Loksins ærleg rigning

JÚLÍDAGAR 2011

22.7. FÖSTUDAGUR

Ágætt veður, mestur hiti 14°.

Jónas er enn á Landspítalanum. Hann er fljótur að þreytast og þolir ekki miklar heimsóknir. Reyndar lifnaði heldur betur yfir honum þegar Marínó, Tómas og Þráinn birtust allt í einu og fengu að heyra ýmislegt sem orðið hafði til í kolli sjúklingsins síðustu daga. Piltarnir höfðu góð áhrif, stöldruðu þó ekki lengi við, enda þolir Jónas slík samkvæmi ekki nema skamma stund.

23.7. LAUGARDAGUR

Skemmtilegt veður. Mikill vindur, en þokkalega hlýr. Sólskin, en talsvert mistur. Mestur hiti 16°.

Jónas er kominn í takt við allt sem er að gerast á legudeildinni og er nokkuð sáttur við það sem að honum snýr. Bjarni Torfason læknir er væntanlegur eftir helgina og þá geta þeir rætt saman. Framhald málsins ræðst sjálfsagt að mestu samkvæmt ákvörðunum Bjarna.

Fékk dýrindis kvöldverð hjá Katrínu. Birkigrundarfólk ekur á morgun til minnar hjartkæru Varmahlíðar, sem ég veit ekki hvort ég næ að heimsækja á þessu ári. Meðan þau eru fyrir norðan sé ég um að vökva blóm og fóðra kettina þrjá á Birkigrund.

24.7. SUNNUDAGUR

Síðustu nótt kom loksins ærleg rigning, sem jörðin hefur beðið eftir. Því fylgdi hressilegt hvassviðri, sem fór heldur illa með rósirnar. Önnur blóm stóðu sig vel. Mestur hiti í dag var 14°.

Jónas fékk bæði eyrnatappa og svefnlyf og þar með loksins góðan svefn síðustu nótt. Hann var ánægður með svefnin góða, en ekki jafn ánægður með þrekleysið sem angrar hann.

25.7. MÁNUDAGUR

Ágætt veður í dag, hóflegur vindur og mestur hiti 13°.

Bjarni læknir hitti Jónas í morgun og er sáttur við framvindu mála. Telur allt í góðu gengi og trúlega í lagi að Jónas fari fljótlega heim. Sjálfur er Jónas orðinn nokkuð sáttur við þetta allt saman. Hefur þó áhyggjur af þrekleysinu og að það kunni að gera sér illmögulegt að fara að stunda einhverjar æfingar, en slíkt stendur víst til boða á Landspítalanum. En þetta kemur allt í ljós á næstunni.

Á kvöldin nýt ég iðulega dýrðar kvöldsins út um gluggana sem gefa gott útsýni. Árum saman hef ég dáðst að fegurðinni sem kvöldsólin eða geisladýrð mánans skapar. Það skrítna er að eftir allt mitt gláp út um gluggana er það fyrst nú nýlega sem rennur upp fyrir mér hvað húsin á Eiðsgrandanum og Ánanausti eru ljót. Ég horfi á glampandi sjóinn og ljómann frá sólinni eða tunglinu og tek ekki eftir húsunum ljótu! Þau hafa ekki roð við sólinni og tunglinu.

26.7. ÞRIÐJUDAGUR

Rok og rigning með köflum

Áfram gengur nokkuð vel hjá Jónasi, og nú er farið að undirbúa heimkomu á næstunni. Hann er farinn að spreyta sig í æfingasalnum á spítalanum og getur farið þangað til æfinga þegar hann vill og treystir sér. Allt á uppleið.

27.7. MIÐVIKUDAGUR

Ágætis veður, stillt en sólarlaust. Mestur hiti 13°.

Í dag eru heilar þrjár vikur síðan aðgerðin á Jónasi hófst og allan þennan tíma hefur hann stritað við að ná sér. Ég var farin að velta fyrir mér hvort ég ætti ekki bara að gerast alvöru hjúkka á staðnum! En nú þokast þetta allt áfram. Læknarnir eru alveg sáttir við framgang mála og telja hann tilbúinn til að fara heim. Fengum heilmikla fyrirlestra í dag um allt það sem aðgæta þarf næstu vikurnar. Ekki fátt sem læra þarf til að sinna þessum málum.

28.7. FIMMTUDAGUR

Dumbungur og svolítil rigning með köflum. Mestur hiti 14°.

Jónas kom heim í dag og allir fegnir. Sjálfur er hann feginn að geta slakað rækilega hér heima næstu daga. Síðan verður nóg að gera við að hressa upp á heilsufarið. Hann er hlaðinn allskonar lyfjum og einnig hlaðinn leiðbeiningum um það hvernig hann þarf að mýkja og efla skrokkinn.

29.7. FÖSTUDAGUR

Ágætis inniveður svona svipað og í gær. Engin læti í veðrinu, en talsverð rigning öðru hverju. Mestur hiti 13°.

Ég þurfti að erinda hitt og þetta í dag og meðal annars að kaupa glænýjan öndvegis þorsk. Jónas hafði ekki bragðað góðan fisk síðan í byrjun júlí, og nú var veisla. Sjálfur húsbóndinn sá um matreiðsluna og vill hafa það áfram á sinni könnu nema eitthvað verði í veginum.

30.7. LAUGARDAGUR

Í rauninni ágætis veður, en dálítið flöktandi. Sólin kíkti stöku sinnum milli skýjanna og sendi frá sér notalega heita geisla. Til lítils gagns var þó að setjast út í garðinn, því fyrr en varði fengum við dembuna úr skýjunum.

31.7. SUNNUDAGUR

Álíka veður í dag og í gær. Ljómandi gott öðru hverju og stöku sinnum rigning. Mestur hiti 4°.

Jónas fór tvisvar í göngutúr samkvæmt fyrirmælum sjúkraþjálfa, en hefði betur farið hægar í sakir. Rifjaðist þá upp fyrir sjálfri mér þegar ég fékk varadekk á mjöðm og ætlaði að verða göngugarpur á einum degi. Það þarf svolítið lengri tíma.