Mikilvægasti sigurinn

Ávarp KH á baráttufundi í Kópavogi 6. maí:

Góðir fundargestir, samstarfsfólk og stuðningsfólk!

Vika er langur tími í pólitík er oft sagt með spekingssvip.

Við höfum sannreynt þessa speki að undanförnu hér í Reykjanesi og við vildum gjarna fá eina viku í viðbót til að sannreyna hana enn frekar.

Eiginleg kosningabarátta hefur ekki staðið nema tæpar þrjár vikur hjá okkur hér, en hver vika og hver einasti dagur hefur verið nýttur til hins ýtrasta og hefur skilað okkur árangri sem erfiði.

Og vegna alls þess sem við höfum reynt og gert hef ég þurft að segja sjálfri mér á hverjum degi hversu stutt það raunverulega er síðan við öxluðum pokana okkar með bæklingunum og merkjunum og hófum ferð okkar milli vinnustaða til að sýna okkur og sjá aðra, kynna stefnuna og tala fyrir hugmyndum okkar og hugsjónum.

Það hefur verið á brattann að sækja í þessu kjördæmi, kannski meiri bratta en víðast hvar annars staðar. Hér er mikill aflsmunur, rótgrónar fylkingar, einkum sjálfstæðismanna og krata með sínar vel smurðu kosningavélar, og ekki gefur Framsókn þeim eftir í hamaganginum.

Við fundum mikið fyrir þessum aflsmun í fyrstu, þar sem fólk virtist lítið vita fyrir hvað við stöndum. Fyrstu fundirnir voru því ekkert sérlega upplífgandi.

Nú er andrúmsloftið hins vegar gjörbreytt. Viðtökur á vinnustöðum eru sífellt betri – og nú, þegar aðeins er rúmur sólarhringur til kosninga, finnst okkur einmitt vanta þessa mikilvægu viku, sem getur orðið svo löng og árangursrík í pólitíkinni.

Það væri hægt að segja margar sögur úr þessari kosningabaráttu – bæði til skemmtunar og ama.

Það sem hefur gengið mér næst tilfinningalega er að skynja svo sterkt þá mengun hugarfarsins, sem orðin er svo víðtæk í þessu kjördæmi, einkum á Suðurnesjum, þar sem alltof margir líta á bandaríska herinn einfaldlega sem tekjuskapandi og atvinnuveitandi fyrirtæki. Við máttum sums staðar þakka fyrir að fá að koma einhverjum öðrum stefnumálum á framfæri, svo ákaft var reynt að sýna okkur fram á hjálpræðið mikla í Miðnesheiðinni.

Og mér verður lengi minnisstæð heiftin sem ég mætti á einum vinnustaðnum.

Ég hefði ekki orðið undrandi þótt viðmælandi minn hefði brugðið höndum um háls mér og hert að.

Segið svo að það sé ekki háskalegt að vera í framboði fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð!

Aldrei höfum við þó kveinkað okkur undan þessari umræðu, við erum jafn stolt af afstöðu okkar í þessu efni hér sem annars staðar. Við erum stolt af því að geta sagt að við tölum einum rómi í öllum meginatriðum stefnu okkar hvar sem er á landinu, líka í erfiðum málum eins og um hersetuna eða Kísiliðjuna, kvótakerfið eða Evrópusambandið, Kýótó eða stórvirkjanir á hálendinu.

Við erum stolt af stefnu okkar, og það er uppörvandi að finna hið breytta andrúmsloft, sem ég talaði um hér áðan.

Það er uppörvandi að heyra fleiri og fleiri segja við okkur í kveðjuskyni að loknum vinnustaðafundi: Gangi ykkur vel!

Það er gaman þegar beðið er um upplýsingar og fleiri bæklinga, sem öllum finnast fallegir og vel gerðir.

Og það er gaman þegar fólk er farið að næla ófeimið í sig barmmerkinu okkar og lesa fleira og fleira táknrænt út úr stafnum okkar, t.d. það að við séum sífellt á uppleið.

Í morgun kom til mín kona og bað mig um merki, eitt handa sér og annað handa mömmu sinni.

„Ég er að kenna henni að krossa við U”, sagði hún, „hún hefur alla sína ævi merkt við sama bókstafinn, blessunin, og er svolítið hrædd um að ruglast þegar hún kemur inn í kjörklefann. En hún veit hvaða fólk hún ætlar að kjósa.”

Vonandi endist morgundagurinn til að kenna gömlu konunni að krossa við bókstafinn U.

En ég vildi enn að við hefðum viku til stefnu.

Því verður hins vegar ekki breytt, og nú er örskammt til úrslitastundar.

Samt finnst mér við þegar hafa unnið sigur.

Við höfum unnið sigur, sem ekki verður frá okkur tekinn, hvað sem að lokum verður talið upp úr kjörkössunum.

Við höfum unnið sigur með því að halda tryggð við hugsjónir og hugmyndir, en hafna hentistefnu og valdafíkn.

Við höfum unnið sigur með því að bera fram skýra og afdráttarlausa stefnu og standa að henni öll sem eitt.

Við höfum unnið sigur með því að reka heiðarlega kosningabaráttu, vera sjálfum okkur samkvæm og tala einum rómi í öllum landshlutum.

Við höfum unnið sigur með því að láta ekki glepjast til að lofa upp í óvissar ermar.

Við höfum unnið sigur með því að andæfa gegn auglýsingaflóðinu og sýna kjósendum tillitssemi og virðingu.

Við höfum unnið þann sigur sem mikilvægastur er, þann sigur að fylgja sannfæringu okkar og samvisku og geta sagt við okkur sjálf:

Þetta vildum við gera, og við gerðum okkar besta.

Við erum sátt við okkur sjálf.

Þess vegna erum við bæði glöð og stolt í dag.

Ég trúi því að við verðum ekki síður glöð og stolt að loknum kosningunum á laugardaginn kemur.

Nýtum morgundaginn vel.

Kennum sem flestum að setja x við U.