Reynslan úr Þrengslum

Mörg hundruð manns lentu í heldur ónotalegri lífsreynslu um sl. helgi, þegar óveður, ófærð og óforsjálni lokuðu þau inni í Þrengslum. Reyndist það nöturlegur millikafli í að því er virtist sakleysislegum en óvenju spennandi sunnudagsbíltúr austur fyrir fjall, þar sem hin síunga Hekla var í aðalhlutverki. Endir sögunnar varð hins vegar eins og best verður á kosið, allir komust loks á leiðarenda og enginn beið heilsutjón.

En eins og af öllum góðum sögum verður sitthvað af þessari sögu lært. Ef ekki hefði til komið dugnaður og ósérhlífni björgunarsveita og frábær gestrisni fólksins austan fjalls þá hefði getað farið verr. Aðrir stóðu sig miklu miður. Þáttur Vegagerðarinnar er spurningamerki og þáttur Almannavarna er enn meira álitamál. Þeim spurningum verður að svara.

Fyrst og fremst hefði þurft miklu markvissari viðbrögð og varnaraðgerðir til að koma í veg fyrir öngþveitið í Þrengslum. Algjört óráð var að hleypa þessum bílafjölda inn á Þrengslaveginn, þegar ljóst mátti vera að hverju stefndi, og a.m.k. hefði átt að vísa frá illa búnum fólksbílum. Í öðru lagi er verulega ámælisvert hvað Ríkisútvarpið var illa nýtt til að koma á framfæri skilaboðum til fólksins, sem sat fast í bílum sínum. Flestir hafa einhvern tíma lent í umferðarteppu og þekkja óþolinmæðina og gremjuna, sem óðara hleðst upp við minnstu tafir, og verst er ævinlega að vita ekki hvað veldur né hversu lengi töfin gæti varað. Auðvitað átti að nýta Ríkisútvarpið miklu meira en gert var til að veita upplýsingar og ráðleggingar og fréttir af framvindu mála.

Bílasímarnir og gemsarnir björguðu vissulega miklu, Þeir veittu bæði þeim sem fastir sátu og þeim sem heima sátu meiri ró og æðruleysi en ella. Því má svo ekki gleyma að líklega bjargaði almenn hreysti landans mestu, hreysti og hlýr fatnaður. Ekki er vafamál að öngþveiti sem þetta hefði kostað einhverja lífið, ef það hefði átt sér stað einhvers staðar í útlöndum, þar sem fólk er alla jafna illa tilbúið að takast á við hamfarir af þessu tagi.

Það er auðvelt að vera vitur eftir á er oft sagt og er hverju orði sannara, en það er líka bráðnauðsynlegt að nýta þá visku sem fæðist eftir slíka reynslu sem fékkst um sl. helgi. Hana ber að nýta til að móta áætlun um viðbrögð í tilvikum sem þessum. En við getum hrósað happi að ekki fór verr í þetta sinn, og margir hafa sennilega bara lúmskt gaman af þessari reynslu svona eftir á og líta á hana fyrst og fremst sem spennandi ævintýri. Lífsreynsla er hins vegar lítils virði, nema hún leiði af sér vit og þroska.

Úrskurður umhverfisráðherra

Siv Firðleifsdóttir umhverfisráðherra kom ýmsum á óvart með því að ógilda úrskurð skipulagsstjóra um 480 þús. tn. álver í Reyðarfirði og menn eru ekki á einu máli um afleiðingarnar. Virkjana- og álverssinnar bera sig vel og fullyrða að gjörningur ráðherra flýti fyrir því að ráðist verði í byggingu 120 þús. tn. álvers og segja fráleitt að það breyti nokkru um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar. Umhverfissinnar eru á öðru máli, nú sé tími og lag til þess að vinna að lögformlegu mati á umhverfisáhrifum virkjunarinnar. Enn einu sinni stenst ekki sú fullyrðing, sem margsinnis hefur verið færð fram sem röksemd gegn lögformlegu mati, að til þess gefist ekki tími. Þrjóska virkjana- og álverssinna ríður hins vegar ekki við einteyming, þeir munu ekki gefa eftir í þessu máli ótilneyddir.

Og nú er spurning hvort ákvörðun Sivjar er ekki úthugsaður leikur í því erfiða tafli sem flokkur hennar hefur þvælt sér út í. Framsóknarmenn vilja ekki taka neinum umhverfisrökum, en arðsemisrökin eru óneitanlega farin að reynast þeim erfiður ljár í þúfu. Þeim finnst óþægilegt að sitja undir öllum greinunum og ræðunum frá hagspekingum, sem sjá ekkert hagrænt vit í áformunum um Reyðarál og þó fyrst og fremst Fljótsdalsvirkjun. Og sjálfstæðismönnum er farið að leiðast að bakka upp þessa vitleysu, sem þeir virðast hafa lofað að gera í skiptum fyrir einkavæðingu Landssímans. Það skyldi þó aldrei vera að flokksformennirnir hafi sest niður með Siv og fundið þessa leið til að tefja fyrir undirbúningnum í trausti þess að Norsk Hydro sæi þar með ástæðu til að draga sig út úr málinu! Þar með opnaðist leið til að hætta við þessar víðáttuvitlausu framkvæmdir, en varpa þó ábyrgðinni á annarra herðar.

Ávarp Umhverfisvina til íslenskra stjórnvalda

Í DAG, mánudaginn 14. febrúar árið 2000, afhenda UMHVERFISVINIR ríkisstjórn Íslands undirskriftir ríflega 45 þúsund Íslendinga til stuðnings kröfunni um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar.

UMHVERFISVINIR eru óformleg samtök fólks um allt land. Þau voru mynduð í nóvember síðastliðnum.og hafa síðan þá unnið að söfnun undirskrifta til stuðnings áðurnefndri kröfu um lögformlegt umhverfismat.

KRAFAN um lögformlegt umhverfismat er fullgild og sjálfsögð og studd þeim rökum, að fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun verði að sæta slíku mati, eins og aðrar framkvæmdir, sem tengjast fyrirhuguðum rekstri álverksmiðju á Reyðarfirði. Þessi meginkrafa UMHVERFISVINA nýtur vaxandi stuðnings á alþjóðavettvangi, enda er hún í fullu samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, sem Íslendingar hafa undirgengist.

NÁTTÚRA ÍSLANDS er auðlind, sem umgangast verður með varfærni og virðingu. Stórfelld röskun af völdum virkjunarframkvæmda verður ekki aftur tekin. Það er algjör lágmarkskrafa að slíkar framkvæmdir séu undirbúnar á besta hugsanlegan máta.

UMHVERFISVINIR afhenda nú þessar undirskriftir til marks um vilja mikils hluta þjóðarinnar um að lýðræðisleg og fagleg vinnubrögð verði höfð í heiðri við ákvörðun um framkvæmdir, sem hafa stórfelld áhrif á umhverfið.

UMHVERFISVINIR skora á stjórnvöld að virða þennan vilja og verða við honum og treysta því, að viðtakendur undirskriftanna sjái til þess, að þær verði varðveittar á öruggan hátt til vitnis um lýðræðislega aðgerð almennings í mikilvægu máli, sem varðar komandi kynslóðir á Íslandi.

F.h. UMHVERFISVINA

Ólafur F. Magnússon, Hákon Aðalsteinsson, Kristín Halldórsdóttir, Karen Erla Erlingsdóttir, Sveinn Aðalsteinsson.

Heilbrigðisráðherra hætti að bulla

Hún er merkileg þessi umræða um fjárframlög til heilbrigðiskerfisins og þá einkum stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík. Nú var þó óvenju skammt liðið á árið þegar upplýst var um fjárvöntun svo að skiptir hundruðum milljóna. Og að venju er mönnum stillt upp frammi fyrir hugmyndum um skerta þjónustu sem að þessu sinni virðist fyrst og fremst eiga að bitna á geðveiku fólki.

Þessi umræða hefur verið með svipuðum hætti í u.þ.b. 9 ár og á rætur sínar að rekja til þess þegar kratar tóku við heilbrigðisráðuneytinu og hófu niðurskurðarhnífinn á loft. Næstu ár var sífellt meira þrengt að starfsemi sjúkrahúsanna og hlaut að koma að því að kerfið þyldi ekki meiri þrengingar. Það vilja ráðherrar hins vegar ekki sætta sig við heldur halda áfram að skera við nögl og láta stjórnendum sjúkrastofnana eftir að finna leiðir til að troða starfseminni inn í alltof þrönga ramma.

Á hverju einasta ári gýs reglubundið upp umræðan um fjárhagsþrengingar sjúkrahúsanna og viðbrögð við þeim, tímabundnar lokanir sjúkradeilda, lenging biðlista eftir aðgerðum og þar fram eftir götunum. Á hverju einasta ári eru talin upp sömu úrræðin, á hverju einasta ári eru settar nefndir á nefndir ofan til að leita leiða út úr vandanum. Allt síðasta kjörtímabil var heilbrigðisþjónustan, fyrst og fremst staða stóru sjúkrahúsanna, meginágreiningsefnið milli stjórnar og stjórnarandstöðu í fjárlaganefnd. Við fengum heilu doðrantana frá öllum helstu sjúkrastofnunum landsins auk gagnaflóðs frá ráðuneyti og öllum nefndunum sem voru að leita leiða til lausnar á vandanum. Á hverju einasta ári röktum við í minnihlutanum staðreyndir mála í umræðum um fjárlög og fjáraukalög og færðum rök fyrir tillögum um aukin framlög sem meirihlutinn hafnaði en varð síðan alltaf að kyngja þeim staðreyndum í árslok að framlögin yrði að auka. Eitt einkenni umræðunnar er svo það að ráðherrar og stjórnarliðar tíunda hækkun eins árs frá óraunhæfum fjárlögum fyrra árs en sleppa því að minnast á auknu framlögin sem þeir urðu að fallast á í árslok.

Heilbrigðisþjónustan kostar þjóðina vissulega mikið en það er auðvitað fráleitt að kostnaðinn sé einfaldlega hægt að uppfæra frá ári til árs miðað við almennt verðlag. Þar verður að taka tillit til margra þátta. Ástæður fyrir auknum kostnaði eru margar og þar vegur hækkun launakostnaður ekki þyngst eins og gjarna er fyrst upp talið. Fjölgun í elstu aldurshópunum er ein ástæðan, en langsamlega veigamest er áreiðanlega síaukin tækni og þekking í glímu við sjúkdóma og slys. Tæknin kostar mikið, einkum í byrjun, en fyrir því má líka færa rök að það kosti ennþá meira að vanrækja hana. Og víst er að fæstir vilja vera settir í þá aðstöðu að þurfa að ákveða að nýta ekki vegna fjárskorts þá þekkingu og tækni sem fyrir hendi er.

Þannig hafa ýmsir þættir orðið til þess að auka kostnað í heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir aðhald og sparnað sem svo sannarlega hefur verið beitt í ríkum mæli. Rannsóknir sýna að hver starfsmaður á stóru sjúkrahúsunum sinnir umtalsvert fleiri sjúklingum nú en fyrir nokkrum árum, legudögum á hvern sjúkling hefur fækkað. Það héti líklega “aukin framleiðni” hjá venjulegu fyritæki. Því er svo heldur ekki að leyna að þessi þróun hefur komið fram í auknum fjarvistum og meiri tíðni álagssjúkdóma hjá starfsfólki á hjúkrunarsviði og merkilegt hvað það virðist lítið áhyggjuefni hjá ráðuneytisfólki. Enn ein afleiðingin er svo aukið álag á heimilin sem þurfa að taka við og sinna sjúklingum sem oft eru sendir alltof fljótt heim.

Heilbrigðisráðherra minnir á glaðværan stjórnanda barnatíma þegar hún ræðir í fjölmiðlum um ástandið og verkefni sín sem öll eru svo dæmalaust ánægjuleg og horfa til stórkostlegra framfara og eru á svo makalaust góðri leið og íslensk heilbrigðisþjónusta alltaf betri og betri og stjórnendur sjúkrahúsanna eiga auðvitað sjálfir að finna leiðir til sparnaðar ef framlögin duga ekki og það væri auðvitað hið besta mál ef þeir sæju sér fært að byggja eins og eitt stykki sjúkrahótel sem lengi hefur verið talað um, en það er bara þeirra mál o.s.frv. o.s.frv.

Það er óþolandi að hlusta á svona bull þegar staðreyndirnar tala öðru máli. Þjóðin vill hafa góða heilbrigðisþjónustu. Hún sættir sig ekki við það að fólki sé gert að bíða kvalið mánuðum saman eftir bæklunaraðgerð, að gamalt fólk sé vanrækt að loknum löngum vinnudegi, að lífi fólks sé stefnt í voða vegna lélegrar þjónustu við geðsjúklinga, að vandanum sé vísað á heimilin þegar sjúkrahúsin bregðast. Kannanir sýna að fólk er reiðubúið að greiða hærri skatta ef á þarf að halda til að tryggja bætta heilbrigðisþjónustu. Sú leið er fær ef vilji er fyrir hendi.

Fjármál flokkanna

Enn einu sinni eru fjármál stjórnmálaflokkanna á dagskrá hér á landi sem og um allan hinn vestræna heim. Fréttir af leynimakki forystumanna í þýskum stjórnmálum með sjálfan Kohl í broddi fylkingar vekja með mönnum hugrenningar um að víðar kunni að vera pottur brotinn.

Víðast hvar í svokölluðum siðmenntuðum löndum gilda ákveðnar reglur um þessi efni. Sums staðar eru lög um starfsemi stjórnmálaflokka, annars staðar a.m.k. lög um fjárreiður stjórnmálaflokka og ekki að ófyrirsynju. Starfsemi stjórnmálaflokka er einn af hornsteinum lýðræðisins og það skiptir máli að reyna að tryggja möguleika þeirra til að vera óháðir hvers konar þrýstingi hagsmunahópa. Stærsta hættan er á sviði fjármálanna. Peningar eru afl þeirra hluta sem gera skal er ekki bara margnota klissja, heldur sannleikur í mörgum tilvikum. Þess vegna hafa menn séð ástæðu til að setja ákveðnar reglur til að koma í veg fyrir að fjársterk fyrirtæki geti keypt sér fyrirgreiðslu og velvild. Þessar reglur eru ekki alltaf sú hindrun sem þeim er ætlað, en þær koma a.m.k. að góðum notum þegar upp kemst um strákinn Tuma (um þessar mundir les: Helmut Kohl) og grafast þarf fyrir um málið.

Hér á landi er hins vegar ekki jafn hægt um vik og víða annars staðar af þeirri einföldu ástæðu að hér gilda engin lög um starfsemi stjórnmálaflokka og ekki einu sinni fjárreiður þeirra. Stjórnmálaflokkar eru bókhaldsskyldir og þar með er upptalið. Af og til hafa tillögur og frumvörp um þessi efni verið til umræðu á Alþingi, en aldrei fengist afgreidd. Nokkrir flokkanna hafa brugðist við kröfum nútímans og opinberað reikninga sína. Kvennalistinn mun fyrst stjórnmálahreyfinga hafa opnað sitt bókhald upp á gátt og lagt fram reikninga yfirfarna af löggiltum endurskoðanda. Vinstri grænir hafa sitt bókhald opið og svo mun vera um fleiri.

A.m.k. einn stjórnmálaflokkur hefur aldrei ljáð máls á því að opna bókhald sitt né fallist á þörf fyrir lög og reglur um fjárreiður stjórnmálaflokka. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem í krafti valds og stærðar hefur árum saman komið í veg fyrir löggjöf um þessi efni. Hans er ábyrgðin og hans er skömmin.

Laglega byrjar ráðherran(n)

Þá er nú Valgerður Sverrisdóttir loksins orðin ráðherra og framsóknarmenn rosalega kátir að vera svona nútímalegir að hafa jafnmargar konur og karla í stólum ráðherra á sínum vegum. Það má líka alveg óska þeim til hamingju með það framtak sem vafalaust má þakka markvissri vinnu framsóknarkvenna á undanförnum árum. Þær brugðust nefnilega mjög skynsamlega við áreiti Kvennalistans á sínum tíma og helltu sér út í uppbyggingu kvenkyns stofns í flokknum sínum, fræddu og þjálfuðu konur og gerðu metnaðarfullar kröfur á hendur flokksforystunni. Ekki veitti af því á þeim tíma var þingflokkur Framsóknarflokksins vita kvenmannslaus og vægast sagt hálfgerður afturhaldssvipur á þeirri stofnun. Það birti því mjög til í þingflokknum árið 1987 þegar Valgerður kom þar til liðs eftir áralangt kvenmannsleysi.

Og nú er Valgerður orðin “herra” til viðbótar við hinar þrjár “herrurnar” og mikið er nú eðlilegri blær yfir svoleiðis ríkisstjórn svona ef tekið er mið af kynjaskiptingunni í þjóðfélaginu. Og vissulega er þetta eitt af því sem við konur höfum unnið að hörðum höndum, þ.e. að fjölga konum í áhrifastöðum. Reyndar ekki bara til að fá fjölbreyttara og þekkilegra útlit á valdastofnanir þjóðfélagsins, heldur ekki síður til að fá fjölbreyttari viðhorf, byggð á annars konar reynslu en karlaheimurinn býður upp á.

Það er sjálfsagt óttaleg frekja og tilætlunarsemi að búast við eitthvað siðlegri vinnubrögðum af kvenkyns ráðherrum en gengur og gerist. Samt varð ég fyrir miklum vonbrigðum með upphaf ráðherradóms Valgerðar Sverrisdóttur sem sló reyndar tóninn í einu af fyrstu viðtölunum: “Í mér býr svolítil járnfrú”, sagði hún og brosti blítt. Hún ætlar greinilega ekki að verða eftirbátur Finns í embættinu.

Svo kom að einu af hennar fyrstu verkum í valdastólnum sem var að skipa stjórn Byggðastofnunar samkvæmt nýsettum lögum sem m.a. færðu stofnunina undir iðnaðarráðuneytið og ráðherra skipunarvaldið sem áður var í höndum Alþingis og yfirleitt í samræmi við hlutfallslega skiptingu flokkanna. Marga rak í rogastans þegar ljóst var hvernig Valgerður beitti skipunarvaldinu. Hún notaði nefnilega tækifærið og losaði sig við bæði aðal- og varafulltrúa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, þau Lilju Rafney Magnúsdóttur og Halldór Brynjúlfsson, sem Alþingi kaus til setu í stjórninni að loknum síðustu kosningum. Þetta var gert án alls samráðs eða samskipta af einu eða öðru tagi og verður varla skýrt með öðru en að “járnfrúin” hafi skotist upp á yfirborðið og viljað tryggja sér þægari fulltrúa af sérhæfðu framsóknarkyni auk þess að hefna óvæginnar gagnrýni þingmanna VG í umræðum um gjörðir ríkisstjórnarinnar í byggðamálum.

Sárast er að þessi kvenkyns ráðherra, sem haldið hefur því mjög á lofti að nú hafi hlutur kvenna í ráðherraliði aldeilis verið réttur, skyldi klúðra svo átakanlega fyrsta gullna tækifærinu til að rétta hlut kvenna víðar á stjórnsýslusviðinu. Henni var í lófa lagið að fjölga myndarlega konum í stjórn Byggðastofnunar, en í stað þess setti hún út fyrstu konuna sem þar hefur setið sem aðalfulltrúi. Hún skipaði að vísu eina aðra í staðinn sem þar með má búa við það hlutskipti svo ótal margra kvenna að vera ein af tegundinni innan um fulltrúa karlveldisins.

Málið snýst ekki um það eitt að fjölga konum þar sem ráðum er ráðið. Það sem skiptir máli er hvernig konur fara með það vald sem þær fá í hendur. Ég ætlast til þess að konur noti þau tækifæri sem þeim gefast til að rétta hlut kvenna. Ella skiptir engu máli hvort “herrann” er karl eða kona.

Átak umhverfisvina

Langt er um liðið síðan ég skrifaði síðast í minnisbókina. Ástæðan er þó hreint ekki sú að ekki hafi verið ástæða heldur hefur einfaldlega ekki unnist til þess tími. Ástæðan er eftirfarandi:

Fimmtudaginn 11. nóvember sl. var boðað til fundar í Síðumúla 34 í Reykjavík. Þar voru kynnt til sögunnar nýsprottin grasrótarsamtök, sem fengu nafnið Umhverfisvinir. Upptök þeirra áttu sér stað í litlum hópi manna sem sáu sig knúna til að gefa landsmönnum kost á að sameinast um kröfuna um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar. Kynnt voru til sögunnar Jakob Frímann Magnússon sem framkvæmdastjóri undirskriftasöfnunar í þessu skyni og Ragnheiður Pálsdóttir honum til aðstoðar. Skáldið Sjón flutti ljóð, ávörp fluttu Ólafur F. Magnússon, Steingrímur Hermannsson, Þóra Guðmundsdóttir, Hákon Aðalsteinsson og undirrituð sem var í framhaldi af því fengin til að vinna að þessu átaki.

Þetta verkefni reyndist frekt á tíma og orku frá morgni til kvölds jafnt helga daga sem virka en var auðvitað afskaplega spennandi verkefni og skemmtilegt. Margt hefði reyndar mátt gera á hentugri og árangursríkari hátt enda ekkert okkar með reynslu af slíkri vinnu sem þessari. Það þurfti að skapa tengsl við fólk um allt land, það þurfti mikið að hringja og póstsenda, laða sjálfboðaliða til starfa o.s.frv. o.s.frv.

Í fyrstu vorum við eiginlega í kapphlaupi við þingmenn sem voru að fjalla um tillögu ríkisstjórnarinnar um áframhaldandi framkvæmdir norðan Vatnajökuls án mats á umhverfisáhrifum. En í rauninni var tilgangslaust að miða við þá afgreiðslu, hún var fyrirséð. Flokksböndin eru oft rökum yfirsterkari. Auk þess varð fljótlega ljóst að landssöfnun af þessu tagi varð engan veginn framkvæmd og úr henni unnið á sómasamlegan hátt á örfáum vikum. Niðurstaðan varð sú að láta afgreiðslu Alþingis ekki hafa of mikil áhrif á okkar starf, heldur vinna að því á þann hátt sem við töldum bestan og nauðsynlegan.

Vinnan að þessu verkefni var í rauninni sérlega gefandi þegar litið er til baka. Reyndar langar mig þessa stundina harla lítið í Kringluna þar sem ég var orðin eins og húsgagn eftir margra daga stöður þar við söfnun undirskrifta. Og þannig var með fleiri sem eyddu ómældum klukkustundum í Kringlunni, Holtagörðum, Smáranum, Firðinum, Mjóddinni, Kolaportinu, á Eiðistorgi eða á hinum ýmsu stöðum úti um landið.

Ótrúlega margir lögðu átakinu lið á þann hátt eða annan, t.d. með því að ganga í hús, safna undirskriftum á fundum eða við hvert það tækifæri sem gafst. Framlag þessara sjálfboðaliða er aldeilis ómetanlegt og var sannarlega gaman síðustu dagana fyrir jól að taka á móti listum utan af landi og sjálfboðaliðum sem streymdu til okkar í Síðumúlanum með lista sem þeir höfðu safnað á nöfnum jafnvel svo að hundruðum skipti.

Það var gaman að hitta fólk á hinum ýmsu stöðum þar sem við vorum að safna. Okkur til nokkurrar furðu voru þó allnokkrir með ónot og skæting í okkar garð og einnig urðum við fyrir umtalsverðum skemmdarverkum sums staðar þar sem listar lágu frammi. Erfitt er að meta hversu margar undirskriftir glötuðust á þann veg að listum var stolið eða þeir eyðilagðir á annan hátt en við vitum að þær skipta hundruðum. Óskiljanlegt er að til skuli vera fólk sem hefur ekki betri skilning á lýðræðinu en svo að það þoli ekki friðsamlega aðgerð af þessu tagi.

Margir voru hins vegar afar ánægðir með þetta framtak og þakklátir fyrir að fá þetta tækifæri til að láta skoðun sína í ljósi á þennan hátt. Gaman var að skynja hvað unga fólkið virtist vel með á nótunum og margt eldra fólk var sérstaklega þakklátt. Margir vildu ræða málið og er ánægjulegt að finna hvað náttúruvernd skipar orðið háan sess í huga fólks.

Hlé var gert á söfnuninni þremur dögum fyrir jól. Þá höfðu safnast yfir 40 þúsund undirskriftir og ljóst að enn var áhugi meðal fólks að fá að skrá nafn sitt. Árangur þessarar aðgerðar er í raun ótrúlega góður á þeim skamma tíma sem hún hefur staðið, en ætlunin er að endanlegar niðurstöður liggi fyrir innan örfárra vikna. Enn eru að berast listar á faxi og í pósti, enn er hægt að skrá sig í síma eða tölvu og listar liggja enn víða frammi.

Úrillur formaður Framsóknar

Ósköp var Halldór eitthvað úrillur á miðstjórnarfundi Framsóknar um helgina. Ætli honum leiðist að vera formaður þessa flokks? Alveg gæti ég skilið það ef svo væri því hann er nú kominn með þennan flokk út í slíkar ógöngur að það hálfa væri nóg. Að hætti fornkappa er þó bitið í skjaldarrendur og öðrum kennt um ófarirnar. Undir lestri Halldórs sátu flokksmenn gneypir, einkum þeir sem augljóslega var verið að atyrða undir annarra heitum. Það gafst vel hér áður fyrr að skamma Albani fyrir Kínverja og verður ekki annað séð af fréttum en að þeir hafi tekið til sín sneiðarnar sem það áttu að gera.

Mesta athygli út á við vakti grímulaus gremja formannsins út í vinstri græna sem hann sagði bara sjá rautt. Roðnuðu þá ýmsir vænir framsóknarmenn sem hafa verið að óþægðast að undanförnu, drifu sig í ræðustól og reyndu að réttlæta óþekktina og skýra hana nýjum nöfnum. Lítið hefur heyrst af hinum hreinskiptnu umræðum um umhverfismál og náttúruvernd sem búið var að boða. Maður sér hreinlega fyrir sér broslaust og þungbrýnt andlit foringjans andspænis þessu uppreisnarliði og fyrirmælin eru í anda annars foringja: Svona gerir maður ekki!

Þrátt fyrir skoplegar hliðar er þó alvaran öllu ofar. Það eru skelfileg örlög lands og þjóðar að hafa við stjórnvölinn þessa tvo yfirgangsflokka, Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, sem skynja hvorki æðaslátt þjóðar sinnar né landvættanna. Þó er ég ekki viss um að málið sé einfaldlega þannig vaxið að Halldór og félagar viti ekki betur en virðist af fréttum. Ég velti því fyrir mér hvort öll reiðin og illyrðin stafi ekki einmitt af því að þessir menn eru farnir að átta sig á villu síns vegar en sjá enga leið til baka. Þá forherðast menn.

Og enn er sleginn sá tónninn að hér sé um byggðamál að ræða, þ.e. að álverksmiðja með tilheyrandi stórvirkjunum sé eina raunhæfa leiðin til að snúa við ungu austfirsku menntafólki á leið suður á höfuðborgarsvæðið. Ekki þarf þó að leita fyrirmynda lengra en til Noregs þar sem raunin varð allt önnur en menn ætluðu, fólksflóttinn er engu minni en áður frá svæðum sem reynt var að efla með stórvirkjunum og verksmiðjurekstri. Og náttúruspjöllin verða aldrei bætt.

Alvarlegast (mér liggur við að segja glæpsamlegt) er hvernig búið er að koma þeirri hugsun inn hjá sumum Austfirðingum að þetta sé eina bjargræðið. Menn tala þar fyrirlitlega um hvað sé “þetta eitthvað annað” sem náttúruverndarsinnar ætli þeim að aðhafast og virðist sjálfum ekki detta neitt annað í hug en framleiðsla áls í atvinnuskyni. Á sama tíma eru Vestfirðingar að byggja upp fjarvinnslu fyrir fólk í tugatali. Þrautseigjan í fiskeldinu er að skila sér um þessar mundir og lofar góðu í framtíðinni. Lífræn ræktun á stórkostlega framtíð fyrir sér. Rannsóknir á einstæðri náttúru landsins gætu dregið að alþjóðlega vísindamenn ef rétt væri unnið að. Fjölmargir möguleikar bíða ónotaðir í ferðaþjónustu. Á þessum sviðum og mörgum öðrum eiga Austfirðingar ekki síðri möguleika en aðrir. Það á ekki að þurfa að stafa ofan í þá hvað hægt sé að gera annað en að rústa óviðjafnanlegu svæði norðan Vatnajökuls til að framleiða ál í verksmiðjubákni.

Ósnortin víðerni lands okkar eru það dýrmætasta sem við eigum. Ekki aðeins til að njóta og dá, heldur eru þau einnig grunnurinn undir þeirri ímynd sem við viljum að land okkar hafi. Þá ímynd þarf að styrkja og nýta miklu betur en nú er gert. Þar liggja þeir möguleikar sem engin önnur þjóð hefur til að byggja framtíð sína á. Því þarf að stöðva hernaðinn gegn landinu. Það verður að stöðva úrillan formann Framsóknarflokksins og félaga hans.

Kraftmikill landsfundur

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á Akureyri um síðustu helgi var fjölsóttur, kraftmikill og umfram allt skemmtilegur. 106 kjörnir fulltrúar áttu fullan rétt til þátttöku í fundinum, þar af mættu 104 og gerist vart betra. Auk þess sótti fjöldi annarra félaga og gesta setningarhátíðina og ýmsa aðra hluta fundarins.

Setningarhátíðin var fjölsótt og glæsileg, sviðið fagurlega skreytt og menningaratriði svo og ræða formanns mörkuðu verðugt upphaf þessa fyrsta reglulega landsfundar hreyfingarinnar. Sérlegur gestur fundarins, Færeyingurinn Högni Höydal, setti sannarlega svip á fundinn. Hann flutti fróðlega og skemmtilega ræðu sem kveikti fyrirspurnir og umræður og dró að sér mikla athygli fjölmiðla.

Tvær málstofur voru á dagskrá fundarins í hádeginu á laugardag, önnur um sveitarstjórnarmál og hin um verkalýðs- og kjaramál. Ýmsum þótti súrt að geta ekki sótt þær báðar, en að öðru leyti tókust þær mjög vel og er ákveðið að efna til frekara skipulegs starfs í báðum þessum málaflokkum á næstunni.

Sérstakur hópur fjallaði um flokksstarfið og kom með margar þarfar ábendingar. M.a. var samþykkt að efla starfsemi ungs fólks í hreyfingunni, efna til hugmyndafræðivinnu á sviði jafnréttismála og huga að útgáfu vefrits. Nokkrar breytingar voru gerðar á lögum flokksins og helst að tekist væri á um hvort ástæða væri til að minna á jafnan hlut kvenna og karla í flokksstarfinu. Það varð niðurstaðan.

Mikil þátttaka var í almennum umræðum sem voru á málefnalegum og vinsamlegum nótum. Stjórnmálaályktun fundarins var stutt og afdráttarlaus í anda þeirrar stefnuyfirlýsingar sem samþykkt var á stofnfundinum í febrúar fyrr á árinu, en með fylgdi greinargerð sem unnin var upp úr skilagreinum málefnahópa fyrir landsfundinn. Loks samþykkti fundurinn einróma tillögu uppstillingarnefndar að stjórn til næstu tveggja ára.

Akureyringar tóku vel á móti landsfundarfulltrúum og væsti ekki um mannskapinn þessa daga. Bæjarstjórn Akureyrar bauð til hanastéls í listasafni bæjarins og þótti það veglega að staðið ekki síst með tilliti til þess að þar eru Sjálfstæðismenn með tögl og hagldir. Nokkrir fundarmanna, þó of fáir, notfærðu sér frábæra aðstöðu í nýuppgerðri sundlaug bæjarins. Og ekki má gleyma hinum ýmsu kaffi- og öldurhúsum sem nutu góðs af þessari tímabundnu fjölgun í bænum.

Klámbylgjan

Loksins, loksins virðist sem eitthvað eigi að gera til að stemma stigu við klámbylgjunni sem hvolfst hefur yfir okkur á undanförnum mánuðum. Í undrun og skelfingu hefur fólk fylgst með þessari bylgju magnast stig af stigi og birtast á sífellt fjölbreyttari hátt. Hún birtist með æ grófari hætti í fjölmiðlum, bæði í auglýsingum, greinum og viðtölum, hún hefur brotist inn á hvern skemmtistaðinn af öðrum og hún þrýstir æ fastar á þann ramma velsæmis sem til skamms tíma hefur notið þegjandi samþykkis í samfélaginu.

Fólk er varnarlaust gagnvart óþverra af þessu tagi og öðru nú á tímum einstaklings- og frjálshyggju þegar boð og bönn eru kennd við lopapeysur og sauðskinnsskó í lítilsvirðingarskyni. Það lokar augum og eyrum fyrir ýmsu áreiti því það óttast afturhaldsstimpilinn ef það andæfir. Sumt af því er ærið lúmskt og auðvitað umdeilanlegt hvaða tilgangi það þjónar. Ýmsir hafa m.a. tekið eftir því hvað fjölmiðlar eru orðnir ginnkeyptir fyrir tískumyndum, sem hreinlega tröllríða sjónvarpi, dagblöðum og tímaritum. Hvers vegna þessi skyndilegi áhugi á tískumyndum? Það skyldi þó ekki vera vegna þess að nú keppist hver hönnuðurinn um annan þveran að sýna sem mest af kvenlíkamanum. Allt er flegið og gegnsætt svo að andinn fær ekki tækifæri til að gruna nokkurn skapaðan hlut. Þannig er ýmsu þröngvað upp á fólk sem það kærir sig ekkert um, veldur því óþægindum og áhyggjum og vangaveltum um velsæmi og misnotkun.

En sem betur fer kemur að því að fólki ofbýður og það bregst við svo að verðuga athygli hefur vakið. Að frumkvæði Stígamóta hafa konur kynnt sér starfsemi klámbúllanna í Reykjavík og komist að þeirri niðurstöðu að þar fari fram grímulaust vændi sem byggist á því að íslenskir karlhundar nota sér neyð erlendra stúlkna. Aðgerðir kvennanna hafa ekki verið með öllu hættulausar og er kjarkur þeirra lofsverður.

Þá opnaði Guðrún Ögmundsdóttir umræðu utan dagskrár á Alþingi í dag um þetta efni. Fjöldi þingmanna tók þátt í umræðunni sem var alvarleg, málefnaleg og tilfinningaþrungin. Dómsmálaráðherra lýsti yfir fullum vilja til að taka á málinu og hefur þegar sett af stað vinnu í því skyni. Þessari umræðu þarf að fylgja eftir af fullum þunga.