Nýjasta parið á landinu

ÁGÚSTDAGAR 2011

1.8. MÁNUDAGUR

Öðru hverju rigning í dag, stundum mikil. Annars stillt og notalegt veður. Mestur hiti 14°.

Með okkar augum nefnist þáttur á RÚV. Þar ræður ríkjum fólk með þroskahömlun. Það fjallar um margvísleg málefni og leitar svara við því sem á því brennur. Það kynnir margt skemmtilegt sem það er að fást við, eldamennsku með Jóa Fel, teikningu og málningu og dægurlagasöng, svo að eitthvað sé nefnt. Í kvöld var sýndur 4. þáttur af 6 og sá ég þetta athyglisverða sjónvarpsefni nú í fyrsta sinn. Missti af fyrri þáttum af þeirri einföldu ástæðu að þessir þættir eru á afleitum útsendingartíma. Hvers vegna eur slíkir þættir sendir út kl.18:30? Á þeim tíma er víða verið að matreiða, borða kvöldmatinn, sinna börnum o.s.frv. Þetta er merkilegur þáttur, en vondur útsendingartími og að mínu mati óvirðing við þau sem að honum vinna.

2.8. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætt veður í dag, reyndar svipað og í gær. Mestur hiti 15°.

Nýlega fréttist af silkitoppupari, sem hefur hreiðrað um sig í Mývatnssveit og þjónustar nú 4 unga af mikilli elju. Sagt er að foreldrarnir gefi ungum sínum aðallega misþroskuð krækiber og stöku sinnum flugur. Þetta er stórviðburður því silkitoppur hafa ekki fyrr verpt hér á landi svo vitað sé. Sem sagt: Nýjasta parið á landi voru!

3.8. MIÐVIKUDAGUR

Enn er boðið upp á fjölbreytt veðurfar. Stundum sólskin og hlýtt, stundum alskýjað, stundum rigning, stundum svolítið hvasst. Mestur hiti í dag 15°.

Pétur fór á Kaldbak í morgun. Mér verður óneitanlega hugsað til hestanna, sem hafa aldrei fengið jafn langdregið sumarfrí! Kannski dreg ég Dóru með mér upp á Kaldbak þegar hún kemur og fæ hana með mér á hestbak.

4.8. FIMMTUDAGUR

Veður gott. Skýjað mestallan daginn, ekkert regn að ráði. Mestur hiti 17°.

Fór með Jónasi á Landspítalann í dag. Þangað fer hann í endurhæfingu tvo daga vikunnar héðan í frá. Hann er ánægður með móttökur og aðstoð starfsfólks. Æfir reyndar einnig hér heima samkvæmt leiðbeiningum.

5.8. FÖSTUDAGUR

Veðurstofan heldur því fram að mestur hiti í dag hafi verið 16°. Ég sem var sannfærð um að hitinn hefði náð a.m.k. 20°. Þurfti að bíða alllengi fyrir utan Landspítalann meðan Jónas beið eftir samtali við lækni. Las heilt fréttablað meðan ég beið og sofnaði síðan í hitanum. Seinna um daginn sat ég hér heima og horfði á vindinn skekja tré og runna. Engin ládeiða í þessu landi.

Anna Kristine tók við af Sigríði í Kattholti þegar hún lést fyrr á árinu. Er nú formaður Kattavinafélagsins og lætur til sín heyra. Gæti gert góða hluti, en ekki líst mér þó á allt sem frá henni kemur, einkum yfirlýsingar hennar um að hún vilji endilega byggja upp lúxuskattahótel. Er líklegt að kattavinir styðji hana í þess háttar vitleysu? Kattholt er sífellt í kröggum og þarf góðan stuðning kattavina, en ekki lúxushótel fyrir ketti. Lélegur brandari.

6.8. LAUGARDAGUR

Stórfínt veður í dag. Sólskin mestallan daginn og hitinn fór upp í 19°.

Puðaði svolítið í garðinum, enda ekki í kot vísað í góðviðrinu. Aðalvinnan felst í því að láta ekki stærri og áleitnari blómin kaffæra þau minni og hógværari. Stærri blómin eru vissulega dugleg og falleg, eins og garðasólin, vatnsberinn og dagstjarnan, en ég vil fá að njóta fjólanna fögru og gullfallegu stjúpanna sem ég gróðursetti í vor.

7.8. SUNNUDAGUR

Frábært veður, stillt og gott. Sólskin frá morgni til kvölds. Mestur hiti 18°.

Ekki er alltaf jafn unaðslegt í garðvinnunni. Var að stússa í kringum hvannirnar, sem mér fannst eitthvað torkennilegar, og uppgötvaði allt í einu að hvannirnar voru hreinlega þaktar gráhvítum pöddum. Þær voru sem sagt blygðunarlaust að innbyrða þessar myndarlegu jurtir frá toppi til rótar. Plastpokinn stóri fékk sig fullsaddann af útlitsljótri hvönn og gráðugum pöddum, sem fengu svo far í Sorpu. Er enn að klóra mér þrátt fyrir allan líkamsþvottinn!