Þessa dagana ráða aðrir meira um tíma minn en ég sjálf og því erfitt að finna þessar mínútur sem það tekur að stinga inn orði í minnisbókina. Þó er svo margt sem gaman væri að skrifa ykkur um eins og reynsluna af kosningafundi Reyknesinga á Rás 1 í gærkvöldi (sem er víst núna orðið fyrrakvöld), þar sem við Árni Mathiesen sátum hlið við hlið misjafnlega á vegi stödd í flensunni og ég hrósaði happi að fundarlokum að hafa ekki fengið óviðráðanlegt hóstakast. Þátttakendur voru ákaflega misjafnlega frekir á orðið, en allir gerðu auðvitað sitt besta að koma sínum sjónarmiðum að. Þó spyr maður sig óneitanlega hverju kjósendur eru nær eftir svona hanaslag. Sjávarútvegsmálin, þótt mikilvæg séu, fengu alltof langan tíma á kostnað annarra málefna. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvers vegna umhverfismálin fá svo alltof lítið vægi í umræðuþáttunum, og líklegasta skýringin er áhugaleysi og hugsanlega þekkingarleysi stjórnenda (fyrirgefið þið elskurnar), sem ráða mestu um hvað umræðurnar snúast. Oft er þetta óttalegt stagl og skeytasendingar sem engu skila til háttvirtra kjósenda, og það er auðvitað frambjóðendum sjálfum að kenna.
Ég er hins vegar núna að koma af öllu uppbyggilegra málþingi sem allir landsmenn hefðu þurft að eiga kost á að sitja. Þetta var málþing Grænu smiðjunnar okkar um umhverfisvæna atvinnuþróun, þar sem við hlustuðum á frábæra fyrirlesara tala um sjálfbært atvinnulíf, umhverfisvæna þróun í sjávarútvegi, lífrænan og vistvænan landbúnað, hreinsiferli og endurvinnslu, upplýsingatækni, sjálfbæra ferðamennsku og stemmningu í ferðaþjónustu, um sjálfbæra neytendur og þjónustu við þá og loks um vannýttar auðlindir, einkum í ferðaþjónustu. Áhugi þinggesta var mikill og umræður frjóar og ánægjan slík að raðir þeirra voru lítið farnar að þynnast þótt málþinginu lyki ekki fyrr en komið væri fram á tólftu stund.
Heim komin kíkti ég á þáttinn með unga fólkinu, sem var nú reyndar ekki allt svo afskaplega ungt, og auðvitað var minn maður bestur, gagnorður og málefnalegur.