Eins og eðlilegt er keppast nú samtök af ýmsum toga um að halda fundi og ráðstefnur til að kynna sín áhugaefni og krefja frambjóðendur um afstöðu til þeirra. Einn slíkur fundur var haldinn nú í kvöld á vegum Samtaka útivistarfélaga. Þar mættu hátt í 100 manns og hlýddu á Össur, Ólaf Örn, Kristján Pálsson og Hjörleif útlista stefnu flokka sinna og spurðu þá síðan í þaula um ýmis áhersluatriði.
Reyndar er ofsögum sagt að þessir herramenn hafi allir útlistað stefnu flokka sinna. Það var t.d. nánast aumkunarvert að hlýða á minn ágæta kunningja Ólaf Örn sem hefur fengið það hlutverk í Framsóknarflokknum að vera fulltrúi umhverfis- og náttúruverndar og virðist satt að segja ákaflega einmana í því hlutverki. Stefna þeirra Halldórs og Finns í stórvirkjana- og stóriðjumálum hangir yfir honum eins og þrumuský og stoðar lítt þótt Ólafur reyni að sýnast heiðskýr.
Stefna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er langsamlega ítarlegust og skýrust sem er auðvitað eðlilegt hjá flokki sem leggur slíka megináherslu á umhverfismál og náttúruvernd.