Sumardagurinn fyrsti

Eitt það íslenskasta af öllu íslensku hlýtur að teljast sumardagurinn fyrsti. Og í þetta sinn brást hann ekki vonum landsmanna, heldur gaf fögur fyrirheit um bjarta og hlýja daga. Mér tókst að blanda saman skylduverkum og ánægjustundum á harla gæfulegan máta og lofa nú dag að kvöldi.

Dagurinn hófst með fyrirfram ákveðinni myndatöku okkar í efstu sætunum á Reykjanesi með tilheyrandi klettaklifri og alls kyns glæfraspili. Á morgun fáum við svo að sjá hvort gleðin og sigurvissan verða ekki öllu öðru yfirsterkari í andlitum okkar.

Þá tók við opnun handverkssýningar í Laugardalshöll. Þar var sannarlega margt að skoða og gaman að sjá hversu margbreytileg iðja fer fram á þessu sviði. Ég notaði tækifærið og keypti sumargjafir handa barnabörnunum.

Mér tókst að skjótast á hestbak, hafði ekki hitt mína kæru vini síðan laugardaginn fyrir páska og því var þetta mikill fagnaðarfundur a.m.k. af minni hálfu. Við riðum kringum Rauðavatn og ekki hafði þeim Víkingi og Prúði fatast fótamenntin, enda góðir menn sem halda þeim við efnið fyrir mig. Bóndinn varð hins vegar að ganga frá reiðtygjum og gera hestunum til góða, því ég varð að hendast á næsta stað.

Græna smiðjan hélt að sjálfsögðu upp á sumardaginn fyrsta með umfjöllun um börn og fjölskylduvænt umhverfi. Óskar Dýrmundur Ólafsson og Sigrún Helgadóttir fluttu okkur vekjandi erindi og Olga Guðrún Árnadóttir las úr einni af bókum sínum. Þetta var mjög skemmtilegt og umræður góðar, en óneitanlega sækja að áhyggjur yfir því hversu skammt við erum í rauninni komin í þessari umræðu hér á landi. Skilningsleysi og framtaksleysi stjórnvalda er algjört. Þau halda í sjálfumgleði sinni að hér sé allt í stakasta lagi og að umhverfisfræðsla sé fólgin í því að senda skólanemendur út að tína rusl og planta nokkrum trjáplöntum. En hún er auðvitað allt annað og meira og þetta þarf að taka föstum tökum. Það dugir ekkert minna en stórátak í umhverfismennt á Íslandi.

Og hver veit nema komi betri tíð með blóm í haga þegar Vinstrihreyfingin – grænt framboð verður orðin stór og áhrifamikil hreyfing. Gleðilegt sumar!