Reiðtúrar og berjatínsla

SEPTEMBERDAGAR 2011

6.9. ÞRIÐJUDAGUR

Komum á Kaldbak í ágætu veðri. Beið ekki boðanna og sótti hestana niður á tún. Allar skeifur á sínum stað. Frábært að komast loksins í reiðtúr með Gauki, þvínæst Stormi og síðast Létti. Ótrúlega gaman.

Að útreiðum loknum brá ég mér í berjamó. Var farin að halda að ég kæmist bara yfirleitt ekkert í berjamó þetta árið. Var varla komin með hálfan bauk þegar skyndilega heyrðust háværar langdregnar drunur og hestarnir tóku heldur betur sprettinn í brekkunum. Hef ekki ennþá fengið skýringu á þessum drunum, en sem betur fór varð ekki meira úr slíku brölti, hvort sem um var að ræða skruggu eða flugvélafret.

7.9. MIÐVIKUDAGUR

Talsverður vindur var heldur til trafala í dag, og býsna var kalt. Sólin bætti hins vegar úr. Lét ekki kuldann hindra mína reiðtúra og berjatínslu að svo búnu. En gott var að ylja sér í heita pottinum.

8.9. FIMMTUDAGUR

Ekki skorti sólskinið né fegurð landsins. En slíkt var hvassviðrið að ég sá mitt óvænna og sleppti reiðtúrum og berjamó þennan daginn.

Jónas átti erindi í bæinn og var ekki væntanlegur fyrr en daginn eftir, svo að ég var óvænt ein á báti í nær tvo daga. Mér til skemmtunar var lítil maríuerla. Hún trítlaði um pallinn og virtist hafa mikið að gera.

9.9. FÖSTUDAGUR

Enn skein sólin og vindurinn var aðeins hógværari en í gær. Stormur minn er ekki hrifinn að stormi og stakk við fótum. Ég þurfti að glíma talsvert við hann, en við sættumst að lokum. Gaukur lét hins vegar vindinn ekkert á sig fá.

Jónas, Breki og Sindri komu loks seinnipartinn og þá var nú kátt í koti. Ekki var beðið með að hoppa og stökkva á trompólíninu.

10.9. LAUGARDAGUR

Veðrið var gott í dag. Þótt vindur blési nokkuð skarpt var þokkalega hlýtt. Hitinn fór yfir 12°.

Ævar og Ingibjörg mættu snemma að morgni með dágóðar veislubirgðir til handa leitarmönnum Hrunamanna, sem hófu leit upp úr hádeginu. Við höfum alltaf gaman af þessu kaffisamsæti, og ekki virðist leitarmönnum leiðast hjá okkur.

Ég reið mínum fákum hringveginn um túnin. Sindri og Breki fengu að sitja Storm nokkra hringi á rananum og höfðu mikið gaman af.

11.9. SUNNUDAGUR

Enn skín sólin og vindur herðist. Talsvert mistur sækir að vegna ösku eða sandfoks þegar vindurinn hreyfir sem mest.

Hleyptum hestunum inn í Bæjarásinn, þar sem þeir hafa það hvað best. Annars fór dagurinn í tiltekt og þrif. Svo var brunað heim.