Langt er um liðið síðan ég skrifaði síðast í minnisbókina. Ástæðan er þó hreint ekki sú að ekki hafi verið ástæða heldur hefur einfaldlega ekki unnist til þess tími. Ástæðan er eftirfarandi:
Fimmtudaginn 11. nóvember sl. var boðað til fundar í Síðumúla 34 í Reykjavík. Þar voru kynnt til sögunnar nýsprottin grasrótarsamtök, sem fengu nafnið Umhverfisvinir. Upptök þeirra áttu sér stað í litlum hópi manna sem sáu sig knúna til að gefa landsmönnum kost á að sameinast um kröfuna um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar. Kynnt voru til sögunnar Jakob Frímann Magnússon sem framkvæmdastjóri undirskriftasöfnunar í þessu skyni og Ragnheiður Pálsdóttir honum til aðstoðar. Skáldið Sjón flutti ljóð, ávörp fluttu Ólafur F. Magnússon, Steingrímur Hermannsson, Þóra Guðmundsdóttir, Hákon Aðalsteinsson og undirrituð sem var í framhaldi af því fengin til að vinna að þessu átaki.
Þetta verkefni reyndist frekt á tíma og orku frá morgni til kvölds jafnt helga daga sem virka en var auðvitað afskaplega spennandi verkefni og skemmtilegt. Margt hefði reyndar mátt gera á hentugri og árangursríkari hátt enda ekkert okkar með reynslu af slíkri vinnu sem þessari. Það þurfti að skapa tengsl við fólk um allt land, það þurfti mikið að hringja og póstsenda, laða sjálfboðaliða til starfa o.s.frv. o.s.frv.
Í fyrstu vorum við eiginlega í kapphlaupi við þingmenn sem voru að fjalla um tillögu ríkisstjórnarinnar um áframhaldandi framkvæmdir norðan Vatnajökuls án mats á umhverfisáhrifum. En í rauninni var tilgangslaust að miða við þá afgreiðslu, hún var fyrirséð. Flokksböndin eru oft rökum yfirsterkari. Auk þess varð fljótlega ljóst að landssöfnun af þessu tagi varð engan veginn framkvæmd og úr henni unnið á sómasamlegan hátt á örfáum vikum. Niðurstaðan varð sú að láta afgreiðslu Alþingis ekki hafa of mikil áhrif á okkar starf, heldur vinna að því á þann hátt sem við töldum bestan og nauðsynlegan.
Vinnan að þessu verkefni var í rauninni sérlega gefandi þegar litið er til baka. Reyndar langar mig þessa stundina harla lítið í Kringluna þar sem ég var orðin eins og húsgagn eftir margra daga stöður þar við söfnun undirskrifta. Og þannig var með fleiri sem eyddu ómældum klukkustundum í Kringlunni, Holtagörðum, Smáranum, Firðinum, Mjóddinni, Kolaportinu, á Eiðistorgi eða á hinum ýmsu stöðum úti um landið.
Ótrúlega margir lögðu átakinu lið á þann hátt eða annan, t.d. með því að ganga í hús, safna undirskriftum á fundum eða við hvert það tækifæri sem gafst. Framlag þessara sjálfboðaliða er aldeilis ómetanlegt og var sannarlega gaman síðustu dagana fyrir jól að taka á móti listum utan af landi og sjálfboðaliðum sem streymdu til okkar í Síðumúlanum með lista sem þeir höfðu safnað á nöfnum jafnvel svo að hundruðum skipti.
Það var gaman að hitta fólk á hinum ýmsu stöðum þar sem við vorum að safna. Okkur til nokkurrar furðu voru þó allnokkrir með ónot og skæting í okkar garð og einnig urðum við fyrir umtalsverðum skemmdarverkum sums staðar þar sem listar lágu frammi. Erfitt er að meta hversu margar undirskriftir glötuðust á þann veg að listum var stolið eða þeir eyðilagðir á annan hátt en við vitum að þær skipta hundruðum. Óskiljanlegt er að til skuli vera fólk sem hefur ekki betri skilning á lýðræðinu en svo að það þoli ekki friðsamlega aðgerð af þessu tagi.
Margir voru hins vegar afar ánægðir með þetta framtak og þakklátir fyrir að fá þetta tækifæri til að láta skoðun sína í ljósi á þennan hátt. Gaman var að skynja hvað unga fólkið virtist vel með á nótunum og margt eldra fólk var sérstaklega þakklátt. Margir vildu ræða málið og er ánægjulegt að finna hvað náttúruvernd skipar orðið háan sess í huga fólks.
Hlé var gert á söfnuninni þremur dögum fyrir jól. Þá höfðu safnast yfir 40 þúsund undirskriftir og ljóst að enn var áhugi meðal fólks að fá að skrá nafn sitt. Árangur þessarar aðgerðar er í raun ótrúlega góður á þeim skamma tíma sem hún hefur staðið, en ætlunin er að endanlegar niðurstöður liggi fyrir innan örfárra vikna. Enn eru að berast listar á faxi og í pósti, enn er hægt að skrá sig í síma eða tölvu og listar liggja enn víða frammi.