Ávarp Umhverfisvina til íslenskra stjórnvalda

Í DAG, mánudaginn 14. febrúar árið 2000, afhenda UMHVERFISVINIR ríkisstjórn Íslands undirskriftir ríflega 45 þúsund Íslendinga til stuðnings kröfunni um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar.

UMHVERFISVINIR eru óformleg samtök fólks um allt land. Þau voru mynduð í nóvember síðastliðnum.og hafa síðan þá unnið að söfnun undirskrifta til stuðnings áðurnefndri kröfu um lögformlegt umhverfismat.

KRAFAN um lögformlegt umhverfismat er fullgild og sjálfsögð og studd þeim rökum, að fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun verði að sæta slíku mati, eins og aðrar framkvæmdir, sem tengjast fyrirhuguðum rekstri álverksmiðju á Reyðarfirði. Þessi meginkrafa UMHVERFISVINA nýtur vaxandi stuðnings á alþjóðavettvangi, enda er hún í fullu samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, sem Íslendingar hafa undirgengist.

NÁTTÚRA ÍSLANDS er auðlind, sem umgangast verður með varfærni og virðingu. Stórfelld röskun af völdum virkjunarframkvæmda verður ekki aftur tekin. Það er algjör lágmarkskrafa að slíkar framkvæmdir séu undirbúnar á besta hugsanlegan máta.

UMHVERFISVINIR afhenda nú þessar undirskriftir til marks um vilja mikils hluta þjóðarinnar um að lýðræðisleg og fagleg vinnubrögð verði höfð í heiðri við ákvörðun um framkvæmdir, sem hafa stórfelld áhrif á umhverfið.

UMHVERFISVINIR skora á stjórnvöld að virða þennan vilja og verða við honum og treysta því, að viðtakendur undirskriftanna sjái til þess, að þær verði varðveittar á öruggan hátt til vitnis um lýðræðislega aðgerð almennings í mikilvægu máli, sem varðar komandi kynslóðir á Íslandi.

F.h. UMHVERFISVINA

Ólafur F. Magnússon, Hákon Aðalsteinsson, Kristín Halldórsdóttir, Karen Erla Erlingsdóttir, Sveinn Aðalsteinsson.