Sjónvarp allra landsmanna stóð sig vel í því að flytja dágóðan hluta ráðstefnunnar um konur og lýðræði inn í stofu til okkar um helgina. Mér tókst að sjá u.þ.b. helming þess sem sýnt var á skjánum og hafði gaman af. Setningarathöfnin var að vísu álíka leiðinleg og setningarathafnir eru yfirleitt þar sem fínimannsleikurinn er í algleymingi og valdafólk les upp ræður sem sjaldnast koma á óvart. Útsendingin á laugardaginn, þ.e. í gær, varð að víkja fyrir heimsókn í hausthagann, en í morgun, sunnudag, var fróðlegt að hlusta á talskonur hópa og svo auðvitað að sjá og heyra Hillary flytja mál sitt. Hún sagði margt gott og hvetjandi og sagði það vel. Það þarf mikið ónæmi til að láta ekki hrífast af mælsku hennar og framsetningu. Í minni sveit heitir þetta að vera vel máli farin.
Gaman verður svo að fá frekari upplýsingar um niðurstöður og árangur þessarar miklu samkomu sem vonandi var annað og meira en sjónarspil. Ingibjörg Sólrún sagði – ef ég hef tekið rétt eftir – að upp úr stæði sú áhersla sem konur legðu á samstarf og samstöðu, svo og áhugi kvenna á því að tryggja velvilja fjölmiðla í garð kvennabaráttunnar og virkja þá til að flýta þróuninni. Þetta voru einnig sterkir áherslupunktar á ráðstefnu um aukna samvinnu kynjanna í stjórnmálum, sem haldin var á vegum Alþjóða þingmannasambandsins fyrir tæpum þremur árum. En svona þarf að segja hlutina aftur og aftur.
Því er ekki að leyna að þessi ráðstefna og þó fyrst og fremst undirbúningur hennar hefur sætt mikilli gagnrýni. Umstangið í kringum Hillary á þar nokkra sök og réði því m.a. að ráðstefnan fékk á sig snobbstimpil. Stærsta hótel landsins undir eina konu og fylgdarlið hennar, sérþota merkt forsetaembættinu, öflug öryggisgæsla og allt bugtið í móttökuliðinu, slíkt fellur ekki beinlínis í kramið hjá landanum. En vonandi hefur Hillary sannað flestum að hún átti erindi hingað.
Gríðarlegur kostnaður við þetta ráðstefnuhald er óskiljanlegur öllum og ekki síst þeim sem einhvern tíma hafa komið nálægt slíku. Algjörlega er eftir að skýra þann kostnað sem hleypur ekki bara á tugum milljóna, heldur er sagður vel á annað hundrað milljóna, þar af um 60 milljónir úr vösum íslenskra skattgreiðenda. Þennan fjáraustur verður að skýra og má ætla fjárlaganefndarmönnum hlutverk í því efni.
Þá sætti val fulltrúa mikilli gagnrýni og skiljanleg sárindi þeirra mörgu sem töldu sig verðugar en hlutu ekki náð fyrir augum ráðstefnuhaldara. Sjálfsagt hafa þeir rök fyrir sínu vali, en altént vakti athygli hversu fáar íslenskar stjórnmálakonur sáust í sal Borgarleikhússins. Samkvæmt heiti ráðstefnunnar fjallaði hún um konur og lýðræði og að því hafa nú einu sinni íslenskar stjórnmálakonur verið að vinna á ýmsan hátt á undanförnum árum. Nú voru þær settar í hlutverk áhorfenda og voru þó margir stólar auðir í salnum. Þetta minnti svolítið á meðferðina á kínversku alþýðufólki sem hafði unnið að undirbúningi að miklu afmælishaldi á Torgi hins himneska friðar en var svo vinsamlega beðið að flækjast ekki fyrir í afmælinu sjálfu, heldur horfa á dýrðina í sjónvarpi!!!