Mér brá þegar mér varð ljóst að ég hafði ekki stungið orði inn í minnisbókina í meira en viku. Það segir auðvitað talsvert um það sem er að gerast þessa dagana. Baráttan er á fullu frá morgni til kvölds og veitir ekki af því hinir flokkarnir höfðu drjúgt forskot þegar við blönduðum okkur í slaginn.
Í rúmar tvær vikur höfum við vinstri grænir í Reykjanesi þeyst á milli vinnustaða að kynna stefnu okkar og andlit. Víðast hvar mætir okkur vinsamleg forvitni, sums staðar mikill áhugi og stuðningur, en á stöku stað fáum við það líka óþvegið. Allir eru sammála um að við komum hreint og beint fram með skýra og afdráttarlausa stefnu og við höfum bara gaman af að takast á um málefnin.
Baráttugleðin er í góðu lagi hjá okkar fólki og allir leggja eins mikið af mörkum og þeir mögulega geta meðfram brauðstritinu. Sigurbjörn bóndi eltir okkur Sigtrygg uppi þegar hann er búinn að mjólka, en við söknum Guðbjargar Sveinsdóttur sem er í 4. sætinu.á listanum okkar. Hún er hins vegar þátttakandi í öllu lífshættulegri baráttu austur í Makedoníu þar sem hún veitir stríðshrjáðu flóttafólki áfallahjálp. Þrátt fyrir sífelldan fréttaflutning er erfitt að gera sér í hugarlund lífið á þessum slóðum sem er auðvitað skelfilegra en orð fá lýst. En svo mikið er víst að reynslan hefur ekki breytt afstöðu Guðbjargar til NATO og hvers konar hernaðaraðgerða sem skapa meiri hörmungar og verri vandamál en þeim er ætlað að leysa.
Það verður engin lognmolla í kosningabaráttunni næstu daga. Við höldum áfram sprettinum á milli vinnustaða og boðum til málefnafunda á kvöldin. Siðferði í stjórnmálum er fundarefnið í Reykjanesbæ á þriðjudagskvöld, jafnrétti kynjanna verður rætt í Hafnarfirði á miðvikudagskvöld og á fimmtudagskvöld verður dúndrandi baráttufundur í Félagsheimilinu í Kópavogi.
“Við eigum brekku eftir, hún er há” er yfirleitt það fyrsta sem mér dettur í hug á morgnana, en brekkan sú er alltaf að lækka eftir því sem úrslitastundin nálgast. Við erum bjartsýn og full eftirvæntingar að heyra niðurstöður kjósenda um næstu helgi.