Ósköp var Halldór eitthvað úrillur á miðstjórnarfundi Framsóknar um helgina. Ætli honum leiðist að vera formaður þessa flokks? Alveg gæti ég skilið það ef svo væri því hann er nú kominn með þennan flokk út í slíkar ógöngur að það hálfa væri nóg. Að hætti fornkappa er þó bitið í skjaldarrendur og öðrum kennt um ófarirnar. Undir lestri Halldórs sátu flokksmenn gneypir, einkum þeir sem augljóslega var verið að atyrða undir annarra heitum. Það gafst vel hér áður fyrr að skamma Albani fyrir Kínverja og verður ekki annað séð af fréttum en að þeir hafi tekið til sín sneiðarnar sem það áttu að gera.
Mesta athygli út á við vakti grímulaus gremja formannsins út í vinstri græna sem hann sagði bara sjá rautt. Roðnuðu þá ýmsir vænir framsóknarmenn sem hafa verið að óþægðast að undanförnu, drifu sig í ræðustól og reyndu að réttlæta óþekktina og skýra hana nýjum nöfnum. Lítið hefur heyrst af hinum hreinskiptnu umræðum um umhverfismál og náttúruvernd sem búið var að boða. Maður sér hreinlega fyrir sér broslaust og þungbrýnt andlit foringjans andspænis þessu uppreisnarliði og fyrirmælin eru í anda annars foringja: Svona gerir maður ekki!
Þrátt fyrir skoplegar hliðar er þó alvaran öllu ofar. Það eru skelfileg örlög lands og þjóðar að hafa við stjórnvölinn þessa tvo yfirgangsflokka, Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, sem skynja hvorki æðaslátt þjóðar sinnar né landvættanna. Þó er ég ekki viss um að málið sé einfaldlega þannig vaxið að Halldór og félagar viti ekki betur en virðist af fréttum. Ég velti því fyrir mér hvort öll reiðin og illyrðin stafi ekki einmitt af því að þessir menn eru farnir að átta sig á villu síns vegar en sjá enga leið til baka. Þá forherðast menn.
Og enn er sleginn sá tónninn að hér sé um byggðamál að ræða, þ.e. að álverksmiðja með tilheyrandi stórvirkjunum sé eina raunhæfa leiðin til að snúa við ungu austfirsku menntafólki á leið suður á höfuðborgarsvæðið. Ekki þarf þó að leita fyrirmynda lengra en til Noregs þar sem raunin varð allt önnur en menn ætluðu, fólksflóttinn er engu minni en áður frá svæðum sem reynt var að efla með stórvirkjunum og verksmiðjurekstri. Og náttúruspjöllin verða aldrei bætt.
Alvarlegast (mér liggur við að segja glæpsamlegt) er hvernig búið er að koma þeirri hugsun inn hjá sumum Austfirðingum að þetta sé eina bjargræðið. Menn tala þar fyrirlitlega um hvað sé “þetta eitthvað annað” sem náttúruverndarsinnar ætli þeim að aðhafast og virðist sjálfum ekki detta neitt annað í hug en framleiðsla áls í atvinnuskyni. Á sama tíma eru Vestfirðingar að byggja upp fjarvinnslu fyrir fólk í tugatali. Þrautseigjan í fiskeldinu er að skila sér um þessar mundir og lofar góðu í framtíðinni. Lífræn ræktun á stórkostlega framtíð fyrir sér. Rannsóknir á einstæðri náttúru landsins gætu dregið að alþjóðlega vísindamenn ef rétt væri unnið að. Fjölmargir möguleikar bíða ónotaðir í ferðaþjónustu. Á þessum sviðum og mörgum öðrum eiga Austfirðingar ekki síðri möguleika en aðrir. Það á ekki að þurfa að stafa ofan í þá hvað hægt sé að gera annað en að rústa óviðjafnanlegu svæði norðan Vatnajökuls til að framleiða ál í verksmiðjubákni.
Ósnortin víðerni lands okkar eru það dýrmætasta sem við eigum. Ekki aðeins til að njóta og dá, heldur eru þau einnig grunnurinn undir þeirri ímynd sem við viljum að land okkar hafi. Þá ímynd þarf að styrkja og nýta miklu betur en nú er gert. Þar liggja þeir möguleikar sem engin önnur þjóð hefur til að byggja framtíð sína á. Því þarf að stöðva hernaðinn gegn landinu. Það verður að stöðva úrillan formann Framsóknarflokksins og félaga hans.