Mörg hundruð manns lentu í heldur ónotalegri lífsreynslu um sl. helgi, þegar óveður, ófærð og óforsjálni lokuðu þau inni í Þrengslum. Reyndist það nöturlegur millikafli í að því er virtist sakleysislegum en óvenju spennandi sunnudagsbíltúr austur fyrir fjall, þar sem hin síunga Hekla var í aðalhlutverki. Endir sögunnar varð hins vegar eins og best verður á kosið, allir komust loks á leiðarenda og enginn beið heilsutjón.
En eins og af öllum góðum sögum verður sitthvað af þessari sögu lært. Ef ekki hefði til komið dugnaður og ósérhlífni björgunarsveita og frábær gestrisni fólksins austan fjalls þá hefði getað farið verr. Aðrir stóðu sig miklu miður. Þáttur Vegagerðarinnar er spurningamerki og þáttur Almannavarna er enn meira álitamál. Þeim spurningum verður að svara.
Fyrst og fremst hefði þurft miklu markvissari viðbrögð og varnaraðgerðir til að koma í veg fyrir öngþveitið í Þrengslum. Algjört óráð var að hleypa þessum bílafjölda inn á Þrengslaveginn, þegar ljóst mátti vera að hverju stefndi, og a.m.k. hefði átt að vísa frá illa búnum fólksbílum. Í öðru lagi er verulega ámælisvert hvað Ríkisútvarpið var illa nýtt til að koma á framfæri skilaboðum til fólksins, sem sat fast í bílum sínum. Flestir hafa einhvern tíma lent í umferðarteppu og þekkja óþolinmæðina og gremjuna, sem óðara hleðst upp við minnstu tafir, og verst er ævinlega að vita ekki hvað veldur né hversu lengi töfin gæti varað. Auðvitað átti að nýta Ríkisútvarpið miklu meira en gert var til að veita upplýsingar og ráðleggingar og fréttir af framvindu mála.
Bílasímarnir og gemsarnir björguðu vissulega miklu, Þeir veittu bæði þeim sem fastir sátu og þeim sem heima sátu meiri ró og æðruleysi en ella. Því má svo ekki gleyma að líklega bjargaði almenn hreysti landans mestu, hreysti og hlýr fatnaður. Ekki er vafamál að öngþveiti sem þetta hefði kostað einhverja lífið, ef það hefði átt sér stað einhvers staðar í útlöndum, þar sem fólk er alla jafna illa tilbúið að takast á við hamfarir af þessu tagi.
Það er auðvelt að vera vitur eftir á er oft sagt og er hverju orði sannara, en það er líka bráðnauðsynlegt að nýta þá visku sem fæðist eftir slíka reynslu sem fékkst um sl. helgi. Hana ber að nýta til að móta áætlun um viðbrögð í tilvikum sem þessum. En við getum hrósað happi að ekki fór verr í þetta sinn, og margir hafa sennilega bara lúmskt gaman af þessari reynslu svona eftir á og líta á hana fyrst og fremst sem spennandi ævintýri. Lífsreynsla er hins vegar lítils virði, nema hún leiði af sér vit og þroska.