Eftir frábæran árangur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í nýafstöðnum kosningum er einkennilegt að heyra einn og einn gera því skóna að þetta stjórnmálaafl verði ekki langlíft og muni fyrr en síðar renna inn í Samfylkinguna. Með tilliti til sterkrar málefnastöðu og góðs anda í okkar röðum er það fráleitur möguleiki í mínum huga.
Mér finnst satt að segja miklu líklegra að Samfylkingunni gangi treglega að ná upp samkennd og samræmingu misvísandi sjónarmiða innan sinna raða og að þeir erfiðleikar leiði til þess að úr henni kvarnist til vinstri og hægri eftir því sem á líður.
Þráin eftir leiðtoganum sterka var bæld niður í kosningaslagnum, en braust upp á yfirborðið um leið og óánægðir liðsmenn Samfylkingarinnar tóku að viðra vonbrigði sín með lélegra gengi í kosningunum en þeir höfðu vænst. Von er að menn leiti skýringa, en að mínu mati er ósanngjarnt að kenna leiðtoga eða leiðtogaleysi um útkomuna. Ástæðan var einfaldlega samstöðuleysi og misræmi sjónarmiða, skortur á trúverðugleika, ólík afstaða til mikilvægra mála eftir landshlutum, t.d. í umhverfismálum og náttúruvernd, og augljós togstreita milli einstaklinga, jafnvel milli manna á sama lista. Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun mála hjá Samfylkingunni næstu fjögur árin.
Framsóknarmenn fengu verðskuldaða ráðningu í kosningunum og eiga bágt með að leyna gremju sinni. Þeir reyna að kenna um aðför að formanninum svo og því að þeir hafi haft svo erfið ráðuneyti með höndum. Þeir ættu að hugsa sitt ráð og fara betur ofan í verk sín á síðasta kjörtímabili því það eru þau sem tala eins og þeir sjálfir auglýstu og súpa nú seyðið af. Mín skoðun er sú að ekki síst hafi kjósendur verið að refsa framsóknarmönnum fyrir frammistöðuna í umhverfismálum, þar sem ábyrgðin var fyrst og fremst á þeirra herðum. Þeir hafa ekki skilið kall tímans og brugðist rangt við í mikilvægustu málunum. Allt hjal um sátt milli sjónarmiða verndar og nýtingar er t.d. marklaust þegar öllum má ljóst vera að þeir eru tilbúnir til að fórna einstökum gersemum náttúrunnar fyrir skammtíma fjárhagslega hagsmuni.
Því miður kemst Sjálfstæðisflokkurinn á undraverðan hátt hjá allri gagnrýni í þessum efnum eins og ýmsum öðrum þó að augljóslega sé hann engu betri og hafi mælt upp í Framsóknarflokknum alla vitleysuna og axarsköftin í umhverfismálunum á síðasta kjörtímabili. Það fer að verða vísindalegt rannsóknarefni hvernig stærsta flokki landsins tekst að sigla í gegnum pólitíska stórsjói án þess að setja fram skýr stefnumið og án þess að þurfa að svara fyrir verk sín. Það er eins og stærðin ein valdi lotningu og öryggistilfinningu kjósenda, að ekki sé minnst á áberandi hnjáliðamýkt fjölmiðlamanna í garð flokksformannsins.
Því miður stefnir allt í framhald samstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þrátt fyrir skilaboð kjósenda til þess síðarnefnda. Útkoma Sjálfstæðisflokksins sýnir það að stór hluti landsmanna vill hafa hann við stjórnvölinn og því sitjum við efalaust uppi með þann kost. Sú hugmynd hefur reyndar skotið upp kollinum að réttast væri að hann myndaði stjórn einn og sér og leitaði samstarfs við aðra flokka eftir málefnum. Engin hefð er fyrir slíkum stjórnarháttum hér, sem tíðkast þó víða annars staðar og væri ef til vill þess virði að reyna.
Líklegast er hins vegar að gamla stjórnin skipti um nokkur andlit og þjóðin megi búa við sama stjórnarmynstur næstu fjögur árin. Geir og Finnur dunda sér við hrossakaupin næstu daga meðan Halldór er í útlöndum og Davíð í gönguferðum með Tanna. Þeir telja sig hafa nægan tíma og því miður er það trúlega svo.