Þolinmæðin þrautir vinnur allar

JÚLÍDAGAR 2011

15.7. FÖSTUDAGUR

Öndvegis veður í dag. Sól og hlýtt, mestur hiti 18°.

Jónas er orðin óþolinmóður að skilja við Gjörgæsluna, enda alltaf dálítið ónæði þar. Hins vegar er þar meira öryggi og stöðug vakt alla daga og nætur. Hann hreyfði sig svolítið í dag, og það er heilmikið átak í hvert sinn. Honum finnst þetta ganga alltof hægt og seint, en læknarnir telja þetta allt í ágætu lagi.

Við Sigrún fórum í Café Flora í hádeginu og innbyrtum frábærlega gott salat. Mælum með því. Og Grasagarðurinn ilmar og skartar sínu fegursta.

16.7. LAUGARDAGUR

Gott veður, þrátt fyrir býsna hvassan vind. Mestur hiti17°.

Jónas var fluttur af Gjörgæslunni í morgun og á öllu friðsælli stað. Aðstaðan er góð og mér virðist honum líða betur þarna, enda búið að fækka slöngum og snúrum. Sjúkraþjálfari mætti þegar ég var þarna, ansi hress og ákveðinn náungi. Nú er stefnan að byggja Jónas upp, og mér leist vel á það sem verið er að gera.

Kristján, Katrín og Kári voru að koma eftir góða daga á Kaldbak. Sara systir Katrínar var þar líka og þau brugðu sér á hestbak öðru hverju. Nú síðast sat Kári á Létti, Katrín á Djarfi, Kristján á Gauki og Sara sat Storm. Öll mjög ánægð, enda eru þetta góðir hestar. Kári var að prófa Létti í fyrsta skipti og var mjög ánægður með hann. Ég læt mig dreyma um að geta farið á bak einhvern tíma í ágúst.

17.7. SUNNUDAGUR

Ljómandi veður, sólskin allan liðlangan daginn, mestur hiti 17°. Upplagt að stússa í garðinum, sem ég hef vanrækt undanfarið.

Jónas er ögn hressari finnst mér. Hann á ennþá erfitt með andardráttinn og stundum erfitt með að tala, en hvort tveggja er talið eðlilegt eftir allt sem á undan er gengið. Hann vill samt endilega spjalla, og ekki vantar skoðanir um allt mögulegt frekar en fyrri daginn. Hann er farinn að borða, en hingað til hefur hann fengið næringu í æð. Mætti segja mér að hann verði ekki hrifinn af spítalamatnum.

18.7. MÁNUDAGUR

Mjög gott veður, sólskin og hlýindi, lítill vindur.

Komst ekki í morgunsundið fyrr en undir hádegi. Hef aldrei áður séð annan eins fólksfjölda í sundlauginni. Allsstaðar þétt skipað fólki nema í heitasta pottinum!

Jónas var heldur úfinn í morgun, óþolinmóður og eirðarlaus. Finnst ósköp lítið gerast á þessum spítala. Hann vill láta sinna sér og þjálfa sig svo að hann komist sem fyrst heim og svo á Reykjalund. Þolinmæði er ekki hans aðalsmerki. Þegar ég kom til hans síðdegis var hann hins vegar jákvæðari og leið betur. Mér finnst honum hafa farið fram, en vissulega gengur það hægt. Þetta er heilmikil vinna og kostar heilmikla þolinmæði.

19.7. ÞRIÐJUDAGUR

Notalegt veður í dag, stillt og hlýtt. 15° hiti, en að mestu sólarlaust.

Batinn sniglast áfram hjá Jónasi. Hann var glaðlegri í dag, hafði farið í labbitúr fram og aftur um ganginn og var hinn ánægðasti að hafa komist loksins, loksins í sturtu. Hann er orðinn almennt jákvæðari og leggur sig allan fram við æfingar. Nú hafa borist út fréttir um sjúklinginn og mikið hringt og mikið spurt á förnum vegi. Ég held að honum þyki mjög vænt um allar kveðjurnar sem honum berast.

20.7. MIÐVIKUDAGUR

Skýjað fyrripart dagsins, sólskin seinnipartinn. Stillt veður og gott. Mestur hiti 14°.

Jónas var algjörlega uppgefinn þegar ég kom til hans í dag. Hafði verið að ganga um gólf og æfa djúpa öndun og sitthvað fleira. Fékk svo heimsóknir og varð svona óskaplega þreyttur af að tala við fólk. Ég skildi við hann steinsofandi skömmu síðar. Hann var svo rétt vaknaður þegar ég kom aftur tveimur tímum síðar. Jónas er að átta sig og er nú farinn að forvitnast um allt sem gerst hefur undanfarnar vikur. Kemur nú margt á óvart, enda hefur þetta allt ruglast og lent saman í einn hrærigraut.

21.7. FIMMTUDAGUR

Nákvæmlega eins veður og í gær. Og enn þarf ég að vökva blómin. Hér hafa naumast fallið dropar dögum saman í þessum mánuði.

Jónas er kannski óþarflega kappsamur. Hann er duglegur að ganga um gólf og vinna að því að efla öndunina. Hann á enn erfitt með öndunina, en niðurstöður af röntgenmyndum eru samt ágætar. Hann er fljótur að þreytast, þyrfti að vera aðeins rólegri. Batinn kemur ekki í neinum hvelli. En þolinmæðin þrautir vinnur allar.