Vil frið fyrir klaufabárðum

SEPTEMBERDAGAR 2011

12.9. MÁNUDAGUR

Ágætis veður, sólríkt og stillt. Mestur hiti 13°. Mikið mistur.

Fór með minn marghrjáða Ford til viðgerða. Fæ á meðan nýjasta módelið, fagurhvítt og flott. Ágætis farartæki, en ég nýti það eins lítið og mögulegt er, því ekki vil ég fleiri árekstra þetta árið og fer því einkar varlega.

Jónas var að byrja fjögurra vikna endurhæfingu á Reykjalundi og líst harla vel á það sem í boði er. Mikil dagskrá er á hverjum degi og vonandi skilur þetta allt saman góðum bata.

Um kvöldið voru ótrúlega fögur norðurljós. Þvílík dýrð. Og ekki skemmdi fullur og fagur máninn.

13.9. ÞRIÐJUDAGUR

Frábært veður, þótt kalt væri að koma út í morgun. Heiðríkt og stillt, og í þetta sinn var ekkert mistur. Mestur hiti 13°.

Varla er að búast við mörgum sólríkum og hlýjum dögum fram eftir hausti og um að gera að njóta þess arna. Sat úti á palli og las. Geitungarnir eru enn í góðu stuði og létu mig ekki í friði. Lét það þó ekki trufla mig.

14.9. MIÐVIKUDAGUR

Enn er ágætis veður, mestur hiti 11°. Esjan og öll hin fjöllin voru hulin mistri stóran hluta dagsins. Eins og skýin voru falleg í morgun! Ég synti látlaust baksund í morgunsundinu til að geta horft á þessi glettilega fallegu ský. Reyndi mikið að muna hvað svona ský eru kölluð. Er reyndar á því að þau kallist maríutjásur. Hugsanlega jafnvel klósigar.

15.9. FIMMTUDAGUR

Ekki er boðið upp á sól og fínirí þennan daginn. Nú rignir og er reyndar gott vegna öskunnar eða/og sandfoks og moldroks. Og ekki er kalt, mestur hiti mælist 13°.

Fékk Fordinn minn góða í dag, heilan og fínan. Vonast til að hafa hann nú í friði fyrir klaufabárðum á vegum.

Var að ljúka bók eftir sænska höfundinn Marie Hermanson. Kallinn undir stiganum, heitir sagan og er dálítið sérstök. Tekur tímann að átta sig á því sem er að gerast og hvernig það þróast.

Sara Blædal er meðal vinsælustu höfundum spennusagna í Danmörku um þessar mundir. Aldrei framar frjáls, heitir saga sem kom út hér ekki alls fyrir löngu. Synd að segja að það sé ljúf saga. Fjallar um vændisstarfsemi og ömurleg örlög kvenna frá ýmsum löndum. Skortir ekki spennuna.

Nýlega las ég bók eftir perúska höfundinn Mario Vargas Llosa, sem hlotnaðist bókmenntaverðlaun Nóbels á síðasta ári. Átti von á góðu, en lenti satt að segja í miklu basli við að meðtaka ósköpin. Sættist þó við furðulegheitin að lokum. Óneitanlega fyndin og háðsleg saga.

Er nú komin með bók sem nefnist Eyru Busters. Sú lofar góðu.

16.9. FÖSTUDAGUR

Bærileg rigning í dag og í raun ágætis veður. Mestur hiti 13°.

17.9. LAUGARDAGUR

Gott veður og hlýtt. Mestur hiti 13° eins og síðustu daga. Í þetta sinn fengum við sólskin.

Var komin með dágóðan slatta af afgangsbrauði og fór með það til fuglanna á Bakkatjörn. Ótrúlega gaman að sinna þeim. Sorglegt þó að sjá stóru vængbrotnu gæsina, sem ég gái að öðru hverju. Hún ber sig raunar furðu vel og sprangar um og tínir mola upp í sig. En hætt við að hún lifi ekki lengi.

Nú eru margæsirnar komnar frá varpstöðvum sínum á kanadísku Íshafseyjunum. Hingað koma þær til að hvíla sig og safna orku áður en þær fljúga til vetrarsetu á Írlandi. Stór hópur margæsa sat á tjörninni, tók síðan flugið og brá sér á sjóinn. Gaman að horfa á þær.