SEPTEMBERDAGAR 2011
1.9. FIMMTUDAGUR
Misjafnt veður, rigning öðru hverju, annars ágætt að deginum. Mestur hiti 14°. Heldur jókst vindur og regn með kvöldinu. Eru það sagðar eftirhreytur ofsaveðurs í Bandaríkjunum nýlega, sem eiga víst eftir að láta okkur finna aðeins fyrir því á næstunni.
2.9. FÖSTUDAGUR
Fallegt veður í dag. Sólin skein mikinn hluta dagsins. Talsverður vindur, en hann var hlýr. Mestur hiti 14°. Minna varð því úr eftirhreytunum sem verið var að vara okkur við.
3.9. LAUGARDAGUR
Svipað veður og í gær. Sem sagt hlýtt og fallegt.
Við Svana og Tóta frænka okkar ræðum um landsins gögn og nauðsynjar í sundlauginni á laugardagsmorgnum. Höfum til dæmis mikinn áhuga á berjatínslu, en erum alltaf frekar vantrúar á að berin séu jafn góð og auðfengin hér í suðvestrinu sem í Þingeyjarsýslum. Nú eru þær – nema ég – farnar að leita fanga hér í nágrenni og bera sig vel. Ég ein hef ekki tínt eitt einasta ber. Aumingja ég.
Gamlir og góðir vinir okkar frá Finnlandi, Olafi og Marsa Rantalainen, eru hér í stuttri heimsókn. Borðuðum saman á Höfninni og áttum skemmtilegt kvöld. Við höfum í rauninni lítið samband annað en jólakveðjur, en það er alltaf jafn gaman að hitta þetta ágæta fólk.
4.9. SUNNUDAGUR
Einkar fallegt, stillt og gott veður. Sólin skein frá morgni til kvölds. Mestur hiti 14°. Gekk rétt enn einu sinni hringinn um Suðurnesið og sat síðan lengi og fylgdist með fuglunum við Bakkatjörnina. Loksins var svanahópurinn mættur, en enn vantaði einn af ungunum. Tekst líklega aldrei að ráða þá gátu
Sátum lengi í garðinum í góða veðrinu og flugurnar skemmtu sér vel. Ekki eru allir sáttir við fjörið í geitungunum, en enginn hefur enn verið stunginn. Geitungarnir eiga greinilega bú hér einhvers staðar, og ég hef litlar áhyggjur af þeim búskap.
Dóra fer til Brussel á morgun og strákarnir hafa mikið fengið að njóta lífsins með mömmu sinni. Spiluðum hina vinsælu tíu í kveðjuskyni og skemmtum okkur mikið.
5.9. MÁNUDAGUR
Gott veður, hlýtt og sólskin með köflum.
Ók Dóru á flugvöllinn eftir hádegið. Sindri og Breki fengu frí úr skólanum til að fylgja mömmu sinni. Henni tókst að ljúka lestri Narníu-bókar nánast á punktinum, þegar við komum á staðinn. Erfitt var drengjunum að kveðja mömmu, en þau eru nú búin að vera mikið saman í allt sumar, og nú þarf Dóra mín að fara að sinna sinni vinnu og liðka liðið í flottu ræktinni í Brussel. Við hin ætlum á Kaldbak.