ÁGÚSTDAGAR 2011
8.8. MÁNUDAGUR
Ósvikið sumarveður. Heiðskýrt og frekar milt. Mestur hiti 16°.
Kvöldin eru oft svo falleg að það er erfitt að hafa augun af dýrðinni. Fólk þyrpist á Seltjarnarnesið að njóta kvöldblíðunnar. Litlu krakkarnir leika sér í fjörusandinum og eldra fólkið fylgist með fuglunum á Seltjörninni. Og margir fara í fótabað í Kisulóni.
9.8. ÞRIÐJUDAGUR
Enn er veðrið eins og best verður á kosið. Mestur hiti 16°. Kvöldið er yndislegt. Gaman að heilsa upp á fuglana á Bakkatjörninni. Komin er værð yfir þá síðla kvölds, þeir kúra sig og hafa það náðugt.
Í dag var útför Óskars Ágústssonar í Hallgrímskirkju. Þar var margt um manninn, mikið blessað og mikið sungið. Meðal annars söngur Laugamanna “Þegar himininn blakknar mín hrapstarna skín”. Það var mjög sérstakt og margir sungu með. Í minningarorðunum var margt skemmtilegt, enda frá mörgu að segja í lífi Óskars, sem var mikill karakter. Sama kom fram í minningargreinum í dag. Höskuldur goði vitnaði t.d. í Óskar, sem sagði eitt sinn að grafskrift hans skyldi verða: Hér hvílir Óskar Ágústsson sárnauðugur. Honum líkt. Í erfidrykkjunni hittum við systur marga kunningja úr Reykjadal og víðar í sýslunni. Það er nú einmitt kosturinn við slíkar athafnir að þar hittist fólk, sem hefur oft ekki sést árum og áratugum saman. Er oft talsverð glaðværð í erfidrykkjum.
10.8. MIÐVIKUDAGUR
Sól og blíða. Mestur hiti 13°.
Á Smugunni í dag er fjallað um rannsókn sem varðar stéttamun og hvernig slíkt skiptir almenning máli. Sama kemur fram í bók eftir John Grisham sem ég var einmitt að lesa. Í umfjöllun Smugunnar segir m.a.: “Hástéttin hefur minni samkennd með náunganum, en þeir sem tilheyra lægri lögum samfélagsins, samkvæmt nýlegri rannsókn. Þeir sem tilheyra efri millistétt og hástétt eru líklegri til að stjórnast af græðgi og sanka að sér fé og eignum umfram það sem talist getur hóflegt. Þá er sami hópur ekki nándar nærri eins gjafmildur og þeir sem minna eiga. Svo virðist sem sýn okkar á heiminn og samfélag sé gjörólík eftir því hvaða stétt við tilheyrum ef marka má viðurstöður rannsóknarinnar.” Minnir á bók Grisham, Áfrýjunin. Þar er einmitt tekið rækilega á sömu málum. Burgeisarnir í Bandaríkjunum eru lítið hrifnir af þeirri bók.
11.8. FIMMTUDAGUR
Enn er góða veðrið. Mestur hiti 13°.
Í dag var útför Birgis Þorgilssonar í Háteigskirkju. Hef ekki fyrr upplifað að sækja tvær útfarir með dags millibili. Kynntist Birgi sem ferðamálastjóra þegar ég var formaður Ferðamálaráðs og líkaði vel að starfa með honum. Birgir var mikill hestamaður og við hittumst oft á hestbaki í Víðidalnum. Það fór vel á því að syngja í útför Birgis ljóð Davíðs Stefánssonar: Þú komst í hlaðið á hvítum hesti.
12.8. FÖSTUDAGUR
Gott veður hér á Nesinu, en ennþá betra á Kaldbak.
Við Jónas höfum ekki getað farið út fyrir höfuðborgina allar götur síðan í júní. Við brugðum okkur á Kaldbak í góða veðrinu, þar sem Pétur hefst við þessa dagana. Hann er þar eins og kóngur í ríki sínu og líður einkar vel. Hann er þó ekki einn í kotinu, því maríuerlurnar halda mikið til á palli hússins. Það eru skemmtilegir heimalningar. Í dag kom ein erlan alla leið inn í hús og lét ekki henda sér út í grænum hvelli.
Gott að geta loksins litið til hestanna. Mig langaði mikið að fara á bak, en það verður að bíða betri tíma. Ég kíkti í berjamó mér til ánægju og sá talsvert af berjum. Þau eiga eftir að þroskast betur, en horfur eru góðar.
13.8. LAUGARDAGUR
Heiðríkt, mestur hiti 14°. Þó nokkuð hvasst.
Vindurinn blés í rétta átt fyrir letipurkuna mig. Lét fara vel um mig í sólinni og sökkti mér niður í Djöflastjörnuna hans Jo Nesbö.
Síðla kvölds var nánast heiðríkt og fullt tungl. Máninn minnir okkur á að haustið er skammt undan.
14.8. SUNNUDAGUR
Fallegt veður, en ekki beint notalegt úti sökum hvassviðris. Sólin skein og mestur hiti var 12°. Kvöldið var fallegt, en þetta sinn faldi tunglið sig á bak við sólroðin skýin.