Laglega byrjar ráðherran(n)

Þá er nú Valgerður Sverrisdóttir loksins orðin ráðherra og framsóknarmenn rosalega kátir að vera svona nútímalegir að hafa jafnmargar konur og karla í stólum ráðherra á sínum vegum. Það má líka alveg óska þeim til hamingju með það framtak sem vafalaust má þakka markvissri vinnu framsóknarkvenna á undanförnum árum. Þær brugðust nefnilega mjög skynsamlega við áreiti Kvennalistans á sínum tíma og helltu sér út í uppbyggingu kvenkyns stofns í flokknum sínum, fræddu og þjálfuðu konur og gerðu metnaðarfullar kröfur á hendur flokksforystunni. Ekki veitti af því á þeim tíma var þingflokkur Framsóknarflokksins vita kvenmannslaus og vægast sagt hálfgerður afturhaldssvipur á þeirri stofnun. Það birti því mjög til í þingflokknum árið 1987 þegar Valgerður kom þar til liðs eftir áralangt kvenmannsleysi.

Og nú er Valgerður orðin “herra” til viðbótar við hinar þrjár “herrurnar” og mikið er nú eðlilegri blær yfir svoleiðis ríkisstjórn svona ef tekið er mið af kynjaskiptingunni í þjóðfélaginu. Og vissulega er þetta eitt af því sem við konur höfum unnið að hörðum höndum, þ.e. að fjölga konum í áhrifastöðum. Reyndar ekki bara til að fá fjölbreyttara og þekkilegra útlit á valdastofnanir þjóðfélagsins, heldur ekki síður til að fá fjölbreyttari viðhorf, byggð á annars konar reynslu en karlaheimurinn býður upp á.

Það er sjálfsagt óttaleg frekja og tilætlunarsemi að búast við eitthvað siðlegri vinnubrögðum af kvenkyns ráðherrum en gengur og gerist. Samt varð ég fyrir miklum vonbrigðum með upphaf ráðherradóms Valgerðar Sverrisdóttur sem sló reyndar tóninn í einu af fyrstu viðtölunum: “Í mér býr svolítil járnfrú”, sagði hún og brosti blítt. Hún ætlar greinilega ekki að verða eftirbátur Finns í embættinu.

Svo kom að einu af hennar fyrstu verkum í valdastólnum sem var að skipa stjórn Byggðastofnunar samkvæmt nýsettum lögum sem m.a. færðu stofnunina undir iðnaðarráðuneytið og ráðherra skipunarvaldið sem áður var í höndum Alþingis og yfirleitt í samræmi við hlutfallslega skiptingu flokkanna. Marga rak í rogastans þegar ljóst var hvernig Valgerður beitti skipunarvaldinu. Hún notaði nefnilega tækifærið og losaði sig við bæði aðal- og varafulltrúa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, þau Lilju Rafney Magnúsdóttur og Halldór Brynjúlfsson, sem Alþingi kaus til setu í stjórninni að loknum síðustu kosningum. Þetta var gert án alls samráðs eða samskipta af einu eða öðru tagi og verður varla skýrt með öðru en að “járnfrúin” hafi skotist upp á yfirborðið og viljað tryggja sér þægari fulltrúa af sérhæfðu framsóknarkyni auk þess að hefna óvæginnar gagnrýni þingmanna VG í umræðum um gjörðir ríkisstjórnarinnar í byggðamálum.

Sárast er að þessi kvenkyns ráðherra, sem haldið hefur því mjög á lofti að nú hafi hlutur kvenna í ráðherraliði aldeilis verið réttur, skyldi klúðra svo átakanlega fyrsta gullna tækifærinu til að rétta hlut kvenna víðar á stjórnsýslusviðinu. Henni var í lófa lagið að fjölga myndarlega konum í stjórn Byggðastofnunar, en í stað þess setti hún út fyrstu konuna sem þar hefur setið sem aðalfulltrúi. Hún skipaði að vísu eina aðra í staðinn sem þar með má búa við það hlutskipti svo ótal margra kvenna að vera ein af tegundinni innan um fulltrúa karlveldisins.

Málið snýst ekki um það eitt að fjölga konum þar sem ráðum er ráðið. Það sem skiptir máli er hvernig konur fara með það vald sem þær fá í hendur. Ég ætlast til þess að konur noti þau tækifæri sem þeim gefast til að rétta hlut kvenna. Ella skiptir engu máli hvort “herrann” er karl eða kona.