ÁGÚSTDAGAR 2011
27.8. LAUGARDAGUR
Ágætt veður, en þó dálítill vindur og því ekki sérlega notalegt utan dyra. Mestur hiti 11°.
Dóra eldaði matinn þennan daginn og hafði mikið fyrir. Lambalæri með allskonar meðlæti, sem féll heldur betur í kramið. Vorum hér sjö í veislunni, Dóra og synir, Pétur og Marcela, Jónas og ég. Mjög góður matur og skemmtilegt andrúmsloft í húsinu.
28.8. SUNNUDAGUR
Dumbungur og rigning öðru hverju. Mestur hiti 11°.
Hér var fjölmennt í hádegisáti. Vantaði bara Heru og Kötlu í útlandinu, og Kára, sem var í heimsókn hjá vini sínum. Það var glatt á hjalla að venju.
Úlfar á Þremur frökkum bauð okkur Jónasi til kvöldverðar. Á boðstólum var ferskur túnfiskur, gómsæti sem ekki finnst á hverjum degi. Frábær veisla.
29.8. MÁNUDAGUR
Veður gott í dag. Skein upp seinnipartinn. Mestur hiti 12°.
Enn ein veislan leit dagsins ljós og nú var hún í boði Marcelu og Péturs. Grillað í garðinum, kjöt og grænmeti, bananar og súkkulaði. Ótrúleg staðreynd að ég fitna ekki baun í öllu þessu áti.
30.8. ÞRIÐJUDAGUR
Svolítil rigning í dag, annars ágætt veður. Mestur hiti 13°.
31.8. MIÐVIKUDAGUR
Allgott veður. Örlítil rigning. Mestur hiti 15°.
Loksins fannst skýrslan um ákeyrsluna á Grandanum sl. fimmtudag. Eins og vænta mátti var niðurstaðan algjörlega mér í hag. Bíllinn minn fer í viðgerð eftir rúma viku.
Þegar ég var lítið flón var ég hrædd við köngulær og hrossaflugur, að ekki sé minnst á margfætlurnar og flatflugurnar. Tvennt síðastnefnda er enn í ónáðinni, en nú orðið hef ég gaman af að fylgjast með köngulóm og skoða vefnað þeirra. Og hrossaflugur hafa ekki hrætt mig síðan ég var barn. Þessa dagana eru það trippaflugur, frænkur hrossaflugnanna, sem skreyta gluggana okkar í miklum mæli. Köngulærnar eru hins vegar nánast horfnar. Kannski búnar að éta yfir sig.