Jæja, loksins small þetta saman hjá þeim Davíð og Halldóri. Stólaleikurinn á enda. Og allt gamla liðið situr áfram nema Halldór Blöndal sem verður forseti þingsins! Brosti nokkur í kampinn? En þannig urðu til sæti fyrir þrjá nýja úr Sjálfstæðisflokknum, Árna, Sólveigu og Sturlu. Létt verk hjá Davíð sem hefur föst tök á sínu liði, enda auðveldara fyrir þingmenn hans að sætta sig við að vera “bara” þingmenn þar sem þeir eru svo margir.
Fyrir Halldór Ásgrímsson var þetta miklu erfiðara. Helmingurinn ráðherrar og hinn helmingurinn úti í kuldanum. Æ,æ! Kalt er við kórbak. Enda leyndi sér ekki að tillaga formannsins hafði lagst misjafnlega vel í mannskapinn. Hann varð að lofa því að gera breytingar síðar á kjörtímabilinu til að koma fleirum að. Guðni og Siv mega núna. Valgerður síðar.
Slæmt að geta ekki bara breikkað forsetastólinn og troðið Blöndal og Páli báðum í hann! En þá yrði reyndar útilokað að koma öllum ráðherrunum fyrir á ráðherrabekknum því heyrst hefur að eina ráðið sé að mjókka forsetastólinn og tilheyrandi tröppuganga upp að honum. Skyldi skrifstofustjóra Alþingis ekki hafa dottið í hug að setja ráðherrana bara upp á áhorfendapalla? Þá yrði loksins sæmilega rúmt um “bara” þingmenn í salnum.
Allt í einu rifjaðist upp fyrir mér samkvæmisleikur frá því í gamla daga. Hann hét einmitt stólaleikur og við krakkarnir lékum hann á afmælum og jólum. Stólum var raðað í hring, einum færri en þátttakendur sem gengu innan hringsins meðan leikinn var lagstúfur. Allt í einu hætti lagið og þá flýttu sér allir að setjast. Einn varð náttúrlega úr leik þar sem stólarnir voru ekki nógu margir og nú var þeim fækkað um einn og þannig koll af kolli þar til aðeins einn var eftir. Þannig lékum við okkur þá og þannig leika sumir sér enn. Eða hvað?
Og í þetta sinn stóðu konurnar sig bærilega í stólaleiknum. Er þar komið enn eitt dæmið um áhrif Kvennalistans á íslensk stjórnmál. Það þykir bara ekki lengur í lagi að ganga fram hjá konum. Loksins.