Enn einu sinni eru fjármál stjórnmálaflokkanna á dagskrá hér á landi sem og um allan hinn vestræna heim. Fréttir af leynimakki forystumanna í þýskum stjórnmálum með sjálfan Kohl í broddi fylkingar vekja með mönnum hugrenningar um að víðar kunni að vera pottur brotinn.
Víðast hvar í svokölluðum siðmenntuðum löndum gilda ákveðnar reglur um þessi efni. Sums staðar eru lög um starfsemi stjórnmálaflokka, annars staðar a.m.k. lög um fjárreiður stjórnmálaflokka og ekki að ófyrirsynju. Starfsemi stjórnmálaflokka er einn af hornsteinum lýðræðisins og það skiptir máli að reyna að tryggja möguleika þeirra til að vera óháðir hvers konar þrýstingi hagsmunahópa. Stærsta hættan er á sviði fjármálanna. Peningar eru afl þeirra hluta sem gera skal er ekki bara margnota klissja, heldur sannleikur í mörgum tilvikum. Þess vegna hafa menn séð ástæðu til að setja ákveðnar reglur til að koma í veg fyrir að fjársterk fyrirtæki geti keypt sér fyrirgreiðslu og velvild. Þessar reglur eru ekki alltaf sú hindrun sem þeim er ætlað, en þær koma a.m.k. að góðum notum þegar upp kemst um strákinn Tuma (um þessar mundir les: Helmut Kohl) og grafast þarf fyrir um málið.
Hér á landi er hins vegar ekki jafn hægt um vik og víða annars staðar af þeirri einföldu ástæðu að hér gilda engin lög um starfsemi stjórnmálaflokka og ekki einu sinni fjárreiður þeirra. Stjórnmálaflokkar eru bókhaldsskyldir og þar með er upptalið. Af og til hafa tillögur og frumvörp um þessi efni verið til umræðu á Alþingi, en aldrei fengist afgreidd. Nokkrir flokkanna hafa brugðist við kröfum nútímans og opinberað reikninga sína. Kvennalistinn mun fyrst stjórnmálahreyfinga hafa opnað sitt bókhald upp á gátt og lagt fram reikninga yfirfarna af löggiltum endurskoðanda. Vinstri grænir hafa sitt bókhald opið og svo mun vera um fleiri.
A.m.k. einn stjórnmálaflokkur hefur aldrei ljáð máls á því að opna bókhald sitt né fallist á þörf fyrir lög og reglur um fjárreiður stjórnmálaflokka. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem í krafti valds og stærðar hefur árum saman komið í veg fyrir löggjöf um þessi efni. Hans er ábyrgðin og hans er skömmin.