Hún er merkileg þessi umræða um fjárframlög til heilbrigðiskerfisins og þá einkum stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík. Nú var þó óvenju skammt liðið á árið þegar upplýst var um fjárvöntun svo að skiptir hundruðum milljóna. Og að venju er mönnum stillt upp frammi fyrir hugmyndum um skerta þjónustu sem að þessu sinni virðist fyrst og fremst eiga að bitna á geðveiku fólki.
Þessi umræða hefur verið með svipuðum hætti í u.þ.b. 9 ár og á rætur sínar að rekja til þess þegar kratar tóku við heilbrigðisráðuneytinu og hófu niðurskurðarhnífinn á loft. Næstu ár var sífellt meira þrengt að starfsemi sjúkrahúsanna og hlaut að koma að því að kerfið þyldi ekki meiri þrengingar. Það vilja ráðherrar hins vegar ekki sætta sig við heldur halda áfram að skera við nögl og láta stjórnendum sjúkrastofnana eftir að finna leiðir til að troða starfseminni inn í alltof þrönga ramma.
Á hverju einasta ári gýs reglubundið upp umræðan um fjárhagsþrengingar sjúkrahúsanna og viðbrögð við þeim, tímabundnar lokanir sjúkradeilda, lenging biðlista eftir aðgerðum og þar fram eftir götunum. Á hverju einasta ári eru talin upp sömu úrræðin, á hverju einasta ári eru settar nefndir á nefndir ofan til að leita leiða út úr vandanum. Allt síðasta kjörtímabil var heilbrigðisþjónustan, fyrst og fremst staða stóru sjúkrahúsanna, meginágreiningsefnið milli stjórnar og stjórnarandstöðu í fjárlaganefnd. Við fengum heilu doðrantana frá öllum helstu sjúkrastofnunum landsins auk gagnaflóðs frá ráðuneyti og öllum nefndunum sem voru að leita leiða til lausnar á vandanum. Á hverju einasta ári röktum við í minnihlutanum staðreyndir mála í umræðum um fjárlög og fjáraukalög og færðum rök fyrir tillögum um aukin framlög sem meirihlutinn hafnaði en varð síðan alltaf að kyngja þeim staðreyndum í árslok að framlögin yrði að auka. Eitt einkenni umræðunnar er svo það að ráðherrar og stjórnarliðar tíunda hækkun eins árs frá óraunhæfum fjárlögum fyrra árs en sleppa því að minnast á auknu framlögin sem þeir urðu að fallast á í árslok.
Heilbrigðisþjónustan kostar þjóðina vissulega mikið en það er auðvitað fráleitt að kostnaðinn sé einfaldlega hægt að uppfæra frá ári til árs miðað við almennt verðlag. Þar verður að taka tillit til margra þátta. Ástæður fyrir auknum kostnaði eru margar og þar vegur hækkun launakostnaður ekki þyngst eins og gjarna er fyrst upp talið. Fjölgun í elstu aldurshópunum er ein ástæðan, en langsamlega veigamest er áreiðanlega síaukin tækni og þekking í glímu við sjúkdóma og slys. Tæknin kostar mikið, einkum í byrjun, en fyrir því má líka færa rök að það kosti ennþá meira að vanrækja hana. Og víst er að fæstir vilja vera settir í þá aðstöðu að þurfa að ákveða að nýta ekki vegna fjárskorts þá þekkingu og tækni sem fyrir hendi er.
Þannig hafa ýmsir þættir orðið til þess að auka kostnað í heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir aðhald og sparnað sem svo sannarlega hefur verið beitt í ríkum mæli. Rannsóknir sýna að hver starfsmaður á stóru sjúkrahúsunum sinnir umtalsvert fleiri sjúklingum nú en fyrir nokkrum árum, legudögum á hvern sjúkling hefur fækkað. Það héti líklega “aukin framleiðni” hjá venjulegu fyritæki. Því er svo heldur ekki að leyna að þessi þróun hefur komið fram í auknum fjarvistum og meiri tíðni álagssjúkdóma hjá starfsfólki á hjúkrunarsviði og merkilegt hvað það virðist lítið áhyggjuefni hjá ráðuneytisfólki. Enn ein afleiðingin er svo aukið álag á heimilin sem þurfa að taka við og sinna sjúklingum sem oft eru sendir alltof fljótt heim.
Heilbrigðisráðherra minnir á glaðværan stjórnanda barnatíma þegar hún ræðir í fjölmiðlum um ástandið og verkefni sín sem öll eru svo dæmalaust ánægjuleg og horfa til stórkostlegra framfara og eru á svo makalaust góðri leið og íslensk heilbrigðisþjónusta alltaf betri og betri og stjórnendur sjúkrahúsanna eiga auðvitað sjálfir að finna leiðir til sparnaðar ef framlögin duga ekki og það væri auðvitað hið besta mál ef þeir sæju sér fært að byggja eins og eitt stykki sjúkrahótel sem lengi hefur verið talað um, en það er bara þeirra mál o.s.frv. o.s.frv.
Það er óþolandi að hlusta á svona bull þegar staðreyndirnar tala öðru máli. Þjóðin vill hafa góða heilbrigðisþjónustu. Hún sættir sig ekki við það að fólki sé gert að bíða kvalið mánuðum saman eftir bæklunaraðgerð, að gamalt fólk sé vanrækt að loknum löngum vinnudegi, að lífi fólks sé stefnt í voða vegna lélegrar þjónustu við geðsjúklinga, að vandanum sé vísað á heimilin þegar sjúkrahúsin bregðast. Kannanir sýna að fólk er reiðubúið að greiða hærri skatta ef á þarf að halda til að tryggja bætta heilbrigðisþjónustu. Sú leið er fær ef vilji er fyrir hendi.