Tröllahvönn, bjarnarkló, hestahvönn

ÁGÚSTDAGAR 2011

22.8. MÁNUDAGUR

Alskýjað, dumbungur, talsverður vindur, rigning öðru hverju. Mestur hiti 11°.

Í svona veðri leyfir maður sér að húka inni og lesa. Var að ljúka bókinni Fyrir frostið eftir Henning Mankell. Aðalpersónurnar eru þar Kurt Wallander og Linda dóttir hans. Ágæt bók og spennandi, en óþarflega langdregin á köflum. Nú orðið virðist krafan vera að bækur fylli a.m.k. 400 til 500 blaðsíður, og þar af leiðandi verða þær stundum langdregnar. Jo Nesbö virðist fara létt með að fylla tilskilinn blaðsíðufjölda og tekst flestum betur að halda spennunni á hverri síðu þótt margar séu. Hann er meðal bestu krimmahöfundum.

Kristján var að hvetja mig til að kynna mér betur hinar ýmsu tegundir hvanna, sem ljóst er að geta gert manni illan grikk. Tröllahvönn, bjarnarkló og hestahvönn teljast til risahvanna og eru afar varasamar. Var nýlega að rífa upp slatta af hvönn í garðinum og koma fyrir kattarnef. Leist ekkert á hvannirnar mínar sem hafa dafnað vel hingað til, en nú er sem skollinn hafi ráðist á þær. Ég fékk smávegis eitrun í handlegg af þessu brölti mínu. Líklega verð ég að fá einhverja með mér að losa okkur algjörlega við hvönnina, hvort sem hún heitir bjarnarkló, tröllahvönn eða hestahvönn.

23.8. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætt veður, sólskin öðru hverju, mestur hiti 13°.

Álftarunginn, sem týndist um daginn, synti tignarlega um Bakkatjörnina í dag. En ekki er sagan öll, því foreldrarnir og systkinin þrjú voru hvergi sjáanleg.

24.8. MIÐVIKUDAGUR

Gott veður, stillt og hlýtt. Sólskin öðru hverju. Mestur hiti 14°.

Álftarunginn var á sínum stað í morgun, en þegar ég fór í göngutúr seinnipartinn var hvorki hann né hin í fjölskyldunni sjáanleg.

25.8. FIMMTUDAGUR

Heiðríkt, stanslaust sólskin, en talsverður vindur. Mestur hiti 14°.

Þegar ég var á útleið frá Krónunni í dag ók á mig eldri kona og beyglaði minn góða bíl heldur skrautlega. Allt er þá þrennt er, varð mér strax hugsað, minnug þess að tvisvar var bakkað á mig í maí s.l. Ekki mikið sem þá þurfti að lagfæra, en alltaf er þetta vesen. Í þetta sinn er þetta öllu verra, töluverðar skemmdir. Lögreglumaður kom og yfirheyrði okkur. Konan reyndi að halda því fram að ég hefði átt jafnmikla sök og hún, en sem betur fer sáu ýmsir ákeyrsluna. Og ég var svo heppin að kona sem á þetta horfði bauðst til að vera vitni.

26.8. FÖSTUDAGUR

Veður harla gott, mestur hiti 13°.

Flokksráðsfundur Vinstri grænna var haldinn á Hótel Loftleiðum. Hófst seinnipartinn og stóð fram eftir kvöldi. Þetta var ágætur fundur, margt gott til umræðu og ekkert þras að ráði. Allmargar ályktanir lágu fyrir fundinum. Áhugi minn snýr fyrst og fremst að náttúruvernd og um þessar mundir hvernig tekið verður á Rammaáætlun. Sé ekki annað en að hugur sé í fólki að gera sitt ítrasta til að ná fram nauðsynlegum úrbótum á Rammaáætluninni. Okkar fólki ætti að mega treysta í því efni.