson heitir sænskur maður, sem verður að líta svo á að sé afburða hugmyndaríkur. Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf, er nafnið á fyrstu bók Jonasar, sem Páll Valsson þýddi nýlega. Sá hlítur að hafa skemmt sér vel við þá iðju. Gamlinginn er ein af vinsælustu bókum um þessar mundir, enda upplagt að geta hlegið upphátt við lestur góðrar bókar í stað þess að bölsótast yfir roki og rigningu.

18.10. ÞRIÐJUDAGUR

Veðrið var ljúft og fallegt, sólskin og logn. Mestur hiti mældist 3°. Einmitt rétta veðrið til að laga til í garðinum og rífa upp það sem eftir var af hvönninni grimmu. Ekki veitti af að taka til hendi, þrír pokar fylltust og fengu ferð í Sorpu.

Fuglarnir kættust mjög í góða veðrinu. Stór hópur þrasta hoppaði um lóðina í miklu fjöri og fuglarnir fundu eitthvað gott í beðunum. Þeir tístu mikið og flugust svolítið á. Ég fylgdist lengi með þeim og skemmti mér vel. Ekki varð þó eintóm ánægja, því einn þeirra rak sig illa á og dó. Ekki varð við því gert. Ég jarðaði þröstinn undir rósarunna.

Merkilegast fannst mér þegar músarrindill birtist á handriðinu beint fyrir framan mig. Annar bættist svo við, og þeir voru ekkert að flýta sér í burtu. Var yfir mig hrifin, því músarrindill kemur ekki í heimsókn á hverjum degi. Síkvikur en felugjarn, eins og sagt er í Fuglavísi. Músarrindill er sérlega skemmtilegur fugl og syngur vel.

19.10. MIÐVIKUDAGUR

Ágætt veður í dag, þótt ekki jafnist það á við gærdaginn. Lítið sást til sólar, en vindurinn var hógvær. Lítilsháttar rigning að morgni, en öllu myndarlegri að kvöldinu. Mestur hiti 5°.

Ekki er að spyrja að húmornum og málsnillinni hans Þráins Bertelssonar. Er hreint ekki viss um að ég hefði afborið öll þau ósköp sem lesa mátti í bókinni hans, Fallið, ef hann hefði ekki orðað margt skemmtilegt inn milli ömurleika og örvæntingar. Mælska Þráins og gamansemi bjargar miklu.

20.10. FIMMTUDAGUR

Ágætt veður á milli skúra. Lítill vindur og sá varla til sólar. Mestur hiti 6°.

Átti notalegan afmælisdag og hafði nóg að gera. Alltaf gaman að fá spjall við mitt góða fólk í tölvu eða síma í tilefni dagsins. Eignaðist svo enn eina fuglabókina, möppu með alls konar sérstökum upplýsingum, fróðlegum og skemmtilegum, kortum, myndum o.s.frv.

Sá enn og aftur músarrindil skjótast um garðinn hér í morgun. Vonandi ætlar hann bara að búa hér!

21.10. FÖSTUDAGUR

Mikil rigning í morgun. Sól og blíða eftir hádegi. Hellidemba öðru hverju seinnipartinn og fram eftir öllu. Mestur hiti 6°, þegar veðrið var best.

Fór í gönguferð um Suðurnesið í góða veðrinu. Örfátt á golfvellinum og harla fátt á gönguleiðum. Fuglarnir við Bakkatjörnina biðu spenntir eftir góðgæti. Ég var ekki einu sinni með örðu í vasa, en þeir fengu heimsókn og gott í gogginn. Sá vængbrotnu gæsina, sem ég gái alltaf að. Hun stendur sig vel og virðist ekki þjáð.

22.10. LAUGARDAGUR

Sæmilegt veður, þótt engin væri sólin, og rigningin minnti öðru hverju á sig. Mestur hiti reyndist 6°. Um kvöldið var besta veðrið, logn og allt í rólegheitum.

Amma mín, Kristín Jónsdóttir, fæddist 22.10. árið 1867. Hefði viljað kynnast ömmu minni, sem mamma virti mikils. Amma veiktist af berklum og lést á Kristneshæli 27.10.1928.

Skruggur og eldingar

OKTÓBERDAGAR 2011

9.10. SUNNUDAGUR

Fjölbreytilegt veður í dag, eins og reyndar marga aðra daga á landi voru. Vindurinn var hvass mestallan daginn og sjórinn þeytti öldunum upp á bakkana. Mestur hiti fór ekki yfir 6°. Um kvöldið datt allt í dúnalogn og fullur máninn horfði með velþóknun til jarðar.

10.10. MÁNUDAGUR

Einkar fallegur haustdagur. Heiðríkt og sólskin frá morgni til kvölds, lítill vindur. Mestur hiti náði 4°.

Brugðum okkur á Kaldbak til að athuga hvernig hestarnir hefðu það. Þeir komu til móts við okkur og tóku kátir á móti molunum góðu. Svolítið voru þeir rytjulegir eftir rok og rigningu síðustu daga. Virtust þó hressir. Pétur og Marcela voru á Kaldbak síðan á föstudag. Þau voru heldur betur ánægð með þetta fallega veður, enda höfðu þau varla getað rekið út nefið fyrir leiðindaveðri.

Kári Kristjáns er 15 ára í dag. Hann var á ferðalagi með foreldrum sínum nýlega og kom sallaánægður heim í fyrradag. Hefur stækkað og fullorðnast mikið síðustu misserin. Alltaf er ég jafn undrandi á þessum sprettum barnabarnanna, þau eldast og stækka eins og þeim liggi einhver ósköpin á.

11.10. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætt veður, sólskin og hóflegur vindur allt til kvölds. Þá fór að þjóta í vindinum.

Fórum í göngutúr um Laugardalinn um miðjan daginn og dáðumst að litbrigðum haustsins. Fuglarnir kunna að meta aðstæður þar, endur og gæsir nutu góða veðursins á tjarnarbökkum, og fjöldi fugla söng í trjánum, skógarþrestir, svartþrestir og aðrir, sem földu sig betur.

Seinnipartinn hófst mikil hreinsun í hesthúsinu okkar í Víðidalnum, þar sem þvottasápa og vatnsgusur þeyttust um bæði hús og menn. Hjá því verður ekki komist, þegar þrífa skal fyrir blessaðar skepnurnar.

12.10. MIÐVIKUDAGUR

Gengur nú mikið á í veðurfari, ýmist rok eða stormur og mikil rigning öðru hverju. Mestur hiti reyndist 8°.

Skruppum í Eymundsson að heilsa upp á Þráin Bertelsson, sem var þar að kynna nýju bókina sína, Fallið. Hann datt í það á fallegu júníkvöldi í Færeyjum, eins og segir á bakhlið bókarinnar. Hlý og nístandi, óendanlega sorgleg og óborganlega fyndin, stendur á bakhliðinni. Hlakka til að lesa bókina.

13.10. FIMMTUDAGUR

Ögn skárra veður í dag. Furðu hlýtt í rigningu og hvössum vindi. Mestur hiti 10°.

14.10. FÖSTUDAGUR

Mikil er vætan í skýjunum, sem þurftu að losa sig við eitthvað af þessum ósköpum. Vindurinn var þó tiltölulega hógvær fram eftir degi, og hitinn mældist allt að 7°. Svo kárnaði gamanið að kvöldi. Æsileg rigning helltist yfir og flutti með sér dynjandi skruggur og eldingar. Svo sljákkaði í veðrinu og máninn tók völdin.

15.10. LAUGARDAGUR

Undarlegt veður. Heilmikil rigning öðru hverju. Allhvasst með köflum. Koldimmt í eina áttina, sólskin og fallega heiðblátt í aðra átt. Mestur hiti 6°. Þetta þætti einhversstaðar ankannalegt.

Stórfrétt barst frá Reykjadalnum í dag. Varð þar eldsvoði snemma síðustu nótt. Kviknaði í Birkifelli rétt norðan við Hvítafell og brugðu slökkviliðsmenn snarlega við og slökktu eldinn. Engan sakaði, en talsverðar skemmdir urðu í húsinu. Þarna hafði fólk leigt um skeið, en var að flytja úr því. Í mbl.is er m.a. sagt svohljóðandi: “Svo virðist sem kviknað hafi í einhverju dóti sem stóð á miðju gólfi í barnaherbergi í húsinu. Mögulega gæti hafið kviknað í út frá lampa.” Undarlegar yfirlýsingar það.

Frétt frá Kaldbak, ekki alveg jafn háskaleg. Hestarnir rústuðu heyrúllurnar sem geymdar eru í girðingu úti. Höfðu brotist gegnum girðinguna og kannað vandlega hvað rúllurnar höfðu að geyma. Hrafnar munu hafa lagt hönd á plóg (ha, ha, hönd á plóg) við það skemmdarverk. Ævar og Ingibjörg vinna nú baki brotnu við betrumbætur.

Því betur sem ég kynnist mönnunum….

OKTÓBERDAGAR 2011

1.10. LAUGARDAGUR

Heldur var þungbúið og rigningarlegt snemma morguns, þegar við ókum að heiman og eins og leið lá upp á Kaldbak. Til stóð að sækja hestana í Bæjarásinn og búa þá sem best undir veturinn. Mikið hefur rignt og blásið þar um slóðir sem annars staðar og áttum við allt eins von á talsverðu brölti í rennblautum og hálum brekkunum. Urðum því harla kát, þegar hestarnir hreinlega biðu á hæsta hólnum á Bæjarásnum rétt eins og þeir hefðu átt von á okkur. Það var því auðvelt að smala hestunum í gerðið. Þeir fengu mola að launum og síðan góða tuggu á Rananum, sem svo er kallaður.

Við þurftum að bíða nokkuð lengi eftir aðstoð, en gerðum það sem við gátum á milli skúra. Við gáfum hestum okkar ormalyf, en Ásgeir og Hjálmar komu frá Flúðum að draga undan skeifur og snyrta hófa. Síðan var hópnum hleypt út í frelsið og var það vel þegið.

Talsvert hefur gengið á í veðrinu síðustu vikur á Kaldbak sem annars staðar. Hálfónýtt trampólín rétt við bæinn ber þess vitni. Mikill yrði söknuður yngra fólksins, ef ekki yrði hægt að gera við.

2.10. SUNNUDAGUR

Þungbúið, en skikkanlegt veður. Mestur hiti um 9°.

Lóðin var hreinlega þakin silfurmávum í morgun. Þeir eru félagslyndir og halda hópinn. Því miður fljúga þeir snarlega upp, ef þeir skynja truflun. Langar að hafa tækifæri til að skoða þá betur. Vonandi fer ég ekki vitlaust með heiti fuglanna, enda með tvær merkilegar bækur til hliðsjónar. Fuglar í náttúru Íslands er eftir Guðmund Pál Ólafsson og Íslenskur fuglavísir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Dáist mikið að fuglum og raunar flestum dýrum, hvort sem þau fljúga, synda eða hlaupa. Er nefnilega komin á sama stig og maðurinn sem sagði: „Því betur sem ég kynnist mönnunum, því vænna þykir mér um hundinn minn.“ Þetta viðhorf mun vera eignað Friðriki II, konungi Prússlands. Er ég alveg sammála Friðriki í þessu efni, nema ég vil ekki einskorða við hunda, heldur mörg fleiri merkileg dýr, ekki síst hesta og fugla.

3.10. MÁNUDAGUR

Veðrið alveg sæmilegt í dag. Talsverður vindur, en nánast engin rigning. Sólin skein glaðlega um miðjan daginn og aftur síðla. Mestur hiti 10°.

4.10. ÞRIÐJUDAGUR

Kalt í morgunsárið. Fjöllin grá niður í miðjar hlíðar. Mestur hiti 6°.

Nokkrar ígulrósir prýddu beðin enn í gær, en næturkuldinn gerði endanlega út af við þær. Gljámispillinn er einkar fallegur á þessum tíma, glansandi rauður. Og merkilegt hvað fjólurnar bera sig ennþá vel. En það leynir sér ekki að veturinn er á næsta leiti.

5.10. MIÐVIKUDAGUR

Alskýjað og lágskýjað, lygnt og úrkomulítið mestallan daginn. Mestur hiti 6°. Í rauninni ágætt veður, og göngugarparnir þramma hér fram og aftur Norðurströndina. Nær kvöldinu versnaði og hvessti hressilega.

6.10. FIMMTUDAGUR

Fallegt er út að líta, en kalt, því vindurinn sér um það. Mestur hiti 6°. Fyrir norðan hefur snjóað víða, en hér lætur snjórinn duga að þekja fjöllin niður í miðjar hlíðar.

7.10, FÖSTUDAGUR

Yndislegur dagur. Heiðríkt og nánast logn. Mestur hiti 6°. Og nú gafst tækifærið að njóta haustlitanna á Þingvöllum. Gulir litir, rauðir og bláir. Dýrðlegt.

Seinnihluta dagsins var allt í einu búið með lognið og heiðríkjuna. Er nú varað við hvassviðri og jafnvel stormi og rigningu í nótt og á morgun. Svona er Ísland.

8.10. LAUGARDAGUR

Veðurguðirnir stóðu við sitt og gekk mikið á fram eftir degi. Grenjandi hvasst og rigning, en furðu hlýtt, mestur hiti 10°. Vindinn lægði heldur um hádegisbilið. Er nú lítið orðið eftir af fagurrauða laufinu á gljámisplinum.

Skarfarnir fljúga fallega

SEPTEMBERDAGAR 2011

25.9. SUNNUDAGUR

Ágætis veður með köflum. Rigning stöku sinnum, hófleg þó. Mestur hiti 11°.

Búin með Frelsarann. Sá var nógu spennandi. Og margt fór öðruvísi en búast mátti við. Stundum er hann Harri Hole nánast ófyrirgefanlegt ólíkindatól.

26.9. MÁNUDAGUR

Aðallega rigning þennan daginn, en frekar stillt og m.a.s. sólarglennur öðru hverju. Mestur hiti 11°.

Í morgun kom galvaskur stýfluþjónustusérfræðingur með allar nauðsynlegar græjur til að taka nú í lurginn á hinum bráðnauðsynlegu skólprörum hússins. Svona er að búa í allgömlu húsi. Þá er sitthvað sem lagfæra þarf.

27.9. ÞRIÐJUDAGUR

Loftið er oft fallegt á morgnana þegar ég syndi á bakinu, horfi á skýin og fylgist með skörfunum, sem fljúga gjarna yfir sundlaugina á leiðinni að huga að fiskum til átu. Þeir fljúga fallega skarfarnir. Held að þetta séu dílaskarfar frekar en toppskarfar.

Töluverð rigning í dag og talsverður vindur. Mestur hiti 10°.

28.9. MIÐVIKUDAGUR

Nú rignir um allt land samkvæmt veðurspá. Ekki er það svo sem látlaus rigning, en það þornar ekki á. Mestur hiti 10°.

29.9. FIMMTUDAGUR

Þokkalegt veður fram eftir degi, mestur hiti 1l°. Versnaði smám saman þegar á leið. Orðið hvasst og mikil rigning um kvöldið.

30.9. FÖSTUDAGUR

Engin blíða í veðrinu, hvasst og mikil rigning. Hitinn mældist þó mest 12° svo að ekki var ástæða til að kvarta undan kulda. Sólin reyndi m.a.s. að blanda sér í fjörið og öðru hverju var ástæða til að dást að regnboga. Alltaf eitthvað til að dást að í heiminum.

Trommari á þakinu?

SEPTEMBERDAGAR 2011

18.9. SUNNUDAGUR

Ótuktarlegt veður í dag. Hvasst og mikil rigning. Hins vegar var ekki svo kalt, hitinn fór yfir 10°. Heldur var fátt í morgunsundinu og vafalaust enn færra þegar á leið og herti bæði vind og regn. Kosturinn vitanlega sá að við svo myndarlega rigningu þarf ekki að búast við moldroki, sandfoki né öskufalli.

19.9. MÁNUDAGUR

Sólskin og næstum heiðríkt í morgun, en varla var ég komin heim úr sundinu þegar hellirigning buldi á þakinu eins og kolvitlaus trommari væri þar að verki. Fengum slíkar trakteringar öðru hverju allan daginn. Best var þó þegar sólin og rigningin sameinuðust í gerð eins stærsta og fallegasta regnboga sem ég hef séð. Takk fyrir það! Mestur hiti mældist 11°.

Var að ljúka einni af bestu bókum sem ég hef lesið lengi. Eyru Busters heitir hún. Salka gefur út. Sérlega vel skrifuð bók sem snertir mann alveg inn í bein. Höfundur er sænsk kona, heitir Maria Ernesta. Get hugsað mér að lesa fleiri bækur eftir þá konu.

20.9. ÞRIÐJUDAGUR

Svipað veðurfar. Heldur minni rigning þó. Mestur hiti 10°.

21.9. MIÐVIKUDAGUR

Mikil var dýrðin í dag. Sólskin, logn og blíða fram eftir öllum degi, reyndar aðeins vindur seinnipartinn. Mestur hiti 10°.

Frábært að fá slíkan dag. Gönguferð um Suðurnesið. Tiltekt í garðinum. Þarfaferð í Sorpu. Eftir tiltektina berfætt með bók í kjöltunni úti í garði. Og bæði hunangsflugur og geitungar létu eins og um miðsumar væri.

22.9. FIMMTUDAGUR

Öndvegis veður. Sólskin frá morgni til kvölds. Logn fram á miðjan dag. Mestur hiti mældist 9°.

Leyfði mér þann munað að sitja með bók úti á palli í þessu yndislega veðri. Enda komin með nýjustu bók Jo Nesbö, Frelsarann.

23.9. FÖSTUDAGUR

Sólin skein öðru hverju í dag, þegar skýin gáfu henni glufu. Mestur hiti dagsins 11°.

Ég les fréttablöðin (nema Moggann) yfirleitt nokkuð vandlega. Er hrædd um að missa annars af einhverju merkilegu. Það sannast reyndar sjaldan og margt er furðu ómerkilegt í þessum blöðum. Til dæmis er gengið út frá því sem sjálfsögðu að kvenfólk hafi nánast takmarkalausan áhuga á útliti, klæðaburði og kroppalínum. Í nánast hverju fréttablaði má sjá og lesa um þetta þrennt. Nokkuð einhæft. Bara um konur, sem eiga að vera laglegar, lögulegar og flott klæddar. Og fyrst og fremst grannar. Konur taka margar hverjar þessar kröfur bókstaflega og eyða bæði tíma og peningum í þessa vitleysu. Sárasjaldan er hins vegar ýtt við körlunum, enda vaða þeir ófeimnir fram og aftur með írstrurnar sínar og virðist líða vel með þær.

24.9. LAUGARDAGUR

Hellirigning að morgni og öðru hverju að deginum. Mestur hiti 11°.

Ætluðum endilega að fara á Þingvöll og sjá litadýrð haustsins. En skúraveðrið lofaði ekki góðu.