Kraftmikill landsfundur

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á Akureyri um síðustu helgi var fjölsóttur, kraftmikill og umfram allt skemmtilegur. 106 kjörnir fulltrúar áttu fullan rétt til þátttöku í fundinum, þar af mættu 104 og gerist vart betra. Auk þess sótti fjöldi annarra félaga og gesta setningarhátíðina og ýmsa aðra hluta fundarins.

Setningarhátíðin var fjölsótt og glæsileg, sviðið fagurlega skreytt og menningaratriði svo og ræða formanns mörkuðu verðugt upphaf þessa fyrsta reglulega landsfundar hreyfingarinnar. Sérlegur gestur fundarins, Færeyingurinn Högni Höydal, setti sannarlega svip á fundinn. Hann flutti fróðlega og skemmtilega ræðu sem kveikti fyrirspurnir og umræður og dró að sér mikla athygli fjölmiðla.

Tvær málstofur voru á dagskrá fundarins í hádeginu á laugardag, önnur um sveitarstjórnarmál og hin um verkalýðs- og kjaramál. Ýmsum þótti súrt að geta ekki sótt þær báðar, en að öðru leyti tókust þær mjög vel og er ákveðið að efna til frekara skipulegs starfs í báðum þessum málaflokkum á næstunni.

Sérstakur hópur fjallaði um flokksstarfið og kom með margar þarfar ábendingar. M.a. var samþykkt að efla starfsemi ungs fólks í hreyfingunni, efna til hugmyndafræðivinnu á sviði jafnréttismála og huga að útgáfu vefrits. Nokkrar breytingar voru gerðar á lögum flokksins og helst að tekist væri á um hvort ástæða væri til að minna á jafnan hlut kvenna og karla í flokksstarfinu. Það varð niðurstaðan.

Mikil þátttaka var í almennum umræðum sem voru á málefnalegum og vinsamlegum nótum. Stjórnmálaályktun fundarins var stutt og afdráttarlaus í anda þeirrar stefnuyfirlýsingar sem samþykkt var á stofnfundinum í febrúar fyrr á árinu, en með fylgdi greinargerð sem unnin var upp úr skilagreinum málefnahópa fyrir landsfundinn. Loks samþykkti fundurinn einróma tillögu uppstillingarnefndar að stjórn til næstu tveggja ára.

Akureyringar tóku vel á móti landsfundarfulltrúum og væsti ekki um mannskapinn þessa daga. Bæjarstjórn Akureyrar bauð til hanastéls í listasafni bæjarins og þótti það veglega að staðið ekki síst með tilliti til þess að þar eru Sjálfstæðismenn með tögl og hagldir. Nokkrir fundarmanna, þó of fáir, notfærðu sér frábæra aðstöðu í nýuppgerðri sundlaug bæjarins. Og ekki má gleyma hinum ýmsu kaffi- og öldurhúsum sem nutu góðs af þessari tímabundnu fjölgun í bænum.