Á síðustu sentimetrunum

Kapphlaupinu um þingsætin næstu fjögur árin lauk á dramatískan hátt, a.m.k. fyrir undirritaða. Og ekki skal því neitað að það var óþægilegt að falla á síðustu sentimetrunum í markið eftir æsispennandi nótt þar sem við uppbótarkandidatarnir svifum til skiptis inn og út um skjáinn. Glæsilegur sigur Vinstri grænna bætti þau óþægindi þó margfalt upp. Og enn betra er að orna sér við minningar úr kosningabaráttunni sem við getum sannarlega verið stolt af. Þar vannst sá sigur sem mikilvægastur er, sá sigur að fylgja sannfæringu okkar og samvisku og geta sagt við okkur sjálf: Þetta vildum við gera, við gerðum okkar besta, við erum sátt við okkur sjálf.

Við sem bárum hitann og þungann í Reykjaneskjördæmi erum stolt af árangrinum sem við náðum á þeim örfáu dögum sem við háðum raunverulega kosningabaráttu. Það blés ekki byrlega í fyrstu samkvæmt skoðanakönnunum og við fundum rækilega fyrir þeim aflsmun sem þar er við að fást, rótgrónar fylkingar og vel smurðar kosningavélar. Við sáum kosningaskrifstofur þessara afla í hverju byggðarlagi og fjárráðin virtust takmarkalaus til auglýsinga og útgáfu, til stórhátíða og gjafa af furðulegasta tagi. Andlit frambjóðenda þeirra blöstu við nánast hvert sem litið var, í gluggum og á húsgöflum, flettiskiltum, staurum og umferðarbrúm. Við þessu var auðvitað ekki annað að gera en að þeysa með okkar eigin andlit eins víða og við komumst yfir á þeim þremur vikum sem baráttan stóð af okkar hálfu, hitta fólk í eigin persónu og kynna okkar ágætu stefnu. Þetta var óneitanlega hressileg lota og okkur tókst að landa góðum afla inn í sameiginlegan atkvæðapott miðað við aðstæður.

Vegna kjósenda okkar og vegna míns góða samstarfsfólks er leitt að hafa ekki náð þingsæti á þessu kjörtímabili. En við vorum með gott fólk um allt land og þingflokkurinn nýi er vel skipaður afbragðs fólki. Það verður gaman að fylgjast með störfum þess næstu fjögur árin.

Þessa dagana er ég í óða önn að flokka skjöl og gögn sem fylla allar hillur, skúffur og skápa á skrifstofunni minni í Austurstræti 14. Þá þarf að taka til í tölvunni og fá nýtt heimilisfang fyrir póstinn. Fresturinn til að skila af sér er býsna skammur, en skiljanlegt að nýkjörnum þingmönnum liggi á að koma sér fyrir. Ég reyni að skilja eftir góða strauma í þeirri vistarveru sem hefur verið athvarf mitt síðustu fjögur árin.