ÁGÚSTDAGAR 2011
15.8. MÁNUDAGUR
Mestur hiti þennan daginn mældist 11°. Sólin lét lítt á sér bera og vindurinn blés nokkuð hraustlega, en ekki jafn fólskulega og daginn áður.
Um helgina var Kristján leiðsögumaður í þriggja daga ferð um öræfin með 30 manns, og var þar aðalmálið að ganga Vonarskarðið. Fyrri hluti ferðar þótti vel heppnaður, ágætt veður og frábært útsýni, en sunnudagurinn reyndist ferðalöngunum erfiður vegna hvassviðris. Mörgum þótti nóg um vindinn hér á suðvesturhorninu, en það var nú bara gola miðað við vindbeljandann á öræfunum. Sem betur fer komust allir aftur heim.
Í dag halda Katrín og Kristján upp á 25 ára brúðkaupsafmæli!
16.8. ÞRIÐJUDAGUR
Enn er mikill garri í vindinum og ekkert sérlega gaman í göngutúrum. Nógu fallegt er út að líta og sólin skín. Mestur hiti reyndist 10°.
Um hádegið var barið að dyrum og voru þar mættar Auður og Kristín með pabba sínum. Tómhentar voru þær ekki. Færðu afa og ömmu fallegan blómvönd og gómsæta súkkulaðiköku, sem þær höfðu bakað sjálfar. Við slógum að sjálfsögðu upp veislu, átum þessa ljúfu tertu og spjölluðum margt. Ekki dónaleg heimsókn.
17.8. MIÐVIKUDAGUR
Ágætt veður. Mestur hiti 14°. Kvöldið var ægifagurt sem oftar. Stórkostleg litbrigði í skýjunum og sólsetrið magnað. Flugeldar eru harla ómerkilegir í samanburðinum.
Nú eru 6 vikur liðnar síðan ósæðin hans Jónasar var tekin í gegn. Batinn vex smám saman, og í dag brá hann sér á Höfnina með nokkrum félögum. Hressandi upplifting. Hann mun áður en langt um líður taka við stýrinu á bílnum sínum. Það verður ekki síður upplifting.
18.8. FIMMTUDAGUR
Veður blítt frá morgni til kvölds. Veðurstofan heldur því fram að hitinn hafi aðeins náð 12°.
Fór í góðan göngutúr um Suðurnesið. Á golfvellinum var margt um manninn, og fuglar spókuðu sig þar óhræddir. Gæsir eru þar í hópum og virðast telja sig jafn réttháa og gylfingarnir. Í fjörunni var tjaldurinn í tugatali, að ekki sé minnst á fjörið á Bakkatjörn. Það er mikill kostur að geta notið náttúrunnar á þessu svæði við sjóinn.
19.8. FÖSTUDAGUR
Fínt veður. Spáð var skúrum seinnipartinn, en ekki fundum við fyrir því á Nesinu. Mestur hiti var 14°.
Spásseraði fram og aftur í Gróttu. Fór síðan í heimsókn til fuglanna á Bakkatjörn. Þeir eru spakir og eru forvitnir um gesti. Vilja reyndar gjarna fá eitthvað í gogginn. Svanafjölskyldan var áhugasömust. Þau komu öll sex, hægfara og virðuleg í fasi, og ég beið spennt. En svo varð þeim ljóst að ekkert brauð var í boði. Þau sneru við, blökuðu vængjum og fóru jafn virðuleg aftur til baka.
Jónas settist undir stýri í morgun, ók í bæinn og fór á kaffihús. Það verður að teljast stórt spor í batanum.
Skömmu fyrir miðnætti lenti flugvél á Keflavíkurflugvelli með Dóru, Sindra og Breka innanborðs. Ómar sótti liðið á völlinn, og ég sótti Dóru á Lund. Strákarnir byrja í skólanum í næstu viku og Dóra verður hjá okkur fram í september.
20.8. LAUGARDAGUR
Frábært veður, heiðríkt og fagurt, mestur hiti 13°.
Mikið um að vera í höfuðborginni og fjörið barst um götur Seltjarnarness. Mikill fjöldi fólks tók þátt í maraþoni og ýmsum öðrum skemmri hlaupum. Flestir hlaupagarparnir fóru hér um Nesveg, Suðurströnd, Lindarbraut og Norðurströnd og voru að alveg frá kl. 9 og fram yfir hádegi. Var gaman að fylgjast með.
21.8. SUNNUDAGUR
Ágætt veður. Sólskin með köflum, mestur hiti 11°. Lítilsháttar rigning stöku sinnum.
Fór í gönguferð og staldraði við á Bakkatjörninni. Sérlega er gaman að heilsa upp á svanafjölskylduna, sem tekur mér vel þótt engir séu brauðmolarnir. Ungarnir eru orðnir álíka stórir og foreldrarnir, en gráleitir ennþá. Og nú eru þeir allt í einu aðeins þrír. Ég beið lengi og svipaðist um, en kom ekki auga á þann fjórða. Hvað varð af fjórða álftarunganum?