Makalaust annasöm og skemmtileg helgi er nú á enda. Tveir atburðir standa upp úr og eru hvor á sinn hátt til marks um sérstöðu okkar vinstri grænna í þessari kosningabaráttu.
Á laugardag var opið hús á Kiðafelli í Kjós. Þar búa hjónin Sigurbjörn Hjaltason og Bergþóra Andrésdóttir og hafa nýlega byggt nýstárlegt búfjárhús þar sem allur þeirra fénaður rúmast saman, hestar, nautgripir og sauðfé. Þar gat að líta nýfædd lömb og kálfa, hægt var að bregða sér á bak þægum hesti og agnarsmáir kettlingar slógu í gegn hjá börnum á öllum aldri. Frambjóðendur voru að sjálfsögðu á staðnum og stóðu sig bærilega við að grilla pylsur, hella upp á kaffi, blása upp blöðrur og teyma undir börnunum, en létu öll ræðuhöld eiga sig að þessu sinni. Þetta var fyrst og fremst dagur barnanna og veðurguðirnir sýndu velþóknun.
Í dag, sunnudaginn 25. apríl, var boðið upp á fjölbreytta dagskrá í Iðnó undir yfirskriftinni Græn framtíð. Þar rak hvert atriðið annað, tónlist og ljóðalestur, erindi og leiklist, og tveir snillingar með ljósmyndavélar sýndu okkur listaverk náttúrunnar, þeir Kári Kristjánsson landvörður og Oddur Sigurðsson jarðfræðingur. Þetta var eiginlega hápunkturinn á ferli Grænu smiðjunnar sem hefur starfað allar götur síðan í febrúar og verður raunar að allt fram í júní.
Ég er mjög ánægð með hlut okkar í þessari kosningabaráttu sem er rekin á málefnalegum forsendum, en loforðaflaumur, auglýsingafár og ímyndarsmíði látið lönd og leið.