Stólaleikur á enda – í bili

Jæja, loksins small þetta saman hjá þeim Davíð og Halldóri. Stólaleikurinn á enda. Og allt gamla liðið situr áfram nema Halldór Blöndal sem verður forseti þingsins! Brosti nokkur í kampinn? En þannig urðu til sæti fyrir þrjá nýja úr Sjálfstæðisflokknum, Árna, Sólveigu og Sturlu. Létt verk hjá Davíð sem hefur föst tök á sínu liði, enda auðveldara fyrir þingmenn hans að sætta sig við að vera “bara” þingmenn þar sem þeir eru svo margir.

Fyrir Halldór Ásgrímsson var þetta miklu erfiðara. Helmingurinn ráðherrar og hinn helmingurinn úti í kuldanum. Æ,æ! Kalt er við kórbak. Enda leyndi sér ekki að tillaga formannsins hafði lagst misjafnlega vel í mannskapinn. Hann varð að lofa því að gera breytingar síðar á kjörtímabilinu til að koma fleirum að. Guðni og Siv mega núna. Valgerður síðar.

Slæmt að geta ekki bara breikkað forsetastólinn og troðið Blöndal og Páli báðum í hann! En þá yrði reyndar útilokað að koma öllum ráðherrunum fyrir á ráðherrabekknum því heyrst hefur að eina ráðið sé að mjókka forsetastólinn og tilheyrandi tröppuganga upp að honum. Skyldi skrifstofustjóra Alþingis ekki hafa dottið í hug að setja ráðherrana bara upp á áhorfendapalla? Þá yrði loksins sæmilega rúmt um “bara” þingmenn í salnum.

Allt í einu rifjaðist upp fyrir mér samkvæmisleikur frá því í gamla daga. Hann hét einmitt stólaleikur og við krakkarnir lékum hann á afmælum og jólum. Stólum var raðað í hring, einum færri en þátttakendur sem gengu innan hringsins meðan leikinn var lagstúfur. Allt í einu hætti lagið og þá flýttu sér allir að setjast. Einn varð náttúrlega úr leik þar sem stólarnir voru ekki nógu margir og nú var þeim fækkað um einn og þannig koll af kolli þar til aðeins einn var eftir. Þannig lékum við okkur þá og þannig leika sumir sér enn. Eða hvað?

Og í þetta sinn stóðu konurnar sig bærilega í stólaleiknum. Er þar komið enn eitt dæmið um áhrif Kvennalistans á íslensk stjórnmál. Það þykir bara ekki lengur í lagi að ganga fram hjá konum. Loksins.

Valdafíkn og helmingaskipti

Nú hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur þegar varið heilum 18 dögum í umræður um myndun nýrrar ríkisstjórnar sem að líkindum lítur loks dagsins ljós eftir 2 – 3 daga. “Það á að vanda sem lengi á að standa”, segja leiðtogarnir með yfirlætislegu brosi þegar fjölmiðlar inna þá eftir ástæðum þess hversu hægt gengur. Öðru vísi var þó að verki staðið þegar sömu flokkar mynduðu stjórn á örskömmum tíma fyrir fjórum árum. Var í þá daga ekki ætlunin að tjalda til lengri tíma?

Þessi seinagangur við stjórnarmyndun stafar ekki af vönduðum vinnubrögðum við málefnavinnu þótt eitthvað hafi þurft að hræra í loforðasúpu Framsóknar, heldur er hann fyrst og fremst til marks um hrokafulla framkomu þessara tveggja flokka sem telja sig eina réttborna til að stjórna landinu og leyfa sér að taka allan þennan tíma til þess að þjarka um ráðherrastóla sín á milli og við valdafíkna flokksmenn sína. Þar geisar nú ráðherraveikin eins og faraldur og virðist flest annað ráða en hæfileikar og þekking á málefnum þegar tekist er á um réttinn til ráðherradóms.

Svo hart er nú slegist um ráðherraembættin að leiðtogarnir sjá ekki annað ráð vænna en að fjölga þeim um tvö með tilheyrandi aukakostnaði fyrir þjóðina. Og í stjórnarsamstarfi er vandlega gætt helmingaskipta öfugt við það sem gildir í þinginu þar sem öllu er skipt í hlutfalli við kjörfylgi nema ræðutíma. Þar eiga smáir sem stórir þingflokkar sama rétt. Það hefur reyndar lengi farið í taugarnar á stærri flokkunum og einkum þó Framsókn blessaðri sem skortir hins vegar ekki kröfuhörkuna fyrir sig og sína þegar verkaskipti í ríkisstjórn er annars vegar.

Ekki er enn séð hvernig troða á heilli tylft ráðherra á þröngt setinn bekkinn í Alþingi og málið er allt í senn hlægilegt og grafalvarlegt. Furðu lítil viðbrögð eru hins vegar við þessu makki flokkanna tveggja. Sennilega er þar um að kenna hefðbundnum almennum doða eftir kosningahríð.

Dundað við stjórnarmyndun

Eftir frábæran árangur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í nýafstöðnum kosningum er einkennilegt að heyra einn og einn gera því skóna að þetta stjórnmálaafl verði ekki langlíft og muni fyrr en síðar renna inn í Samfylkinguna. Með tilliti til sterkrar málefnastöðu og góðs anda í okkar röðum er það fráleitur möguleiki í mínum huga.

Mér finnst satt að segja miklu líklegra að Samfylkingunni gangi treglega að ná upp samkennd og samræmingu misvísandi sjónarmiða innan sinna raða og að þeir erfiðleikar leiði til þess að úr henni kvarnist til vinstri og hægri eftir því sem á líður.

Þráin eftir leiðtoganum sterka var bæld niður í kosningaslagnum, en braust upp á yfirborðið um leið og óánægðir liðsmenn Samfylkingarinnar tóku að viðra vonbrigði sín með lélegra gengi í kosningunum en þeir höfðu vænst. Von er að menn leiti skýringa, en að mínu mati er ósanngjarnt að kenna leiðtoga eða leiðtogaleysi um útkomuna. Ástæðan var einfaldlega samstöðuleysi og misræmi sjónarmiða, skortur á trúverðugleika, ólík afstaða til mikilvægra mála eftir landshlutum, t.d. í umhverfismálum og náttúruvernd, og augljós togstreita milli einstaklinga, jafnvel milli manna á sama lista. Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun mála hjá Samfylkingunni næstu fjögur árin.

Framsóknarmenn fengu verðskuldaða ráðningu í kosningunum og eiga bágt með að leyna gremju sinni. Þeir reyna að kenna um aðför að formanninum svo og því að þeir hafi haft svo erfið ráðuneyti með höndum. Þeir ættu að hugsa sitt ráð og fara betur ofan í verk sín á síðasta kjörtímabili því það eru þau sem tala eins og þeir sjálfir auglýstu og súpa nú seyðið af. Mín skoðun er sú að ekki síst hafi kjósendur verið að refsa framsóknarmönnum fyrir frammistöðuna í umhverfismálum, þar sem ábyrgðin var fyrst og fremst á þeirra herðum. Þeir hafa ekki skilið kall tímans og brugðist rangt við í mikilvægustu málunum. Allt hjal um sátt milli sjónarmiða verndar og nýtingar er t.d. marklaust þegar öllum má ljóst vera að þeir eru tilbúnir til að fórna einstökum gersemum náttúrunnar fyrir skammtíma fjárhagslega hagsmuni.

Því miður kemst Sjálfstæðisflokkurinn á undraverðan hátt hjá allri gagnrýni í þessum efnum eins og ýmsum öðrum þó að augljóslega sé hann engu betri og hafi mælt upp í Framsóknarflokknum alla vitleysuna og axarsköftin í umhverfismálunum á síðasta kjörtímabili. Það fer að verða vísindalegt rannsóknarefni hvernig stærsta flokki landsins tekst að sigla í gegnum pólitíska stórsjói án þess að setja fram skýr stefnumið og án þess að þurfa að svara fyrir verk sín. Það er eins og stærðin ein valdi lotningu og öryggistilfinningu kjósenda, að ekki sé minnst á áberandi hnjáliðamýkt fjölmiðlamanna í garð flokksformannsins.

Því miður stefnir allt í framhald samstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þrátt fyrir skilaboð kjósenda til þess síðarnefnda. Útkoma Sjálfstæðisflokksins sýnir það að stór hluti landsmanna vill hafa hann við stjórnvölinn og því sitjum við efalaust uppi með þann kost. Sú hugmynd hefur reyndar skotið upp kollinum að réttast væri að hann myndaði stjórn einn og sér og leitaði samstarfs við aðra flokka eftir málefnum. Engin hefð er fyrir slíkum stjórnarháttum hér, sem tíðkast þó víða annars staðar og væri ef til vill þess virði að reyna.

Líklegast er hins vegar að gamla stjórnin skipti um nokkur andlit og þjóðin megi búa við sama stjórnarmynstur næstu fjögur árin. Geir og Finnur dunda sér við hrossakaupin næstu daga meðan Halldór er í útlöndum og Davíð í gönguferðum með Tanna. Þeir telja sig hafa nægan tíma og því miður er það trúlega svo.

Á síðustu sentimetrunum

Kapphlaupinu um þingsætin næstu fjögur árin lauk á dramatískan hátt, a.m.k. fyrir undirritaða. Og ekki skal því neitað að það var óþægilegt að falla á síðustu sentimetrunum í markið eftir æsispennandi nótt þar sem við uppbótarkandidatarnir svifum til skiptis inn og út um skjáinn. Glæsilegur sigur Vinstri grænna bætti þau óþægindi þó margfalt upp. Og enn betra er að orna sér við minningar úr kosningabaráttunni sem við getum sannarlega verið stolt af. Þar vannst sá sigur sem mikilvægastur er, sá sigur að fylgja sannfæringu okkar og samvisku og geta sagt við okkur sjálf: Þetta vildum við gera, við gerðum okkar besta, við erum sátt við okkur sjálf.

Við sem bárum hitann og þungann í Reykjaneskjördæmi erum stolt af árangrinum sem við náðum á þeim örfáu dögum sem við háðum raunverulega kosningabaráttu. Það blés ekki byrlega í fyrstu samkvæmt skoðanakönnunum og við fundum rækilega fyrir þeim aflsmun sem þar er við að fást, rótgrónar fylkingar og vel smurðar kosningavélar. Við sáum kosningaskrifstofur þessara afla í hverju byggðarlagi og fjárráðin virtust takmarkalaus til auglýsinga og útgáfu, til stórhátíða og gjafa af furðulegasta tagi. Andlit frambjóðenda þeirra blöstu við nánast hvert sem litið var, í gluggum og á húsgöflum, flettiskiltum, staurum og umferðarbrúm. Við þessu var auðvitað ekki annað að gera en að þeysa með okkar eigin andlit eins víða og við komumst yfir á þeim þremur vikum sem baráttan stóð af okkar hálfu, hitta fólk í eigin persónu og kynna okkar ágætu stefnu. Þetta var óneitanlega hressileg lota og okkur tókst að landa góðum afla inn í sameiginlegan atkvæðapott miðað við aðstæður.

Vegna kjósenda okkar og vegna míns góða samstarfsfólks er leitt að hafa ekki náð þingsæti á þessu kjörtímabili. En við vorum með gott fólk um allt land og þingflokkurinn nýi er vel skipaður afbragðs fólki. Það verður gaman að fylgjast með störfum þess næstu fjögur árin.

Þessa dagana er ég í óða önn að flokka skjöl og gögn sem fylla allar hillur, skúffur og skápa á skrifstofunni minni í Austurstræti 14. Þá þarf að taka til í tölvunni og fá nýtt heimilisfang fyrir póstinn. Fresturinn til að skila af sér er býsna skammur, en skiljanlegt að nýkjörnum þingmönnum liggi á að koma sér fyrir. Ég reyni að skilja eftir góða strauma í þeirri vistarveru sem hefur verið athvarf mitt síðustu fjögur árin.

Mikilvægasti sigurinn

Ávarp KH á baráttufundi í Kópavogi 6. maí:

Góðir fundargestir, samstarfsfólk og stuðningsfólk!

Vika er langur tími í pólitík er oft sagt með spekingssvip.

Við höfum sannreynt þessa speki að undanförnu hér í Reykjanesi og við vildum gjarna fá eina viku í viðbót til að sannreyna hana enn frekar.

Eiginleg kosningabarátta hefur ekki staðið nema tæpar þrjár vikur hjá okkur hér, en hver vika og hver einasti dagur hefur verið nýttur til hins ýtrasta og hefur skilað okkur árangri sem erfiði.

Og vegna alls þess sem við höfum reynt og gert hef ég þurft að segja sjálfri mér á hverjum degi hversu stutt það raunverulega er síðan við öxluðum pokana okkar með bæklingunum og merkjunum og hófum ferð okkar milli vinnustaða til að sýna okkur og sjá aðra, kynna stefnuna og tala fyrir hugmyndum okkar og hugsjónum.

Það hefur verið á brattann að sækja í þessu kjördæmi, kannski meiri bratta en víðast hvar annars staðar. Hér er mikill aflsmunur, rótgrónar fylkingar, einkum sjálfstæðismanna og krata með sínar vel smurðu kosningavélar, og ekki gefur Framsókn þeim eftir í hamaganginum.

Við fundum mikið fyrir þessum aflsmun í fyrstu, þar sem fólk virtist lítið vita fyrir hvað við stöndum. Fyrstu fundirnir voru því ekkert sérlega upplífgandi.

Nú er andrúmsloftið hins vegar gjörbreytt. Viðtökur á vinnustöðum eru sífellt betri – og nú, þegar aðeins er rúmur sólarhringur til kosninga, finnst okkur einmitt vanta þessa mikilvægu viku, sem getur orðið svo löng og árangursrík í pólitíkinni.

Það væri hægt að segja margar sögur úr þessari kosningabaráttu – bæði til skemmtunar og ama.

Það sem hefur gengið mér næst tilfinningalega er að skynja svo sterkt þá mengun hugarfarsins, sem orðin er svo víðtæk í þessu kjördæmi, einkum á Suðurnesjum, þar sem alltof margir líta á bandaríska herinn einfaldlega sem tekjuskapandi og atvinnuveitandi fyrirtæki. Við máttum sums staðar þakka fyrir að fá að koma einhverjum öðrum stefnumálum á framfæri, svo ákaft var reynt að sýna okkur fram á hjálpræðið mikla í Miðnesheiðinni.

Og mér verður lengi minnisstæð heiftin sem ég mætti á einum vinnustaðnum.

Ég hefði ekki orðið undrandi þótt viðmælandi minn hefði brugðið höndum um háls mér og hert að.

Segið svo að það sé ekki háskalegt að vera í framboði fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð!

Aldrei höfum við þó kveinkað okkur undan þessari umræðu, við erum jafn stolt af afstöðu okkar í þessu efni hér sem annars staðar. Við erum stolt af því að geta sagt að við tölum einum rómi í öllum meginatriðum stefnu okkar hvar sem er á landinu, líka í erfiðum málum eins og um hersetuna eða Kísiliðjuna, kvótakerfið eða Evrópusambandið, Kýótó eða stórvirkjanir á hálendinu.

Við erum stolt af stefnu okkar, og það er uppörvandi að finna hið breytta andrúmsloft, sem ég talaði um hér áðan.

Það er uppörvandi að heyra fleiri og fleiri segja við okkur í kveðjuskyni að loknum vinnustaðafundi: Gangi ykkur vel!

Það er gaman þegar beðið er um upplýsingar og fleiri bæklinga, sem öllum finnast fallegir og vel gerðir.

Og það er gaman þegar fólk er farið að næla ófeimið í sig barmmerkinu okkar og lesa fleira og fleira táknrænt út úr stafnum okkar, t.d. það að við séum sífellt á uppleið.

Í morgun kom til mín kona og bað mig um merki, eitt handa sér og annað handa mömmu sinni.

„Ég er að kenna henni að krossa við U”, sagði hún, „hún hefur alla sína ævi merkt við sama bókstafinn, blessunin, og er svolítið hrædd um að ruglast þegar hún kemur inn í kjörklefann. En hún veit hvaða fólk hún ætlar að kjósa.”

Vonandi endist morgundagurinn til að kenna gömlu konunni að krossa við bókstafinn U.

En ég vildi enn að við hefðum viku til stefnu.

Því verður hins vegar ekki breytt, og nú er örskammt til úrslitastundar.

Samt finnst mér við þegar hafa unnið sigur.

Við höfum unnið sigur, sem ekki verður frá okkur tekinn, hvað sem að lokum verður talið upp úr kjörkössunum.

Við höfum unnið sigur með því að halda tryggð við hugsjónir og hugmyndir, en hafna hentistefnu og valdafíkn.

Við höfum unnið sigur með því að bera fram skýra og afdráttarlausa stefnu og standa að henni öll sem eitt.

Við höfum unnið sigur með því að reka heiðarlega kosningabaráttu, vera sjálfum okkur samkvæm og tala einum rómi í öllum landshlutum.

Við höfum unnið sigur með því að láta ekki glepjast til að lofa upp í óvissar ermar.

Við höfum unnið sigur með því að andæfa gegn auglýsingaflóðinu og sýna kjósendum tillitssemi og virðingu.

Við höfum unnið þann sigur sem mikilvægastur er, þann sigur að fylgja sannfæringu okkar og samvisku og geta sagt við okkur sjálf:

Þetta vildum við gera, og við gerðum okkar besta.

Við erum sátt við okkur sjálf.

Þess vegna erum við bæði glöð og stolt í dag.

Ég trúi því að við verðum ekki síður glöð og stolt að loknum kosningunum á laugardaginn kemur.

Nýtum morgundaginn vel.

Kennum sem flestum að setja x við U.

Brekkan og baráttan

Mér brá þegar mér varð ljóst að ég hafði ekki stungið orði inn í minnisbókina í meira en viku. Það segir auðvitað talsvert um það sem er að gerast þessa dagana. Baráttan er á fullu frá morgni til kvölds og veitir ekki af því hinir flokkarnir höfðu drjúgt forskot þegar við blönduðum okkur í slaginn.

Í rúmar tvær vikur höfum við vinstri grænir í Reykjanesi þeyst á milli vinnustaða að kynna stefnu okkar og andlit. Víðast hvar mætir okkur vinsamleg forvitni, sums staðar mikill áhugi og stuðningur, en á stöku stað fáum við það líka óþvegið. Allir eru sammála um að við komum hreint og beint fram með skýra og afdráttarlausa stefnu og við höfum bara gaman af að takast á um málefnin.

Baráttugleðin er í góðu lagi hjá okkar fólki og allir leggja eins mikið af mörkum og þeir mögulega geta meðfram brauðstritinu. Sigurbjörn bóndi eltir okkur Sigtrygg uppi þegar hann er búinn að mjólka, en við söknum Guðbjargar Sveinsdóttur sem er í 4. sætinu.á listanum okkar. Hún er hins vegar þátttakandi í öllu lífshættulegri baráttu austur í Makedoníu þar sem hún veitir stríðshrjáðu flóttafólki áfallahjálp. Þrátt fyrir sífelldan fréttaflutning er erfitt að gera sér í hugarlund lífið á þessum slóðum sem er auðvitað skelfilegra en orð fá lýst. En svo mikið er víst að reynslan hefur ekki breytt afstöðu Guðbjargar til NATO og hvers konar hernaðaraðgerða sem skapa meiri hörmungar og verri vandamál en þeim er ætlað að leysa.

Það verður engin lognmolla í kosningabaráttunni næstu daga. Við höldum áfram sprettinum á milli vinnustaða og boðum til málefnafunda á kvöldin. Siðferði í stjórnmálum er fundarefnið í Reykjanesbæ á þriðjudagskvöld, jafnrétti kynjanna verður rætt í Hafnarfirði á miðvikudagskvöld og á fimmtudagskvöld verður dúndrandi baráttufundur í Félagsheimilinu í Kópavogi.

“Við eigum brekku eftir, hún er há” er yfirleitt það fyrsta sem mér dettur í hug á morgnana, en brekkan sú er alltaf að lækka eftir því sem úrslitastundin nálgast. Við erum bjartsýn og full eftirvæntingar að heyra niðurstöður kjósenda um næstu helgi.

Kiðafell og Iðnó

Makalaust annasöm og skemmtileg helgi er nú á enda. Tveir atburðir standa upp úr og eru hvor á sinn hátt til marks um sérstöðu okkar vinstri grænna í þessari kosningabaráttu.

Á laugardag var opið hús á Kiðafelli í Kjós. Þar búa hjónin Sigurbjörn Hjaltason og Bergþóra Andrésdóttir og hafa nýlega byggt nýstárlegt búfjárhús þar sem allur þeirra fénaður rúmast saman, hestar, nautgripir og sauðfé. Þar gat að líta nýfædd lömb og kálfa, hægt var að bregða sér á bak þægum hesti og agnarsmáir kettlingar slógu í gegn hjá börnum á öllum aldri. Frambjóðendur voru að sjálfsögðu á staðnum og stóðu sig bærilega við að grilla pylsur, hella upp á kaffi, blása upp blöðrur og teyma undir börnunum, en létu öll ræðuhöld eiga sig að þessu sinni. Þetta var fyrst og fremst dagur barnanna og veðurguðirnir sýndu velþóknun.

Í dag, sunnudaginn 25. apríl, var boðið upp á fjölbreytta dagskrá í Iðnó undir yfirskriftinni Græn framtíð. Þar rak hvert atriðið annað, tónlist og ljóðalestur, erindi og leiklist, og tveir snillingar með ljósmyndavélar sýndu okkur listaverk náttúrunnar, þeir Kári Kristjánsson landvörður og Oddur Sigurðsson jarðfræðingur. Þetta var eiginlega hápunkturinn á ferli Grænu smiðjunnar sem hefur starfað allar götur síðan í febrúar og verður raunar að allt fram í júní.

Ég er mjög ánægð með hlut okkar í þessari kosningabaráttu sem er rekin á málefnalegum forsendum, en loforðaflaumur, auglýsingafár og ímyndarsmíði látið lönd og leið.

Til hamingju Guðmundur Páll!

Guðmundur Páll Ólafsson varð fyrstur til að hljóta umhverfisverðlaun frjálsra félagasamtaka um umhverfis- og náttúruvernd. Það gleður mig ósegjanlega. Engan veit ég betur að því kominn.

Bækurnar hans eru listaverk og hver um sig líkleg til að vekja ást og virðingu á landi okkar og náttúru. Fátt hefur þó haft meiri áhrif á viðhorf almennings en gjörningur hans síðastliðið sumar, þegar Fögruhverum var sökkt til að fullnægja orkuþörf fyrir mengandi stóriðju. Sú aðgerð vakti marga til umhugsunar um hernaðinn gegn landinu. Þeir sem troðfylltu Háskólabíó í nóvember síðastliðnum þökkuðu Guðmundi Páli með því að rísa úr sætum og klappa honum lengi og mikið lof í lófa. Þá risu tilfinningar hátt og blikuðu tár á vöngum margra. Sú samkennd og baráttugleði sem þá greip um sig mun ef til vill hafa meiri áhrif til framtíðar en okkur nú grunar.

Til hamingju, Guðmundur Páll!

Sumardagurinn fyrsti

Eitt það íslenskasta af öllu íslensku hlýtur að teljast sumardagurinn fyrsti. Og í þetta sinn brást hann ekki vonum landsmanna, heldur gaf fögur fyrirheit um bjarta og hlýja daga. Mér tókst að blanda saman skylduverkum og ánægjustundum á harla gæfulegan máta og lofa nú dag að kvöldi.

Dagurinn hófst með fyrirfram ákveðinni myndatöku okkar í efstu sætunum á Reykjanesi með tilheyrandi klettaklifri og alls kyns glæfraspili. Á morgun fáum við svo að sjá hvort gleðin og sigurvissan verða ekki öllu öðru yfirsterkari í andlitum okkar.

Þá tók við opnun handverkssýningar í Laugardalshöll. Þar var sannarlega margt að skoða og gaman að sjá hversu margbreytileg iðja fer fram á þessu sviði. Ég notaði tækifærið og keypti sumargjafir handa barnabörnunum.

Mér tókst að skjótast á hestbak, hafði ekki hitt mína kæru vini síðan laugardaginn fyrir páska og því var þetta mikill fagnaðarfundur a.m.k. af minni hálfu. Við riðum kringum Rauðavatn og ekki hafði þeim Víkingi og Prúði fatast fótamenntin, enda góðir menn sem halda þeim við efnið fyrir mig. Bóndinn varð hins vegar að ganga frá reiðtygjum og gera hestunum til góða, því ég varð að hendast á næsta stað.

Græna smiðjan hélt að sjálfsögðu upp á sumardaginn fyrsta með umfjöllun um börn og fjölskylduvænt umhverfi. Óskar Dýrmundur Ólafsson og Sigrún Helgadóttir fluttu okkur vekjandi erindi og Olga Guðrún Árnadóttir las úr einni af bókum sínum. Þetta var mjög skemmtilegt og umræður góðar, en óneitanlega sækja að áhyggjur yfir því hversu skammt við erum í rauninni komin í þessari umræðu hér á landi. Skilningsleysi og framtaksleysi stjórnvalda er algjört. Þau halda í sjálfumgleði sinni að hér sé allt í stakasta lagi og að umhverfisfræðsla sé fólgin í því að senda skólanemendur út að tína rusl og planta nokkrum trjáplöntum. En hún er auðvitað allt annað og meira og þetta þarf að taka föstum tökum. Það dugir ekkert minna en stórátak í umhverfismennt á Íslandi.

Og hver veit nema komi betri tíð með blóm í haga þegar Vinstrihreyfingin – grænt framboð verður orðin stór og áhrifamikil hreyfing. Gleðilegt sumar!

Þrumuský Halldórs og Finns

Eins og eðlilegt er keppast nú samtök af ýmsum toga um að halda fundi og ráðstefnur til að kynna sín áhugaefni og krefja frambjóðendur um afstöðu til þeirra. Einn slíkur fundur var haldinn nú í kvöld á vegum Samtaka útivistarfélaga. Þar mættu hátt í 100 manns og hlýddu á Össur, Ólaf Örn, Kristján Pálsson og Hjörleif útlista stefnu flokka sinna og spurðu þá síðan í þaula um ýmis áhersluatriði.

Reyndar er ofsögum sagt að þessir herramenn hafi allir útlistað stefnu flokka sinna. Það var t.d. nánast aumkunarvert að hlýða á minn ágæta kunningja Ólaf Örn sem hefur fengið það hlutverk í Framsóknarflokknum að vera fulltrúi umhverfis- og náttúruverndar og virðist satt að segja ákaflega einmana í því hlutverki. Stefna þeirra Halldórs og Finns í stórvirkjana- og stóriðjumálum hangir yfir honum eins og þrumuský og stoðar lítt þótt Ólafur reyni að sýnast heiðskýr.

Stefna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er langsamlega ítarlegust og skýrust sem er auðvitað eðlilegt hjá flokki sem leggur slíka megináherslu á umhverfismál og náttúruvernd.