Valdafíkn og helmingaskipti

Nú hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur þegar varið heilum 18 dögum í umræður um myndun nýrrar ríkisstjórnar sem að líkindum lítur loks dagsins ljós eftir 2 – 3 daga. “Það á að vanda sem lengi á að standa”, segja leiðtogarnir með yfirlætislegu brosi þegar fjölmiðlar inna þá eftir ástæðum þess hversu hægt gengur. Öðru vísi var þó að verki staðið þegar sömu flokkar mynduðu stjórn á örskömmum tíma fyrir fjórum árum. Var í þá daga ekki ætlunin að tjalda til lengri tíma?

Þessi seinagangur við stjórnarmyndun stafar ekki af vönduðum vinnubrögðum við málefnavinnu þótt eitthvað hafi þurft að hræra í loforðasúpu Framsóknar, heldur er hann fyrst og fremst til marks um hrokafulla framkomu þessara tveggja flokka sem telja sig eina réttborna til að stjórna landinu og leyfa sér að taka allan þennan tíma til þess að þjarka um ráðherrastóla sín á milli og við valdafíkna flokksmenn sína. Þar geisar nú ráðherraveikin eins og faraldur og virðist flest annað ráða en hæfileikar og þekking á málefnum þegar tekist er á um réttinn til ráðherradóms.

Svo hart er nú slegist um ráðherraembættin að leiðtogarnir sjá ekki annað ráð vænna en að fjölga þeim um tvö með tilheyrandi aukakostnaði fyrir þjóðina. Og í stjórnarsamstarfi er vandlega gætt helmingaskipta öfugt við það sem gildir í þinginu þar sem öllu er skipt í hlutfalli við kjörfylgi nema ræðutíma. Þar eiga smáir sem stórir þingflokkar sama rétt. Það hefur reyndar lengi farið í taugarnar á stærri flokkunum og einkum þó Framsókn blessaðri sem skortir hins vegar ekki kröfuhörkuna fyrir sig og sína þegar verkaskipti í ríkisstjórn er annars vegar.

Ekki er enn séð hvernig troða á heilli tylft ráðherra á þröngt setinn bekkinn í Alþingi og málið er allt í senn hlægilegt og grafalvarlegt. Furðu lítil viðbrögð eru hins vegar við þessu makki flokkanna tveggja. Sennilega er þar um að kenna hefðbundnum almennum doða eftir kosningahríð.