Misgóðir fundir

Þessa dagana ráða aðrir meira um tíma minn en ég sjálf og því erfitt að finna þessar mínútur sem það tekur að stinga inn orði í minnisbókina. Þó er svo margt sem gaman væri að skrifa ykkur um eins og reynsluna af kosningafundi Reyknesinga á Rás 1 í gærkvöldi (sem er víst núna orðið fyrrakvöld), þar sem við Árni Mathiesen sátum hlið við hlið misjafnlega á vegi stödd í flensunni og ég hrósaði happi að fundarlokum að hafa ekki fengið óviðráðanlegt hóstakast. Þátttakendur voru ákaflega misjafnlega frekir á orðið, en allir gerðu auðvitað sitt besta að koma sínum sjónarmiðum að. Þó spyr maður sig óneitanlega hverju kjósendur eru nær eftir svona hanaslag. Sjávarútvegsmálin, þótt mikilvæg séu, fengu alltof langan tíma á kostnað annarra málefna. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvers vegna umhverfismálin fá svo alltof lítið vægi í umræðuþáttunum, og líklegasta skýringin er áhugaleysi og hugsanlega þekkingarleysi stjórnenda (fyrirgefið þið elskurnar), sem ráða mestu um hvað umræðurnar snúast. Oft er þetta óttalegt stagl og skeytasendingar sem engu skila til háttvirtra kjósenda, og það er auðvitað frambjóðendum sjálfum að kenna.

Ég er hins vegar núna að koma af öllu uppbyggilegra málþingi sem allir landsmenn hefðu þurft að eiga kost á að sitja. Þetta var málþing Grænu smiðjunnar okkar um umhverfisvæna atvinnuþróun, þar sem við hlustuðum á frábæra fyrirlesara tala um sjálfbært atvinnulíf, umhverfisvæna þróun í sjávarútvegi, lífrænan og vistvænan landbúnað, hreinsiferli og endurvinnslu, upplýsingatækni, sjálfbæra ferðamennsku og stemmningu í ferðaþjónustu, um sjálfbæra neytendur og þjónustu við þá og loks um vannýttar auðlindir, einkum í ferðaþjónustu. Áhugi þinggesta var mikill og umræður frjóar og ánægjan slík að raðir þeirra voru lítið farnar að þynnast þótt málþinginu lyki ekki fyrr en komið væri fram á tólftu stund.

Heim komin kíkti ég á þáttinn með unga fólkinu, sem var nú reyndar ekki allt svo afskaplega ungt, og auðvitað var minn maður bestur, gagnorður og málefnalegur.

Kosningabaráttan í fjölmiðlum

Enn heftir flensan illvíga virka þátttöku í kosningabaráttunni, en þar með gefst líka óvenju gott tækifæri til að hlusta og horfa á hina frambjóðendurna í fjölmiðlunum. Þáttur þeirra Ómars og Ólafs í gærkvöldi um hálendið og Evrópumálin var nokkuð góður og ágæt tilbreyting frá hefðbundinni hanaslagsuppsetningu. Heildarsvipurinn var þó ekki nógu góður, þar sem þátttakendur lentu í misjafnlega góðri innrömmun. En kjósendur hafa vonandi kunnað að túlka orð þeirra og áttað sig á hverjum er best treystandi til að standa vörð um þann fjársjóð sem við eigum á hálendinu.

Eyjabakkarnir eiga enga vörn í Sjálfstæðismönnum eða Framsóknarmönnum sem stefna blint að stórvirkjunum á hálendinu á Norðausturlandi og sjá ekki önnur færi til eflingar atvinnu og mannlífi þar um slóðir. Og þótt fulltrúi Samfylkingarinnar hafi reynt að tala af trúverðugleika í þættinum í gærkvöldi þá tala fulltrúar sama flokks öðrum rómi á Austurlandi og víðar. Vinstrihreyfingin- grænt framboð er í raun eina aflið sem er treystandi til varðstöðu um fjöregg okkar, eini flokkurinn sem er heill og sannur í málflutningi sínum um umhverfismál og náttúruvernd. Þeir sem láta sig þessi mál varða átta sig vonandi á því í tæka tíð.

Þá hef ég hlustað á útsendingu Rásar 1 frá framboðsfundum í tveimur kjördæmum og haft nokkurt gaman af. Það er mjög áberandi, hvað fulltrúar stjórnarflokkanna leggja sig í líma við að sýna samstöðu, enda hverjum manni ljóst að þeir vilja vera saman í liði eftir kosningar. Þó rigga Framsóknarmennirnir sig öðru hverju upp í obbolítinn skæting í garð vina sinna í Sjálfstæðisflokknum eins og til að opna glufu, ef kosningarnar færu kannski svona og svona. En ósköp er það máttlaust og augljóst hvert hugurinn stefnir. Menn koma reyndar ærið misjafnlega fyrir í þessum þáttum, en fæst orð hafa minnsta ábyrgð í því efni, við erum víst næst í Reykjanesinu á mánudagskvöldið!

Og svo byrja kjördæmaþættirnir í Sjónvarpinu á sunnudaginn. Þannig tekur eitt við af öðru í fjölmiðlunum nánast daglega fram að kosningum. Mér verður stundum hugsað til fyrstu kynna minna af kosningabaráttu árið 1983 þegar aðeins var ein útvarpsrás og ein sjónvarpsrás og allir virtust heyra og sjá allt sem boðið var upp á. Nú er ekki vinnandi vegur að henda reiður á öllu saman og hætt við að margt fari fyrir ofan garð og neðan.

Kosningabarátta og flensa

Það ætti að vera bannað með lögum að frambjóðendur geti fengið flensu í miðri kosningabaráttu. Nú ætti maður að vera úti á akrinum að spjalla við fólk og dreifa upplýsingum um stefnumál, en liggur í stað þess heima með hósta, hita og höfuðpínu.

Og í stað þess að sækja fund í gærkvöldi með mínum ágætu félögum lá ég heima og horfði á foringjana kljást í sjónvarpinu. Reyndar var það svolítið flókið framan af, því um leið reyndi ég að hlusta á endurfluttan útvarpsþátt, þar sem við Bryndís Hlöðversdóttir, Árni Gunnarsson og Árni M. Mathiesen skiptumst á skoðunum um stöðu fjölskyldunnar í íslensku samfélagi og hvað gera þurfi til að bæta hana.

Kannski er flensunni að einhverju leyti um að kenna, en mér fannst sjónvarpsumræðurnar frekar leiðinlegar og þátturinn ekki eins vel heppnaður og Laugarvatnsþáttur Stöðvar 2 fyrir skömmu. Þátttakendur voru þeir sömu í báðum þáttum, nema nú var Kjartan Jónsson mættur til leiks að auki fyrir húmanista. Umræðuefnin voru á ábyrgð spyrlanna sem sáu um að það var hjakkað í ríkisfjármálum, kvótamálum og byggðamálum, en nánast ekki orði eytt á umhverfismálin, að ekki sé nú minnst á jafnrétti kynjanna, heilbrigðismál, menntun og menningu eða launamál. Foringjarnir stóðu sig ekkert illa, en enginn þeirra glansaði heldur.

Alþingi unga fólksins

Það var virkilega gaman að fylgjast með unga fólkinu, sem vermdi sæti okkar alþingismanna dagana 29. – 31. mars sl. Þarna var nokkurn veginn jafnt af báðum kynjum og mikil þátttaka í umræðum. Þau fluttu stuttar og vafningalausar ræður, komu sér beint að efninu og lögðu sig fram um að fara að þingsköpum, þótt sum orðin væru þeim stirð í munni. Þau ræddu af þó nokkrum hita um réttindamál skólafólks og framtíðarsýn í umhverfismálum og sýndu mikla samstöðu um málefni flóttafólks.

Ég spjallaði við nokkur úr þessum hópi. Þau voru undantekningarlaust mjög ánægð með þessa reynslu, sem kom þeim um margt á óvart, þar sem þau höfðu í rauninni ekki ýkja skýra mynd af starfsemi þingsins. Þarna fékk ungt fólk úr öllum kjördæmum landsins tækifæri til að máta sig inn í þennan sérstaka ramma, sem er mörgum ekki annað en myndir í sjónvarpi.

Að mínu mati er þarna fundin góð leið til að efla þekkingu og skilning á starfi Alþingis og tengja það betur almenningi. Alþingi unga fólksins þyrfti að verða fastur liður í samskiptum Alþingis og framhaldsskóla landsins, sem ætti sinn sess t.d. í september eða í þinghléi í janúar. Þessi fyrsta tilraun tókst mjög vel, og ekki er ólíklegt að þarna hafi vaknað sá áhugi á stjórnmálastarfi, sem muni skila okkur þingmönnum á næstu öld!

Loftárásum mótmælt

Ávarp á útifundi á Lækjartorgi:

Góðir fundarmenn!

Við Íslendingar höfum alltaf litið á okkur sem friðelskandi þjóð, sem aldrei hefur farið með vopn á hendur öðrum þjóðum.

Nú erum við komin í stríð.

Í nafni Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fordæmi ég harðlega árásir herafla NATO á Júgóslavíu og tek undir kröfu fundarboðenda að þær verði stöðvaðar þegar í stað.

Ég harma stuðning íslenskra stjórnvalda við hernaðaraðgerðirnar í Júgóslavíu og ég harma boð þeirra til Atlantshafsbandalagsins um notkun aðstöðu á Íslandi í tengslum við þessar aðgerðir.

Þar með eru Íslendingar í raun orðnir samsekir um hernaðaríhlutun og ofbeldi.

Við erum orðin samsek um dráp á óbreyttum borgurum, sem ævinlega þjást mest í hernaðarátökum.

Við mótmælum því sérstaklega, að til þessara fráleitu aðgerða er gripið án þess að fjallað hafi verið um þær í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Sameinuðu þjóðirnar hafa ríku hlutverki að gegna í viðleitni til að stuðla að friðsamlegum lausnum og hafa eftirlit með því að vopnahlé og samningar haldi.

Það eru slík samtök, sem eiga að hafa forystu um lausn deilna innan ríkja og á milli ríkja.

Það er ekki verkefni hernaðarbandalags eða sjálfskipaðrar alheimslöggu.

Loftárásir NATO-herja eru aðeins olía á þann eld, sem logar í Kosovo-héraði, þær auka verulega hættuna á að ófriðurinn magnist og breiðist út til nálægra ríkja, þær magna straum flóttafólks og auka á hörmungar fólksins –

– eða eins og stríðshrjáður Kosovo-Albani sagði í fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi:

“Vandinn er að þegar NATO gerir loftárásir er þess hefnt á jörðu niðri”.

Það er einmitt það sem er að gerast nú.

Og við erum samsek.

Loftárásirnar eru í raun óskastaða Milosevics,

kjöraðstæður til þess að þjappa Serbum saman í þeirri fullvissu að þeir séu hin raunverulegu fórnarlömb.

Og enginn veit, hvað við tekur, síst af öllu herforingjar NATO.

Vandamálin í Kososvo-héraði eiga sér rætur langt aftur í tímann, og þau verða ekki leyst með sprengjuregni NATO-herja, sem er fyrst og fremst í mun að skapa sér hlutverk og mikilvægi í augum umheimsins.

Herforingjar NATO vilja fyrir hvern mun sýna hernaðarmátt risaeðlunnar, sem lá við útrýmingu, þegar kalda stríðið gufaði upp og þeir misstu nöldrið sitt, misstu Rússagrýluna, misstu tilganginn og tilefni til að nota vopnin sín, sem hergagnaverksmiðjurnar þurfa að fá ástæðu til að framleiða.

Eftir áralanga leit að tilgangi sínum við breyttar aðstæður í samfélagi þjóðanna hefur NATO nú ákveðið, að það sé eftir allt saman hernaðarbandalag og árásaraðili, en ekki friðarhreyfing, eins og stuðningsmenn þess hér á Íslandi hafa haldið á lofti.

Þessir atburðir hljóta að vera þeim áfall, sem hafa rökstutt áframhaldandi þátttöku í hernaðarbandalagi á þeim forsendum að það hafi breyst í friðarhreyfingu.

Góðir fundarmenn!

Íslensk þjóð stendur nú á tímamótum.

Þessi friðsama þjóð, sem aldrei hefur borið vopn á aðrar þjóðir, stendur nú andspænis því að bera ábyrgð á grimmilegum, heimskulegum og tilgangslausum loftárásum hernaðarbandalags, sem skilur ekki söguna og sér allt í svart/hvítu.

Við erum samsek vegna þess að við erum hluti af þessu hernaðarbandalagi, sem nú heldur upp á hálfrar aldar afmæli sitt með loftárásum á Júgóslavíu.

Aðild að hernaðarbandalagi og vera erlends hers á landi okkar er bæði ónauðsynleg og óviðunandi með öllu.

Íslendingar eiga að vera boðberar friðar og sátta og friðsamlegra lausna á alþjóðavettvangi, en ekki að gerast samsekir um hernaðaríhlutun og ofbeldi.

Við mótmælum þessum grimmúðlegu aðgerðum NATO og krefjumst þess að loftárásunum verði hætt þegar í stað og leitað raunhæfra friðsamlegra lausna á því ófremdarástandi sem ríkir í Kosovo.

Leggjum okkar lóð á vogarskálarnar, að komandi öld verði öld friðar og samvinnu þjóða á milli um það að skapa mannkyninu lífvænleg skilyrði á þessari jörð.

Kortlagning víðerna

Mér til mikillar ánægju var eitt þingmála minna samþykkt á háttvirtu Alþingi 10. mars sl. Það var tillaga til þingsályktunar um kortlagningu ósnortinna víðerna. Tillagan er í raun framhald af þingmáli, sem samþykkt var fyrir tveimur árum um varðveislu ósnortinna víðerna og jafnframt að völdum starfshópi yrði falið að skilgreina þetta hugtak sem farið var að nota talsvert án þess að ljóst væri hvað við væri átt. Í upphaflegri tillögu var gert ráð fyrir að víðernin yrðu síðan kortlögð, en það var fellt út í meðförum þingsins, fyrst og fremst vegna kostnaðar. Nefnd um skilgreiningu hugtaksins skilaði niðurstöðu fyrir rúmu ári og það hefur nú öðlast sess í lögum um náttúruvernd.

Í framhaldi af því fannst mér nauðsynlegt að þessi svæði yrðu kortlögð svo að okkur væri fullljóst um hvað væri að ræða, og á það hefur nú Alþingi fallist með samþykkt sinni. Það er fagnaðarefni vegna þess að ósnortin víðerni eru dýrmætur fjársjóður, sem ekki einasta nýtist okkur til skoðunar og lífsfyllingar, heldur er einnig mikilvægur þáttur í þeirri ímynd sem við viljum að Ísland hafi í samfélagi þjóðanna.

Í tengslum við störf skilgreiningarhópsins var unnið gróft yfirlitskort sem gefur vísbendingar um þau svæði sem talist gætu ósnortin víðerni samkvæmt tillögu starfshópsins. Hins vegar verður ekki hjá því komist að kortleggja þessi svæði nákvæmlega til þess að styrkja varðveislu þeirra og leggja grunn að nýtingu þeirra sem mikilvægs þáttar í ímynd Íslands. Ástæða er því til þess að fagna samþykkt Alþingis og næsta verkefni er að tryggja framkvæmd hennar.

Kosningabaráttan hafin

Segja má að bein útsending Stöðvar 2 frá stjórnmálafundi á Laugarvatni laugardaginn 20. mars hafi markað upphaf baráttunnar fyrir kosningarnar 8. maí nk.

Þátturinn var prýðilega upp settur og fjörlegur, þótt misjafnlega gengi að halda í skefjum tilhneigingu flokksforingjanna til málalenginga. Virk þátttaka Laugvetninga, sem voru aðallega nemendur, setti svip sinn á fundinn sem auk þess var brotinn upp í nokkra þætti og varð fyrir vikið aldrei þreytandi og langdreginn. Þetta var miklu betri uppsetning hjá Stöð 2 en fyrir síðustu kosningar, þar sem þáttastjórnendur virtust þá hafa meiri áhuga á að skora mörk fyrir sjálfa sig en að laða fram upplýsingar fyrir kjósendur.

Stjórnmálamennirnir komust ágætlega frá sínu á fundinum 20. mars, nema Sverrir var hálfpartinn utangátta og Halldór virtist hreint ekki í sínu besta skapi! Það sló mig nokkuð að sjá aðeins eina konu í þessum leiðtogahópi, en við öðru var ekki að búast, þar sem Kvennalistinn er horfinn af sjónarsviðinu sem sérstakt stjórnmálaafl.

Nokkuð var fjallað um hersetuna og augljóst að atkvæðagreiðsla Alþingis um tillögu Steingríms J. Sigfússonar, Ragnars Arnalds og mína hefur sett þetta mál á dagskrá eftir alllangt hlé, því svipuð umræða kom upp á fundi í Menntaskólanum í Kópavogi þremur dögum fyrr. Í bæði skiptin var nokkuð þjarmað að fulltrúum Samfylkingarinnar og ekki að undra, þar sem hér er auðvitað á ferðinni eitt af þeim málum, sem hafa skilið A-flokkana rækilega að árum saman. Ósannfærandi afstaða og röksemdir þingmanna Samfylkingarinnar hafa vakið furðu margra.

Tillagan var um nefnd fulltrúa allra þingflokka undir forystu fulltrúa utanríkisráðherra sem falið yrði að ganga til viðræðna við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar. Atkvæðagreiðslan á Alþingi 8. mars sl. var um margt mjög merkileg, ekki síst í sögulegu samhengi vegna þess að mál af þessu tagi hafði ekki komið til atkvæða á háttvirtu Alþingi síðan árið 1956. Hitt er ekki síður merkilegt að þingmenn sem hafa þó haldið á lofti því viðhorfi að hér skuli ekki vera erlendur her á friðartímum skyldu ekki treysta sér til að styðja tillögu um endurskoðun þrátt fyrir gerbreytta heimsmynd og gerbreyttar aðstæður í heimshluta okkar.

Úrslit þingmála

Á hverju einasta þingi koma fram fjölmörg góð þingmál, bæði frumvörp og tillögur til þingsályktunar. Aðeins hluti þeirra fær afgreiðslu, nokkur eru samþykkt, fáeinum er hafnað, nokkrum er vísað til ríkisstjórnarinnar, en örlög flestra þessara þingmála er að sofna í nefnd, eins og það er kallað. Umfjöllun er þó ekki til einskis, þingmálin eru send til umsagnar fjölmargra aðila, og þær umsagnir nýtast þegar þingmálið er endurskoðað og endurflutt.

Mál frá ríkisstjórninni hafa algjöran forgang í umfjöllun þingsins og finnst einkum þingmönnum stjórnarandstöðu alveg nóg um. Sem dæmi má nefna að af 114 stjórnarfrumvörpum urðu 82 að lögum á því þingi sem nú er senn lokið, en aðeins 13 af 86 frumvörpum þingmanna. Þá fékk ríkisstjórnin samþykktar 9 af 10 tilllögum til þingsályktunar, en þingmenn 18 af 94. Með tilliti til þessa getur undirrituð vel við unað að fá þó eina tillögu samþykkta á þessu þingi.

Hins ber svo að gæta að árangur þingmanna er ekki endilega metinn eftir fjölda þingmála. Hann felst í svo mörgu öðru líka og ekki síst í nefndastarfi, þar sem þingmenn geta með góðri vinnu haft mikil áhrif.