Konur og lýðræði

Sjónvarp allra landsmanna stóð sig vel í því að flytja dágóðan hluta ráðstefnunnar um konur og lýðræði inn í stofu til okkar um helgina. Mér tókst að sjá u.þ.b. helming þess sem sýnt var á skjánum og hafði gaman af. Setningarathöfnin var að vísu álíka leiðinleg og setningarathafnir eru yfirleitt þar sem fínimannsleikurinn er í algleymingi og valdafólk les upp ræður sem sjaldnast koma á óvart. Útsendingin á laugardaginn, þ.e. í gær, varð að víkja fyrir heimsókn í hausthagann, en í morgun, sunnudag, var fróðlegt að hlusta á talskonur hópa og svo auðvitað að sjá og heyra Hillary flytja mál sitt. Hún sagði margt gott og hvetjandi og sagði það vel. Það þarf mikið ónæmi til að láta ekki hrífast af mælsku hennar og framsetningu. Í minni sveit heitir þetta að vera vel máli farin.

Gaman verður svo að fá frekari upplýsingar um niðurstöður og árangur þessarar miklu samkomu sem vonandi var annað og meira en sjónarspil. Ingibjörg Sólrún sagði – ef ég hef tekið rétt eftir – að upp úr stæði sú áhersla sem konur legðu á samstarf og samstöðu, svo og áhugi kvenna á því að tryggja velvilja fjölmiðla í garð kvennabaráttunnar og virkja þá til að flýta þróuninni. Þetta voru einnig sterkir áherslupunktar á ráðstefnu um aukna samvinnu kynjanna í stjórnmálum, sem haldin var á vegum Alþjóða þingmannasambandsins fyrir tæpum þremur árum. En svona þarf að segja hlutina aftur og aftur.

Því er ekki að leyna að þessi ráðstefna og þó fyrst og fremst undirbúningur hennar hefur sætt mikilli gagnrýni. Umstangið í kringum Hillary á þar nokkra sök og réði því m.a. að ráðstefnan fékk á sig snobbstimpil. Stærsta hótel landsins undir eina konu og fylgdarlið hennar, sérþota merkt forsetaembættinu, öflug öryggisgæsla og allt bugtið í móttökuliðinu, slíkt fellur ekki beinlínis í kramið hjá landanum. En vonandi hefur Hillary sannað flestum að hún átti erindi hingað.

Gríðarlegur kostnaður við þetta ráðstefnuhald er óskiljanlegur öllum og ekki síst þeim sem einhvern tíma hafa komið nálægt slíku. Algjörlega er eftir að skýra þann kostnað sem hleypur ekki bara á tugum milljóna, heldur er sagður vel á annað hundrað milljóna, þar af um 60 milljónir úr vösum íslenskra skattgreiðenda. Þennan fjáraustur verður að skýra og má ætla fjárlaganefndarmönnum hlutverk í því efni.

Þá sætti val fulltrúa mikilli gagnrýni og skiljanleg sárindi þeirra mörgu sem töldu sig verðugar en hlutu ekki náð fyrir augum ráðstefnuhaldara. Sjálfsagt hafa þeir rök fyrir sínu vali, en altént vakti athygli hversu fáar íslenskar stjórnmálakonur sáust í sal Borgarleikhússins. Samkvæmt heiti ráðstefnunnar fjallaði hún um konur og lýðræði og að því hafa nú einu sinni íslenskar stjórnmálakonur verið að vinna á ýmsan hátt á undanförnum árum. Nú voru þær settar í hlutverk áhorfenda og voru þó margir stólar auðir í salnum. Þetta minnti svolítið á meðferðina á kínversku alþýðufólki sem hafði unnið að undirbúningi að miklu afmælishaldi á Torgi hins himneska friðar en var svo vinsamlega beðið að flækjast ekki fyrir í afmælinu sjálfu, heldur horfa á dýrðina í sjónvarpi!!!

Skattur og kvenfrelsi

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að ákvæði í skattalögum um millifærslu persónuafsláttar milli maka verði breytt þannig að ónýttur persónuafsláttur maka nýtist að fullu. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eiga þessar breytingar að gerast í áföngum, sá fyrsti þeirra komi til framkvæmda á næsta ári og verði þá 85% persónuafsláttar nýtanlegur í stað 80% hans eins og nú er.

Undarlega lítil viðbrögð hafa orðið við þessum fréttum sem ef til vill falla í skuggann fyrir stórmálum á borð við Fljótsdalsvirkjun, sölu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, gerræðisleg vinnubrögð við skipan vísindasiðanefndar og sitthvað fleira sem ríkisstjórnin ástundar ofan úr fílabeinsturni sínum. Þó birtist greinarkorn í Morgunblaðinu í dag eftir Guðmund Magnússon prófessor undir fyrirsögninni “Ómagar og hænsnabú” sem er reyndar lítið upplýsandi fyrir innihald greinarinnar, en fögnuður höfundar leynir sér ekki yfir þessari breytingu á skattalögunum.

“Margir fjármálaráðherrar hafa misst af tækifærinu til þess að hrinda þessu í framkvæmd þótt það stuðli bæði að jafnrétti og samheldni fjölskyldna”, segir Guðmundur Magnússon prófessor. Og síðar: “Fjármálaráðherra er því á réttri leið. Hann er að gera skattkerfið hlutlaust gagnvart verkaskiptingu hjóna”.

Þetta er auðvitað gamalkunn túlkun og skoðun margra en engu að síður fullkomlega röng niðurstaða meðan staða kynjanna er svo ójöfn sem raun ber vitni. Þetta ákvæði vinnur beinlínis gegn frelsi konunnar til að velja hvernig hún hagar lífi sínu. Konur eru að miklum meiri hluta tekjulægri en karlar og þá munar marga um persónuafsláttinn þeirra til að lækka skattana sína. Vissulega getur það komið betur út fjárhagslega fyrir heimilin og þess eru mörg dæmi að einmitt það hafi orðið konunni fjötur um fót þegar hana langar til að fara út á vinnumarkaðinn eftir tímabundið annríki við umönnun og uppeldi barnanna. Skilaboðin til þeirra eru að það borgi sig ekki fjárhagslega að ógleymdum stöðugum áminningum um það hlutverk þeirra að annast nú börnin og heimilið almennilega. Þetta er því síður en svo hlutlaust ákvæði heldur skapar ósanngjarnan þrýsting á konur með heimili. Enda segir prófessorinn í grein sinni: “Millifærsla að fullu hvetur til þess að börnum sé sinnt heima. Það er miklu einfaldara að fara þessa leið en að fara að borga foreldri í beinhörðum peningum fyrir að vera heima.” Fróðlegt væri að vita hvort prófessorinn hefur skoðun á því hvort foreldranna á að vera heima!!!

Því miður nýtur þessi stefna mikils stuðnings í þjóðfélaginu og ástæðan er auðvitað sú að fjölskyldur munar um hvern frádráttarlið. Miklu eðlilegra væri að hver fullorðin mannsekja væri sjálfstæður skattgreiðandi óháð því hvort hann eða hún er opinberlega og formlega talin(n) sofa hjá öðrum skattgreiðanda og má nú minna á háværa gagnrýni fyrr á þessu ári á það óréttlæti að fólki á launum hjá Tryggingastofnun sé gert að sæta skerðingu vegna tekna maka. Allir tóku undir þá gagnrýni og virtust sammála um nauðsyn leiðréttinga.

Réttlátasta aðgerðin til þess að létta undir með fjölskyldum í skattalegu tilliti væri að forráðamenn barna fengju persónuafslátt þeirra til frádráttar frá tekjum sínum. Þá skiptir heldur ekki máli hvort um er að ræða hjón eða ekki. Það þarf hvort eð er að endurskoða þann stuðning við fjölskyldur sem felast á í barnabótum en hefur minnkað um hundruð milljóna á hverju ári að undanförnu.

Kynbundinn launamunur 18%

Enn ein skýrslan hefur litið dagsins ljós þar sem kynbundið launamisrétti er staðfest á óyggjandi hátt. Í rannsókn sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann að tilhlutan Verslunarfélags Reykjavíkur kemst hún að þeirri niðurstöðu að karlmenn í hópi félagsmanna hafi 30 % hærri heildarlaun en konur. Viðurkennt er að kynbundinn launamunur nemi 18 % meðal fólks í fullu starfi þegar tekið hefur verið tillit til starfsstéttar, vinnutíma, starfsaldurs og aldurs. Þannig er sem sagt staðan á því herrans ári 1999 eftir áratuga baráttu fyrir jöfnum rétti kvenna og karla. Enn einu sinni sannast að ekki er hið sama á borði sem í orði. Viðhorfin og hugarfarið eru söm við sig.

Í rauninni kemur þessi niðurstaða ekki á óvart. Hún er fullkomlega í takt við niðurstöðu samanburðar Félagsvísindastofnunar á launakjörum kvenna og karla sem birt var í byrjun árs 1995 og varð tilefni mikillar umfjöllunar í kosningabaráttunni það ár. Í þeirri könnun vakti ekki síst athygli og umræður sú staðreynd að kynbundinn launamunur fer vaxandi eftir því sem menntunin er meiri. Þar með reyndist tálvon að lykillinn að launajafnrétti væri fólginn í menntun kvenna til jafns á við karla, en því hefur einmitt mjög verið haldið að konum sem svo sannarlega hafa sótt fram á sviði menntunar og rannsókna á síðustu áratugum. Þegar þær hins vegar koma út á vinnumarkaðinn með lykilinn að launajafnréttinu í höndum sér er einfaldlega búið að skipta um skrá.

Það er nöturleg staðreynd að þrátt fyrir verulegan árangur í sókn kvenna til jafnrar stöðu á flestum sviðum samfélagsins er launamunur kynjanna enn hinn sami og hann var þegar svo átti að heita að hann væri afnuminn með lögum. Veruleikinn er því miður oft víðs fjarri orðaflaumi laganna. Og hugarfarsbyltingin fer með hraða snigilsins.

Enn í skotgröfum

Enn einn átakafundurinn um Fljótsdalsvirkjun var haldinn í gær, í þetta sinn á vegum umhverfis- og byggingarverkfræðiskorar Háskóla Íslands. Þar skiptust á skoðunum Halldór Ásgrímsson, Þuríður Backman, Kristinn Haukur Skarphéðinsson fuglafræðingur og fulltrúar Landsvirkjunar þeir Helgi Bjarnason og Þorsteinn Hilmarsson. Salurinn var þéttsetinn háskólanemum og utanaðkomandi áhugafólki eins og undirritaðri.

Erindin voru, svo sem búast mátti við, sterklega lituð af skoðunum flytjenda á réttmæti virkjana á þessu merka svæði og pallborðsumræður leiddu út af fyrir sig ekkert nýtt í ljós. Því miður er umræðan læst í eins konar skotgröfum og þokast ekki áfram. Það er mikið áhyggjuefni því hér er um að ræða eitt mikilvægasta málefnið sem við er að fást í samtímanum og sem skiptir svo miklu til framtíðar.

Framganga Halldórs Ásgrímssonar í þessu máli er einkar óviðkunnanleg eins og berlega kom fram á fundinum í gær. Hún einkennist af yfirlæti og valdhroka og svör við spurningum markast af ólund og aulafyndni. Allur hans málflutningur byggist á því sem hann setur fram sem byggðaleg rök og vísar snúðugt til hagvaxtar sem allir vilji. Hann ansar ekki athugasemdum um nauðsyn grænna þjóðhagsreikninga og hann talar eins og nýting orku til stóriðju sé það eina sem rétt geti hag Austfirðinga. Undir lok fundarins var hann spurður hvort hugarfarsbreyting meðal þjóðarinnar á sviði umhverfis- og náttúruverndar hefði ekki haft nein áhrif á hann. Svar hans var á þá leið að hann hefði ekki heyrt nein þau rök í málinu sem gæfu honum tilefni til að skipta um skoðun. Annað hafði hann ekki um það að segja og sjálfsagt hefur ekki nokkur viðstaddra í raun og veru búist við ítarlegra svari.

Maður veltir fyrir sér hvernig hægt er að koma þessari umræðu á vitrænt plan. Það hafa reyndar ýmsir reynt og er í því efni rétt að benda á mjög góða grein Guðmundar Sigvaldasonar jarðfræðings í Degi 29. september sl. þar sem hann dregur fram röksemdir með og á móti á forsendum ábyrgrar framtíðarsýnar sem hafnar auðveldum skammtímalausnum. Gjarna vildi ég sjá og heyra þá Halldór og Guðmund ræða á skipulegan hátt og lið fyrir lið þær röksemdir sem settar eru fram í grein Guðmundar. Það yrði örugglega fróðleg umræða ef henni yrði stjórnað á þann hátt að menn kæmust ekki undan því að svara. Ef til vill væri þó betra að hafa ekki stjórnmálamann öndvert Guðmundi, a.m.k. hvorki Halldór né Finn sem hljóma alltaf eins og þeir haldi að þeir séu þátttakendur í ræðukeppni framhaldsskólanema þegar þeir tjá sig um þetta mál.

Til hvers heimasíða?

Sumarið gerir fólk latt að halda við heimasíðum sínum. Sú er niðurstaða mín eftir að hafa heimsótt nokkrar heimasíður stjórnmálamanna. Reyndar virðist leti þeirra ekki bara venjulegu veðurfari að kenna, veðrabrigði stjórnmálanna hafa greinilega sitt að segja. Nokkrir hafa ekki haft neitt að segja gestum sínum allar götur síðan í miðri kosningabaráttu þrátt fyrir yfirlýsingar um reglulega pistla.

“Dagbók” utanríkisráðherra nær ekki lengra en til febrúar sl. “Vikulegur pistill” Sigríðar Jóhannesdóttur birtist síðast í apríl. Síðasti “vefpistill” Jóhönnu Sigurðardóttur er skrifaður í maí og hefur að geyma þakkarávarp til samfylkingarfólks í Reykjavík. Umhverfisráðherra upplýsir í síðasta pistli sínum 2. júlí að hún sé á leið á harmonikkuhátíð á Siglufirði. Ekkert hefur verið “efst á baugi” hjá Pétri Blöndal síðan í apríl. Krisján Pálsson virðist ekki hafa skrifað grein síðan 1998. Hjá Árna R. Ragnarssyni er ekkert “í brennidepli” síðan í maí. “Dagbók” formanns fjárlaganefndar endar í janúar og hann hefur ekki einu sinni uppfært greinasafnið og er þó einhver mikilvirkasti greinaskrifari í hópi alþingismanna. Og þannig mætti áfram telja.

Þessi niðurstaða er hálfhlægileg með tilliti til hátíðlegra ávarpa þeirra á upphafssíðum um mikilvægi þess að nýta þessa nýju tækni til þess að koma upplýsingum skjótt á framfæri og halda sem bestum tengslum við kjósendur. Stendur tíminn kyrr hjá þessu fólki?

Gúrkur, bananar og fasismi

Jæja, þá er síðustu hestaferð sumarsins lokið, búið að draga undan og sleppa í hausthaga. Blessaðir klárarnir eiga skilið gott frí eftir marga góða spretti þetta sumar sem nú er senn á enda.

Milli ferðalaga og unaðsstunda í okkar ómetanlegu íslensku náttúru hef ég gert áhlaup á dagblaðabunkana og reynt að kynna mér atburði og umræður sumarsins, sem oftar en ekki hafa á sér gúrkublæ. Tíðindi úr fjármálaheiminum minna reyndar fremur á aðra matartegund, þ.e.a.s. banana, og ef málið væri ekki í sjálfu sér grafalvarlegt þá væri óviðráðanlegur hlátur minn hjartanlegri þegar lesinn er sérhver nýr þáttur í FBA-leikritinu. Dylgjurnar og ásakanirnar eru með hreinum ólíkindum og þátttakendur m.a. helstu ráðamenn þjóðarinnar. Má virkilega vænta þess að í náinni framtíð muni hinn íslenski fjármálaheimur einkennast af áflogum og persónuníði á borð við það sem fram fer þessar vikurnar? Eitt er a.m.k. augljóst og það er að ýmsir hafa hagnast dável á síðustu árum og keppast nú við að koma aurum sínum í enn meiri gróða. Þeir njóta þess nú hvað ráðandi flokkar hafa verið skilningsríkir á þarfir fjármagnseigenda og stórfyrirtækja allan þennan áratug.

Mál málanna þessar vikurnar er þó enn og framvegis virkjana- og stóriðjuáformin á Norðausturlandi. Greinaskrifum linnir ekki, ályktunum og yfirlýsingum fjölgar stöðugt og æ fleiri geta nú talað af reynslu um svæðið sem fer undir vatn ef áformin ná fram að ganga. Enda var farið að fara svo um virkjanasinna þar austur frá að þeir sáu sér ekki annað fært en að stofna samtök til framdráttar sínum málstað. Ef framlag þeirra til umræðunnar verður til frambúðar eitthvað í líkingu við það sem gerðist á stofnfundinum er varla hægt að segja að þar með lyftist hún á hærra plan. Þarna töluðu reiðir og móðgaðir menn sem ýmist skömmuðu eða hæddu verndarsinna. Fjölmiðlarnir voru sérstaklega teknir fyrir og einkum Ómari Ragnarssyni úthúðað á grófan hátt, gys gert að biskupi og hæðst að konum sem lesið hefðu ljóð á Austurvelli. Nýkjörinn formaður samtakanna klykkti út með því að segja að skynsamleg umræða um sambúð fólks og náttúru væri kaffærð af umhverfisfasistum sem blómstruðu í ótakmarkaðri athygli fjölmiðlanna.

Þarna tala reiðir og rökþrota menn. Margt hefur verið sagt og skrifað um þetta mál og sjálfsagt hefur eitthvað í öllu því flóði verið þannig fram sett að einhverjum hafi fundist talað niður til sín eins og fram kom á fundinum. En að stilla þessum skoðanaskiptum upp á þann veg að þarna takist á sjónarmið umhverfisfasista að sunnan annars vegar og hins vegar þeirra sem vilja efla byggð á Austurlandi er bæði ósvífið og beinlínis rangt. Nær væri að tala um átök milli viðhorfa gærdagsins og morgundagsins. Stefna stórvirkjana og stóriðju er stefna gærdagsins sem hefur kostað okkur mikil náttúruspjöll. Nú er brýnt að staldra við og velta fyrir sér afleiðingunum og umfram allt ekki varpa sér niður í skotgrafir byggðastefnu og umhverfisfasisma.

Sívaxandi fjöldi fólks vill stöðva gegndarlausan ágang á dýrmæta náttúru landsins, vill hindra þá eyðileggingu sem aldrei verður aftur tekin ef virkjanaáform verða að veruleika. Þetta fólk er ekki andvígt Austfirðingum, það er ekki á móti byggð á Austurlandi, það er ekki á móti uppbyggingu atvinnu þar. Þvílík fjarstæða að halda slíku fram. Álver í Reyðarfirði er einfaldlega ekki sá bjarghringur sem sumir vilja vera láta. Það gæti þvert á móti orðið myllusteinn um háls heimamanna. Með þeirri gífurlegu röskun sem áformuð er á hálendinu norðan Vatnajökuls væri þjóðin að saga undan sér vænlegustu greinina sem hún nú situr á í atvinnulegu tilliti. Ósnortin víðerni lands okkar eru sá fjársjóður sem við eigum – ennþá – umfram aðra. Það er ein sterkasta röksemdin gegn Fljótsdalsvirkjun eins og hún er hönnuð og fyrirhuguð. Með þeirri framkvæmd yrði gengið svo á þetta svæði að við Íslendingar gætum ekki lengur státað af stærsta ósnortna víðerni Vestur-Evrópu. Þá myndu Norðmenn endurheimta þann titil úr höndum okkar.

Það er líka rangt sem margir hafa haldið fram í hita leiksins að þá fyrst hafi verndarsinnar risið upp þegar virkja átti fyrir austan. Baráttan fyrir verndun Þjórsárvera var löng og erfið, en hún fór ekki jafn hátt og sú barátta sem nú er háð vegna þess að náttúruvernd átti erfitt uppdráttar á þeim tíma og formælendur fáa. Sem betur fer hafa viðhorfin gjörbreyst á síðustu árum. Og þau munu halda áfram að breytast náttúrunni í hag, enda er líf mannsins á þessari jörðu undir því komið að okkur takist að snúa af braut náttúruspjalla og ofnýtingar auðlinda og stefna í sjálfbæra þróun á öllum sviðum.

Sumarfrí

Tölvan mín og ég erum að fara í sumarfrí. Tölvan hvílir sig bara hér heima, en ég ætla að endurnýja orkuna í sveitinni minni næstu þrjár vikur og fara síðan í 9 daga hestaferð með Fáksfélögum um Dalina og enda á Löngufjörum, kjörlendi allra hesta og hestamanna. Það verður því langt hlé til næstu orðsendingar hér í minnisbókinni.

Vernd og víðerni

Síðastliðinn föstudag birtist grein eftir mig í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni “Stærsta ósnortna víðerni álfunnar í húfi”, en hana má einnig finna í greinasafni mínu. Ég hef fengið mikil viðbrögð við þessari grein, meiri en oft áður, því þetta er hreint ekki fyrsta greinin sem ég hef skrifað um þetta efni. M.a. varð hún til þess að Þorfinnur Ómarsson bauð mér í laugardagsþáttinn sinn ásamt Helga Péturssyni og Kolbeini, formanni Verslunarráðs. Reyndumst við hjartanlega sammála um skaðsemi stóriðju- og stórvirkjanastefnunnar og nauðsyn þess að vernda náttúru landsins og einkum ósnortin víðernin.

Mér finnst ég skynja sívaxandi þunga í þessari umræðu allri og held að viðbrögð við fyrrnefndri grein eða efni hennar, sem ég hef þó oft áður rætt og skrifað um, sýni einfaldlega að sífellt fleiri gera sér grein fyrir verðmætum náttúrunnar og nauðsyn þess að bregðast við henni til varnar. Þökk sé þeim mörgu sem hafa tjáð sig um þetta efni. Þökk sé umfjöllun fjölmiðla, stórfenglegum sjónvarpsþáttum og vönduðum greinaflokki Morgunblaðsins á síðasta ári. Þökk sé aðgerðum Guðmundar Páls Ólafssonar þegar Fögruhverum var sökkt undir miðlunarlón. Þökk sé frábærum baráttufundi til varnar hálendinu í Háskólabíói á síðasta hausti o.s.frv. o.s.frv.

Mikið hefur áunnist í þessari baráttu. Umræðan er gjörbreytt, viðhorfin allt önnur en þau voru fyrir aðeins fáum árum þegar náttúruverndarsinnar voru sem hrópendur í eyðimörkinni. En við þurfum fleiri raddir og meiri baráttu, því enn steðjar hættan að sem aldrei fyrr.

Lítil vörn á Alþingi

Um þessar mundir líður ekki sá dagur, að ekki sé minnst á Eyjabakkasvæðið og andmæli gegn eyðileggingu þess. Ekki veitir af og enn má þó herða róðurinn því sífellt er sótt að náttúrunni þar sem víða annars staðar af ótrúlegri skammsýni og ábyrgðarleysi gagnvart hagsmunum framtíðar.

Umhverfis- og náttúruverndarsamtök og samtök í ferðaþjónustu hafa ályktað gegn röskun á þessu mikilvæga svæði norðan Vatnajökuls. Erlend náttúruverndarsamtök láta málið til sín taka og munu án alls efa gera það í vaxandi mæli í náinni framtíð. En á sama tíma sitja stóriðju- og virkjanaöflin við sinn keip. Finnur og félagar sýna gömlum sem nýjum fjárfestum í mengandi stóriðju mikil vinahót og láta sem þeir heyri ekki né sjái andmæli og varnaðarorð verndarsinna.

Umræður á vorþingi Alþingis að frumkvæði Vinstri grænna leiddu m.a. í ljós að afstaða þingmanna innan stjórnarflokkanna gagnvart hagnýtingu víðernanna á hálendinu norðan Vatnajökuls er ekki á einn veg. Varast skyldi þó að ofmeta það þótt tveir af 38 stjórnarliðum hafi lýst sig fylgjandi lögformlegu umhverfismati vegna Fljótsdalsvirkjunar. Hinir 36 eru áreiðanlega flestir sauðtryggir Finni og félögum sem fara gegn hagsmunum náttúrunnar og framtíðarinnar með fullkominni óbilgirni, vopnaðir slagorðum um lausn á byggðavanda og gott ef ekki efnahagsvandanum í bráð og lengd.

Trúlega vill meiri hluti stjórnarandstöðunnar vernda Eyjabakkasvæðið. Vinstri grænir eru einhuga í þessu máli, en innan Samfylkingarinnar eru nokkrir þingmenn hlynntir stóriðju og virkjanaframkvæmdum. Það er því augljóst að víðernin á hálendinu eiga ekki næga vörn á Alþingi eins og það er nú skipað. Verndarsinnar utan sem innan þings þurfa að halda vöku sinni sem aldrei fyrr.

Fáksferð um Reykjanes

Nokkurra daga hestaferðir um byggðir eða óbyggðir þessa lands okkar eru sá þáttur hestamennskunnar sem veita hvað mesta ánægju. Bæði hestar og menn hafa gaman af slíkum ferðum, hestar þjálfast og léttast í fasi og lund og menn sjá land og náttúru á allt annan hátt en þegar þeir þræða bílvegina.

Síðustu 10 árin höfum við hjónin farið slíkar ferðir vítt og breitt um landið, við höfum farið nokkrum sinnum um Borgarfjörð og Snæfellsnes, þar sem þeysireið eftir Löngufjörum er punkturinn yfir i-ið, við höfum farið inn í Arnarfell hið mikla, riðið fram og aftur um Kjöl og Sprengisand, riðið um sveitir Norðurlands, farið víða um Árnes- og Rangárvallasýslur, riðið um Þórsmörk og að Fjallabaki, og þannig mætti áfram telja.

Það var því kannski mál til komið að kanna reiðleiðir hér aðeins nær, fara annað en þessar hefðbundnu leiðir um Heiðmörkina, kringum Rauðavatn og upp í Hólmsheiðina. Og við vorum einmitt að koma úr vorferð Fáks í gærkvöldi, rykug, sólbrunnin, þreytt og ánægð eftir fjögurra daga ferð um Reykjanesið. Við vorum 27 saman og hvert okkar með þrennt til reiðar og aldeilis sjón að sjá þegar allur hópurinn þandi fáka sína um grundir.

Fyrsta daginn riðum við frá Víðidal suður í Voga, en á þeirri leið eru mestan part sérlega góðir reiðvegir í fögru umhverfi. Næsta dag lá leiðin yfir Stapann og til aðseturs Mánamanna handan Keflavíkur þar sem gist var í félagsheimili þeirra og glaðst með þeim. Þriðja daginn var farið til Grindavíkur þar sem grindvískir hestamenn tóku hressilega á móti okkur og fylgdu okkur til Vigdísarvalla og í Króksmýri þar sem er gott aðhald fyrir hesta. En mannskapurinn gisti í verbúðum í Grindavík og þandi raddböndin fram eftir nóttu. Síðasta daginn riðum við svo ýmsar krókaleiðir heim í Víðidalinn.

Veðrið lék við okkur og vorhugur var í hestunum, en merkilegast var að kynnast öllum þessum leiðum og landslagi sem eru að baki allra hæðanna og fjallanna sem blasa við af einum fjölfarnasta bílvegi landsins, Reykjanesbrautinni. Fæstir landsmanna þekkja mikið annað af þessu landssvæði sunnan Hafnarfjarðar að Bláa lóninu undanskildu sem er að verða fjölsóttasti staður landsins. En Reykjanesið hefur margt annað að bjóða, og þótt ýmsum þyki best að njóta þess af hestbaki má víða fara á bíl, þessum þarfaþjóni nútímamannsins. Bíla sáum við reyndar blessunarlega fáa á leið okkar og aðeins örfáa göngumenn.

Um miðjan júlí hefur ferðanefnd Fáks skipulagt helgarferð á svæðið kringum Leirubakka í Landssveit, en stóra ferðin er um Dalina. Hún hefst 24. júlí og endar níu dögum síðar á Löngufjörum. Þetta árið er sem sagt ekkert farið á vegum Fáks um hálendið og er það út af fyrir sig ágætt. Hestaferðir hafa færst mjög í aukana á undanförnum árum og þarf að huga að því að ofbjóða ekki viðkvæmri náttúru hálendisins.