Guðmundur Páll Ólafsson varð fyrstur til að hljóta umhverfisverðlaun frjálsra félagasamtaka um umhverfis- og náttúruvernd. Það gleður mig ósegjanlega. Engan veit ég betur að því kominn.
Bækurnar hans eru listaverk og hver um sig líkleg til að vekja ást og virðingu á landi okkar og náttúru. Fátt hefur þó haft meiri áhrif á viðhorf almennings en gjörningur hans síðastliðið sumar, þegar Fögruhverum var sökkt til að fullnægja orkuþörf fyrir mengandi stóriðju. Sú aðgerð vakti marga til umhugsunar um hernaðinn gegn landinu. Þeir sem troðfylltu Háskólabíó í nóvember síðastliðnum þökkuðu Guðmundi Páli með því að rísa úr sætum og klappa honum lengi og mikið lof í lófa. Þá risu tilfinningar hátt og blikuðu tár á vöngum margra. Sú samkennd og baráttugleði sem þá greip um sig mun ef til vill hafa meiri áhrif til framtíðar en okkur nú grunar.
Til hamingju, Guðmundur Páll!